Félagskapítalismi í stríði við einkakapítalista

Við hrunið eignuðust lífeyrissjóðir stóran hlut í atvinnulífinu. Hrunið afhjúpaði suma einkakapítalistana sem glæpamenn en gerði aðra blanka - a.m.k. um hríð.

Það má kalla eignarhlut lífeyrissjóða í fyrirtækjum félagskapíalisma. Lífeyrissjóðir ávaxta  lífeyri félagsmanna, sem eru launþegar. Innbyggð í félagskapítalisma er langtímahugsun. Iðngjald greitt í dag er til útborgunar eftir áratugi. Það þýðir ekki að félagskapítalismi geri ekki sín mistök. Kaupin í Stoke City á sinum tíma og fjármögnun á útrás Jóns Ásgeirs Baugsstjóra eru nærtæk dæmi.

Orðaskipti þeirra Þorkels og Róberts gefa til kynna snöggan blett á samskiptum félagskapítalisma og einkakapítalista. Annar aðilinn, félagskapítalisminn, er stærri og voldugri og í raun hálfopinber fjárfestingasjóður á meðan hinn er sértækari, sveigjanlegri og umfram allt í höndum einstaklinga sem þurfa ekki að standa neinum skil fjárfestingastefnu sinnar - nema kannski lánadrottnum.

Félagskapítalisminn er fremur ungur hérlendis og þarf að þroska með sér siðferði sem stendur ofar viðmiðum einkakapítalismans. Eins og flesta rekur í minni var siðferði einkakapítalistann fyrir hrun í ætt við mafíuna. (Hér er hvorki ýjað að né gefið til kynna að Róbert Guðfinnsson sé haldinn slíku siðferði, svo það sé sagt skýrt og ótvírætt).

Til lengri tíma litið getur félagskapítalisminn, gangi sæmilega að þroska hann, orðið hryggstykki í efnhagshagskerfinu. Langtímafjárfestingar sjóða launþega ættu, a.m.k. í prinsippinu, að halda aftur af skammtímahugsun sem loðir enn við þjóðin er komst til álna með vertíðarsjómennsku.

Einkakapítalistar geta þrifist við hlið félagskapítalisma. Þeir geta leyft sér meiri áhættusækni og eru skjótari að taka ákvarðanir. Að því sögðu er kapítalisminn ekki uppfærsla á Dýrunum í skóginum þar allir eru vinir. Þar á betur við latnesk-ítalska orðtakið homo homini lupus - maður er manni úlfur.


mbl.is „Auðlegð og árangur gert þig blindan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekjurökin fyrir vaxtalækkun

Vextir eru ekki lífsgæði, búa ekki til nein verðmæti nema á pappírunum. Vextir eru verðlagning á lánsfé. Vextir eru ekki til að bæta eða skerða lífskjör heldur tryggja stöðugleika.

Einkenni stöðuleika er full atvinna, hagvöxtur og lítil verðbólga. Við búum við allt þrennt í dag.

Við næstu niðursveiflu, sem kemur eins og nótt fylgir degi, verðum við að hafa svigrún til að lækka vexti og hvetja til fjárfestinga. Ef við lækkum vexti núna skerðist svigrúmið.

Frekjurökin fyrir vaxtalækkun eru eftirfarandi: við viljum lægri vexti til að hafa meira á milli handanna, NÚNA. Ef við hlustum á frekjurökin verða lágvaxtapeningar settir í eignabólur fasteigna og verðbréfa. Eignabólur springa með leiðinlegum afleiðingum. 


RÚV: skuggi Davíðs yfir sigri Macron

Einn af lífstíðarábúendum á RÚV, Óðinn Jónsson, er eins og Vöggur, litlu feginn, þegar hann kætist yfir sigri Macron í Frakklandi. Ekkert er vitað hvað Macron stendur fyrir, annað en að vera And-Le Pen.

Á RÚV er það ekki sigur Macron sem veldur straumhvörfum í pólitík, alþjóðlegri sem innlendri, heldur Davíð Oddsson.

Eyjan endurbirtir þessi orð RÚV-arans með lífstíðarábúðina: 

Ritstjóri Morgunblaðsins á ekki samleið með hófsömum evrópskum lýðræðissinnum. Hatrið á Evrópusambandinu er þvílíkt að hann ber blak af Marine Le Pen, líst bara vel á hana.

Til að hnykkja á fordæmingunni segir Óðinn að Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins gæti eins birst í ,,rússnesku Putin-blaði eða í málgögnum öfgasamtaka."

Nú er almennt viðurkennt að Brexit, sigur Trump í Bandaríkjunum og sókn Le Pen í Frakklandi eigi það sameiginlegt að vera andóf gegn valdaelítum sem sniðganga almannahagsmuni. 

Samkvæmt RÚV-aranum er Davíð uppreisnarmaður gegn valdastéttinni. En RÚV er varðhundur hennar.


mbl.is Trump og Pútín senda Macron kveðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

And-Le Pen sigrar: valdastéttin sameinast

Bandalag gegn Le Pen frambjóðanda Þjóðarfylkingarinnar sigraði í kosningunum í Frakklandi og gerði Emmanuel Macron að forseta. And-Le Pen forsetinn stöðvaði í Frakklandi þróun sem hófst með Brexit, hélt áfram með kjöri Trump í Bandaríkjunum og var mótmæli gegn valdastéttinni í vestrænum ríkjum.

Eftir sigur Macron er verkefnið að finna út hvað sameinar valdastéttina.

Vestræna valdastéttin stóð saman að alþjóðavæðingu sem hagspekingar eins og Joseph Stiglitz segja að stuðli að ójöfnuði. Eins og Trump í Bandaríkjunum lofaði Le Pen að vinda ofan af alþjóðavæðingunni og setja Frakkland í fyrsta sæti.

Macron varð ekki forseti með því að lofa aukinni alþjóðavæðingu. Hann kynnir sig sem föðurlandsvin gegn þjóðernishyggju Le Pen.

Valdastéttin mun ekki sameinast um alþjóðavæðingu. Helsta tákn hennar, Evrópusambandið, stóð frammi fyrir dauðadómi ynni Le Pen. Með kjöri Macron var snaran tekin af hálsi ESB en sambandið stendur enn á aftökupallinum.

Handan Ermasunds, í Bretlandi, heldur Brexit áfram. Talsmaður valdastéttarinnar, Will Hutton, segist ekki hafa séð það svartara á sinni ævi. Þar talar gamall maður hokinn reynslu.


mbl.is Macron alvarlegur í sigurræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband