Miðvikudagur, 3. maí 2017
Sósíalistaflokkur stofnaður í gjaldþroti
Aðaleigandi og útgáfustjóri Fréttatímans, Gunnar Smári Egilsson, stofnar Sósíalistaflokk um leið og fyrirtækið hans er gjaldþrota.
Gunnar Smári stofnaði til útgáfu Fréttatímans í samvinnu við auðmenn. Eftir að hafa platað þá í misheppnað ævintýri er komið að almenningi.
Stuðningsmenn Gunnars Smára koma úr röðum vinstrimanna sem til skamms tíma gerðu sér dælt við Pírata.
Ferill Gunnars Smára frá því að vera handlangari Jóns Ásgeirs á Fréttablaðinu og í milljarðaruglinu með prentsmiðju á Englandi og fríblaðaútgáfu í Danmörku yfir í gjaldþrota Fréttatíma er slíkur að sósíalistar og vinstrimenn hljóta að taka honum fagnandi.
Gjaldþrota rekstur hæfir gjaldþrota hugmyndafræði.
![]() |
Fréttatíminn fer í gjaldþrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 3. maí 2017
Brexit drepur EES-samninginn
Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, mun fyrr heldur en seinna ganga af EES-samningnum dauðum. Samningurinn var upphaflega hugsaður sem áfangi á leið inn í Evrópusambandið.
Það liggur fyrir að hvorki Noregur né Ísland eru á leið inn í Evrópusambandið. Bretar ætla ekki að ganga inn í EES-samninginn. Að þessum tveim forsendum gefnum er augljóst að fyrirkomulagið sem Bretar og ESB semja um sín á milli verður fýsilegri kostur fyrir Ísland og Noreg en núverandi EES-samningur.
Gildi samningsins fyrir Evrópusambandið mun einnig snarminnka eftir að Bretland gengur úr sambandinu. Bretland er mun stærri viðskiptaaðili Evrópusambandsins en Ísland og Noregur til samans. EES-samningurinn verður þriðja flokks útgáfa af samvinnu Evrópuríkja við Evrópusambandið.
Bretland, Noregur og Ísland standa utan Evrópusambandsins vegna þess að ríkjunum er fullveldið kærara en samrunaferli þjóðanna á meginlandi Evrópu. EES-samningurinn grefur jafnt og þétt undan fullveldinu og stenst ekki til frambúðar.
En það er sem sagt beðið eftir Bretum og fyrirkomulagi þeirra á tengslum við Evrópusambandið. Tímaramminn er tvö til fjögur ár.
![]() |
Vilja þjóðaratkvæði um EES-samninginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. maí 2017
Framsókn: klíka án foringja - Vigdís vill nýjan flokk
Framsóknarflokkurinn er pikkfastur í tíu prósent fylgi. Vigdís Hauksdóttir fyrrum þingmaður og samherji Sigmundar Davíðs segir flokkinn orðinn að hræi með dauðastimpilinn 2007.
Vigdís hvetur til stofnunar nýs flokks óánægðra framsóknarmanna. Framsóknarflokkurinn ætti að vaxa og dafna í stjórnarandstöðu en kemst hvorki lönd sé strönd.
Gunnar Bragi Sveinsson fyrrverandi ráðherra flokksins segir stöðu flokksins ,,djöfullega." Klíkuflokkur án foringja er ekki til stórræðanna.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur með 25,2% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. maí 2017
10 ára pólitísk kreppa á Íslandi
Ríkisstjórnir féllu 2009 og 2013 vegna hrunsins. Stjórnmálaflokkar klofnuðu og nýir voru stofnaðir; Borgarahreyfingin, Píratar, Björt framtíð, Viðreisn og Sósíalistaflokkur síðast í gær.
Verkalýðshreyfingin fer ekki varhluta af kreppunni. VR, eitt stærsta verkalýðsfélagið, logar í illdeilum og skiptir reglulega um formann.
Hrunið á tíu ára afmæli eftir 17 mánuði. Við tókum út efnahagskreppuna á fáeinum mánuðum. Frá 2011/2012 er jafn og stöðugur hagvöxtur án atvinnuleysis.
En pólitíska kreppan mun vara í áratug eða lengur. Hrunið 2008 var annað og meira en efnahagsmál. Það var fjörbrot sjálfsmyndar þjóðarinnar. Brotna sjálfsmynd tekur tíma að laga. Þess vegna er enn pólitísk kreppa.
![]() |
Stjórnin fylgdi ekki formanninum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 2. maí 2017
Sósíalismi lifir á fátækt
Til að sósíalismi þrífist þarf fátækt. Efnisleg fátækt, þegar fólk á ekki í sig og á, er ekki til í velferðarsamfélagi eins og því íslenska. Allir sem vilja fá vinnu og geta framfleytt sér.
Í velmeguninni vex fram önnur fátækt, sem nýstofnaður sósíalistaflokkur gerir út á. Fátækt samjafnaðarins birtist í vanmetakennd. Ef maður hefur það ekki ,,jafn gott" og náunginn er maður fátækur.
Samjafnaðarfátækt er alltaf hægt að búa til enda byggist hann á ímyndun um hvernig aðrir hafa það. Sósíalisminn er verkfæri til að búa til raunverulega efnislega fátækt úr ímyndaðri samjafnaðarfátækt.
![]() |
Almenningur nái sínum eignum til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 1. maí 2017
1. maí: gemmér meira, ég er aumingi
Hátíð aumingjanna var í dag, ef einhver skyld hafa misst af sýningunni. Vælandi fulltrúar aumingjanna, flestir með sirka milljón á mánuði eða þar yfir, stigu á stokk og máluðu skrattann á vegginn.
Allir fæðast grátandi en sumir halda áfram út lífið að harma hlutskipti sitt. Flest venjulegt fólk tekur lífinu tveim höndum og gerir úr því það sem efni og aðstæður leyfa. Markmið Íslendingsins fram á síðustu öld var að fjármagna eigin jarðaför.
Borgunarmaður eigin útfarar staðfestir manndóm. Hann fæðist snauður og allslaus en tékkar út í kistu sem hann borgar sjálfur. Það er manndómur. Mottóið í dag er að lifa upp á náð og miskunn annarra. Leggja sem minnst af mörkum og fá sem mest.
Leiðin til að ná markmiðinu er að lýsa sig aumingja. 1. maí er hátíðisdagurinn. Dagurinn er auðvitað notaður til að stofna sósíalistaflokk. Nema hvað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 1. maí 2017
ESB á öngvan vin
Líklegur næsti forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er yfirlýstur stuðningsmaður Evrópusambandsins. En jafnvel hann varar við úrsögn Frakka, líkt og Breta, ef ESB breytist ekki.
Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, boðaði Kjarna-Evrópu í vetur. Aukið samstarf á sviði hermála, efnahags- og stjórnmála fárra kjaraþjóða, t.d stofnríkjanna sex: Frakklands, Þýskalands, Ítalínu og Benelux-landanna.
Macron talar ekki fyrir Kjarna-Evrópu heldur minni afskiptum ESB af fullveldi aðildarríkjanna. Juncker fær engan bandamann þar fyrir draumsýn sína.
![]() |
Frexit óumflýjanlegur án breytinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. maí 2017
Trú, afneitun og vísindi
Vísindi og trúarbrögð eiga það sameiginlegt að boða lífshætti. Við reykjum helst ekki enda vísindalega sanna að reykingar valda skaða. Við fyrirgefum því okkur er kennt að haturshugur sé óhollur.
Lengi vel var trúin ráðandi í lífsvenjum. Miðalda-Íslendingar snæddu ekki hrossakjöt og múslímar borða ekki enn svín. Á seinni tímum eru vísindin mótandi afl, líkt og trúin var fyrrum.
Og alveg eins og í trúmálum er þeir sem efast um ,,viðurkenndar" kennisetningar vísinda kallaðir afneitarar. Vísir segir frá umræðu um afneitara loftslagsvísinda þar sem pólitík, trú og vísindi eru í hrærigraut líkt og trúardeilur í lok miðalda.
Loftslagsvísindi eru fremur ung vísindagrein. Viðfangsefni greinarinnar er náskylt trúarbrögðum, sjálft lífið á jörðinni.
Þegar stórsannleikur er í húfi er gott að hyggja að undirstöðunni. Jay Richards tekur saman 14 atriði sem gilda um vísindaumræðu almennt og loftslagsvísindi sérstaklega. Fyrsta atriðið grípur á kjarna málsins. Þegar óskyldum vísindalegum niðurstöðum er blandað saman verður til óvísindaleg niðurstaða.
Í stuttu máli: heimurinn er að hlýna, um það er almenn samstaða. En það er ekki samstaða um ástæður hlýnunar. Á jörðinni skiptust á hlýskeið og kuldaskeið löngu áður en maðurinn tók að nota jarðefnaeldsneyti. En hreintrúarmenn í loftslagsumræðunni telja brennslu á olíu og bensíni valda loftslagsbreytingum.
Washington Post segir frá baráttu afneitara og hreintrúarmanna um hylli páfa í umræðunni um loftslagsmál. Baráttan ætti að minna okkur á að heilagur sannleikur er ekki til, hvorki í trúmálum né vísindum. Sannleikur kynntur sem heilagur er fjarska brothættur. Marteinn Lúther sýndi fram á það fyrir hálfu árþúsundi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)