Göfug lygi

Hlutir og fyrirbæri sem við mætum hversdagslega mynda heild í vitundinni. Þannig starfar meðvitundin. Ekki liggur fyrir tæmandi greining á meðvitundinni, hvorki læknisfræðileg né heimspekileg. En þetta einkenni hennar, að hún er heild, er óyggandi.

Í pistli sem Jordan Peterson skrifaði í Telegraph, og þakkaði breskum háskóla endurnýjað heimboð, sem áður var afturkallað, segist hann hafa notað tækifærið að ræða eftirfarandi pælingu.

Við skynjum heiminn ekki sem sjálfsagðan hlutlægan veruleika staðreynda heldur sem merkingu. Við notum til þess ramma sem við köllum frásögn.
(that we all perceive the world not as a set of self-evident objective material facts, but as a system of meaning, and that we do so by applying a framework which when described is a narrative: a story.) 

Frásögnin er heimsskilningur okkar. Án frásagnarinnar væri enginn skilningur, heimurinn væri merkingarleysa ótengdra staðreynda.

Peterson hefur margt og mikið að segja um samtíma okkar og talar af viti. Hugsunin um að frásögnin sé lykillinn að merkingu er afar gömul.

Í Ríkinu eftir Platón, þriðju bók 414C, segir Sókrates: ,,Við verðum að sannfæra helst sjálfa stjórnendurna, en bregðist það þá hina í ríkinu, um einhverja eina göfuga lygi."

Göfug lygi Platóns, sem hann leggur í munn Sókratesar, er réttlæting hvernig grísku borgríki skyldi helst stjórnað. Þrjár stéttir mynda samfélagið. Stjórnendur eru sérfræðistétt þess tíma, þ.e. heimspekingar, löggæsla og landvarnir eru í höndum varðmanna; þriðja stéttin, almúginn, sér til þess að hinar tvær hafi nóg að bíta og brenna.

Fyrirmyndaríki Platóns er til í ýmsum útgáfum á sögulegum tíma. Á miðöldum voru það aðall, kirkja og ánauðugir bændur sem mynduðu stéttirnar þrjár. Í Sovétríkjunum forysta, flokkur og verkalýður. Hjá nasistum foringinn, flokkurinn og þjóðin. Límið í öllum fyrirmyndarríkjunum var sameiginleg miðstýrð frásögn sem allir áttu að trúa, annars hlytu þeir verra af. Bannfæring, Gulag eða fangabúðir í umsjá Gestapo og SS.

Göfug lygi er enn á stjá. William Happer, sem kann loftslagsfræði, ólíkt Grétu Thunberg og Al Gore, flytur fyrirlestur þar sem hann afhjúpar göfuga lygi heimsendaspámanna.

Á litla Íslandi stendur yfir tilraun til að skapa frásögn um að norðlensk útgerð, Samherji, sé glæpafélag. Vinstrimenn upp til hópa trúa frásögninni í anda kennisetningarinnar um göfuga lygi. RSK (RÚV, Stundin og Kjarninn) stendur fyrir lyginni og fær opinbert fé til að halda henni gangandi. Vímuefnasjúklingur, ofbeldismaður og vændiskaupandi er uppspretta lyginnar. Fæstir óbrjálaðir myndu tengja göfuglyndi við heimildina.

RÚV lætur enn standa frétt um að þrír nafngreindir Íslendingar verði ákærðir í Namibíu. Fréttin er röng. Ritstjóri Kjarnans heldur lyginni á lofti í áramótapistli. Ritstjórinn er svo ómerkilegur að hann viðurkennir ekki einu sinni yfirlýsingu í eigin útgáfu um að Namibíumálið er tapað.

Eins og nærri má geta nefnir ritstjóri Kjarnans ekki þá staðreynd að RSK-miðlarnir eru til rannsóknar lögreglu vegna eitrunar Páls skipstjóra Steingrímssonar og þjófnaðar á snjallsíma.

Fyrirsögnin á áramótapistli Kjarnans er ,,Árið sem Samherji baðst afsökunar". Handhöfum ráðandi frásagnar er fátt mikilvægara en að fá afsökunarbeiðni frá þeim sem efast. Þegar tilfallandi bloggari gerði að umtalsefni geðveika játningu postulans Helga Seljan ætlaði allt um koll að keyra. RSK og vinstrið heimtaði að höfundur yrði sviptur atvinnunni fyrir guðlast. Svo var hvíslað í eyra hans: biddu bara afsökunar eins og Samherji.

Frásögn byggð á lygi er blekking. Hugmyndin um göfuga lygi er mótsögn. Lygi er fölsun. En hvers vegna þessi eftirspurn eftir ósannindum?

Sumir eru þannig innréttaðir og þeir hafa knýjandi þörf að trúa illu upp á náungann og að heimurinn sé meira og minna hörmungin ein. Til að þjóna eðlinu er búin til frásögn er fellur að fyrirframgefnum sögulokum. Eftir því sem fleiri taka undir lygina verður frásögnin trúverðugri. Þar gildir hið fornkveðna að ráð heimskra manna gefast verr sem þeir koma fleiri saman.

Lygi er aldrei göfug og þjónar hagsmunum lítilmenna. Einkenni frásagnar lítilmenna er að hún kemur ekki heim og saman við hlutlægar staðreyndir. Heimurinn er að stærstum hluta gerður úr hversdagslegum staðreyndum. Sumum er ofviða að gera sér heilbrigða merkingu úr þeim og ala með sér ranghugmyndir. Í krafti frásagnartækni eru ranghugmyndir seldar sem sannindi.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

''Í krafti frásagnartækni eru ranghugmyndir seldar sem sannindi. ''

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.1.2022 kl. 12:56

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki hægt að orða þetta betur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 1.1.2022 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband