Færsluflokkur: Dægurmál

Laumuspil á RÚV, slökkt á Kveik

Á Þorláksmessu var tilkynnt að Baldvin Þór Bergsson yrði yfirmaður Kastljóss RÚV. Kortéri fyrir jól er þægilegt að fela fréttir. Í fréttayfirliti RÚV er hvergi getið um að einn úr stjórnendateymi Stefáns útvarpsstjóra hafi verið sendur inn á fréttadeild að stýra Kastljósi. Baldvin Þór kynnti sjálfur breytinguna með færslu á Facebook.

Lögreglurannsókn stendur yfir á aðild RÚV að stuldi á síma Páls skipstjóra Steingrímssonar og gögnum sem afrituð voru úr snjalltækinu og birt í fylgiritum RÚV, eins og tilfallandi lesendur vita. Til stóð að niðurstaða rannsóknarinnar lægi fyrir í desember en það dregst fram yfir áramót. Baldvin Þór var í skrifstofuvinnu þegar afbrotið var framið og líklega með hreinan skjöld. 

Þar sem niðurstöðu lögreglurannsóknar er beðið getur Stefán útvarpsstjóri ekki auglýst stöðu fréttastjóra. Rakel Þorbergsdóttir hættir á morgun. Nýr fréttastjóri getur illa verið sakamaður en nokkrir eru grunaðir. Ef allt væri með felldu væri búið að rannsaka innanhúss aðkomu starfsmanna að glæpnum og gerðar viðeigandi ráðstafanir. En Stefán útvarpsstjóri treystir ekki undirmönnum sínum að segja satt. (Geðveik staða fréttastofu að yfirmenn treysta ekki sannsögli undirmanna). Á meðan er enginn fréttastjóri. Vinnubrögðin einkennast af lausung og reiðileysi.

Fréttaskýringarþátturinn Kveikur er miðstöð atlögunnar að heilsu og eigum Páls skipstjóra. Kveikur er vikulegur þáttur. En í desember hefur verið slökkt á Kveik.

Á nýju ári gæti slokknað á fleiri týrum á Glæpaleiti en Kveik einum.

 


Siðareglur þingmanna

Sjöunda grein siðareglna alþingismanna hljómar svona:

Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.

Í fimmtu grein c-lið segir að þingmenn skulu

ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni

Sumir þingmenn ættu að lesa betur heima.

 


mbl.is Tóku sér frí rétt fyrir „gellu-takeover“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar sigra ómíkrón án lokana

Bretar eru bjartsýnir á sigur yfir ómíkrón-útgáfu Kínaveirunnar og að sá sigur vinnist án víðtækra samfélagslokana. Bretar taka líklega upp styttri einangrun smitaðra og fylgja þar fordæmi Bandaríkjamanna.

Dálkahöfundur Telegraph þakkar dugnaði Breta að bólusetja og örva með þriðju sprautu að betur takist til í eyríkinu en á meginlandi Evrópu. Íslendingar eru enn betur settir en Bretar með bólusetningar og örvunarskot.

Ómíkron-útgáfan er veldur vægari einkennum en delta-afbrigðið, gildir almennt en sérstaklega hvað varðar bólusetta og örvaða. Sæmilegustu líkur eru á að um miðjan janúar taki ómíkrón-bylgjan að hjaðna hér á landi og ekki þurfi að þreyja veiru á þorra og góu. Nokkuð góð tíðindi það. 


mbl.is Niðurstaða liggur væntanlega fyrir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinggellur og n-orðið

Þingkona kallar sjálfa sig ,,gellu". Sjálfsupphafning með öfugum formerkjum. Bannorð, neikvætt og lítisvirðandi, auglýsir sjálfstraust að ekki sé sagt hroka. Sambærilegt og að bandarískur svertingi noti n-orðið um sjálfan sig. 

Þeim svarta nægir húðleðrið að öðlast rétt til að uppnefna sjálfan sig.

Hvít forréttindakona þarf ekki einu sinni kynþokka til að verða gella að eigin áliti.

 

 


mbl.is Völdu báðar hvítt fyrir „gellu-takeover“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendir: plágur í stað loftslags

Fræðin eru orðin bragðlítil um að manngerð hamfarahlýnun valdi heimsendi. Ragnarökin verða veirur, segja alþjóðastofnanir:

Sér­fræðinga­hóp­ur á veg­um Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar (WHO) er meðal þeirra sem varað hafa við þessu. Þar er ekki aðeins rætt um að næsta plága kunni bæði að vera meira smit­andi og lífs­hættu­legri, held­ur einnig að stutt geti verið í hana.

Yfirstandandi plága er vegna Kínaveirunnar sem á uppruna sinn í rannsóknastofu í Wuhan. Sem sagt manngerð plága.

Eins lengi og heimsendir er manngerður eru sérfræðingar sáttir. Völdin verða alltaf þeirra. Það er jú markmiðið.


mbl.is Stóra plágan er ekki ennþá komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð og samhengi

Umsögnin ,,ég er geðveikur" er á yfirborðinu játning. Tilgangur orðanna getur verið allt annar en að gera hreint fyrir sínum dyrum. Til dæmis að vekja samúð og safna liði í opinberri umræðu.

Áfram Brandon gæti á yfirborðinu verið stuðningur við einhvern Brandon, til dæmis ökuþór, en í raun þýtt fari Joe Biden norður og niður.

Samhengið skiptir máli.


mbl.is Joe Biden hrekktur í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissan og ferðalagið

Öryggi frá vöggu til grafar einkennir velmegunarlífið. Teikn eru um að ekki sé lengur hægt að ganga að því vísu. Farsóttin veldur áhyggjum um heilsu og afkomu, og hefur gert það í tvö ár. Eldgos og jarðskjálftar við túnfót höfuðborgarinnar eru með ófyrirséðum sögulokum.

Farsótt og jarðhræringar sóttu okkur heim um það leyti sem við vorum að jafna okkur á óvissunni sem fylgdi svokölluðu bankahruni 2008. Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur markaði þau pólitísku skil að í fyrsta sinn frá hruni endurnýjar meirihluti á alþingi umboðið. Í áratug var viðvarandi pólitískur ófyrirsjáanleiki. Hornsteinar stjórnskipunar léku á reiðiskjálfi. Þríeykið stjórnarskráin, fullveldið og blessuð krónan var undir fallöxinni.

Horft um öxl er mesta furða hve vel tókst til að lægja öldurnar og finna réttan kúrs úr brimrótinu sem Geir H. Haarde gerði að umtalsefni í beinni útsendingu 6. október 2008.

Menn vaxa af verkum sínum. Gildir líka um þjóðir. Öryggið ofan þilja þarf kjölfestu neðan sjólínu. Á meðan svo háttar er óvissan skemmtun á ferðalaginu.

 


mbl.is Skjálfti upp á 4,2 fannst vel á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú

Við trúum á heilbrigðisvísindin í farsótt. Nema þegar við viljum undanþágur. Trú á manngert veður er útbreidd og að koltvísýringur spilli náttúrulegu loftslagi. Loftslagstrú er þó sett ofan í skúffu þegar fólki langar að ferðast og tekin upp til dygðaskrauts þegar heim er komið.

Maðurinn var ekki hreinni og skírlífari þegar hann trúði á óræðan guð. Veraldleg hentisemi réð ekki síður ferðinni fyrrum en nú um stundir.

Helsti munurinn á óræðum guði og vísindatrú nútímans er að í fyrra tilvikinu er upphaf og eilífð en tilgangslaus endurtekning í seinna fallinu.

Maðurinn sem tegund er ekki nema um 200 þúsund ára. Jörðin er 4,5 milljarða ára. Við höfum fyrir satt að maðurinn hafi orðið til með líffræðilegri þróun. Sem væntanlega stendur enn yfir.

Samkvæmt viðurkenndum vísindum er maðurinn tilviljun. Ef ein stökkbreyting í fyrndinni hefði orðið á annan veg hefðum ,,við" orðið slöngur eða fiðurfé. Svo er hitt sjónarhornið, líka viðurkennt og kallað nauðhyggja, að allt sem er gæti ekki verið öðruvísi. Fyrst líf á annað borð kviknaði á móður jörð hlaut það að leiða til mannskepnunnar. 

Hvorugt sjónarhornið, að lífið sé annað tveggja tilviljun eða lögmál, kemur heim og saman við daglega reynslu okkar, síst nauðhyggja. Við höfum frjálsan vilja. Ég gæti sleppt að skrifa þetta blogg, fengið mér tár og hugsað um fótbolta. Tilviljunin heggur þó nærri. Fyrir 65 milljónum ára spókuðu sig risaeðlur á henni jörð. Hvergi var maðurinn. Fyrir tilviljun eyddu hamfarir stórum eðlunum og bjuggu í haginn fyrir smærri lífverur, fíngerðari og hugvitssamari; okkur. 

Tilviljun er tilgangslaus. Það er sjálf skilgreiningin á tilviljun. En ef það er eitthvað sem einkennir manninn er það leit að tilgangi. Við finnum aldrei tilganginn, með ákveðnum greini, en leitum hans sí og æ, kynslóð fram af kynslóð. Sú leit getur ekki verið sprottin af þróun. Líffræðileg þróun býr ekki til eðlishvötina ,,tilgangslaus leit að tilgangi". Líffræðin gerir okkur hæf að komast af. Aðlögunarhæfni í síbreytilegri náttúru bjó til tegundina. Það er beinlínis andstætt afkomuöryggi að velta vöngum yfir tilgangi. Éta, lifa og fjölga sér er viðurkenndur darwinismi. Önnur spendýr spá ekki í tilgang lífsins.

Aðeins guð gefur tilgang. Á óræða vísu. 

Gleðileg jól 


Hitabylgja á Grænlandi - fyrir 1000 árum

Fyrir 1000 árum var meðalhitinn á Grænlandi um 1,5 gráðum hærri en í dag. Eiríkur rauði flutti þangað og stundaði landbúnað að norrænum hætti. Byggðin þar vestra var möguleg vegna miðaldahlýskeiðsins frá um 900 til 1300. 

Litla ísöld tók við og hélst fram undir 1900. Á miðju því tímabili, á 15. öld, lagðist norræn byggð af í Grænlandi.

Sé horft lengra aftur í tímann var enn hlýrra á Grænlandi en menn hafa löngum talið.

Loftslag breytist og hefur alltaf gert. Nýtt í sögunni er að telja loftslag manngert.


mbl.is Meðalhiti tæplega 20 stigum hærri á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur ekki konur, heldur trans og raun

Til skamms tíma voru konur eins og karlar, hlutlægur veruleiki í mannlífinu. Nú gildir það ekki lengur. Konur eru tvískiptur hópur. Í fyrsta lagi raunkonur, sem hafa verið kvenkyns frá fæðingu, og í öðru lagi transkonur sem voru einu sinni karlar.

Ástæða umskiptanna er menningarleg. Snarklikkaðir fræðimenn og aðgerðasinnar töldu almenningi trú um að kyn væri ekki líffræðilegt ástand heldur félagslegt og huglægt. Samkvæmt fávísisfræðum getur maður ákveðið sjálfur kyn sitt. Ekki nóg með það heldur getur maður líka verið þriðja, fimmta eða seytjánda kynið, kjósi maður svo.

Forsetafrú Frakkland verst ásökunum um að hún sé transkona sökum þess að þær eru orðnar svo margar. Konur hafa tapað sérstöðu sinni með kynrænu kennitöluflakki móðursjúkra karla.

Karlar í auknum mæli gefast upp á karlmennskunni og gerast kerlingar. Af þeirri þróun leiðir að konur eru ekki lengur konur heldur transkonur og raunkonur. Fjölmenning í framkvæmd.

Framför? Nei, menningarlegur fávitaháttur.


mbl.is Leitar réttar síns vegna samsæriskenninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband