Hýenublaðamenn: Ingi Freyr og Helgi Seljan

Átakanleg lýsing skipulagðrar árásar á æru og afkomu Hreiðars Eiríkssonar er að finna í nýrri bók, Seðlabankinn gegn Samherja eftirlit eða eftirför?, eftir Björn Jón Bragason. Tveir hýenublaðamenn, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Helgi Seljan, lögðu á ráðin að hafa af Hreiðari mannorð og atvinnu.

Hreiðar starfaði í gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands þegar Helga Seljan bar þar að garði vorið 2012 með fölsuð gögn. Helgi, þá fréttamaður RÚV, sagði að gögnin sýndu að Samherji hefði brotið gjaldeyrislög. Fréttamaðurinn fékk fund með gjaldeyriseftirlitinu. Hreiðar sat ekki þann fund. Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður gjaldeyriseftirlitsins fundaði með Helga. Tilfallandi rakti þá sögu sl. sunnudag.

Ráðist var í húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og Reykjavík 27. mars 2012. Hreiðar stýrði húsleitinni á Akureyri. Ingibjörg Guðbjartsdóttir sat í samhæfingarmiðstöð aðgerða í húsi Seðlabankans við Kalkofnsveg. Nokkrum dögum áður en húsleitin fór fram fól Ingibjörg Hreiðari að hafa samband við Helga Seljan á RÚV, sem hafði látið að því liggja að fréttir yrðu fluttar á grunni gagnanna sem Helgi kynnti á fundi Seðlabanka. Hreiðar hafði samband við RÚV. Sigmar Guðmundsson fréttamaður, núverandi þingmaður Viðreisnar, varð fyrir svörum. Samkomulag varð á milli Hreiðars og Sigmars að RÚV héldi að sér höndum en fengi í staðinn fyrstu fréttir af húsleitinni.

Það gekk eftir. Hreiðar staðfestir í bókinni að Ingibjörg hringdi í Helga Seljan á meðan húsleitinni stóð. Fyrstu fréttir birtust á RÚV fáeinum mínútum eftir að húsleit hófst klukkan níu að morgni. Um kvöldið birtist glaðbeittur Helgi með fréttaskýringu í sjónvarpinu.

Seðlabankamálið var byggt á sandi. Fölsuðu gögnin frá Helga héldu vitanlega ekki vatni. Önnur gögn byggðu á misskilningi, röngum útreikningum og vanþekkingu seðlabankamanna. Sú saga er þekkt af fréttum.

Aftur er ekki fyrr en með bókinni Seðlabankinn gegn Samherja eftirlit eða eftirför? sagt opinberlega hvernig Helgi Seljan beitti sér á bakvið tjöldin í félagi við Inga Frey Vilhjálmsson blaðamann á Stundinni.

Hreiðar fékk það hlutverk eftir húsleitina að skrifa ákæru á hendur Samherja. Vandinn var sá að gögn málsins studdu ekki ákæruna sem honum var gert að skrifa. Hann fór með þau sjónarmið til yfirmannsins, Ingibjargar, sem aftók með öllu þá niðurstöðu að ekki væri tilefni til ákæru. Hreiðar var settur út af sakramentinu í Seðlabankanum. Ingibjörg hótaði honum, að hann fengi ekki annað starf hjá stjórnsýslunni. Loks var gerður við Hreiðar starfslokasamningur.

Vandræði Hreiðars voru rétt að byrja. Hreiðar upplýsti umboðsmann alþingis um misfellur sem hann taldi vera á rannsókn Seðlabanka á Samherja. Málið í heild velktist í stjórnkerfinu áravís. Annað slagið birtust fréttir, allar Seðlabanka og RÚV í óhag.  

Átta árum eftir húsleitina er Hreiðar starfsmaður Fiskistofu. Í ágúst 2020 er upplýst um falsanir Helga Seljan á gögnum sem hann fékk frá Verðlagsstofu skiptiverðs. Fölsuðu gögnin hafði Helgi lagt fyrir seðlabankafólk á fundi vorið 2012. RÚV beitti sér hart þegar hið sanna kom í ljós. Yfirlýsing kom frá ríkisfjölmiðlinum um að ,,stórfyrirtæki" reyni að ,,skaða mannorð fréttamanns" og að nú stæði yfir ,,kerfisbundin atlaga að fjölmiðlum."  Þóra Arnórsdóttir, yfirmaður Helga og vinkona, birti á Facebook-síðu sinni yfirlýsingu frá Helga. Þar er Samherji sakaður um ,,drullumokstur að sverta mannorð öflugasta rannsóknarblaðamanns landsins og hrella fjölmiðla."

(Innan sviga er þess að geta Helgi og Þóra flæmdust síðar bæði af RÚV vegna byrlunar- og símstuldarmálsins). 

Hreiðar kom hvergi nálægt afhjúpuninni á fölsunum Helga Seljan í Seðlabankamálinu. En hann lá undir grun, bæði vegna fyrri starfa hjá Seðlabankanum og störfum hans á Fiskistofu. Sama dag og Helgi er afhjúpaður hringir Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður á Stundinni í Hreiðar að undirlagi Helga. Ingi Freyr vísar í Helga sem heimildarmann um að Hreiðar hafi tekið við gögnum frá Helga átta árum áður á fundi í Seðlabankanum. En Hreiðar var ekki á þeim fundi. Ingi Freyr sleit samtalinu en hringdi aftur síðar sama dag og sakaði Hreiðar um að rjúfa trúnað og að hann ynni fyrir Samherja. Hreiðar neitaði en samt birti Ingi Freyr fréttir úr lausu lofti gripnar um óheiðarleika Hreiðars. Mannorðsatlagan var hafin.

Málinu lauk ekki með falsfréttum Inga Freys í Stundinni. Hreiðar fékk þær upplýsingar frá yfirmanni sínum, Ögmundi Knútssyni fiskistofustjóra, að með skömmu millibili hefðu bæði Ingi Freyr og Helgi hringt og borið á Hreiðar sakir. Síðan spurt: treystir fiskistofustjóri þessum manni?

Hýenur ráðast ekki einar og stakar á fórnarlömb sín. Þær eru alltaf tvær eða fleiri saman. Hýenublaðamenn hafa sama háttinn á. Ingi Freyr starfaði á Stundinni árið 2020 en Helgi Seljan var á RÚV. Með því að hringja í fiskistofustjóra með sama erindið sama dag láta þeir skína í að tvær sjálfstæðar ritstjórnir hafi komist að sömu niðurstöðu, að Hreiðar Eiríksson væri brotlegur í starfi. Hýenurnar Helgi og Ingi Freyr höfðu samráð, stilltu saman strengina fyrir atlöguna að mannorði og afkomu Hreiðars. Þeir vildu Hreiðar rekinn úr starfi. 

Hýenublaðamennska er viðtekin venja RSK-blaðamanna á RÚV, Stundinni og Kjarnanum, sem heita núna Heimildin. Fréttir um skæruliðadeild Samherja birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum 21. maí 2021. Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum birtu sama dag árás á tilfallandi fyrir að skrifa um byrlunar- og símastuldsmálið.

Hýenublaðamenn leita ekki frétta. Þeir koma sér fyrirfram saman um hver skuli vera fréttin og skálda síðan frásögn. Skáldskapurinn er seldur almenningi sem staðreynd með afli endurtekningarinnar. Heimildir eru ýmist falsaðar, líkt og í Seðlabankamálinu, eða áfengar, eins og í Namibíumálinu, nú eða fengnar með byrlun og stuldi, sem var tilfellið í fantasíu RSK-blaðamanna um skæruliðadeild Samherja.

Hýenublaðamenn afla sér trúverðugleika með verðlaunum. Þau skaffa Blaðamannafélag Íslands undir formennsku skattsvikara. Í ár fá þrír skráðir og skjalfestir hýenublaðamenn tilnefningu.

Tilfallandi lesendur gætu spurt sig hvers vegna hýenublaðamenn séu ráðandi í íslenskri blaðamennsku. Helsti talsmaður hýenuhópsins er Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar. Hann útskýrir huglausa hjarðmenningu íslenskra blaðamanna með þessum orðum: ,,samfélagið okkar [er] gegnsýrt af spillingarmentalíteti." Blaðamenn sem vilja komast til valda og áhrifa í samfélaginu tileinka sér hýenuhátt. Það er eins með hýenur og heimskra manna ráð. Gefast því verr er fleiri koma saman.


Bloggfærslur 9. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband