Risaeðlur, Darwin og trúarvísindin

Vitundarskipti Evrópumanna, einkum Breta, á 19. öld er viðfangsefnið í nýrri bók, Ómögulegar ófreskjur, eftir Michael Taylor. Í viðtali á Unherd gefur höfundur stutta útgáfu. Á 19. öld finnast bein og steingervingar sem kippa stoðum undan kenningu kirkjunnar um guð sem höfund heimsins. Fyrsta menningarstríðið var á milli kirkjunnar og vísindanna, segir Taylor.

Darwin gaf vísindunum nýja hugmyndafræði, þróunarkenninguna, rétt eftir miðja 19. öld, og þar með var leikurinn tapaður kirkjunni.

Náttúrleg guðfræði var fræðilega heitið á vísindum sem í fyrstu áttu að sameina kennisetningar Biblíunnar og leifar af risaeðlum, sem ekki er gerð grein fyrir í sköpunarsögunni. Frumkvöðlar nýju vísindanna komu margir úr klerkastétt. Kristin heimsmynd var forsenda nýju vísindanna.

Ef maður trúir á þróunarkenningu Darwins, sem ég geri, segir Taylor (23:50), þá hlaðast sönnunargögnin upp. Tja, já og nei. Það er ekki hægt með gögnum að rekja þróun mannsins aftur í tímann stig af stigi til frumapans sem er sameiginlegur forfaðir manna og apa. Elsti tvífætlingurinn er tímasettur fyrir fjórum milljónum ára. Maðurinn er um 200 þúsund ára gömul tegund. Tímaspönnin þar á milli er löng og lítt kunn. Kenningin segir og við trúum en gögnin vantar.

Fáeinir úr röðum vísindamanna voga sér að andæfa, t.d. David Berlinski, sem segir líffræði Darwin ekki standast vísindalega aðferðafræði. Engin forspá er í þróunarkenningunni og tilgátur ekki hægt að prófa. Berlinski og þeir fáu sem líkt tala fá lítinn hljómgrunn. Svona eins og náttúrulegu guðfræðingarnir á fyrri hluta 19. aldar. Ráðandi sjónarmið eru önnur.

Þróunarkenningin heldur enn, þótt rök og gögn veikist fremur en styrkist. Vísindin eru bætt upp með skorti á valkostum. Við sitjum uppi með trúarvísindin um upphaf manns og heims. Á löngum föstudegi er vert að íhuga hvort þröskuldurinn til skilnings sé manninum óyfirstíganlegur. Kannski er það eilíft hlutskipti mannsins, að trúa en vita ekki. 


Bloggfærslur 29. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband