Þriðjudagur, 13. desember 2022
Samherjamenn blekktir í Namibíu
Saksóknari í Namibíu ákærir embættismenn og samverkamenn þeirra þar í landi fyrir að hafa í auðgunarskyni blekkt Egil Árnason starfsmann Samherja að greiða 9 milljónir namibískra dollara inn á einkareikning til að kaupa veiðiréttindi í fiskveiðilögsögu Namibíu.
Ákærða, Mike Nghipuny, forstjóra FISHCOR, er gefið að sök að hafa vélað Egil 19. ágúst 2019 til að greiða 9 milljónir namibískra dollara inn á reikning undir því yfirskini að fjárhæðin færi til uppbyggingar fiskeldis.
FISHCOR er opinber stofnun sem m.a. hefur það hlutverk að tryggja að sala á veiðiheimildum nýtist til uppbyggingar namibísku samfélagi. Forstjórinn, Mike Nghipuny, hafi í samstarfi við meðákærðum innheimt fjármuni í nafni namibískra stjórnvalda til persónulegs ávinnings.
Egill Árnason tók að sér umsjón með rekstri Samherja árið 2016 eftir að Jóhannes Stefánsson, síðar uppljóstrari, var rekinn. Jóhannes gerði upphaflegu samningana um kaup á veiðiheimildum.
Samningar um veiðiheimildir fólu sér ýmsar kvaðir kaupenda að leggja fram fjármagn til samfélagslegrar uppbyggingar í Namibíu. Erlendar útgerðir, m.a. Samherji, keyptu veiðiheimildir undir þessum formerkjum. Allt var þetta samkvæmt gildandi lögum í landinu. En peningarnir skiluðu sér ekki þangað sem þeir áttu að fara.
Níu Namibíumenn eru ákærðir fyrir umboðssvik, þjófnað og auðgunarbrot í tengslum við sölu á veiðiheimildum. Þá eru 11 lögaðilar ákærðir, skúffufyrirtæki sem níumenningarnir notuðu til að hylja brotin. Ákæruliðirnir eru samtals 28. Samherji er aðeins einn nokkurra aðila sem sakborningar blekktu til persónulegs ávinnings.
Með stöðu sinni í stjórnkerfinu blekktu þeir ákærðu kaupendur veiðiheimilda, m.a. Samherja, til að halda að viðskiptin væru lögleg.
Meginefni ákærunnar er að níumenningarnir hafi með stöðu sinni í stjórnsýslunni nýtt sér namibíska löggjöf um úthlutun veiðiheimilda til að auðgast persónulega. Fyrrum sjávarútvegsráðherra Namibíu og ríkislögmaður eru meðal sakborninga. Á 5 ára tímabili, 2014 til 2019, var úthlutað veiðiheimildum upp á 474 þúsund tonn af hrossamakríl til FISHCOR.
Öðrum þræði er ákærunni beint að namibískum lögum, sem gerðu ráð fyrir að veiðiheimildir FISHCOR yrðu seldar til að fjármagna pólitísk markmið, t.d. um uppbyggingu innviða, fátækrahjálp og velferð fyrrum hermanna.
Ákæruskjalið, samtals 93 blaðsíður, sýnir allt aðra mynd af atburðarásinni í Namibíu en dregin hefur verið upp af Jóhannesi uppljóstrara og RSK-miðlum, þ.e. RÚV, Stundinni og Kjarnanum.
RÚV heldur því fram að Egill Árnason hafi, ásamt tveim öðrum Íslendingum, verið ákærður í Namibíu. Það er rangt, enginn Íslendingur er ákærður í Namibíu.
Höfuðsök Samherja er að hafa ráðið Jóhannes Stefánsson til að stýra Namibíu-verkefninu. Ótrúr þjónn gerði bandalag við RSK-miðla að sverta mannorð saklausra manna og eyðileggja orðspor Samherja. Það er Namibíumálið í hnotskurn, séð frá íslensku sjónarhorni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. desember 2022
Veruleiki, sérviska og hættuástand
Yfirvofandi ragnarök og tilboð um frelsun frá heimsendi eru einkenni á hreyfingum eins og Ríkisborgurum, segir trúarheimspekingur í viðtali við Die Welt um hreyfinguna á bakvið tilraun til valdaráns í Þýskalandi.
Hliðarveruleiki er fyrirbærið kallað þegar sérviskuhópar búa sér til heimsmynd með heimsendaspám og krefjast vegferðar úr öskunni í eldinn. Innifalið í greiningunni er að til sé hlutlægur veruleiki. Sérviskan verður því verri og hættulegri sem hún víkur meira frá hlutveruleikanum.
Gott og vel.
Hvernig eigum við að flokka útbreidda sérvisku að loftslagið sé manngert og yfirvofandi sé heimsendir vegna koltvísýrings af mannavöldum?
Veruleikafirringin liggur í augum uppi. Koltvísýringur er aðalfæða plantna og forsenda ljóstillífunar. Gildi koltvísýrings í andrúmslofti er mældur með einingunni ppm. Um 400 ppm eru í andrúmsloftinu en sveltimörk plantna eru um 200 ppm. En okkur er sagt að með öllum ráðum ættum við að lækka gildið - og svelta jurtaríkið.
Í raun ættum við að freista þess að hækka koltvísýring í andrúmsloftinu, helst tvöfalda eða meira. Kjöraðstæður plantna er við 1200 til 1400 ppm. Við tvöföldum á CO2 myndi hiti hækka óverulega, um 0,75 gráður, þar sem koltvísýringur hamlar hitatapi jarðkringlunnar. Allir myndu njóta, einkum þeir sem búa á norðlægum breiddargráðum.
Voldug sértrúarhreyfing, með Sameinuðu þjóðirnar í farabroddi, heldur fram trúarsetningunni að koltvísýringur sé eitur sem eigi helst að útrýma. Næði sérviskan markmiðum sínum yrði ólíft á jörðinni.
Hliðarveruleiki loftslagsfirringar tröllríður húsum heimsþorpsins. Við látum gott heita og höldum úr öskunni í eldinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 11. desember 2022
Þórdís og Tucker: hægrimenn í leit að illskunni
Þórdís Kolbrún utanríkis sér illsku Rússa sem rauðan þráð í Úkraínustríðinu. Tucker Carlson segir Selenski forseta og stjórnina í Kænugarði einræðisseggi sem banna heilaga þrenningu: kristni, fjölmiðla og stjórnarandstöðu.
Bæði teljast Þórdís Kolbrún og Tucker til hægrimanna. Íslenski utanríkisráðherrann flokkast til frjálslyndra hægrimanna en bandaríski sjónvarpsmaðurinn er íhaldsmaður.
Pólitísk orðræða, sem skiptir heiminum í gott og illt, höfðar til trúarlegrar sannfæringar um að jarðlífið sé eins og eilífðin, skiptist í himnaríki og helvíti.
En mannlífið er grátt, hvorki alillt né algott.
Óþurft er rétt greining á Úkraínustríðinu. Stríðið var ekki knýjandi nauðsyn heldur afleiðing röð mistaka, sem hófust vorið 2008 þegar leiðtogar Nató buðu Úkraínu og Georgíu inngöngu i hernaðarbandalagið.
Nató er hernaðarbandalag kalda stríðsins þegar Evrópu var, með nokkrum rökum, skipt í gott og illt, kommúnískt einræði og borgaralegt lýðræði. Þriðji heimurinn, vel að merkja, stóð að verulegum hluta utan tvískiptingarinnar.
Til að fá endurnýjun lífdaga urðu stórríki Nató að finna nýja illsku í heiminum að berjast við. Um aldamótin hét illskan hryðjuverk múslíma, sem réttlætti innrásir i Írak og Afganistan. Eftir 2008 á illskan heima í Moskvu og heitir Pútín.
Meintir vinir góða fólksins á vesturlöndum afhjúpa falskar andstæður góðs og ills. Stjórnvöld í Írak og Afganistan reyndust ekki, þegar nánar var að gætt, holdtekja góðmennskunnar heldur spilltir leppar vestrænna hagsmuna. Útreiðin sem Selenskí-stjórnin fær hjá Tucker Carlson sýnir að íhaldsmenn til hægri eru raunsærri en frjálslynda hægrið, sem Þórdís Kolbrún tilheyrir.
Þeir eru fleiri hægra megin í pólitíkinni en Tucker sem sjá hvert stefnir. Í bresku hægriútgáfunni Telegraph eru tekin að birtast sjónarmið ekki jafn stríðsóð og áður. ,,Vestrið má óttast rökhyggju Pútíns," skrifar dálkahöfundur Telegraph Owen Matthews.
Matthews fer með frjálslyndu rulluna að Pútín sé voðalegur maður en bætir við að hann sé rökvís og bjóði nú upp á langt stríð er reyna mun á vestrænu þolrifin.
Matthews upplýsir óafvitandi eitt helsta einkenni frjálslyndu góðmennskunnar. Ef góða fólkið tryði í raun og sann trúarjátningunni um gott og illt myndi það ekki hafa neinar áhyggjur af lengd Úkraínustríðsins. Hið góða hlýtur alltaf að sigra að lokum. Trúarjátningin er aðeins yfirvarp tækifærismennsku, sem er dómgreindarlaus og grunnhyggin.
Í alþjóðasamskiptum gildir grunnlögmál allt frá dögum Pelópsskagastríðsins á fimmtu öld fyrir Krist. Ríki mun, segir lögmálið, ávallt grípa ítrustu úrræði til að verja tilvist sína. Stækkun Nató ógnaði tilvist Rússlands. Afleiðingin var Úkraínudeilan, sem mátti leysa með samningum allt frá 2008. Trúarhroka fylgir einatt blóðsúthellingar.
Góða fólkið vill ekki skilja raunsæislögmálið. Það er þjakað af frelsunarblindu hins sanntrúaða um gott og illt. Bitamunur en ekki fjár er á milli frjálslyndu trúarjátningarinnar á vesturlöndum og íslamskra harðlínuklerka. Í báðum tilvikum er raunsæi útilokað. Í menningunni almennt ber töluvert á frjálslyndri útilokun. Klerkarnir geta þó borið allah fyrir sig sem afsökun. Frjálslynda heimsku þýðir ekki að bera á borð.
Utanríkisráðherra ætti að hyggja að sinni vegferð. Ef haldið er áfram í blindni skiptir engu hvort forysta stærsta stjórnmálaflokksins á Fróni verði í höndum Þórdísar Kolbrúnar eða Kristrúnar Frostadóttur.
![]() |
Fordæma hræðileg mannréttindabrot Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 10. desember 2022
Snorri og ósættið í Evrópu
Þjóðverjar skulda okkur stórt, þeir eyddu þriðjungi pólsku þjóðarinnar í seinna stríði, segir nýr sendiherra Póllands í Þýskalandi.
Í hundrað ár hafa Rússar reynt að eyða úkraínsku þjóðinni, segir fyrrum utanríkisráðherra Úkraínu.
Stórar yfirlýsingar atarna.
Algildur mælikvarði á gott og illt er ekki til samskiptum þjóða. Það er hægt að meta einstök atriði, leggja þau á vogarskálarnar og fella siðferðisdóma. En þegar í senn er undir löng saga og legíó atvika er tómt mál að tala um einhlítan dóm. Veldur þar hver á heldur.
Í stað þess að ræða sögulega sekt er Evrópu nær að hugsa hagnýtt og spyrja hvernig þjóðir álfunnar geti búið saman í sæmilegri sátt.
Evrópusambandið var stofnað eftir seinna stríð til að gera einmitt þetta, að setja álfunni húsreglur. Nató skyldi sjá um eftirfylgni á reglunum, yrði þess þörf. Eftir lok kalda stríðsins var öllum fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu boðin aðild að ESB og Nató.
Einni þjóð var þó haldið utan við sameiginlegar siðareglur - Rússum. Tvennir siðir þýða tvenn lög sem aftur leiða til borgarastyrjaldar. Þorgeir Ljósvetningagoði vissi þetta fyrir þúsund árum á Íslandi. Orðin eru lögð honum í munn af íslenskum sagnameistara germanskrar sögu og trúar, Snorra Sturlusyni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 9. desember 2022
RSK-grunaður ásakar Samherja
Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni gefur til kynna með lævísu orðalagi að fyrrum starfsmenn Samherja í Namibíu eigi yfir höfði sér ákæru. Það er langur vegur frá sannleikanum. Enginn Samherjamaður er ákærður í Namibíu. Ástæðan er einföld.
Jóhannes Stefánsson uppljóstrari vill ekki fyrir nokkurn mun fara til Namibíu í yfirheyrslu. Ferill Jóhannesar er slíkur að hvorki vill hann aftur suður, og sæta afleiðingum gjörða sinna, né yrði honum trúað þótt hann færi. Jóhannes vissi ekki um neina spillingu fyrr en hann gaf sig á vald RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Í Kastljósþætti fyrir tveim árum sagði Jóhannes:
Fyrsta skrefið hjá mér var að upplýsa glæpi Samherja gagnvart kvótahöfum sem voru í samvinnu við þá. Svo þróaðist þetta lengra þegar ég fór að gera mér grein fyrir hvað var í gangi og hvað maður var hluti af.
Jóhannes spann upp sögur af spillingu eftir pöntun RSK-miðla. Hann handvaldi tölvupósta til rökstuðnings ósannindum. Engin gögn, hvorki tölvupóstar né önnur gögn, staðfesta frásögnina. Ekki heldur er um að ræða önnur vitni, sem styðja Jóhannesarguðspjall síðra.
Ef það var spilling í Namibíu var Jóhannes potturinn og pannan í henni. Jóhannes er misheppnaðasti uppljóstrari allra tíma; hann afhjúpaði aðeins sjálfan sig.
Aðalsteinn á Stundinni er sakborningur í þeim anga Samherjamálsins sem tengist Páli skipstjóra Steingrímssyni. Skipstjórinn varð fyrir byrlun og síma hans stolið í maí í fyrra. Aðalsteinn skipti um vinnustað fjórum dögum áður en Páli var byrlað, fór af RÚV á Stundina. Á Stundinni birti Aðalsteinn gögn úr síma Páls. Meðsakborningur Aðalsteins er Þóra Arnórsdóttir fyrrum yfirmaður Aðalsteins á RÚV. Eru tveir plús tveir ekki lengur fjórir?
Aðalsteinn er nær ákæru en nokkur Samherjamaður. Lögreglurannsókn fór fram á háttsemi Aðalsteins. Á bakvið ásakanir á hendur Samherjamönnum eru aðeins RSK-miðlar og Jóhannesarspuni samkvæmt pöntun blaðamanna.
Aðalsteinn er sakborningur, Samherjamenn ekki. Það þarf sérstaka tegund af ósvífni, að ekki sé sagt siðblindu, sakbornings að segja saklausa menn eiga yfir höfði sér ákæru - verandi sjálfur í þeirri stöðu að bíða eftir henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. desember 2022
Valdarán í Berlín og Washington: farsi endalok lýðræðis?
Valdaránssamsærið í Þýskalandi ber svipmót meintrar tilraunar til valdaráns 6. janúar 2021 í höfuðborg Bandaríkjanna. Í báðum tilvikum er um að ræða jaðarhópa annars vegar og hins vegar hugsjúkrar umræðu er sér djöfulinn í hverju horni. Má vart á milli sjá hvorir séu verri andskotar lýðræðis, þeir sem vilja það feigt og yfirlýstir verndarar þess.
Þýska tilraunin er með eilítið gáfulegra yfirbragð. Ríkisborgarar er bandalag ýmissa hópa sem vilja hverfa aftur til upprunaríkisins, sem er stofnun Þýskalands árið 1871. Ártalið er upplýsandi. Þýska keisaradæmið, fyrsta heildstæða þýska ríkið, er ekki nema 150 ára. Lýðræðið í landi Lúters á sér enn skemmri sögu, samfelld saga þess hófst ekki fyrr en nasisminn var kveðinn í kútinn vorið 1945.
Ríkisborgararnir eru ekki nýtt bandalag. Talið er að bandalagið verið til á níunda áratug síðustu aldar, fyrir daga alnetsins og seinni tíma móðursýki.
Meint valdaránstilraun í Washington við embættistöku Biden var í raun óeirð, sem tíðkast í bandarískum borgum, klædd upp sem valdaránsaðgerð af Biden forseta og meðvirkum fjölmiðlum. Móðursýkin fór þar í hæstu hæðir, líkt og hún gerði þegar Trump náði kjöri 2016.
Sagan endurtekur sig, sagði Karl gamli Marx, fyrst sem harmleikur síðan sem farsi. Valdaránstilraunir i tveim stórríkjum vesturlanda, Þýskalands og Bandaríkjanna, eru vísbendingar um að harmleikurinn sé að baki og sagan sé komin á stig farsa.
Valdarán í lýðræðisríki er til höfuðs lýðræðinu, það segir sig sjálft. Að öðrum kosti myndu valdaránsöflin fara leið, sem öllum stendur opin, að vinna framgangi sinna mála með stjórnmálum og taka þátt í kosningum.
Það er skýrt og ákveðið veikleikamerki lýðræðishefðarinnar að opinber umræða telur hættu stafa af valdaráni. Handhafar valdsins magna upp ótta gagnvart jaðarhópum. Hugsunin er í grófum dráttum sú að búa til óvin innanlands til að fá heimildir, t.d. með lagabreytingum, að halda þéttar um valdataumana.
Fátt er heppilegra til að þétta raðirnar en að búa til óvin sem ógnar samfélaginu.
Á síðustu árum og misserum er stöðugleika vesturlanda ógnað á fernum vígstöðvum. Farsóttin, kófið, og viðbrögð yfirvalda grófu undan tiltrú á kerfinu og valdastéttinni. Alþjóðahyggjan, ríkjandi vestræn hugmyndafræði frá lokum seinna stríðs, er á hröðu undanhaldi frá 2016 með Brexit og sigri Trump. Efnahagskreppa í kjölfar kófsins hraðar langtímaþróun versnandi kaupmáttar lág- og millistétta. Fjórðu vígstöðvarnar eru raunverulegar: Úkraínustríðið. Það er langt frá vesturlöndum en hefur róttæk áhrif, pólitísk, efnahagsleg og menningarleg. Eitt lítið dæmi er að Nató, hornsteinn vestræna alþjóðakerfisins í 70 ár, telur að tapist Úkraínustríðið verði það stórkostlegur hnekkir.
Fimmta atriðið er samskiptabylting sem hófst á fyrsta áratug 21. aldar og má kenna við samfélagsmiðla. Andófshreyfingin gegn kaþólsku kirkjunni í byrjun nýaldar studdist við áður óþekkta aðferð til samskipta, prentverkið. Evrópa klofnaði í tvo heima þar sem kaþólikkar og mótmælendur tókust á. Í dag er tístið vettvangur hugmyndabaráttu.
Það má spyrja, í fullri alvöru, hvort vestrænt lýðræði sé að snúast upp í farsa.
![]() |
Fyrrverandi þingkona í valdaránshópnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. desember 2022
Kjarasamningar sem herfang
Samningar um laun á vinnumarkaði eru eins og herfang einstakra forystumanna verkalýðshreyfingarinnar. Vilhjálmur formaður SGS landaði samningi og Sólveig Anna í Eflingu brást ókvæða við; þetta átti að verða hennar herfang.
Enginn í verkalýðshreyfingunni getur þakkað sér að samningar nást, þegar grannt er skoðað. Seðlabanki Íslands á heiðurinn. Með vel tímasettri vaxtahækkun sló bankinn hnefanum í borðið og sagði skæruliðaforingjum verkó að innistæðulausum kauphækkunum yrði mætt af hörku.
Fyrrum lék verkalýðshreyfingin þann leik að knýja fram með verkfalli samninga sem ekki voru í tengslum við efnahagslegan veruleika. Verðbólgan át upp launin og gaf jafnframt óábyrgum verkalýðsforingjum skotfæri í pólitíska kjarabaráttu. Sú herfræði var enn og aftur á dagskrá áður en seðlabankinn skellt í lás.
Herská pólitík forystumanna verkalýðshreyfingarinnar síðustu misseri þjónar ekki hagsmunum launþega. Hvorki m.t.t. kjarabaráttu né félagslegar samheldni. Síðasta ASÍ þingi var frestað vegna óeiningar.
Það stendur upp á verkalýðshreyfinguna að taka til í eigin ranni. Áður en það er um seinan.
![]() |
Ekki eins og þægur hundur við lappir Sólveigar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. desember 2022
Rakel og Helgi vitni í RSK-sakamálinu
Rakel Þorbergsdóttir fyrrverandi fréttastjóri RÚV og Helgi Seljan fyrrum fréttamaður RÚV eru vitni í RSK-sakamálinu. Eftir yfirheyrslur snemma í október í fyrra greindu þau Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra frá stöðu sinni. RSK stendur fyrir RÚV, Stundina og Kjarnann, sem eru vinnustaðir sakborninga í opinberu refsimáli.
Stefán tók sér tvær til þrjár vikur að fara yfir málið. Þann 9. nóvember var tilkynnt að Rakel hætti sem fréttastjóri um áramótin. Stefán virðist ekki hafa borið traust til starfsmanna því hann lét um sinn hjá líða að auglýsa stöðu fréttastjóra. Ef starfsmenn RÚV, sem tengdir eru málinu, hefðu gert hreint fyrir sínum dyrum og upplýst útvarpsstjóra að fullu um málsatvik hefði Stefán ekki beðið með að auglýsa stöðuna. Þegar Rakel hætti um áramót var staðan enn ekki auglýst.
Áður en ákvörðun var tekin um framtíð Helga á RÚV var reynt að hanna þá frásögn að fréttamaðurinn væri að niðurlotum kominn vegna ágangs Samherja. Helgi mætti í nú alræmdan spjallþátt Gísla Marteins þann 15. október að sýna sig sem fórnarlamb. Tilfallandi athugasemd fjallaði um viðtalið, þar segir m.a.
Samkvæmt Helga og Gísla Marteini var það Samherji sem raskaði sálarró fréttamannsins í þeim mæli að hann varð að leita sér sérfræðihjálpar. RÚV gerði klippu úr þættinum til að spila á youtube og kostaði. Myndskeiðið sýndi ofsóttan mann. Klippan var síðar tekin úr umferð.
Samherji hafði beðist afsökunar að hafa andmælt Helga og RSK-miðlum þegar 30. maí, fimm mánuðum fyrir viðtalið. Í fimm mánuði hafði ekki heyrst múkk frá Samherja en Helgi var miður sín allt síðast liðið haust, í veikindafríi og laskaður að eigin sögn.
Lögreglan hafði stuttu áður boðað Helga til skýrslutöku. Fyrsta yfirheyrslan í RSK-sakamálin var 5. október í fyrra, tíu dögum áður en Helgi mætti í settið hjá Gísla Marteini.
Hvers vegna var almenningur, sem greiðir skylduáskrift til ríkisfjölmiðilsins, ekki upplýstur að fréttamaður væri kallaður í yfirheyrslu lögreglu vegna sakamáls? Jú, RÚV ætlaði að hanna frásögn um að lögreglan væri handlangari norðlensku útgerðarinnar. Helgi þótti trúverðugasti leikarinn í hlutverkið. En þar sem hann var aðeins vitni, en ekki sakborningur, mátti ekki undir nokkrum kringumstæðum fréttast að lögreglurannsókn stæði yfir. Við það hefðu vaknað spurningar um hverjir væru sakborningar.
Þegar leið á haustið 2021 var Stefáni útvarpsstjóra, sem er fyrrum lögreglustjóri, ljóst að Helgi gæti ekki starfað áfram innan RÚV. Um áramótin var gengið frá starfslokapakka sem m.a. fól í sér að Helgi skipti um starfsstöð, var fluttur yfir á Stundina, sem er S-ið í RSK.
Helgi og Stefán útvarpsstjóri mættu báðir 15. janúar í viðtal við Fréttablaðið í tilefni starfslokanna. Helgi klappar enn þann stein að málið sé ,,brjálæðislegt". Hvorki Helgi né Stefán minnast einu orði á að lögreglurannsókn standi yfir, sem þó var vitað á þessum tímapunkti. Tilfallandi höfundur skrifaði fyrst um málið 2. nóvember í fyrra og staðfesti rúmri viku síðar að lögreglurannsókn stæði yfir.
Meðvirkur blaðamaður Fréttablaðsins tekur þátt í að breiða yfir sannleikann með því að láta um miðjan janúar eins og ekkert refsimál væri til rannsóknar. Í RSK-sakamálinu þegja fjölmiðlar fremur en að segja. Vinir, kunningjar og samstarfsfélagar í eiga í hlut og þá er hagkvæmast að fólk frétti sem minnst. Blaðamönnum munar ekkert um að efna til samsæris gegn almenningi þegar reynir á samtryggingu fjölmiðla - en heimta samt sem áður ríkisstyrki til að fá launin sín.
Mánuði eftir Fréttablaðsviðtalið við Helga og Stefán upplýstu fjölmiðlar hverjir væru sakborningar í RSK-sakamálinu: Þóra Arnórsdóttir yfirmaður Kveiks, og yfirmaður Helga; Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, sem var í skyndi fluttur af RÚV fjórum dögum fyrir glæpinn.
Sakborningarnir töldu ekki stætt á öðru, þegar hér var komið sögu, en að upplýsa almenning. En þeir vissu í byrjun október, fjórum mánuðum áður, að lögreglurannsókn stæði yfir. Einn sakborninganna, Þórður Snær, skrifaði grein 18. nóvember að glæpurinn væri aðeins í tilfallandi höfði Páls Vilhjálmssonar. Þórður Snær vissi betur. En hann og samverkamenn gátu barið aðra blaðamenn til hlýðni að þegja málið í hel. Dagskrárvald RSK-miðla yfir umræðunni er ógnvekjandi.
RSK-sakamálið snýst um byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans og meðferð á einkagögnum. Auk Páls er annar brotaþoli, enn ónefndur, sem kom fyrir í gögnum í síma Páls og blaðamennirnir eru taldir hafa brotið gegn.
Fjórmenningarnir voru boðaðir í skýrslutöku febrúar í ár en komu sér undan yfirheyrslu þangað til í ágúst. Af þeirri ástæðu og stórum sakamálum norðan heiða, m.a. morðmáli, hefur dregist að gefa út ákærur. Á nýju ári eru ákærur væntanlegar.
Fjórmenningarnir fengu stöðu sakborninga 14. febrúar í ár. Tveim dögum síðar gat Stefán útvarpsstjóri loksins, loksins ráðið fréttastjóra. Útvarpsstjóri vissi ekki hverjir yrðu ákærðir og þurfti að bíða með ráðninguna. Það bendir ekki til að traust ríki á ríkisfjölmiðlinum milli fréttamanna og útvarpsstjóra.
Sakborningurinn Þóra situr enn sem fastast í stöðu yfirmanns RÚV. En Stefán losaði sig um síðustu áramót við Helga og Rakel sem hafa stöðu vitna. Hvers vegna?
Ýmsum spurningum er ósvarað í RSK-sakamálinu. Þegar ákærur verða gefnar út bætast við fleiri púsl, þótt heildarmyndin liggi fyrir.
Blaðamenn, sem eiga að segja fréttir en ekki stunda afbrot, tóku lögin í sínar hendur. Þeir sitja núna í biðsal réttlætisins þöglir sem gröfin um eigin aðild að sakamáli en þykjast fullfærir að veita öðrum aðhald í nafni fjórða valdsins. Sjálfum sér veita þeir ekkert aðhald og njóta meðvirkni annarra blaðamanna og fjölmiðla. RSK-sakamálið er einstakt í vestrænni fjölmiðlasögu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5. desember 2022
Siðagildin á Glæpaleiti
Jólaskapið kemur með ,,laufléttum svipmyndum" af ,,ævintýrum" Hitlers og þriðja ríkisins í Póllandi, segir Gísli Marteinn þegar hann kynnir jóladagskrá þjóðarmiðilsins.
Á Íslandi búa nokkrar þúsundir Pólverja. Af þeirri ástæðu einni ættu Gísli Marteinn og RÚV að biðjast afsökunar.
Á Glæpaleiti er yfirmaður sakborningur í alvarlegu glæpamáli. Yfirmaðurinn býr til dagskrárefni eins og ekkert hafi í skorist. Það sendir skilaboð til annarra starfsmanna að allt sé leyfilegt. Til dæmis má nota barnaefni til að koma höggi á þá sem stofnunin segir ,,vont fólk."
Fjölmiðill sem lítur á lög og siðferði sem hvern annan brandara er til alls vís. Vinnustaðamenning á Glæpaleiti er einfaldlega ekki í lagi.
![]() |
Gagnrýnir grín Gísla Marteins um Hitler |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 4. desember 2022
Fávitaréttur, mannréttindi og lýðræði
Saga mannréttinda er, í grófum dráttum, þessi: fram að frönsku byltingunni 1789 réð forréttindastétt, aðall. Réttlaus þriðja stéttin var allur almenningur. Stéttin þar á milli, önnur stéttin, var klerkaveldið er hafði í megindráttum það hlutverk að miðla málum milli hinna tveggja í anda kristilegs kærleika.
Klerkarnir voru eins og aðallinn forréttindastétt. Málamiðlunin gekk mest út á að verja forréttindi. Almenningur átti að sætta sig við sult og seyru í mannlífinu gegn loforði um himnaríkisvist að loknu jarðlífi.
Í Norður-Evrópu, snemma á nýöld, komu mótmælendur til sögunnar sem rugluðu í ríminu ríkjandi ástand. Fyrirkomulagið hélt þó fram á 19. öld er náttúruréttur verður ríkjandi skoðun. Samkvæmt náttúrurétti eru allir fæddir jafnir og eiga sama tilkall að láta ljós sitt skína.
Önnur stéttin, kennd við klerka, hætti að skipta máli og sneri sér að serimóníum s.s. skírn, fermingu og giftingu. Siðferðileg kjölfesta kirkjunnar gufaði upp í veraldlegu samfélagi. Enginn var lengur handhafi úrskurðarvalds góðs og ills.
Mannréttindi nútímans verða til í þessu umhverfi. Þau þýða að illa gerður til hugar og handa nýtur sömu réttinda og vel gerður einstaklingur.
Fávitavæðing 20. aldar birtist í ismum með forskeyti eins og fas, nas og kommún. Helstu fjöldamorðingjar sögunnar komu fram á sjónarsviðið. Á 21. öld gildir enn að hvaða imbi sem er á sama rétt og hver annar til áhrifa og mannaforráða. Stórir ismar síðustu aldar eru aftur að mestu á bak og burt.
Í skjóli tæknivæðingar s.s. samfélagsmiðla fjölgar þeim stórkostlega sem fá áheyrn og við það tvístruðust stóru ismarnir. Fávitavæðingin birtist í sérgreindum málaflokkum t.d. loftslagi og líffræði. Þar sem áður var viska og þekking er boðið upp á fávisku og vanþekkingu. Með reiknikúnstum í tölvulíkönum er loftslagið gert manngert; líffræðileg kyn eru ekki lengur tvö heldur þrjú, fimm eða seytján.
Fávitar ná forræði í málaflokkum þar sem þeir hópast margir saman. Fáviskan nýtur tæknivæðingar sem breytir lýðræði í atkvæðagreiðslu á samfélagsmiðlum.
,,Umræðan einkennist af pólitískri rétthugsun sem ákveðinn hópur áhrifavalda stjórnar," segir Óttar Guðmundsson geðlæknir og pistlahöfundur. Þeir sem hætta sér inn á lendur fávísinnar eru umsvifalaust útskúfaðir. ,,Mönnum er velt upp úr tjöru og borinn eldur að þeim í beinni útsendingu," segir geðlæknirinn.
Fávitaræði og lýðræði haldast í hendur. Það boðar ekki, í sögulegu ljósi, bjarta framtíð lýðræðis. Er fávitarnir komast í auknum mæli til valda vex þeirri hugsun ásmegin að ekki gangi til lengdar að illa gerðir til hugar og handa ráði ferðinni.
Ekki-fávitarnir sannfærast um að lýðræðið sé fyrir imba. Hver vill búa við imba-lýðræði?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)