Guðni Th. í spor Ólafs Ragnars

Í forsetakosningum er haft á orði að þjóðin ,,finni" sinn frambjóðanda. Átt er við að einhver frambjóðenda fái í kosningabaráttunni meðbyr er skilar lyklavöldum að Bessastöðum. Ólafur Ragnar ,,fannst" árið 1996 sem valkostur við forræði Davíðs Oddssonar í landsmálum. Guðni Th. ,,fannst" árið 2016 þegar RÚV beitti honum óspart sem álitsgjafa við að fella ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.

Í raun leitar þjóðin ekki að frambjóðanda. En sá frambjóðandi sem nær að spila á strengi þjóðarsálarinnar sem heppilegasti frambjóðandinn fær forskot er endist til Bessastaða. Eftiráspekin býr til þjóðsöguna um að þjóðin ,,finni" sér forseta.

Forsetakosningar, þar sem sitjandi forseti leitar ekki eftir endurkjöri, eru óútreiknanlegri en þingkosningar. Persónur og pólitík eru í öðrum hlutföllum en í hversdagslegum stjórnmálum. Flokkspólitík leysist upp en óformlegur skilningur verður til milli stærri og smærri hópa.

Forval forsetaframbjóðenda stendur yfir fram að lokum apríl er framboðsfrestur rennur út. Á tíma forvals leita frambjóðendur að bandalagi sem nægir til sigurs. Þriðjungsfylgi gæti nægt. Ólafur Ragnar og Guðni Th. hlutu um 40 prósent í frumkjöri sem forsetar. Óheppilegt er að minnihluti þjóðarinnar standi að baki nýkjörnum forseta en lögin eru eins og þau eru.

Undirskriftarsöfnun sem hvetur Guðna Th. til að endurskoða fyrri ákvörðun um að gefa ekki kost á sér er til marks um óreiðu á bakið tjöldin. Guðni Th. gefur ádrátt um að mögulega kunni hann að endurskoða fyrri afstöðu. 

Sjálfur beið Guðni Th. með að tilkynna framboð vorið 2016 uns öruggt var að Ólafur Ragnar yrði ekki í framboði. Hann má vita af eigin reynslu að sé óvissa um hvort sitjandi forseti stefni á endurkjör lamar það löngun mögulegra frambjóðenda sem hafa einhverju að tapa.

Á forsetatíð sinni hefur Guðni Th. ekki stundað klækjastjórnmál. Honum sæmir ekki að byrja á þeim núna. Hrökkva eða stökkva fyrir helgi, Guðni Th.  


mbl.is Guðni hvattur áfram í undirskriftasöfnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband