Fimmtudagur, 10. febrúar 2022
Reynir, Helgi Seljan og Stundin
Reynir Traustason er úr vestfirsku sjávarþorpi en Helgi Seljan austfirsku. Báðir komu þeir í blaðamennsku með stórt álit á sjálfum sér en lítið vit á faginu. Þeir böðlast áfram og skeyta hvorki um heiður né skömm. Falsfréttir, aðdróttanir, hávaði og læti í samspili fjölmiðla og samfélagsmiðla eru í fyrirrúmi en sannindi aukaatriði.
Reynir Traustason lýtur í gras fyrir Arnþrúði Karlsdóttur sem sagði þetta um kauða:
Sjáðu bara eins og [...] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.
Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?
Helgi Seljan er kominn á Stundina, þar sem Reynir var stjórnarformaður, þegar ummæli Arnþrúðar Karlsdóttur féllu. Fyrir á fleti er annar garpur af Efstaleiti, Aðalsteinn Kjartansson.
En hvers vegna er Helgi með búðsetu á Stundinni? Margverðlaunaður blaðamaðurinn af Efstaleiti.
Jú, það stendur yfir lögreglurannsókn á glæpsamlegu athæfi fréttamanna RÚV. Eitrun Páls skipstjóra og gagnastuldur eru brátt á borði saksóknara.
Hæstiréttur úrskurðaði um mannorð Reynis. Vinnulag Helga Seljan bíður dóms. Báðir eru nátengdir Stundinni sem segist berjast fyrir réttlæti, gagnsæi og sjálfstæði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 9. febrúar 2022
Stígamót: kynferðisbrot verði einkamál
Undirskriftasöfnun stendur yfir þess efnis að þolendur kynferðisbrota ,,fái aðild að sínum málum." Stígamót standa að baki söfnuninni. Kynferðisbrotamál eru opinber mál með þeim rökum að brotin varði almannahag.
Ríkisvaldið sér um rannsókn og ákæru í opinberum málum. Hugmyndin að baki er að málin séu mikilsverð, varði meginatriði í réttarríkinu, annars vegar og hins vegar að brotaþoli verði ekki í þeirri stöðu að sækja réttlætið upp á eigin spýtur.
Önnur mál, t.d. langflestar ærumeiðingar, eru einkamál. Sá sem telur vegið að æru sinni þarf sjálfur að sækja rétt sinn, ráða sér lögfræðing, afla gagna og stefna fyrir dómsól þeim sem er sakaður er um meingjörðina.
Með því að krefjast beinnar málsaðildar þolenda kynferðisbrota er verið að færa málaflokk, sem í dag fellur undir opinber mál, nær sviði einkamála.
Stígamót gefa þeirri hugsun undir fótinn að þolandi kynferðisbrots ,,eigi" málið og ríkisvaldið sé að fara inn á svið einkamála með því að rannsaka og lögsækja málefni einkalífsins. Allur þorri kynferðisbrotamála er í eðli sínu álitamál hvort vegið sé að kynfrelsi. Hin réttarfarslega spurning er hvort athæfið varði við lög eða ekki.
Samanburður við ærumeiðingar nærtækur. Æra er eðli máls samkvæmt huglæg. Það er ekki í þágu þolenda kynferðisbrota að gera brotin huglægari en þau eru í dag. En með því að þolandi ,,fái aðild" að opinberu sakamáli er huglægari þáttum gert hærra undir höfði en nú tíðkast. Í dag verndar ríkisvaldið kynfrelsi betur en mannorð fólks. Skýtur skökku við að Stígamót, af öllum, vefengi það fyrirkomulag.
Ef einstaklingur er að ósekju sakaður um kynferðisbrot þarf hann oftar en ekki að sækja rétt sinn á forsendum einkamálaréttar. Ef barátta Stígamóta yrði til þess að jafna aðstöðumun ásakenda og ásakaðra myndu sumir fagna. En trauðla þolendur kynferðisofbeldis.
Vegferð Stígamóta gæti sett þolendur kynferðisbrota í sömu stöðu og þá er verða fyrir ærumeiðingum. Sækja verði réttlætið með einkamáli. Árás á kynfrelsi einstaklings og atlaga að mannorði eru meingjörðir gagnvart persónum. Kannski að ríkisvaldið eigi ekkert að skipta sér af slíkum málum. Þannig háttaði á þjóðveldisöld og gerir enn í frumstæðum ættarsamfélögum er búa við veikt eða ekkert ríkisvald. Stígamót virðast hallast að þeirri skoðun og safna undirskriftum sjónarmiðinu til stuðnings.
Í upphafi skyldi endinn skoða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. febrúar 2022
N1 hækkar rafmagn um 75% með orkupakka 3
N1 auglýsti rafmagn á 6,44 krónur en rukkaði 11,16 krónur. Þetta er 75 prósent hækkun ,,í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda," segir tilkynningu.
Annað nafn á ,,þrautavaraleið" stjórnvalda er orkupakki 3 sem innleiddur var frá ESB þrátt fyrir aðvaranir um að sölukerfi raforku í ESB hentaði ekki á Íslandi. Í Noregi hefur rafmagn hækkað um 550 prósent. Við erum á sömu vegferð.
N1 hvorki framleiðir rafmang né flytur það. N1 er óþarfur milliliður sem gerir það eitt að hækka rafmagn til heimila og skapa sér gróða.
Almenningur hefur þegar greitt fyrir virkjanir sem framleiða rafmagnið og borgað flutningskerfið. Stjórnvöld þakka heimilum landsins með því að siga á þau siðlausum fyrirtækjum. Helvíti hart, svo ekki sé meira sagt.
![]() |
N1 endurgreiðir viðskiptavinum mismuninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 7. febrúar 2022
30 þús. útlendingar á 5 árum? Skipta um þjóð í landinu?
Atvinnulífið þarf 30 þúsund útlendinga til starfa á Íslandi á næstu fimm árum, segir í frétt á visir.is. Formaður Samtaka atvinnulífsins er borinn fyrir spánni.
Hér þarf að staldra við. Þjóðin er ekki til fyrir atvinnulífið, heldur öfugt: atvinnulífið er í þágu þjóðarinnar.
Stórfelldur innflutningur á skömmum tíma á útlendingum gerir hvorki þjóðinni gagn né þeim útlendu.
Pólitískt verkefni næstu missera og ára er að hamla vexti atvinnulífsins til að það verði ekki krabbamein á þjóðarlíkamanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 6. febrúar 2022
Verktaki RÚV í eitrun og gagnastuldi
Verktaki RÚV eitraði fyrir Páli Steingrímssyni skipstjóra hjá Samherja og stal síma skipstjórans sem var lagður nær dauða en lífi á gjörgæslu 4. maí á liðnu ári. Verktakinn kom símanum til RÚV-ara sem afrituðu gögn úr tækinu og létu í hendur Stundarinnar og Kjarnans. Tilgangurinn var að koma höggi á Samherja.
Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, sem hætti á RÚV helgina fyrir atlöguna að Páli, og Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans unnu með stolnu gögnin í hálfan mánuð. Þann 21. maí birtu Stundin og Kjarninn samtímis fréttir sem urðu þekktar undir heitinu Skæruliðadeild Samherja. Daginn áður hringdu Aðalsteinn og Þórður Snær í Pál skipstjóra með tíu mínútna millibili. Símtölin voru yfirvarp, þeir vildu geta sagt í fréttum að þeir hefðu borið málið undir skipstjórann.
RÚV stjórnaði bæði atlögunni að Páli skipstjóra og birtingu frétta sem byggðu á stolnum gögnum. Lögbrotin voru framin af ásetningi og skipulögð á kaldrifjaðan hátt. Engu var eirt, hvorki heilsu, persónufrelsi né eignarétti.
En hver var verktakinn sem sá um að eitra og stela? Það hefur verið einhver nákominn skipstjóranum, sést best á því að símanum var skilað eftir að gögnin voru afrituð.
Á næstu dögum verða þeir einn af öðrum RÚV-arar kallaðir til lögreglu og kynnt niðurstaða rannsóknar að þeir séu sakborningar í væntanlegu sakamáli. Líklega verða þeir þrír, mögulega fjórir. Þjófsnautar á Stundinni og Kjarnanum gætu einnig átt von á boðun til lögreglu. Fréttir á þessum þrem miðlum verða á næstunni skrifaðar og fluttar skjálfandi hendi og titrandi rómi.
Verktaki RÚV í aðför að Páli skipstjóra Steingrímssyni verður afhjúpaður í beinu framhaldi. Ef þannig skyldi hátta til að milligöngumaður sé á milli RÚV og verktaka gæti málið orðið enn svæsnara. Og var það svæsið fyrir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 5. febrúar 2022
Eva svarar Eddu: kjaftasögur og kynferðisbrot
Eva Hauksdóttir lögmaður skrifar um þá aðferð Eddu Falak að auglýsa eftir slúðri um einhvern, sem ekki er nafngreindur, en er ,,þjóðþekktur og talar um covid."
Eva bendir á að aðferð Eddu Falak sé bæði snjöll og ósvífin ,,ekki síst vegna þess að latir blaðamenn geta auðveldlega fjöldaframleitt smellvænlegar fréttir sem þeir þurfa ekki að taka neina ábyrgð á, bara með því að endurbirta dylgjurnar með nafni höfundar."
Edda telur sig sjálfsagt vinna þjóðþrifaverk, að fletta ofan af kynferðisbrotamönnum. En hún opnar í leiðinni fyrir þann möguleika að saklausum sé úthýst úr samfélaginu með dylgjum og aðdróttunum sem ekki er fótur fyrir.
Viðhorf Eddu er að ,,hafi fólk ekkert að fela" ætti það ekki að hafa neinar áhyggjur. Fæstir lifa þannig lífi að þeir hafi ,,ekkert að fela", þó ekki sé nema einkalífið. Hvort heldur í skyndikynnum eða makasambandi deila tveir einstaklingar einkalífi sínu. Ef annar aðilinn fer með einkalíf beggja út á götur og torg samfélagsmiðla stendur hinn berskjaldaður.
,,Ég get því miður ekki bent þolendum kynferðisofbeldis á neina skárri leið en þá að leggja fram kæru," skrifar Eva. Ef fólk á áfram að eiga tilkall til einkalífs er þetta skásta leiðin. En svo má afsala sér einkalífinu, láta það fara fram fyrir opnum tjöldum. Eða undir eftirliti ríkisins.
![]() |
Edda svarar gagnrýni Kára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 4. febrúar 2022
Æruveiðar
Edda Falak auglýsir eftir þjóðþekktum sem gæti passað við slúður um vændiskaupanda. Degi síðar veldur auglýsing Eddu að Þóra Kristín dregur framboð sitt til formanns SÁÁ tilbaka, skv. vísi.
Æruveiðar eru stafrænt leifturstríð.
Mey skal að morgni lofa, æru að kveldi.
![]() |
Þóra Kristín dregur framboð sitt til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 3. febrúar 2022
Helgi Seljan og Þóra ekki-umsækjendur
Tveir nafnkunnir fréttamenn RÚV, Helgi Seljan og Þóra Arnórsdóttir, eru ekki umsækjendur um starf fréttastjóra. Hvað veldur?
Helgi er með slík meðmæli frá Stefáni útvarpsstjóra að ekki væri stætt á öðru en ráða manninn, væri hann umsækjandi. Þóra Arnórs er ritstjóri Kveiks og ætti að vera næst í goggunarröðinni, af allt væri með felldu. Að vísu er Kveikur orðin kynferðisbrotaþáttur í seinni tíð. Högg neðan beltis eru Þóru ekki ókunn.
Í haust átti Helgi landið og miðin. Maðurinn lagði Samherja og hlaðinn verðlaunum Blaðamannafélags Íslands. Hann mætti í þátt Gísla Marteins að játa sig smávegis geðveikan til að kría út meiri samúð fyrir þjóðþrifaverkin og þróunaraðstoð við lítið land í Afríku. Markhópur Helga, miðaldra konur, hélt ekki vatni þótt hvítum körlum á sama æviskeiði hafi ekki þótt mikið til koma.
Þegar leið á október hrönnuðust óveðurský yfir hausamótum Helga og Þóru. Skötuhjúin töpuðu Namibíumálinu, enginn Samherji var ákærður þar syðra. Samherji stundaði heiðarleg viðskipti sem Helgi, Þóra og Kveikur glæpavæddu. RÚV sagði engar fréttir af málinu, vildi það dautt. Heiðar, starfandi fréttastjóri, reynir að halda lyginni lifandi og lætur standa óhaggaða frétt um að Samherjamenn séu ákærðir. Heiðar er umsækjandi, búinn að skjóta sig í báðar fætur. Hann hlýtur að mæta í starfsviðtalið með ganglimina í gifsi.
Tapið í Namibíu eru þó smámunir miðað við þær fréttir sem tilfallandi fréttastofa greindi frá 10. nóvember og útskýrði nánar þrem dögum síðar. RÚV vissi með 4 daga fyrirvara að Páll skipstjóri Steingrímsson yrði lagður inn á gjörgæslu og að snjallsíma skipstjórans yrði stolið. Gögnin voru notuð af RÚV, Kjarnanum og Stundinni að herja á Samherja síðast liðið sumar og útveguðu Helga og Þóru hetjuímynd.
Kjarninn viðurkennir að glæpur hafi verið framinn og sakbendir á Efstaleiti. Eitrun og gagnaþjófnaður eru alvarlegir glæpir sem þung refsing liggur við. Að þjóðarútvarp lýðveldisins sé djúpt sokkið í glæpaiðju verður alþjóðlegt hneyksli þegar fréttist. Engir vita þetta betur en fréttamenn. Á Norðurlöndum verður spurt hvaða undarlega manntegund ráði ferðinni á ríkisfjölmiðlinum. Fólk mun skammast sín fyrir tengsl við RÚV. Starfsmenn hafa yfirgefið RÚV í hrönnum síðustu vikurnar.
Þegar útlendingar sannfrétta að fyrrum lögreglustjóri stýri RÚV springa þeir úr hlátri. Það verður upplit á þeim útlendu er þeir láta google þýða fyrir sig þessi orð Stebba um Helga:
Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum.
Í stuttu máli: Ísland verður aðhlátursefni heimsbyggðarinnar. Í boði RÚV. Ekki einu sinni hrunið kemst í hálfkvist við siðlausa RÚV-glæpi sem kryddaðir eru yfirgengilegum hálfvitahætti. Eitra, stela síma, afrita og skila símanum tilbaka á gjörgæsluna. Símtækið skráði allar sínar ferðir þegar ein glæpahönd rétti annarri tækið. Ef þetta væri handrit að glæpasápu á Netflix færi það í ruslið fyrir að vera of ótrúlegt.
Stofnanir fremja ekki glæpi heldur einstaklingar. Lögreglurannsókn á RÚV er komin á þann stað að sakborningar fá brátt að heyra hvaða afbrot lögreglan telur sönnuð. Einstaklingarnir sem koma við sögu eru ekki meðal umsækjanda um starf fréttastjóra á Glæpaleiti. Ekki að það skipti stóru máli. RÚV er búið að vera.
![]() |
Fjórir sóttu um starf fréttastjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 2. febrúar 2022
Kommúnismi, loftslag og geðtæp ungmenni
Sum ungmenni trúðu á manngerða kommúníska paradís á jörð fram yfir miðja síðustu öld. Þau með dómgreind áttuðu sig á að ekki var allt með felldu eftir Ungverjaland 1956 og vorið í Prag tólf árum síðar. Eilífðarbjálfarnir lokuðu skilningarvitunum og trúðu. Í dag trúa sum ungmenni á manngert helvíti loftslagsbreytinga.
Kennari í HR vekur máls á trúgirninni og virðist haldinn henni sjálfur. Kristján Vigfússon fær orðið í Fréttablaðinu:
Þau upplifa sig valdalaus, segir Kristján. Þau upplifa áföll, ótta, kvíða, geðraskanir, áráttuhegðun, hræðslu, einangrun, reiði, vonleysi og skömm.
Kristján segir að stjórnvöld verði að bregðast við með auknum krafti. Þetta er að verða faraldur og mun bitna á geðheilsu núverandi og komandi kynslóða. Loftslagsmálin eru nógu kvíðvænleg ein og sér en afleiðingar kvíðans einar og sér eru líka grafalvarlegt mál.
Ef hugur fylgdi máli hjá Kristjáni gæti hann sagt ungmennum frá vísindarannsóknum er afhjúpa manngert loftslag sem bull, vitleysu og firru. Það er sólin en ekki maðurinn sem ræður lofthita jarðar, segir ný rannsókn þýskra vísindamanna. Loftslagsmódel geta ekki spáð hitastigi langt fram í tímann, þau eru skáldskapur, segir William Happer sem kenndi þessi fræði í Princeton í fimm áratugi.
Kristján gæti líka kynnt nemendum HR tæplega 140 vísindagreinar er segja CO2-framleiðslu mannsins lítil sem engin áhrif hafa á loftslag.
En líklega mun Kristján í HR ekki gera neitt af þessu. Hann er með svarið:
Hið kapítalíska hagkerfi ræður ekki við verkefnið. Það er þörf á aukinni miðstýringu.
Kommúnismi á sem sagt að bjarga okkur frá manngerðri hlýnun. Ungmenni er sækja menntun í HR fara í geitarhús að leita ullar. Engin furða að þau séu miður sín, bryðji lyf og eignast ekki afkomendur. Þegar menntun er trú á bábiljur er betur heima setið en af stað farið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 1. febrúar 2022
Veira niður, verðbólga upp, aðgerðir strax
Lágir farsóttarvextir og ríflegt ríkisframlag til fyrirtækja stefna þjóðarskútunni í strand á skeri verðbólgu. Hröð aflétting hafta og stórfelldur innflutningur á vinnuafli til að mæta yfirbókunum flugfélaga gerir illt verra.
Stíga ætti fast á bremsurnar, afturkalla efnahagspakka vegna farsóttar og hækka stýrivexti myndarlega, 1 til 1,5% strax, og meira þegar líður á árið. Neikvæðir raunvextir hamla sparnaði og auka lausung í fjármálum fyrirtækja og heimila. Verðtryggð húsnæðislán eru tímasprengja sem tifar hratt með hækkandi verðbólgu.
Víst verður grátið nokkra mánuði en það er mun skárri kostur en yfir 5 prósent verðbólga í nokkur misseri eða ár og óöld á vinnumarkaði. Án aðgerða er fyrirsjáanlegt fjármálafyllerí þar sem langtímahagsmunum er fórnað fyrir stundarhag.
Seðlabankinn hjálpar til með að halda ekki aftur af styrkingu krónunnar. Kaupgeta Íslendinga eykst, það mildar verðbólguskotið. Færri ferðamenn koma með hærra gengi og minni þörf verður á innflutningi vinnuafls. Það er brýnt að hægja á þenslunni meðan afléttingar sóttvarna eru ekki að fullu gengnar fram.
Tíminn er núna. Í vor er of seint í rassinn gripið.
Kata, Bjarni og Sigurður, grípið í neyðarhemilinn. Strax.
![]() |
Húsnæðið hækkar áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)