Gervigreind og tvímæli þekkingar

Gervigreind getur, a.m.k. fræðilega, leitað í öllum heimsins gagnasöfnum, unnið með þann efnivið og skilað svörum við bæði áleitnum spurningum og léttvægum.

Drottning raunvísinda í meira en hundrað ár er eðlisfræði. En í fjörtíu ár eru engar framfarir í greininni, skrifar starfandi eðlisfræðingur, Peter Woit, og vitnar í annan, öllu þekktari, Sabine Hossenfelder, sem er sama sinnis.

Leikmaður gæti spurt: hvers vegna tekur ekki einhver eðlisfræðingur sig til og beitir gervigreind á framþróunarkreppu fræðigreinarinnar? Ef öll heimsins þekking er til reiðu, má ekki byggja á henni til að taka næsta skref?

Woit gefur til kynna að málið sé ekki svo einfalt. Það skortir hugmyndir, menn eru fastir í viðjum hefðar, hver étur upp eftir öðrum.

Ha? Er hugmynd ekki að láta sér detta eitthvað í hug sem mætti prófa, t.d. með gervigreind? En nei, það er ekki hægt. Nýir Einsteinar spryttu hraðar upp en auga á festi ef gutl með gervigreind dygði.

Einstein, þessi eini sanni, er höfundur tveggja afstæðiskenninga, þeirri sértæku og almennu. Í dag kallast þær þekking. Upphaflega aðeins innsæi, eða hugmynd. Einstein hugsaði efnisveruleikann upp á nýtt. Hugsunin varð ekki að þekkingu fyrr en eftir nokkurt strit. Einstein fékk hjálp við nauðsynlega útreikninga, sem síðan var hægt að prófa. Þá, en ekki fyrr, var hægt að tala um þekkingu.

Dæmið af Einstein segir að hugsun komi fyrst, síðan skilningur og loks þekking. Áður en Einstein lét hugann reika var til önnur þekking um eðli heimsins, kennd er við Newton. Í ævisögu hans og aflfræðinnar er eftirfarandi játning (s. 142 og 171):

Þyngdaraflið er okkur kunnugt vegna áhrifa þess. Við skiljum þyngdaraflið með stærðfræðiformúlu. Þar fyrir utan skiljum við ekki neitt. [...] Tilgangslaust er að vísa í rök. Lögmál náttúrunnar eru ekki rökleg sannindi.  

Tvímæli þekkingar er fyrirvarinn, að við vitum ekki betur, annars vegar og hins vegar að þekking er sköpun, byrjar með innsæi. Newton og Einstein þekktu báðir fyrirvarann, að enn væri margt ósagt um eðli alheimsins. Gervigreind þekkir ekki fyrirvarann og hefur ekkert innsæi. Engin afurð gervigreindar yfirstígur mannlega þekkingu.

Þar fyrir utan er gervigreind til margs nýtileg. Ábyggilega er skemmtilegra og lærdómsríkara að hitta fyrir á spjallrás vélgreind fremur en mann. Til að spjalla.

Gleðilega páska.

 

 


Þorsteinn Már talar á 12 ára afmælinu, RÚV þegir

Tólf ára afmæli Seðlabankamálsins var 27. mars. Þann dag árið 2012 skipulögðu RÚV og Seðlabankinn húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og Reykjavík. Til grundvallar lágu fölsk gögn Helga Seljan á RÚV og rangir útreikningar seðlabankans á karfasölu útgerðarinnar. Verðmæti viðskiptanna, sem reyndust fyllilega lögleg, voru upp á 60 þús. evrur eða níu milljónir króna. Ekki beinlínis stórfé.

Myndatökumenn RÚV voru viðstaddir húsleitina sem fór fram að morgni. Búið var að skipuleggja Kastljósþátt um kvöldið. Á meðan húsleit stóð yfir voru sendar út fréttir og fréttatilkynningar á íslensku og ensku - beinlínis til að hámarka skaða norðlensku útgerðarinnar.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja settist í hljóðstofu Þjóðmála í tilefni afmælisins, ræddi sjávarútveg vítt og breitt en fór í saumana á húsleitinni og eftirmálum hennar.

,,Það er margt ömurlegt við þetta mál," segir Þorsteinn Már. Húsleitin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ekki fyrr en eftir tæp tvö ár fengu Samherjamenn að vita hvaða glæpi þeir áttu að hafa framið. Eftir margra ára málarekstur var málið fellt niður. 

Ný bók Björns Jóns Bragasonar, Seðlabankinn gegn Samherja, rekur 12 ára sögu tveggja ríkisstofnana að klekkja á útgerðinni. Tifallandi skrifaði um bókina og vitnaði í greinargerð frá 2019, undirrituð af seðlabankastjóra, er sagði að húsleitin hjá Samherja hafi haft ,,töluverð fælingaráhrif."

Í viðtalinu vekur Þorsteinn Már athygli á að RÚV lagði ofurkapp á að sýna fram á sekt Samherja þótt rannsóknin væri vart hafin. Fréttaflutningur og viðtöl við stjórnmálamenn var samræmd frásögn um sekt Samherja. En ekkert var nokkru sinni sannað, það var ekkert afbrot. Aðeins flóðbylgja frétta um að útgerðin hefði brotið lög. 

Hvorki RÚV né seðlabankinn hafa játað misgjörðir þótt kýrskýrt sé að tilefni húsleitarinnar sé fölsuð skýrsla RÚV annars vegar og hins vegar rangir útreikningar seðlabankans.

Viðtali Þjóðmála við Þorstein Má lýkur áður en komið er að framhaldi RÚV að herja á Samherja eftir Seðlabankamálið. Namibíumálið frá 2019 og byrlunar- og símastuldsmálið frá 2021 eru skipulagðar aðgerðir RÚV að klekkja á útgerðinni.

Fyrst beitti RÚV fölsuðum gögnum fyrir vagn sinn, síðan fyllibyttu og loks andlega veikri konu sem byrlaði og stal. Jafnt og þétt grefur Efstaleiti sig dýpra í fen spillingar, siðleysis og glæpa. Enginn grípur í taumana. Sérlega spilltum blaðamönnum og sakborningum í lögreglurannsókn er laumað út bakdyramegin á Glæpaleiti.

Hvernig stendur á því, gæti fólk spurt, að ríkisfjölmiðill kemst upp með slíkt háttalag í áravís? Jú, með stuðningi frá baklandi sínu, þingflokkum vinstrimanna.

Þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar tala upp tilhæfulausar ásakanir sem RÚV hefur í frammi. Í ræðustól alþingis fær RÚV-fleiprið löggildingu. 

RÚV þegir um 12 ára afmæli húsleitarinnar. En þar sem íslensk blaðamennska er komin í ruslflokk, þökk sé RÚV, stendur yfir herferð Blaðamannafélags Íslands til að kaupa tiltrú almennings. Í herferðinni er ekki minnst einu orði á heiðarleika. RÚV-blaðamennska er járnbrautaslys sýnt hægt i beinni útsendingu. 


Risaeðlur, Darwin og trúarvísindin

Vitundarskipti Evrópumanna, einkum Breta, á 19. öld er viðfangsefnið í nýrri bók, Ómögulegar ófreskjur, eftir Michael Taylor. Í viðtali á Unherd gefur höfundur stutta útgáfu. Á 19. öld finnast bein og steingervingar sem kippa stoðum undan kenningu kirkjunnar um guð sem höfund heimsins. Fyrsta menningarstríðið var á milli kirkjunnar og vísindanna, segir Taylor.

Darwin gaf vísindunum nýja hugmyndafræði, þróunarkenninguna, rétt eftir miðja 19. öld, og þar með var leikurinn tapaður kirkjunni.

Náttúrleg guðfræði var fræðilega heitið á vísindum sem í fyrstu áttu að sameina kennisetningar Biblíunnar og leifar af risaeðlum, sem ekki er gerð grein fyrir í sköpunarsögunni. Frumkvöðlar nýju vísindanna komu margir úr klerkastétt. Kristin heimsmynd var forsenda nýju vísindanna.

Ef maður trúir á þróunarkenningu Darwins, sem ég geri, segir Taylor (23:50), þá hlaðast sönnunargögnin upp. Tja, já og nei. Það er ekki hægt með gögnum að rekja þróun mannsins aftur í tímann stig af stigi til frumapans sem er sameiginlegur forfaðir manna og apa. Elsti tvífætlingurinn er tímasettur fyrir fjórum milljónum ára. Maðurinn er um 200 þúsund ára gömul tegund. Tímaspönnin þar á milli er löng og lítt kunn. Kenningin segir og við trúum en gögnin vantar.

Fáeinir úr röðum vísindamanna voga sér að andæfa, t.d. David Berlinski, sem segir líffræði Darwin ekki standast vísindalega aðferðafræði. Engin forspá er í þróunarkenningunni og tilgátur ekki hægt að prófa. Berlinski og þeir fáu sem líkt tala fá lítinn hljómgrunn. Svona eins og náttúrulegu guðfræðingarnir á fyrri hluta 19. aldar. Ráðandi sjónarmið eru önnur.

Þróunarkenningin heldur enn, þótt rök og gögn veikist fremur en styrkist. Vísindin eru bætt upp með skorti á valkostum. Við sitjum uppi með trúarvísindin um upphaf manns og heims. Á löngum föstudegi er vert að íhuga hvort þröskuldurinn til skilnings sé manninum óyfirstíganlegur. Kannski er það eilíft hlutskipti mannsins, að trúa en vita ekki. 


Guðni Th. í spor Ólafs Ragnars

Í forsetakosningum er haft á orði að þjóðin ,,finni" sinn frambjóðanda. Átt er við að einhver frambjóðenda fái í kosningabaráttunni meðbyr er skilar lyklavöldum að Bessastöðum. Ólafur Ragnar ,,fannst" árið 1996 sem valkostur við forræði Davíðs Oddssonar í landsmálum. Guðni Th. ,,fannst" árið 2016 þegar RÚV beitti honum óspart sem álitsgjafa við að fella ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.

Í raun leitar þjóðin ekki að frambjóðanda. En sá frambjóðandi sem nær að spila á strengi þjóðarsálarinnar sem heppilegasti frambjóðandinn fær forskot er endist til Bessastaða. Eftiráspekin býr til þjóðsöguna um að þjóðin ,,finni" sér forseta.

Forsetakosningar, þar sem sitjandi forseti leitar ekki eftir endurkjöri, eru óútreiknanlegri en þingkosningar. Persónur og pólitík eru í öðrum hlutföllum en í hversdagslegum stjórnmálum. Flokkspólitík leysist upp en óformlegur skilningur verður til milli stærri og smærri hópa.

Forval forsetaframbjóðenda stendur yfir fram að lokum apríl er framboðsfrestur rennur út. Á tíma forvals leita frambjóðendur að bandalagi sem nægir til sigurs. Þriðjungsfylgi gæti nægt. Ólafur Ragnar og Guðni Th. hlutu um 40 prósent í frumkjöri sem forsetar. Óheppilegt er að minnihluti þjóðarinnar standi að baki nýkjörnum forseta en lögin eru eins og þau eru.

Undirskriftarsöfnun sem hvetur Guðna Th. til að endurskoða fyrri ákvörðun um að gefa ekki kost á sér er til marks um óreiðu á bakið tjöldin. Guðni Th. gefur ádrátt um að mögulega kunni hann að endurskoða fyrri afstöðu. 

Sjálfur beið Guðni Th. með að tilkynna framboð vorið 2016 uns öruggt var að Ólafur Ragnar yrði ekki í framboði. Hann má vita af eigin reynslu að sé óvissa um hvort sitjandi forseti stefni á endurkjör lamar það löngun mögulegra frambjóðenda sem hafa einhverju að tapa.

Á forsetatíð sinni hefur Guðni Th. ekki stundað klækjastjórnmál. Honum sæmir ekki að byrja á þeim núna. Hrökkva eða stökkva fyrir helgi, Guðni Th.  


mbl.is Guðni hvattur áfram í undirskriftasöfnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma Stasi, löggæsla hugarfarsins

Stasi, austur-þýska leynilögreglan á tíma kommúnisma, rak umfangsmikið net uppljóstrara sem njósnuðu um nágranna og vini, jafnvel ættingja. Eftirlit með hugsun þegnanna auðveldaði stjórn á hegðun þeirra.

Hugmyndafræðin að baki Stasi, aðeins ein skoðun leyfileg, fær endurnýjun lífdaga í vestrinu. Nú undir þeim formerkjum að barist sé gegn hatursorðræðu.

Skosk löggjöf sem tekur gildi 1. apríl (við hæfi) gerir ráð fyrir að börn geti kært foreldra sína fyrir hatursorðræðu. Stöðluð eyðublöð auðvelda fólki að kæra meðborgara sína fyrir skoðanir sem stuða. Kærendum er tryggt nafnleysi. Dálkahöfundur Telegraph, Suzanne Moore, rekur helstu þættina í löggjöfinni sem veitir lögreglu víðtækar heimildir til að rannsaka og ákæra brot er teljast óæskileg tjáning.

Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, er höfundur löggjafarinnar. Flokkurinn sameinar þjóðernissinna og vinstrimenn og er ráðandi stjórnmálaafl í Skotlandi.

Leit að hatri gerir ekki annað en að auka það, skrifar Moore. Hatur er tilfinning, líkt og ást. Opinber stefnumótun er gefur sér að tilfinningar borgaranna séu á forræði ríkisvaldsins stuðlar að andrúmslofti tortryggni og svikabrigsla. Löggjöf sem gerir meint hatur refsivert er sniðmát fyrir skoðanakúgun. Jaðarhópar samfélagsins valdeflast. Þeir líta á allt sem ekki fellur að þeirra sérvisku til marks um hatur og andstyggð. Engin umræða, aðeins lögreglurannsókn, ákæra og dómur.

Vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum, segir orðskviðan. Löggjöf sem ætlað er að vernda minnihlutahópa fyrir hatursorðræðu gæti á yfirborðinu virst góðmennska. En það er öðru nær. Opinber löggæsla hugarfarsins er gjaldþrotayfirlýsing mannréttinda. Fái ríkisvaldið valdheimildir að rannsaka og ákæra borgara fyrir skoðanir er tómt mál að tala um hugsanafrelsi að ekki sé talað um réttinn til að tjá hug sinn.  

Minnsti minnihlutinn er einstaklingur með sjálfstæða skoðun. Samfélag án frjálsra skoðanaskipta er alræði, Stasiland. 


Blaðamenn og byrlari: 78 smáskilaboð

Enn er óþekkt innihald 78 sms-skilaboða í byrlunar- og símastuldsmálinu. Á milli blaðamanna RSK-miðla og byrlara Páls skipstjóra Steingrímssonar fóru fram regluleg samskipti í aðdraganda og eftirmála byrlunar og stuldar. Gögnin eru í fórum lögreglu en hafa ekki verið gerð að gögnum málsins. Aðeins gögnum málsins er dreift til sakborninga og brotaþola.

Sms-skilaboðin ná yfir tímabilið apríl til júlí 2021. Elstu samskipti blaðamanna og byrlara, sem eru komin í umferð, eru frá ágúst 2021. 

Lögreglurannsókn á byrlunar- og símastuldsmálinu hófst 14. maí 2021. Þann dag lagði Páll skipstjóri fram kæru. Skipstjóranum hafði verið byrlað 3. maí. Á meðan hann lá meðvitundarlaus milli heims og helju í þrjá dag var síma hans stolið og innihaldið afritað á Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks/RÚV keypti símann í apríl, áður en skipstjóranum var byrlað.

Stundin og Kjarninn birtu keimlíkar fréttir 21. maí sem báðar vísuðu í gögn úr síma skipstjórans. Samræmd birting sýndi skipulag í rás atburða. Án skipulags var ekki hægt að kaupa afritunarsíma fyrir byrlun og stuld.

Fyrir liggur játning á byrlun og stuldi. Þáverandi eiginkona skipstjórans, sem ekki gengur heil til skógar, gekkst við afbrotinu. Hún afhenti síma skipstjórans blaðamönnum. Eftir afritun var símanum skilað á sjúkrabeð Páls.

Í janúar og febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn stöðu sakbornings. Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þóra Arnórsdóttir á RÚV. Fimmti blaðamaðurinn, Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni, fékk síðar stöðu sakbornings. Í byrjun árs 2023 sameinuðust Stundin og Kjarninn undir merkjum Heimildarinnar.

Blaðamenn neituðu að mæta til yfirheyrslu veturinn 2022, mættu ekki fyrr en í ágúst og september sama ár. Um áramótin 2022-2023 var rannsókn langt komin. Megináhersla lögreglu hafði verið á meðferð stolinna gagna, ekki hvernig atvikaðist að afbrotin fóru fram. Auk skipstjórans er brotaþoli í málinu Arna McClure lögfræðingur.

Búist var við ákæru í málinu í janúar eða febrúar 2023. Danski blaðamaðurinn og almannatengillinn Lasse Skytt, síðar alræmdur falsfréttamaður, tók að sér að skrifa málsvörn sakborninga í fréttaformi og fékk birtingu í byrjun árs í norsku útgáfunni Aftenposten-Innsikt og danska fagritinu Journalisten. Málsvörnin endaði illa, eins og rakið var í bloggi gærdagsins.

En það var einmitt um áramótin 2022-2023 sem grunur lögreglu styrktist að komist hefði á samband milli blaðamanna og byrlara áður en látið var til skarar skríða gegn skipstjóranum. Upp komst um Samsung-símann sem Þóra keypti fyrir byrlun. Í framhaldi leitaði lögregla eftir afritum af tölvupóstum veiku konunnar og blaðamanna. Konan notaði gmail og hafði að undirlagi blaðamanna eytt öllum tölvupóstum. Lögreglan leitaði til Google á Írlandi sem hýsir gögnin.

Næsta yfirheyrsla verður yfir konunni sem játaði byrlunina enda hún ýmist sendandi eða viðtakandi sms-skilaboðanna 78. Hvort lögreglan eigi vantalað við sakborningana fimm áður en kemur að ákærum á eftir að koma á daginn. Sjötti blaðamaðurinn, Helgi Seljan, er tengdur málinu. Hann hefur enn hvorki réttarstöðu vitnis né sakbornings, svo vitað sé. Áður en ákært verður er líklegt að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri verði boðaður í skýrslutöku sem vitni.  

 


Sigríður Dögg laug upp á lögregluna

Það er ,,óskiljanlegt og óábyrgt að lögreglan boði í yfirheyrslu blaðamenn til að fá upplýsingar um heimildarmenn þeirra," er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttir formanni Blaðamannafélags Íslands í fagriti danskra blaðamanna, Journalisten.

Formaðurinn ber þarna lygi í bætifláka fyrir fimm blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn - nú Heimildin) sem eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Í framhaldi segir Sigríður Dögg:

Það er ekki hægt að túlka þetta á annan veg en sem óeðlileg afskipti lögreglu af blaðamönnum. Þar fyrir utan torvelda afskipti lögreglu að blaðmenn afhjúpi önnur mál og heftir þar með störf þeirra.

Tilvitnanir eru í prentútgáfu Journalisten frá 29. janúar 2023. Höfundur greinarinnar er danskur blaðamaður búsettur á Íslandi, Lasse Skytt. Þegar í mars í fyrra vakti tilfallandi athygli á að þessi afurð Skytt, Sigríðar Daggar og sakborninganna væri stútfull af rangfærslum. Tilfallandi spurði fyrir ári: Biðst Blaðamannafélagið afsökunar? 

Ekki heyrðist múkk frá Sigríði Dögg og sakborningum. Það átti að blekkja útlendinga til að trúa þeirri frásögn Sigríðar Daggar og sakborninga að Ísland væri ekki réttarríki heldur spillingarsamfélag sem sigaði lögreglu á saklausa blaðamenn.

En svo gerist það í febrúar í ár að Lasse Skytt er afhjúpaður sem falsfréttamaður í dönskum fjölmiðlum.

Þá ákveða samstarfsmenn Lasse Skytt hér á landi, Sigríður Dögg og Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar, að afturkalla mesu lygarnar sem þau höfðu í frammi þegar Skytt bjó til málsvörn í þeirra umboði. Skötuhjúin átta sig á að frásögnin um spillta Ísland og fróma blaðamenn gerir sig ekki. Fólk, læst á íslensku, er farið að átta sig á að málsvörn blaðamanna heldur ekki vatni. 

Blaðamenn RSK-miðla eru sakborningar í lögreglurannsókn sem byggir á gögnum er sýna náið samráð blaðamanna við andlega veika konu sem byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og færði blaðamönnum. Lögreglan veit nákvæmlega hver heimildarmaður blaðamanna er. Aftur er þeim ósannindum haldið að útlendingum að blaðamenn séu krafðir með harkalegum hætti að gefa upp heimildarmann sinn. Það er bláköld lygi. 

Tilfallandi gerði grein fyrir fyrstu afturköllun á ósannindum sem Þórður Snær stóð fyrir. Þórður Snær sagðist í upphaflegri frétt Skytt hafa verið sóttur til Reykjavíkur af stormsveit eyfirskra lögreglumanna og fluttur norður yfir heiðar nauðugur viljugur. Lygavaðall ritstjórans átti að afla sakborningum RSK-miðla samúðar í útlöndum. Í reynd var Þórður Snær kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu með símtali í febrúar 2022. Það tók hann hálft ár að mæta.

Leiðrétting Þórðar Snæs birtist í netútgáfu Journalisten 24. febrúar. Leiðréttingarferlinu var ekki lokið, fjarri því. Nú var komið að Sigríði Dögg að hlaupast undan fyrri orðum. Tvær leiðréttingar í netútgáfu Journalisten eru skráðar 1. og 4. mars síðastliðinn. Þar afturkallar formaður Blaðamannafélags Íslands þrenn ummæli. Tvenn eru tilfærð hér að ofan. Þriðju ummælin sem Sigríður Dögg vill ekki að standi lengur eru eftirfarandi í prentútgáfu Journalisten frá janúar í fyrra:

Það er lenska ráðamanna að kenna fjölmiðlum um er þeir eru knúnir til afsagnar, ekki eigin misgjörðum sem fjölmiðlar afhjúpuðu.

Útlendingur sem les þessi orð Sigríðar Daggar ályktar að ráðamenn á Íslandi verði reglulega að segja af sér eftir að fjölmiðlar fletta ofan af þeim. Ósannindin ríma við kjarnann í málsvörn sakborninganna fimm í byrlunar- og símastuldsmálinu. Allt Ísland er spillt en blaðamenn eru ofsóttir riddarar sannleikans.

Í leiðréttingu ritstjóra Journalisten, sem skráð er 1. og 4. mars í ár, kemur fram að Sigríður Dögg var í sambandi við útgáfuna. Sigríður Dögg biður um afturköllun á þrennum ummælum sínum, þeim sem rakin eru að ofan, og segist ,,ekki vita hvaðan þau koma." Halló, Hafnarfjörður, þessi ummæli eru höfð eftir formanni Blaðamannafélagsins og fengu að standa óhögguð í heilt ár. 

Blaðamannafélag Íslands birti úrdrátt á frétt Skytt í Journalisten í fyrra. Mesta lygaþvæla Sigríðar Daggar og Þórðar Snæs var hreinsuð út í endursögninni en þó ekki leiðrétt í dönsku útgáfunni. Ósannindin voru ekki dregin tilbaka enda ætluð á erlendan markað. Það átti að ljúga um Ísland í útlöndum, gera sakborninga að fórnarlömbum. Endursögnin á vef Blaðamannafélagsins stendur enn án minnstu tilraunar til að útskýra afturköllun Þórðar Snæs og Sigríðar Daggar á fyrri ummælum. Höfundur íslensku útgáfunnar af frétt Skytt er Auðunn Arnórsson, bróðir Þóru sakbornings. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt að spillingu íslenskra blaðamanna.

Málið í hnotskurn: Sigríður Dögg og Þórður Snær létu standa í heilt ár ósannindi um Ísland í danskri útgáfu, Journalisten, enda höfðu þau sjálf í frammi lygaþvæluna og matreiddu ofan í danskan blaðamann. Eftir að höfundur greinarinnar í Journalisten, Lasse Skytt, var afhjúpaður sem falsfréttamaður í febrúar í ár leiðréttu Sigríður Dögg og Þórður Snær eigin ósannindi undir þeim formerkjum að Skytt væri ábyrgur. En Sigríður Dögg og Þórður Snær fengu í hendur dönsku útgáfuna í janúar í fyrra. Þau létu lygina um Ísland standa í eitt ár. Tilgangur lyginnar var að útmála íslenskt samfélag sem gjörspillt. Hér tíðkist, sögðu Sigríður Dögg og Þórður Snær, að yfirvöld ofsæki blaðamenn sem megi ekki vamm sitt vita. Þegar búið var að selja lygaþvæluna til útlendinga þýddu skötuhjúin óhróðurinn um Ísland og kynntu almenningi sem erlendan sannleika um íslenskt samfélag. 

Sigríður Dögg telur það hlutverk sitt, sem formaður Blaðamannafélagsins, að baktala land og þjóð til að rétta hlut fimm blaðamanna sem grunaðir eru um alvarleg afbrot. Ætlar blaðamannastéttin á Íslandi að fylgja formanninum fram af bjargbrúninni?


Hliðarveruleiki RÚV, tvö dæmi

Fjölmiðlar geta búið til hliðarveruleika, talið fólki trú um það sem ekki er. Lúmskar fréttir og sífelld endurtekning er efniviðurinn í hliðarveruleikann. 

Fyrir tveim dögum bjó RÚV til frétt, drög að þeim hliðarveruleika að sigur Íslands á Ísrael í fótbolta sé kvenfjandsamlegt athæfi sem þjóðin ætti að skammast sín fyrir eiga aðild að.

Fréttaspuni RÚV fléttar saman tveim algjörlega óskyldum hlutum. Stríði Ísraela gegn hryðjuverkasamtökum Hamas í Gasa annars vegar og hins vegar niðurfelldri rannsókn á nauðgunarkæru á hendur íslenskum landsliðsmanni í knattspyrnu. Í þessum tveim málum, segir RÚV, sé ,,femínísk vídd sem við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur." Vídd er lykilorð. Við eigum ekki að skilja samhengi hlutanna eins og það blasir við heldur fara í krákustíg inn í vídd hliðarveruleika.

Lævísi RÚV felst í tvennu. Í fyrsta lagi að bera saman appelsínur og epli, réttarvörslukerfið á Íslandi er sett í samhengi við stríðið í Gasa. Í öðru lagi er hugtakið ,,femínísk vídd" látið ná yfir hryðjuverkamenn Hamas. Blóðþyrstir fjöldamorðingjar eru sagðir konur og börn. Tilgangur RÚV  er að smíða átyllu til að fordæma. Efstaleiti verður ekki kápan úr klæðinu. Fólki kaupir ekki að hryðjuverkamenn hafi ,,femíníska vídd" en gleðst yfir árangri íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem Stígamót valdi ekki að þessu sinni.

Víkjum þá á öðru dæmi um hliðarveruleika RÚV. Þar má með sanni segja að RÚV hafi haft erindi sem erfiði, enda um að ræða ótal fréttir og legíó endurtekninga yfir langt árabil á sömu ósannindunum.

Fyrir ellefu dögum birti RÚV frétt með fyrirsögninni ,,Dómari í Samherjamálinu neitar að segja sig frá því." Fyrsta efnisgreinin í meginmáli er svohljóðandi:

Namibíski dómarinn Moses Chinhengo hefur neitað að segja sig frá Samherjamálinu svokallaða í Namibíu sem snýr að meintum glæpum fyrirtækisins Samherja þar í landi.

Enginn sem tengist Samherja, hvorki lögaðilar né einstaklingar, eru fyrir rétti í Namibíu. Af því leiðir er ekki um neina meinta glæpi norðlensku útgerðarinnar að ræða. RÚV trúir eigin hliðarveruleika, að réttað sé yfir Samherja í Namibíu.

Tilfallandi fjallaði um Namibíumálið í fyrrasumar og byggði á namibískum heimildum:

Nú stendur yfir dómsmál þar syðra. Enginn Samherjamaður er sakborningur og enginn lögaðili tengdur útgerðinni á sakabekk. Aðalsakborningurinn er Bernhard Esau fyrrum sjávarútvegsráðherra. Í þriggja daga gamalli frétt útgáfunnar Namibian er sagt frá skýrslugjöf Esau í dómssal.

RÚV og Heimildin, RSK-miðlar, vitna reglulega í Namibian en ekki kemur stakt orð um yfirheyrslur yfir Esau. Hvernig víkur því við að aðalsakborningurinn í Namibíumálinu, sem RSK-miðlar kalla alltaf Samherjamálið, er ekki fréttaefni þeirra íslensku miðla sem sérhæfa sig í málinu?

Skýringin er vitanlega sú að skýrslugjöf Esau fyrir dómi sýnir svart á hvítu að Samherji var fórnarlamb en ekki gerandi í sakamálinu sem nefnist Fishrot þar syðra.

Í fréttinni kemur fram að yfirmenn opinberrar stofnunar, Fishcor, seldu Samherja kvóta en stungu undan greiðslum sem Samherji innti af hendi. Samherji var í góðri trú, keypti kvóta af opinberri stofnun.

Namibísk lög gera ráð fyrir að Fishcor selji kvóta og noti afraksturinn í uppbyggingu innviða og þróunaraðstoðar innanlands.

Hliðarveruleiki RÚV er að réttarhöldin í Namibíu séu yfir Samherja. Það eru hrein og klár ósannindi. En með því að klifa á lyginni sí og æ vonast ríkisfjölmiðillinn til að telja andvaralausum áheyrendum að hvítt sé svart.

RÚV er rotin stofnun sem ætti að leggja niður.

 

 


Fánar Baldurs og Felix

Forsetaframboðið Baldur og Felix - alla leið heldur úti Facebook-síðu. Sigurður Ásgeirsson skrifaði eftirfarandi færslu á síðuna:

Keyri framhjá húsinu ykkar daglega. Þið eruð duglegir að flagga, reyndar mjög svo. ESB-fánanum, hinsegin fánanum, úkraínska fánanum ... en aldrei íslenska fánanum. Hafið þið einhverja haldbæra skýringu á þessu?

Sigurður fékk ekkert svar. Tíu mínútum eftir að hann setti færsluna inn var hún tekin út af þeim sem hafa ritstjórnarvaldið. Í framhaldi var Sigurði úthýst, ,,ég var blokkeraður frá síðunni," skrifar Sigurður.

Ást á íslenska lýðveldinu er ekki ástæða forsetaframboðs Baldurs og Felix. 

 


mbl.is Sagði Baldur þjóðinni ósatt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varaformaður BÍ: blaðamenn eru ómarktækir

Varaformaður Blaðamannafélags Íslands, Aðalsteinn Kjartansson, segir blaðamenn hafa ,,glatað merkingu sinni á síðustu árum." Aðalsteinn kemst að þessari niðurstöðu eftir fjögurra klukkustunda þögn í réttarsal þar sem hann þorði ekki að vitna í máli sem hann höfðaði sjálfur. Hann afþakkaði að svara spurningum í vitnastúku um vitneskju sína um sakamál.

Játningin er í Facebook-færslu. Varaformaður stéttafélags blaðamanna skrifar áfram: 

Stofnanir og stjórnmálamenn svara ekki blaðamönnum, birta tilkynningar á vefsíðum sínum og merkja sem fréttir, fara í viðtöl í eigin hlaðvarpsþáttum og reyna að sannfæra almenning að í raun séu allir blaðamenn.

Tvöfalt siðferði gerir blaðamenn ómarktæka. Þeir leggja ekki sömu mælistiku á sjálfa sig og aðra. Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg, er skattsvikari. Aðalsteinn og fjórir félagar hans eru grunaðir um glæpi í byrlunar- og símastuldsmálinu. Hvorki Sigríður Dögg né sakborningar gera hreint fyrir sínum dyrum, svara ekki spurningum. Þeir senda út fréttatilkynningar um eigið sakleysi og reyna að sannfæra almenning að engu misjöfnu sé til að dreifa. Aðrir blaðamenn láta sér vel líka.

Forysta blaðamanna setur fordæmi. Óþægileg mál skal þagga niður með einhliða yfirlýsingum, spurningum er ekki svarað.

Aðalsteinn varaformaður kennir norðlenskum skipstjóra og kennara í Garðabæ um ófarir íslenskrar blaðamennsku. Þar leitar sakborningurinn langt yfir skammt.

Ef blaðamenn vilja láta taka mark á sér upplýstu þeir almenning um skattsvik Sigríðar Daggar og aðild RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans að byrlunar- og símastuldsmálinu.

Á meðan það er ekki gert verða íslenskir blaðamenn æ ómarktækari.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband