Veika konan vorkenndi Helga Seljan

Blaðamenn RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, urðu þess áskynja sumarið 2021 að lögreglan var komin á sporið í rannsókn á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar í byrjun maí sama árs.

Þáverandi eiginkona Páls byrlaði honum, stal síma hans og færði fréttamanni RÚV til afritunar. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hafði stuttu áður keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Þóra fékk á símann númerið 680 2140. Númerið á síma Páls er 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á símanúmerunum. 

Páll kærði málið 14. maí. Fyrstu fréttir úr símanum birtust samtímis morguninn 21. maí í Stundinni undir höfundarnafni Aðalsteins Kjartanssonar og í Kjarnanum með Þórði Snæ og Arnari Þór Ingólfssyni sem skráðum höfundum. Engin frumfrétt birtist í RÚV. Aðgerðin vorið 2021 var skipulögð. Afritun fór fram á RÚV en fréttir birtust á Stundinni og Kjarnanum.

Blaðamenn gripu til ráðstafana um sumarið til að fela slóðina. Í ágúst var Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks reglulega í sambandi við eiginkonu skipstjórans sem stríðir við geðræn veikindi á alvarlegu stigi. Konan hefur oftar en einu sinni verið öryggisvistuð á lokaðri deild. Í sms-skilaboðum 24. ágúst 2021 skrifar Þóra að konan skuli ,,breyta ÖLLUM lykilorðum alls staðar."

Þóra vill einnig fá síma konunnar og hefur mann á sínum snærum til að ,,yfirfara" símann sem geymdi upplýsingar um samskiptin við blaðamenn. Þóra skrifar:

Hann vill helst ekki hittast (mjög varkár maður, skiljanlega) en spyr hvort þú treystir honum fyrir símanum einn dag?

Konan lét símann í hendur RSK-blaðamanna. Hún var leiksoppur enda ekki í andlegu ástandi til að verjast ágengum blaðamönnum.

Hugmynd blaðamanna var að gera Helga Seljan, undirmann Þóru á Kveik/RÚV, að heimildamanni fyrir fréttum upp úr síma skipstjórans. Nýleg lög mæla fyrir um vernd heimildamanna. Með Helga sem heimildarmann töldu blaðamenn sig fá skálkaskjól, gætu vísað í lögin er lögregla innti eftir heimildinni fyrir samræmdum fréttum í Stundinni og Kjarnanum.

Til að undirbyggja Helga sem heimildamann var hann gerður að fórnarlambi. Sumarið 2020, ári fyrir byrlun og stuld, skrifaði Kjarninn frétt um ofsóknir Samherja á hendur Helga vegna Namibíumálsins. Í raun gerðist það, sem ekki er skrifað um í frétt Kjarnans, að Helgi lagði fram falska kæru til lögreglu og sakaði Jón Óttar Ólafsson um umsáturseinelti. En daginn sem Jón Óttar átti að hafa setið um heimili fréttamannsins var Jón Óttar úti á sjó. Maður sem falsar heimildir telur ekki eftir sér að leggja fram falska kæru.

Með frétt Kjarnans sumarið 2020 var kominn grunnur til að byggja á er RSK-menn þurftu nauðsynlega ári síðar að gera sig að fórnarlömbum. Um miðjan október 2021 var Helgi Seljan mættur í settið hjá Gísla Marteini, í þættinum Vikan á RÚV. Á föstudagskvöldi frammi fyrir alþjóð sagðist Helgi glíma við geðrænan vanda vegna áreitis Samherja.

Veika konan, sem byrlaði eiginmanni sínum og stal síma hans að undirlagi RSK-miðla, fann til með Helga Seljan. Konan skrifaði Þóru Arnórsdóttur fimm dögum eftir yfirlýsingu Helga hjá Gísla Marteini:

Sæl Þóra, mér sýnist Helga ekki veita af aðstoð. Er ekki bara kominn til til að ég afhjúpi mig. Ég hef hvor eð er ekki neitt að missa. Kveðja XXX (nafn fellt út af pv)

Orðalag veiku konunnar gefur til kynna að hún ætli að taka á sig sök Helga. RSK-liðar vildu ekki neitt slíkt, þeir voru tilbúnir með sína eigin útgáfu af atburðarásinni vorið 2021. Veika konan var ekki með hlutverk í handritinu. Í lögregluyfirheyrslu 14. febrúar 2022 segist konan ekki muna hvað hún hafi ætlað að afhjúpa. Þá kveðst veika konan ekki muna hvers vegna hún sendi Þóru Arnórsdóttur tölvupóstinn fimm dögum eftir að Helgi kvaðst í beinni útsendingu RÚV sárþjakaður af samskiptunum við Samherja.

Leikritið í sjónvarpsþætti Gísla Marteins var sett á svið til að afla samúðar. Fyrir tilviljun afhjúpaði tilfallandi bloggari samsærið. Bloggfærsla eftir beinu útsendinguna með Helga var stormvaki á félags- og fjölmiðlum. Krafan var að tilfallandi yrði sviptur atvinnu og mannorði. Fyrir það eitt að setja játningu fréttamannsins í annað samhengi en að hann væri fórnarlamb. Stikla sem RÚV hafði gert upp úr viðtali Gísla Marteins við Helga var tekin úr umferð. Tilfallandi áttaði sig á að stærsta frétt fjölmiðlasögu landsins er að mestu ósögð. Fáein blogg hafa síðan verið skrifuð til að varpa ljósi á málavöxtu. Lítið fer fyrir lofinu og engin eru verðlaunin. Uppskeran er helst sú að þrír sakborningar hafa stefnt tilfallandi fyrir ærumeiðingar. Kallast kæling á máli verðlaunablaðamanna.

Æðið sem rann á RSK-blaðamenn í október 2021 stafaði af örvæntingu. Fyrsta yfirheyrslan í byrlunar- og símastuldsmálinu var 5. október. Helgi kom fram í beinni útsendingu tíu dögum síðar. Í byrjun nóvember var tilkynnt um starfslok Rakelar Þorbergsdóttur fréttastjóra á RÚV, Helgi Seljan kvaddi Efstaleiti um áramót. Þóra hjarði lengst, var ekki vikið frá störfum fyrr en í febrúar 2023 - eftir að upp komst að hún keypti Samsung-símann sem notaður var til að afrita síma skipstjórans á Glæpaleiti 4. maí 2021.

Byrlunar- og símastuldsmálið er snúin rannsókn enda við að etja harðsvíraða einstaklinga með heljartök á fjölmiðlum. Blaðamenn töfðu málið um hálft ár, voru boðaðir í yfirheyrslu í febrúar 2022 en mættu ekki fyrr en um haustið. Áramótin 2022/2023 komst upp um kaup Þóru á Samsung-símanum. Áður hafði rannsóknin einkum beinst að meðferð blaðamanna á einkagögnum Páls skipstjóra. Eftir að uppvíst var um símakaup Þóru beindist athyglin að samskiptum blaðamanna og byrlara í aðdraganda glæpsins.

Lögreglan leitaði eftir upplýsingum um gmail-reikning veiku konunnar hjá Google sem hýsir tölvupóstinn. Öllum tölvupóstum hafði verið eytt á tölvu konunnar. Þá fengu blaðamenn konuna til að afhenda sér einkasímann til að eyða gögnum.  Ekki er vitað hvað kom úr eftirgrennslan hjá Google.

Blaðamannafélag Íslands gerir sér far um að tefla fram blaðamönnum undir lögreglurannsókn sem fyrirmyndum. Þrír sem koma við sögu byrlunar- og símastuldsmálsins fá tilnefningu til blaðamannaverðlauna í ár. Þeir eru Helgi Seljan og sakborningarnir Aðalsteinn Kjartansson og Ingi Freyr Vilhjálmsson. Allir þrír starfa á Heimildinni. Aðalsteinn, sem jafnframt er varaformaður Blaðamannafélagsins, er í áskrift að verðlaunum félagsins. Árið sem hann varð sakborningur fékk hann verðlaun, ásamt meðsakborningum sínum Þórði Snæ og Arnari Þór Ingólfssyni. Allir, auðvitað, á Heimildinni, áður Stundinni og Kjarnanum.

Til siðs er víða um lönd að verðlauna blaðamenn sem afhjúpa glæpi og rangindi. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Séu íslenskir blaðamenn grunaðir um afbrot fá þeir blómvönd og verðlaunaskjal. Formaður félagsins sem hyllir sakborninga er skattsvikari.

Íslensk blaðamennska verður aðhlátursefni heimsbyggðarinnar. Til að kóróna fjarstæðukennda atburðarás er æðsti yfirmaðurinn á Glæpaleiti fyrrum lögreglustjóri. Ef byrlunar- og símastuldsmálið væri handrit að glæpasögu þætti sagan of fáránleg til útgáfu.


Bloggfærslur 14. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband