1. maí: gemmér meira, ég er aumingi

Hátíð aumingjanna var í dag, ef einhver skyld hafa misst af sýningunni. Vælandi fulltrúar aumingjanna, flestir með sirka milljón á mánuði eða þar yfir, stigu á stokk og máluðu skrattann á vegginn.

Allir fæðast grátandi en sumir halda áfram út lífið að harma hlutskipti sitt. Flest venjulegt fólk tekur lífinu tveim höndum og gerir úr því það sem efni og aðstæður leyfa. Markmið Íslendingsins fram á síðustu öld var að fjármagna eigin jarðaför.

Borgunarmaður eigin útfarar staðfestir manndóm. Hann fæðist snauður og allslaus en tékkar út í kistu sem hann borgar sjálfur. Það er manndómur. Mottóið í dag er að lifa upp á náð og miskunn annarra. Leggja sem minnst af mörkum og fá sem mest.

Leiðin til að ná markmiðinu er að lýsa sig aumingja. 1. maí er hátíðisdagurinn. Dagurinn er auðvitað notaður til að stofna sósíalistaflokk. Nema hvað.


ESB á öngvan vin

Líklegur næsti forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er yfirlýstur stuðningsmaður Evrópusambandsins. En jafnvel hann varar við úrsögn Frakka, líkt og Breta, ef ESB breytist ekki.

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, boðaði Kjarna-Evrópu í vetur. Aukið samstarf á sviði hermála, efnahags- og stjórnmála fárra kjaraþjóða, t.d stofnríkjanna sex: Frakklands, Þýskalands, Ítalínu og Benelux-landanna.

Macron talar ekki fyrir Kjarna-Evrópu heldur minni afskiptum ESB af fullveldi aðildarríkjanna. Juncker fær engan bandamann þar fyrir draumsýn sína.

 


mbl.is Frexit óumflýjanlegur án breytinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú, afneitun og vísindi

Vísindi og trúarbrögð eiga það sameiginlegt að boða lífshætti. Við reykjum helst ekki enda vísindalega sanna að reykingar valda skaða. Við fyrirgefum því okkur er kennt að haturshugur sé óhollur.

Lengi vel var trúin ráðandi í lífsvenjum. Miðalda-Íslendingar snæddu ekki hrossakjöt og múslímar borða ekki enn svín. Á seinni tímum eru vísindin mótandi afl, líkt og trúin var fyrrum.

Og alveg eins og í trúmálum er þeir sem efast um ,,viðurkenndar" kennisetningar vísinda kallaðir afneitarar. Vísir segir frá umræðu um afneitara loftslagsvísinda þar sem pólitík, trú og vísindi eru í hrærigraut líkt og trúardeilur í lok miðalda.

Loftslagsvísindi eru fremur ung vísindagrein. Viðfangsefni greinarinnar er náskylt trúarbrögðum, sjálft lífið á jörðinni.

Þegar stórsannleikur er í húfi er gott að hyggja að undirstöðunni. Jay Richards tekur saman 14 atriði sem gilda um vísindaumræðu almennt og loftslagsvísindi sérstaklega. Fyrsta atriðið grípur á kjarna málsins. Þegar óskyldum vísindalegum niðurstöðum er blandað saman verður til óvísindaleg niðurstaða.

Í stuttu máli: heimurinn er að hlýna, um það er almenn samstaða. En það er ekki samstaða um ástæður hlýnunar. Á jörðinni skiptust á hlýskeið og kuldaskeið löngu áður en maðurinn tók að nota jarðefnaeldsneyti. En hreintrúarmenn í loftslagsumræðunni telja brennslu á olíu og bensíni valda loftslagsbreytingum.

Washington Post segir frá baráttu afneitara og hreintrúarmanna um hylli páfa í umræðunni um loftslagsmál. Baráttan ætti að minna okkur á að heilagur sannleikur er ekki til, hvorki í trúmálum né vísindum. Sannleikur kynntur sem heilagur er fjarska brothættur. Marteinn Lúther sýndi fram á það fyrir hálfu árþúsundi.


Bloggfærslur 1. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband