Helgi, Gísli Marteinn og flóttaviðtalið

Eitt sérkennilegasta sjónvarpsviðtal seinni ára var sýnt á RÚV 15. október í fyrra. Í settinu voru þrír viðmælendur og Gísli Marteinn spyrill. Einn þremenninganna var Helgi Seljan, þá fréttamaður á RÚV.

Helgi Seljan var þarna, eins og hinir tveir, að ræða fréttir vikunnar. En hann ræddi ekki atburði vikunnar heldur sjálfan sig. Gísli Marteinn spurði Helga ekkert um tíðindi vikunnar. Hann eggjaði starfsbróður sinn áfram sem mesta og stærsta fórnarlamb íslenskrar fjölmiðlasögu. 

Í endursögn Eyjunnar og viðtalinu sjálfu má sjá mann sem er algerlega búinn á því. 

Samkvæmt Helga og Gísla Marteini var það Samherji sem raskaði sálarró fréttamannsins í þeim mæli að hann varð að leita sér sérfræðihjálpar. RÚV gerði klippu úr þættinum til að spila á youtube og kostaði. Myndskeiðið sýndi ofsóttan mann. Klippan var síðar tekin úr umferð.

Samherji hafði beðist afsökunar að hafa andmælt Helga og RSK-miðlum þegar 30. maí, fimm mánuðum fyrir viðtalið. Í fimm mánuði hafði ekki heyrst múkk frá Samherja en Helgi var miður sín allt síðast liðið haust, í veikindafríi og laskaður að eigin sögn.

Hér vantar eitthvað í frásögnina, hún gengur ekki upp.

Stóra púslið, sem skýrir heildarmyndina og er veigamesta skýringin á bágindum sjónvarpsmannsins, er að finna í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar í ár. Skjalið var lagt fyrir héraðsdóm vegna kæru Aðalsteins Kjartanssonar sem vildi ekki mæta til yfirheyrslu. Helgi og Aðalsteinn voru samstarfsfélagar á RÚV og starfa núna báðir á Stundinni.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að fyrsta yfirheyrslan í RSK-sakamálinu fór fram 5. október TÍU DÖGUM áður en Helgi mætti í settið hjá Gísla Marteini. Blaðamenn RSK-miðla fengu í fyrsta sinn staðfestingu að glæpurinn gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni væri í virkri rannsókn.

Það var ekki Samherji sem bankaði upp á veruleika Helga Seljan síðast liðið haust heldur lögreglan. Tilefnið var sakamálarannsókn þar sem líkamsárás með byrlun, stafrænt kynferðisofbeldi, gagnastuldur og friðhelgisbrot koma við sögu.

Menn verða miður sín af minna tilefni. Flóttinn var hafinn. 

Helgi gat ekki sagt að lögreglurannsókn stæði yfir. Samantekin ráð RSK-miðla (RÚV, Stundarinnar og Kjarnans) voru að flýja veruleikann. Þórður Snær ritstjóri Kjarnans fullyrti rúmum mánuði eftir viðtalið við Helga hjá Gísla Marteini að fréttir um sakamálarannsókn væru heilaspuni tilfallandi bloggara. Veruleikafirring á hæsta stigi.

Leiðir Helga Seljan og RÚV skildu um áramótin. Ef hann var jafn veikur og hann lét í veðri vaka um miðjan október hefði það þótt saga til næsta bæjar að ríkisstofnun léti fárveikan mann taka pokann sinn. Blaðamannafélagið hefði andmælt. Fréttir um óviðunandi framkomu RÚV hefðu birst.

Ekkert slíkt gerðist. Ástæðan er sú að þá hefði Stefán útvarpsstjóri verið knúinn til að útskýra brotthvarf Helga af RÚV. En það mátti ekki segja frá lögreglurannsókninni og um hvað hún snýst, - og má ekki enn.

Veruleikinn á það til að buga menn. RÚV sópar honum undir teppið og býr til nýveruleika þar sem gerendur eru fórnarlömb. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þar sem glæpir eru kokkaðir kallast Efstaleiti, Glæpaleiti má ekki nota að ósk útvarpsstjóra.

Hvenær fara erlendir miðlar að segja frá?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 22.8.2022 kl. 07:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband