Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 9. janúar 2022
Vald skrásetjara, sögur og þumall
,,Skrásetjararnir höfðu mikið vald...," segir Marín Árnadóttir sem safnar sögum um sérvitringa og sérkennilegt fólk liðins tíma. Fólkið var söguefnið en þeir sem skráðu réðu eftirmælum.
Skrásetjarar samtímans eru fjölmiðlar og samfélagsmiðlar. Í fréttum og færslum fáum við sögur af samferðamönnum og málsefnum er tíðindum sæta. Skoðanir á mönnum og málefnum verða til með sögum. Fæstir komast yfir allt magnið og af gæðum frásagna fer tvennum sögum (tvíræðni meint).
Í gamla daga fékk saga vængi ef hún þótti snjöll eða sérlega illkvittin. Hvörf urðu í lífi manna við mergjaða sögu. Guðmundur dýri brenndi inni tengdason sinni, og hefði brennt dóttur sína, ef því var að skipta, vegna söguburðar er líkti Guðmundi við hjárænulega gamalá.
Sögur í dag fá vængi með stafrænum þumli, sem kallast læk. Áfram er skrásetjari í aðalhlutverki. Þumall kemur á eftir sögu.
Ósagðri sögu fylgir ekkert vald. Eftirsóknin eftir valdi knýr áfram sagnaflóð þar sem ægir saman aðskiljanlegustu hlutum, hóflegum og ýktum, sönnum og ósönnum, með lítið eða mikið upplýsinga- og skemmtigildi.
Þá kemur þumallinn til bjargar. Þegar annað þrýtur má alltaf færa í letur frásögn um þumla. Barn í reifum sýgur þumalinn áður en það skilur heiminn.
![]() |
Tíðarandi gaf skotleyfi á þetta fólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 8. janúar 2022
RÚV og Fréttin: umdeildir fjölmiðlar
RÚV birtir frétt um að annar fjölmiðill, Fréttin.is, sé umdeildur og ætti ekki að fá leyfi til að mæta á blaðamannafundi.
Í frétt RÚV er Fréttin.is bendluð við falsfréttir og upplýsingaóreiðu.
RÚV lætur falsfrétt standa um að þrír Íslendingar sæti ákæru í Namibíu og nafngreinir þá. En það eru engir Íslendingar sem sæta ákæru í Namibíu. Sú vitneskja hefur legið fyrir frá í október. En áfram stendur falsfrétt RÚV óuppfærð og óleiðrétt.
Lögreglurannsókn stendur yfir á aðild RÚV að eitrun og gagnastuldi. Ekki er vitað til þess að Fréttin.is sé undir lögreglurannsókn.
Spurning hvor fjölmiðillinn sé umdeildari, RÚV eða Fréttin.is
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 7. janúar 2022
Fréttir og kranablaðamennska
Frétt í fjölmiðli er unnið efni af ritstjórn og telst þar með gæðavottað af viðkomandi fjölmiðli.
Kranablaðamennska er þegar fjölmiðill leyfir einhverjum að buna út úr sér frásögn og birtir sem gæðavottaða frétt.
Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri Fréttablaðsins skrifar leiðara til að verja ,,fréttir" blaðsins um ásökun sagnfræðings að seðlabankastjóri sé ritþjófur.
Sigmundur Ernir segir Fréttablaðið hafa skrifað fréttir en í reynd stundaði blaðið kranablaðamennsku. Sagnfræðingurinn fékk að skrúfa frá krananum. Sameiginlegur skilningur beggja, sagnfræðingsins og Fréttablaðsins, var að ef meintur ritstuldur yrði ekki hengdur á seðlabankastjóra yrði tæplega frétt og alls ekki forsíðufrétt.
Með kranablaðamennsku framselur fjölmiðill trúverðugleika sinn. Enginn munur verður á frétt og Facebookfærslu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. janúar 2022
Grátbroslegur skortur á hlýnun
Jörðin hefur ekki hlýnað í 9 ár og þrem mánuðum betur, samkvæmt nákvæmustu mælingum. Þrátt fyrir enga hlýnun ætlar ríkisstjórn Íslands að eyða 60 milljörðum króna í varnir gegn því sem ekkert er, segir okkur Sigríður Andersen.
Viðreisn vill lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar sem hvergi sést á mælum en þess meira í orðagjálfri stjórnmálamanna.
Grátbroslegum skorti á hlýnun fylgir harmleikur heilbrigðrar skynsemi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 5. janúar 2022
Sakbending með samlíkingu er rógur
Tvær samlíkingar eru rökstuðningur fyrir ásökun Fréttablaðsins um að Ásgeir seðlabankastjóri hafi stolið texta Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings. Árni er sjálfur höfundur að báðum samlíkingunum.
Í Fréttablaðinu er beint haft eftir Árna:
Það sem fékk mig núna til þess að rakna úr rotinu með þetta mál er svívirðileg framkoma gagnvart Bergsveini Birgissyni og að Ásgeir skuli segja að hann hafi aldrei verið þjófkenndur fyrr.
Bergsveinn Birgisson hefur sakað Ásgeir um að nýta sér hugmyndir sínar um efnahagslegar forsendur landnáms. Það mál er í farvegi og algjörlega ótengt ásökun Árna. Seðlabankastjóri stendur einfaldlega vel til höggs. Árni og Fréttablaðið nýta sér það.
Seinni samlíkingin er enn langsóttari. Hún er sú að þar sem Ásgeir hafi verið einn af 53 höfundum rannsóknaskýrslu um fall sparisjóðanna hljóti hann að vera ábyrgur fyrir meintum ritstuldi. Ásgeir segir í viðtengdri frétt: Ég var einn þessara 53. Ekkert efni er þó höfundarmerkt mér sérstaklega." Seðlabankastjóri er eftirsóknarvert skotmark. 52 ekki-seðlabankastjórar verða aldrei forsíðuefni.
Það má vel vera að Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur hafi ekki notið höfundarréttar síns og orðið fyrir ritstuldi. En það er ósmekklegt af honum að ásaka seðlabankastjóra með ekkert í höndunum annað en samlíkingar.
Sakbending með samlíkingu er háttur óvandaðra að finna sér sökudólg þegar fátt er um fína drætti í málsatvikum. Sakbending með samlíkingu er rógur.
Fréttablaðið gerir róginn að forsíðufrétt. Þeir sem klæða róg í búning fréttar ætla sér ekki að upplýsa heldur ásaka á fölskum forsendum. Ef nógu margir taka undir verður aldrei spurt um forsendur og rök.
![]() |
Fréttaflutningur Fréttablaðsins óboðlegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 4. janúar 2022
Lögreglurannsóknin á RÚV - flóttinn hafinn
Stutt er í að niðurstöðu lögreglurannsóknar á aðild RÚV að eitrun Páls skipstjóra gagnastuldi. Starfsmenn Efstaleitis sem mega ekki vamm sitt vita, t.d. Einar Þorsteinsson, Sigrún Davíðsdóttir og Broddi Broddason ýmist hætta eða tilkynna brottför áður en ósköpin dynja yfir. Reisnin sem einu sinni var yfir þjóðarmiðlinum fjarar út í orðspori og mannskap.
Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri hætti um áramót, eftir samráð við Stefán útvarpsstjóra og fyrrum lögreglustjóra. Enn hefur Stefán ekki auglýst stöðu fréttastjóra. Flaggskipið Kveikur, sem strandaði í Namibíu, er ekki á dagskrá út janúar hið minnsta.
Starfsmenn RÚV með stöðu grunaðra sitja á vitneskju um stöðu lögreglurannsóknarinnar, þótt ekki sé nema um yfirheyrslur yfir þeim sjálfum. Fjölmiðillinn er þögull sem gröfin en á göngum og í kaffipásum er margt hvíslað. Til dæmis um að flýja sökkvandi skip.
Þeir sem ganga frá borði eftir að lögreglurannsóknin verður heyrinkunn gera það vísast ekki með reisn. Margt mannorðsmorðið var plottað á Glæpaleiti. Nú styttist í skuldadaga.
![]() |
Einar hættir á Rúv og leitar á ný mið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 3. janúar 2022
ESB deyjandi hugmynd, líka í Frakklandi
Frambjóðendur til forseta Frakklands keppast við að afneita Evrópusambandinu. Ekki aðeins þeir frambjóðendur sem koma frá meintu ,,öfgahægri." Fyrrum trúfastir ESB-sinnar hlaupast undan merkjum.
Michel Barnier, sem til skamms tíma sat í framkvæmdastjórn ESB, er orðinn hávær gagnrýnandi miðstjórnarvaldsins í Brussel og vill endurheimta dómsvaldið. Barnier er að svara eftirspurn eftir gagnrýni á ESB.
Þannig deyja hugmyndir, með eftirspurn eftir gagnrýni á kjarna þeirra. Samrunaþróun Evrópu átti sitt blómaskeið í alþjóðavæðingu eftirstríðsáranna. Hátindinum var náð um aldamót með sameiginlegum gjaldmiðli. Eftir það hefur hallað undan fæti.
Hugsjónin er kulnuð. Eftir stendur innantómt kerfið. Það hjarir um sinn. Kommúnisminn treindi líftóruna í tuttugu ár eftir vorið í Prag.
![]() |
Fáni Evrópusambandsins veldur deilum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 2. janúar 2022
2021: Framsókn til gamla Íslands
Framsóknarflokkurinn vann kosningasigur sl. haust, jók fylgið um 6,6 prósent. Aðeins tveir aðrir flokkar á alþingi bætti við sig, Flokkur fólksins og Viðreisn, báðir með innan við tvö prósent fylgisaukningu. Aðrir töpuðu.
Sigur Framsóknar breytti pólitískri orðræðu á Fróni, án þess að eftir því væri tekið. Um langan aldur var Framsókn tákn íhaldssemi, að ekki sé sagt afturhalds.
Vinstriflokkar sáu í Framsókn kyrrstöðu, dreifbýlishyggju og tortryggni gagnvart því sem kallast efnahagslegt og félagslegt frjálslyndi. Efnahagslegt frjálslyndi er frjálshyggja og félagslegt wokeismi. Tvenndin fer saman í alþjóðahyggju sem er í algerri andstöðu við þjóðhyggju Framsóknar.
Frjálslynda vinstrið er með böggum hildar eftir sigur Framsóknar. Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingar segir í grein í Morgunblaðinu stærstu ,,heilsufarsvá samtímans" vera geðheilbrigði. Yfirvarp Helgu Völu er alþjóðakófið frá Kína en það er íslenska framsóknarkófið sem hún óttast.
Draumur Helgu Völu um samstjórn Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar undir merkjum alþjóðlegs frjálslyndis varð að engu í haust. Varaáætlunin um alþjóðavædda vinstristjórn með Vinstri grænum, sósíalistum og Pírötum er rjúkandi rúst. Maður þarf ríkisstyrkta sálfræðihjálp af minna tilefni.
Sigur Framsóknar var sigur gamla Íslands sem er orðið þreytt á opnum landamærum frjáls innflutnings útlendrar vitleysu, svo sem woke, veiru og menguðu kjöti.
Gamla Ísland sótti í sig veðrið á nýliðnu ári. Það er vanmetnasta frétt ársins 2021.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 1. janúar 2022
Göfug lygi
Hlutir og fyrirbæri sem við mætum hversdagslega mynda heild í vitundinni. Þannig starfar meðvitundin. Ekki liggur fyrir tæmandi greining á meðvitundinni, hvorki læknisfræðileg né heimspekileg. En þetta einkenni hennar, að hún er heild, er óyggandi.
Í pistli sem Jordan Peterson skrifaði í Telegraph, og þakkaði breskum háskóla endurnýjað heimboð, sem áður var afturkallað, segist hann hafa notað tækifærið að ræða eftirfarandi pælingu.
Við skynjum heiminn ekki sem sjálfsagðan hlutlægan veruleika staðreynda heldur sem merkingu. Við notum til þess ramma sem við köllum frásögn.
(that we all perceive the world not as a set of self-evident objective material facts, but as a system of meaning, and that we do so by applying a framework which when described is a narrative: a story.)
Frásögnin er heimsskilningur okkar. Án frásagnarinnar væri enginn skilningur, heimurinn væri merkingarleysa ótengdra staðreynda.
Peterson hefur margt og mikið að segja um samtíma okkar og talar af viti. Hugsunin um að frásögnin sé lykillinn að merkingu er afar gömul.
Í Ríkinu eftir Platón, þriðju bók 414C, segir Sókrates: ,,Við verðum að sannfæra helst sjálfa stjórnendurna, en bregðist það þá hina í ríkinu, um einhverja eina göfuga lygi."
Göfug lygi Platóns, sem hann leggur í munn Sókratesar, er réttlæting hvernig grísku borgríki skyldi helst stjórnað. Þrjár stéttir mynda samfélagið. Stjórnendur eru sérfræðistétt þess tíma, þ.e. heimspekingar, löggæsla og landvarnir eru í höndum varðmanna; þriðja stéttin, almúginn, sér til þess að hinar tvær hafi nóg að bíta og brenna.
Fyrirmyndaríki Platóns er til í ýmsum útgáfum á sögulegum tíma. Á miðöldum voru það aðall, kirkja og ánauðugir bændur sem mynduðu stéttirnar þrjár. Í Sovétríkjunum forysta, flokkur og verkalýður. Hjá nasistum foringinn, flokkurinn og þjóðin. Límið í öllum fyrirmyndarríkjunum var sameiginleg miðstýrð frásögn sem allir áttu að trúa, annars hlytu þeir verra af. Bannfæring, Gulag eða fangabúðir í umsjá Gestapo og SS.
Göfug lygi er enn á stjá. William Happer, sem kann loftslagsfræði, ólíkt Grétu Thunberg og Al Gore, flytur fyrirlestur þar sem hann afhjúpar göfuga lygi heimsendaspámanna.
Á litla Íslandi stendur yfir tilraun til að skapa frásögn um að norðlensk útgerð, Samherji, sé glæpafélag. Vinstrimenn upp til hópa trúa frásögninni í anda kennisetningarinnar um göfuga lygi. RSK (RÚV, Stundin og Kjarninn) stendur fyrir lyginni og fær opinbert fé til að halda henni gangandi. Vímuefnasjúklingur, ofbeldismaður og vændiskaupandi er uppspretta lyginnar. Fæstir óbrjálaðir myndu tengja göfuglyndi við heimildina.
RÚV lætur enn standa frétt um að þrír nafngreindir Íslendingar verði ákærðir í Namibíu. Fréttin er röng. Ritstjóri Kjarnans heldur lyginni á lofti í áramótapistli. Ritstjórinn er svo ómerkilegur að hann viðurkennir ekki einu sinni yfirlýsingu í eigin útgáfu um að Namibíumálið er tapað.
Eins og nærri má geta nefnir ritstjóri Kjarnans ekki þá staðreynd að RSK-miðlarnir eru til rannsóknar lögreglu vegna eitrunar Páls skipstjóra Steingrímssonar og þjófnaðar á snjallsíma.
Fyrirsögnin á áramótapistli Kjarnans er ,,Árið sem Samherji baðst afsökunar". Handhöfum ráðandi frásagnar er fátt mikilvægara en að fá afsökunarbeiðni frá þeim sem efast. Þegar tilfallandi bloggari gerði að umtalsefni geðveika játningu postulans Helga Seljan ætlaði allt um koll að keyra. RSK og vinstrið heimtaði að höfundur yrði sviptur atvinnunni fyrir guðlast. Svo var hvíslað í eyra hans: biddu bara afsökunar eins og Samherji.
Frásögn byggð á lygi er blekking. Hugmyndin um göfuga lygi er mótsögn. Lygi er fölsun. En hvers vegna þessi eftirspurn eftir ósannindum?
Sumir eru þannig innréttaðir og þeir hafa knýjandi þörf að trúa illu upp á náungann og að heimurinn sé meira og minna hörmungin ein. Til að þjóna eðlinu er búin til frásögn er fellur að fyrirframgefnum sögulokum. Eftir því sem fleiri taka undir lygina verður frásögnin trúverðugri. Þar gildir hið fornkveðna að ráð heimskra manna gefast verr sem þeir koma fleiri saman.
Lygi er aldrei göfug og þjónar hagsmunum lítilmenna. Einkenni frásagnar lítilmenna er að hún kemur ekki heim og saman við hlutlægar staðreyndir. Heimurinn er að stærstum hluta gerður úr hversdagslegum staðreyndum. Sumum er ofviða að gera sér heilbrigða merkingu úr þeim og ala með sér ranghugmyndir. Í krafti frásagnartækni eru ranghugmyndir seldar sem sannindi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 31. desember 2021
Kolbrún og Skúli, frelsi og sósíalismi
,,Í langan tíma höfum við vegna farsóttar búið við höft sem takmarka mannréttindi fólks, hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar og valda kvíða og ótta," skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins.
Kolbrún bætir við
Hér skal þeim þakkað sem á tímum farsóttar hafa spurt krefjandi og óþægilegra spurninga. Þar á meðal eru stjórnmálamenn, sem reyndar eru flestir úr sama flokknum. Hver skyldi vera skýringin á því?
Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingar skrifar grein í Vísi sem setur orð Kolbrúnar í samhengi
En það segir líka sína sögu að smittölur hafa margfaldast og náð svimandi hæðum einmitt þegar brestir hafa komið í samstöðuna. Þetta er ekki tíminn til að láta frjálshyggjuviðhorf ná yfirhöndinni.
Skúli fer nálægt því að segja ómíkrón-afbrigði Kínaveirunnar Sjálfstæðisflokknum að kenna. Sósíalísk samstaða er svar við loftslagsbreytingum sem og besta sóttvörnin. Frelsið á heima í skúffu embættismanna, segir Skúli efnislega, og þeir skammti okkur leyfi til að strjúka um frjálst höfuð. Allt í nafni samstöðunnar.
Kolbrún bendir á hið augljósa. Þeir sem efast um sósíalískar sóttvarnir koma flestir úr einum flokki. Sósíalistarnir eru í mörgum flokkum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)