Handavinna Katrínar ætli hún í forsetann

Baldur Þórhallsson prófessor hyggst bjóða sig fram til forseta að því gefnu að Katrín Jakobsdóttir forsætis geri það ekki. Nokkuð bjartsýnt er af Baldri að Katrín geri upp hug sinn í næstu viku. Bjóði Katrín sig fram tekur hún páskana í nauðsynlega handavinnu. Eftir það tilkynnir hún framboð. Taki hún stökkið.

Framboðsfrestur til forseta rennur út 26. apríl. Sjóaður stjórnmálamaður þarf ekki nema 2-3 vikna fyrirvara til að leggja í baráttuna um Bessastaði. Ef Katrín ætlar fram þarf hún á hinn bóginn að ná samningum við samstarfsflokka í ríkisstjórn.

Hvorki Bjarni Ben. né Sigurður Ingi eru áfram um haustkosningar. Að því leyti falla hagsmunir forsetaframbjóðandans Katrínar saman við formenn samstarfsflokkana. Öllum þrem er hagfellt að ljúka kjörtímabilinu. 

Gangi Katrín frá borði geta Vinstri grænir ekki lengur krafist forsætisráðuneytisins. Bjarni Ben. gæti orðið forsætisráðherra eða látið embættið falla í skaut Þórdísar Kolbrúnar. 

Allt er þetta handavinna sem ætti að vera auðleyst að greiða úr. Þokkalegt traust er á milli oddvita ríkisstjórnarflokkanna. Þjóðlífið er með rólegra móti. Kjarasamningar eru komnir í höfn. Þjóðin ætti auðvelt með að sætta sig við eins konar starfsstjórn fram að þingkosningum vorið 2025.

Katrín myndi sóma sér vel sem forseti lýðveldisins. Spurningin er hvort hún sé södd pólitískra lífdaga.

 


mbl.is Tekur ákvörðun um framboð í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband