Stór orð innihaldsrýr, mest hroki

Stríðið í Úkraínu snýst um frelsi og lýðræði, er algeng réttlæting fyrir vestrænum stuðningi við stjórnina í Kænugarði. Í kalda stríðinu höfðu hugmyndirnar sterk ítök, bæði á vesturlöndum og víða um heim, þar sem frelsi og lýðræði voru andstæður við kommúnískt alræði. Menningarleg mishröðun veldur því að elítur á vesturlöndum standa enn í þeirri trú að hugmyndirnar séu algildar á heimsvísu. Reyndin er allt önnur.

Frelsi og lýðræði voru prufukeyrð í Afganistan og Írak í byrjun aldar og aftur í Líbýu og Sýrland um miðjan síðasta áratug. Hugtökin seldu ekki, vestrið fór halloka. Miðausturlönd eru íslamskt menningarsvæði og nokkur tregða þar að tileinka sér kristnar hugmyndir vestrænar.

Úkraína, á hinn bóginn, er sæmilega kristið á vestrænan mælikvarða og ætti að vera móttækilegt fyrir lýðræði og frelsi. Sama gildir um Rússland enda þarlend menning sú hin sama og í Garðaríki.

Stórar hugmyndir selja sig sjálfar, standi þær undir sér. Að öðrum kosti bíður þeirra grýttur jarðvegur. ESB-hugsjónin, svo dæmi sé tekið, var léleg innflutningsvara á Ísland og gerði sig aldrei sem slík. Ekki einu sinni þegar þjóðin var í taugaáfalli eftir hrun.

Ef vestrið, hér erum við vitanlega að tala um ráðandi elítur á vesturlöndum, tryði í raun og sann á frelsi og lýðræði og algildi hugmyndanna a.m.k. á menningarsvæðinu frá Portúgal til Úral-fjalla, hefði aldrei orðið Úkraínustríð. Vestrið hefði einfaldlega látið tímann vinna að framgangi hugsjónanna. Á öldinni sem er að líða yxu bæði Úkraína og Rússland til ástar á lýðræði og frelsi og líkt og þekkist í Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Stöðug vestræn misþyrming á frelsi og lýðræði gerir hugmyndirnar aftur að gatslitnum flíkum. 

Úkraínustríðið snýst ekki um frelsi og lýðræði, ekki frekar en að krossferðir á miðöldum snerust um vilja guðs. Í stað kaþólsku kirkjunnar sjá vestrænir fjölmiðlar um að blekkja lýðinn, telja honum trú um að kalda stríðið standi enn. Staðfest gjá er á milli hugmynda og veruleika.

Stríðið á gresjum Garðaríkis verður best skilið í samhengi við sígilda valdapólitík heimsvelda og bandalaga þeirra. Í einn stað Bandaríkin og Vestur-Evrópa (ESB) en í annan stað Rússland, sem eftir að stríðsátök brutust út er orðinn náinn bandamaður Kína. Úkraína er þannig í sveit sett að færi landið undir Nató-vestrið væru taldir dagar Rússlands sem heimsveldis. Nægir að líta á landakort til að sannfærast um það.

Á Rússland rétt á því að vera heimsveldi, jafnvel þótt það sé staðbundið? Þannig mætti spyrja. Eiga Bandaríkin heimsvaldarétt? ESB? Nei, ekkert ríki á tilkall til heimsveldis og hefur aldrei átt. Ekki ef við skiljum orðin ,,réttur" og ,,tilkall" siðferðislegum skilningi. En heimsveldi hafa alltaf verið til, a.m.k. frá Forn-Grikkjum að telja. Ein af staðreyndum alþjóðastjórnmála sem þarf að lifa með. Það er hægt að gera þá kröfu að þau hagi sér skikkanlega, sýni skynsemi að ekki sé sagt mannúð. Einkum þau heimsveldi sem kenna sig við frelsi og lýðræði. 

Stríð eru miskunnarleysið uppmálað, gjaldþrot mennskunnar. Til að réttlæta stríð þarf stórar hugmyndir. Vestrið notar hugmyndagóss frá kalda stríðinu. Pútín er Stalín endurfæddur, heimurinn skiptist í austur og vestur, gott og illt, vestrænt lýðræði og kommúnisma. Nema, auðvitað, það er enginn kommúnismi austur í Rússíá. Hefur ekki verið í 30 ár. Orðræðan er úr sér gengin, passar ekki við veruleikann.

Pútín hugsar um öryggi rússneska ríkisins en vestrið um að stækka áhrifasvæði. Áður en til stríðsátaka kom í febrúar á liðnu ári var friður í boði: hlutlaus Úkraína utan hernaðarbandalaga. Er það mátti ekki, orðræða kalda stríðsins var ráðandi.

Almenningur á vesturlöndum lítur stríðsbrölt Nató-ríkjanna hornauga. Engin löngun er til að senda vestræna hermenn þangað austur til að deyja fyrir málstað sem engum er hugþekkur. Stórveldabrölt er áhugamál elítunnar, ekki Jóns og Gunnu.

Heimsveldum er hugmyndafræði nauðsynleg til að réttlæta tilvist sína. Forn-Grikkir kölluðu þá barbara sem ekki tilheyrðu grískri menningu. Barbarinn Alexander mikli og lagði undir sig grísku borgríkin. Rómverjar státuðu af latínu og Pax Romana, Rómverjafriði, sem aðskildi menningu og villimennsku. Alráður vísigoti settist um Róm í byrjun fimmtu aldar sem bar ekki sitt barr eftir það.

Pútín er hvorki Alexander mikli né Alráður vísigoti, ekki frekar en hann sé endurfæddur Stalín. Rússland er staðbundið heimsveldi, ekki með hugmyndafræði til útflutnings. Rússagrýlan er skáldskapur. 

Vestrinu stafar meiri hætta af eigin elítum en Pútín. Vestrænn hroki er upphafið að stríðinu í Garðaríki. Þegar stríðinu lýkur, fyrirsjáanlega með rússneskum sigri, verður skipt um ráðandi öfl á vesturlöndum. Elítan sem sigraði kalda stríðið er komin fram yfir síðasta söludag. Dramb, eins og Forn-Grikkir vissu, er falli næst. 

 

 


mbl.is „Stríð til að drepa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sakborningur segist ekki bloggari

,,Við erum ekki bloggarar" er fyrirsögnin á leiðara félagstíðinda Blaðamannafélags Íslands, sem kom út rétt fyrir nýliðin áramót. Höfundurinn er varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson.

Aðalsteinn er sem blaðamaður Stundarinnar einn fjögurra sakborninga í lögreglurannsókn á byrlun- og gagnastuldi, máli kennt við Pál skipstjóra Steingrímsson. Skipstjórinn varð fyrir samræmdri atlögu RSK-miðla (RÚV, Stundarinnar og Kjarnans)  á heilsu sína, eigur og einkalíf. Málið bíður ákæru.

Þakka ber Aðalsteini játninguna, að hann sé blaðamaður en ekki bloggari. Enginn bloggari myndi ljá máls á aðild að afbroti vegna umfjöllunarefnis. Blaðamenn, á hinn bóginn, víla ekki fyrir sér stunda glæpi við öflun fréttaefnis, eins og dæmin sanna. 

Íslenskt samfélag yrði betra með fleiri bloggurum en færri blaðamönnum. Kannski skrifar varaformaður BÍ í næsta tölublað Blaðamannsins um æskilega fækkun afbrotamanna í stéttinni. Vitað er að afbrotafjölmiðlum fækkar um einn í næstu viku - þegar Stundin og Kjarninn sameinast. 

 


Hamingjan er hörð, ekki málamiðlun

Ríkisvald sem hyggst gera þegna sína hamingjusama mun valda eymd og volæði alls þorra manna. Hamingja einstaklinga er aðeins möguleg ef þeir sjálfir fá tækifæri að leita hennar. Forskrift ríkisvalds að hamingju leiðir óhjákvæmilega til óhamingju.

Katrín forsætis flokkar hamingjuna til mjúku málanna í áramótaávarpi og fylgir þar hefð. Á sama hátt eru efnahagsmál talin til hörðu málanna; mælanleg og afgerandi - á meðan hamingjan er hugarástand.

Einstaklingur, þegn ríkisvalds, er eftir atvikum hamingjusamur eða ekki. Hann getur með hugarfari dimmu í dagsljós breytt, eins og skáldið sagði, eða alið með sér óánægju og fundið lífinu flest til foráttu. Í þeim skilningi er hamingjan hörð, krefst sjálfsaga.

Ríkisvald á hinn bóginn getur ekki dimmu í dagsljós breytt. Aftur er mýgrútur sögulegra dæma um að ríkisvaldið leiði yfir þegnana myrkur um miðjan dag.

Í venjulegu árferði er meginhlutverk ríkisvaldsins, fyrir utan að gæta laga og reglna, að standa fyrir málamiðlun milli hagsmunahópa þjóðfélagsins. Við erum skipulögð í ógrynni hópa; íþróttafélög, sveitarfélög, stjórnmálaflokka, trúfélög, verkalýðsfélög og svo má áfram telja. Endalaus málamiðlun er á milli þessara hópa. Það er, eða á að vera, hlutverk ríkisvaldsins að sjá um að miðla málum á opinberum vettvangi en láta einkalíf fólks að mestu í friði.

Málamiðlunin er vandasöm. Það sést best á undantekningartilfellum, þegar nýrra málamiðlana er þörf. Heimsfaraldurinn var slíkt tilfelli. Þar reyndi verulega á getu ríkisvaldsins til að feta einstigi milli lok, lok og læs hagsmunahópsins annars vegar og hins vegar hópsins látum skeika að sköpuðu. Um tíma var æðsta stjórn ríkisins svo vanmáttug að hún útvistaði valdinu til embættismannastjórnar, þríeykisins.

Hvað varð um hamingjuna í kófinu? Tilfallandi höfundur er framhaldsskólakennari og getur borið vitni um það að sumir nemendur voru sáttir að læra heima, í fjarnámi, á meðan aðrir vanþrifust að hitta ekki skólafélaga. Einstaklingar eru ólíkir, bregðast mismunandi við breyttum aðstæðum. Vel að merkja: allur þorri nemenda, sem ég kenndi, sýndi merki um sjálfstæðari vinnubrögð eftir kóf. Mér fannst það staðfesta orðtakið að neyðin kenni naktri konu að spinna.

Meginlexía faraldursins er að ein stærð hentar ekki öllum. Það er mannlífið í hnotskurn. Við eigum að gjalda varhug við pólitískri hugmyndfræði sem þykist vita það sem aldrei verður vitað; hvernig hver og einn skal haga lífi sínu.  

Í upphafi árs er vert að minnast þess að enginn veit framtíðina. Lífið er þannig að verkefnin koma til okkar, bæði þau sem við verðum að leysa sem einstaklingar og verkefni samfélagsins.

Hamingjan er að stærstum hluta hvers og eins en alls ekki ríkisvaldsins að höndla með.

Gleðilegt nýtt ár.


mbl.is Átti að gæta þess að ræða ekki „mjúku málin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrun fjölmiðla 2023

Á nýju ári verða íslenskir fjölmiðlar fyrir álíka höggi og bankarnir urðu fyrir 2008. Hrun bankanna var fjárhagslegt en siðferðislegt og faglegt hrun blasir við fjölmiðlum. Ríkisfjölmiðillinn RÚV verður afhjúpaður sem loddaramiðill annars vegar og hins vegar miðstöð alvarlegra afbrota á refsilöggjöfinni. RSK-miðlar fá sama orðspor og Kaupþing. Blaðamaður verður álíka skammaryrði 2023 og bankamaður 2008.

Stærsta fréttamál RÚV síðustu fjögurra ára, Namibíumálið, mun renna út í sandinn. Það verður ekki ákært fyrir eitt eða neitt sem snýr að Samherja í Namibíumálinu, hvorki hér á landi né í Namibíu.

Um miðjan nóvember bjó RÚV til frétt um að það hillti undir lok rannsóknar á Samherja. Í fréttinni var lævíslega látið að því liggja að rannsókninni lyki með ákæru. En sé Namibíubréf saksóknara frá október lesið kemur á daginn að ekkert saknæmt hafi fundist í íslensku rannsókninni.  

Loddaramiðillinn RÚV mun þurfa að éta ofan í sig mörg hundruð fréttir síðustu ára sem fullyrtu að Samherja hefði stundað stórfelld afbrot í Namibíu með mútugreiðslum til þarlendra embættismanna. Fyrir tæpum 3 árum fullyrti RÚV að Íslendingar yrðu ákærðir. En það verður enginn Samherjamaður ákærður, hvorki á Íslandi né í Namibíu. 

Eitt og sér ættu endalok Namibíumálsins að valda siðferðislegu og faglegu hruni RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla. En það verður verra.

Yfirmaður á RÚV sem og fyrrverandi starfsmaður, nú blaðamaður á Stundinni, eru sakborningar vegna aðildar að máli er varðar byrlun, gagnastuld og brot á friðhelgi einkalífs. Tveir blaðamenn Kjarnans eru sakborningar í sama máli. Í byrlunar- og gagnastuldsmálinu verður ákært á nýju ári. Í leiðinni verður upplýst um misnotkun RSK-miðla á andlega veikri konu.

Blaðamennirnir fjórir eru margverðlaunaðir af Blaðamannafélagi Íslands fyrir einmitt Namibíumálið og að höndla með stolin gögn frá Páli skipstjóra Steingrímssyni, sem var byrlað til að RSK-miðlar gætu bætt vígstöðuna í Namibíumálinu.

Blaðamenn vita sjálfir hvað bíður þeirra og gerðu ýmsar ráðstafanir til að mæta yfirvofandi hruni. Félag fréttamanna á RÚV sameinaðist Blaðamannafélagi Íslands í vor. Það var gert til að færa siðferðilega og faglega ábyrgð frá Efstaleiti yfir á alla blaðamannastéttina. Félagaskrá Blaðamannafélagsins telur rúmlega 600 manns. Hér er um að ræða stærsta sameiginlega skipbrot fagstéttar í sögunni.

Í haust ákváðu Stundin og Kjarninn að sameinast. Stundin og Kjarninn þurfa nýja kennitölu.  Stundin og Kjarninn sáu fram á fjárhagslegt gjaldþrot vegna málareksturs á árinu. Ekki aðeins þarf að verjast opinberu refsimáli heldur einkamáli þar sem brotaþolar sækja miskabætur. Ríkið ber ábyrgð á kennitölu RÚV, sem mun herja grimmt á sjóði almennings til að standa af sér storminn.

Blaðamenn, bæði á RSK-miðlum og öðrum, gættu þess vandlega að almenningur yrði þess ekki áskynja að raðfalsfréttir og glæpir í kaupbæti væru orðin sérgrein ráðandi hluta íslenskra fjölmiðla.

Enginn starfandi blaðamaður gerði athugasemdir við að þrír sakborningar í byrlunar- og gagnastuldsmálinu voru verðlaunaðir 1. apríl (fyndin dagsetning), hálfum öðrum mánuði eftir að heyrinkunnugt varð um stöðu blaðamannanna í lögreglurannsókn. Hvorki voru fréttir sagðar um samhengið né siðfræðingar inntir álits á fáheyrðum tíðindum að sakborningar í refsimáli fengju verðlaun fyrir heiðarleika. Hvað yrði sagt ef sakborningur í kynferðisbrotamáli yrði kjörinn leikskólakennari ársins?

Hrun og hreingerningar verða meginviðfangsefni íslenskra fjölmiðla á komandi ári og árum. Almenningur mun á hinn bóginn ekki verða upplýstur um það sem RSK-mafían tekur sér fyrir hendur á bakvið luktar dyr. Engin vestræn þjóð býr að jafn meðvirkum blaðamönnum og sú íslenska. RSK-mafían leggur línurnar og 600 blaðamannasálir jarma með. 

 

 


Kuldaleg hamfarahlýnun

Í hitabylgjum er talað um hamfarahlýnun af mannavöldum. Í kuldakasti er veðrið allt í einu orðið náttúrulegt, maðurinn kemur hvergi nærri.

Á jörðinni er ekki eitt veðurkerfi heldur mörg, skrifar loftslagsvísindamaðurinn Richard Lindzen í nýrri skýrslu. Þess vegna sé markleysa að tala um meðalhita á jörðinni, sem er viðmið hamfarasinna.

Í viðtengdri frétt er talað um kuldakastið í Reykjavík en ekki á Íslandi. Almennt er aldrei talað um meðalhita á Íslandi heldur í einstökum landshlutun. Hitafar breytist sáralítið frá ári til árs og því minna sem stærra svæði er undir. Litlar breytingar staðbundnar hafa aftur merkingu. Kalt vor á Suðurlandi skiptir máli fyrir sunnlenska bændur en hefur enga merkingu fyrir vestfirska sjómenn.

Á hinn bóginn eru litlar breytingar yfir langan tíma merkingarbærar. Tíminn sem er undir hleypur þá á hundruðum og þúsundum ára. Það er kaldara núna en það var á miðaldahlýskeiðinu fyrir þúsund árum. Fyrir 6000 árum voru jöklar á norðurslóðum ekki svipur hjá sjón og hlýrra eftir því.

Hamfarasinnar rugla vísvitandi þessu tvennu saman, óverulegum breytingum á staðbundnu veðurfari annars vegar og hins vegar langtímaþróun. Til að bíta höfuðið af skömminni fullyrða hamfarasinnar að ein breyta, manngerður koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti, ráði hitastigi jarðar. Það er fullkominn bábilja.

Fyrir það fyrsta hefur koltvísýringur risið og hnigið frá ómunatíð, löngu áður en maðurinn kom til sögunnar. Koltvísýringur er nú um stundir 400 ppm eða 0,04% af andrúmsloftinu. Þetta hlutfall hefur farið upp í 7000 ppm áður en maðurinn varð til sem tegund. Náttúruferlar ráða ferðinni, ekki mannlegar athafnir.

Í öðru lagi er koltvísýringur aðalfæða plantna. Sveltimörk plantna eru við 200 ppm. Þegar magn koltvísýrings eykst örvast vöxtur plantna, jörðin verður grænni. Kjörvöxtur plantna er við 1200 til 1600 ppm.  

Í þriðja lagi fylgja breytingar á koltvísýringi í andrúmsloftinu breyttum lofthita, sem aftur fylgir yfirborðshita sjávar," skrifar loftslagsvísindamaðurinn Ole Humlum. Það er ekki aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sem veldur hækkandi hita heldur er hærra magn koltvísýrings afleiðing hækkandi lofthita. 

Í fjórða lagi myndu verulegar breytingar á koltvísýringi, t.d. tvöföldun úr 400 í 800 ppm, aðeins valda óverulegri hækkun hitastigs eða 0,75 gráður á C. 

Samspil sólarvirkni og skýjafars eru til muna öflugri breyta en CO2 hvað varðar lofthita.

Vatnsgufa H2O er þrisvar sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Vatnsgufa myndar ský. Blaðamaður Die Zeit, með doktorsgráðu í eðlisfræði, ræddi við einn fremsta loftslagsvísindamann Þjóðverja og forstöðumann veðurfræðistofnunar Max Planck, Bjorn Stevens, og spurði hvort jörðin yrði brátt óbyggileg vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda.

Það er bull sem hefur ekkert með vísindalegan veruleika að gera, svaraði Björn Stevens. (Sjá hér enska útgáfu).

,,Næstu 30 árin verður hnattræn hlýnun ekki lengur í umræðunni," segir Valentína Zharkova sem veit sitthvað um áhrif sólar á veðurfar jarðar og spáir köldu.

Kuldakastið í henni Reykjavík í desember 2022 skyldi þó aldrei vera vísbending um það sem koma skal?

 


mbl.is Verður 71 árs kuldamet slegið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannindi í stríði

,,Stjórn­völd í Kænug­arði segja að loft­varn­ar­kerfi hafi skotið niður all­ar 16 eld­flaug­arn­ar sem Rúss­ar beindu að úkraínsku höfuðborg­inni í morg­un," er fyrsta efnisgrein viðtengdrar fréttar.

Níu línum neðar í sömu frétt kemur þessi setning: ,,40% íbúa í Kænug­arði eru án raf­magns eft­ir árás­irn­ar, að sögn borg­ar­stjór­ans Vitalí Klitsch­ko."

Tjón sem eldflaugar, skotnar niður í háloftum, valda á jörðu niðri er lyginni líkast.


mbl.is Allar 16 eldflaugarnar skotnar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknablaðamennska og meðvirkni með glæpum

,,Aðstandendur Stundarinnar og Kjarnans hafa náð samstöðu um að sameina fjölmiðlana tvo. Nýr miðill með áherslu á rannsóknarblaðamennsku verður reistur á grunni Stundarinnar og Kjarnans í byrjun ársins 2023."

Tilvitnunin er úr yfirlýsingu Stundarinnar sem einn íslenskra fjölmiðla er með sérstakan ,,rannsóknarritstjóra", Helga Seljan, og verður áfram á nýjum fjölmiðli.

Hvað er rannsóknablaðamennska?

Í engilsaxneskum, þýskum og norrænum fjölmiðlaheimi vísar hugtakið til rannsóknar á þjóðfélagslegri slæmsku og spillingu. Blaðamennska af þessu tagi sló í gegn á áttunda áratug síðustu aldar með Bernstein og Woodward í Bandaríkjunum, Watergate-málið; Jan Guillou í Svíþjóð er afhjúpaði ólöglega njósnastarfsemi sænska ríkisins, IB-málið; Gunter Wallraff tók m.a. til athugunar þýska götublaðamennsku og aðstæður tyrkneskra farandverkamanna.

Rannsóknablaðamennska krefst heimildavinnu þar sem bornar eru saman ólíkar heimildir, aðalatriði eru vinsuð úr. Stuðst er við fjölbreyttar heimildir, sumar iðulega nafnlausar. Áfram gildir meginregla blaðamennsku að engin frétt er betri en heimildin fyrir henni. Ekki er nóg að ein heimild gefi upplýsingar um hlutum sé á þennan veg farið eða annan; tvær eða fleiri sjálfstæðar heimildir þarf til að fara með staðhæfingu - ef rannsóknablaðamennskan á að standa undir nafni. Annars heitir það slúður og sögusagnir. 

(Innan sviga er þess að geta að stundum eru blaðamenn sjálfir heimildin. Wallraff dulbjó sig t.d. sem tyrkneskan farandverkamann til að reyna á eigin skinni viðmót þýskra atvinnurekenda. En þetta er undantekning. Án traustra heimilda er rannsóknablaðamennska annað tveggja huglæg upplifun eða skáldskapur, mörkin þar á milli eru óljós.)

Rannsóknablaðamennska RSK-miðla

Á síðustu árum er óformlegt bandalag þriggja miðla RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla um að afhjúpa meinta slæmsku og spillingu í íslensku samfélagi. Náin persónuleg og fagleg tengsl eru á milli aðila á miðlunum. Þóra Arnórs yfirmaður Kveiks á RÚV og Helgi Seljan eru nánir vinir, Helgi var áður á Kveik en er nú á Stundinni. Aðalstein Kjartansson var áður á Kveik/RÚV en flutti í skyndingu vorið 2021 á Stundina sem systir hans Ingibjörg Dögg ritstýrir. Meira um það síðar.

Rannsóknablaðamennska RSK-miðla gerir heimildir að aukaatriði en samspil við stjórnmálaöfl og samfélagsmiðla um að skapa reiðibylgju í samfélaginu að aðalatriði.

Aðförin að Sigmundi Davíð þáverandi forsætisráðherra var þessu marki brennd. RÚV þóttist hafa heimildir undir höndum en viðurkenndi að hafa þær ekki þegar eftir heimildum var gengið. RÚV hafði í takmarkaðan tíma aðgang að Panama-skjölunum svokölluðu, sem staðfestu ekki ásakanir RÚV. Í stað heimilda var búinn til nógu mikill hávaði í samfélaginu til að fólk tryði að heimildir væru á bakvið meinta afhjúpun. En það var bara reykur, enginn eldur.

Í desember 2016 efndu Þóra og Helgi til atlögu að hæstarétti með eina heimild að vopni, klippt og snyrt viðtal við dómara. Undirbúin var bein útsending af mótmælum á Austurvelli sem skipulögð voru samhliða fréttaskýringu. Atlagan rann út í sandinn. Ári seinna sagði formaður Dómarafélagsins, Skúli Magnússon, núverandi umboðsmaður alþingis, að um ,,þaulskipulagða aðgerð" hefði verið að ræða. Engar rannsóknir heldur pólitískur aktívismi.

Samsæri gegn Samherja 2012-2019

Þann 27. mars 2012 var gerð húsleit hjá Samherja á Akureyri að morgni dags. Um nóttina var fréttalið RÚV í sumarbústað í Kjarnaskógi reiðubúið að mæta í morgunsárið við skrifstofur Samherja að mynda húsleitina. Skrifstofur fyrirtækisins í Reykjavík fengu einnig heimsókn í fylgd tökuliðs frá Efstaleiti.

Aðgerðin var skipulögð af Helga og RÚV annars vegar og hins vegar Seðlabanka Íslands. Sama dag og húsleitin var gerð er ítarlegur fréttaskýringarþáttur, Kastljós, sýndur á RÚV. Slíkir þættir taka nokkra daga í vinnslu. En þar sem þátturinn var unninn í samráði við gjaldeyriseftirlit Seðlabanka var hann tilbúinn til sýningar á degi húsleitar sem átti að finna gögn er staðfestu grun RÚV um afbrot.   

Helgi skáldaði skýrslu sem ekki var til og ,,böggaði" gjaldeyriseftirlit Seðlabankans að hefja rannsókn. Aftur eru hér á ferðinni sömu vinnubrögðin, villandi eða alls engar heimildir en þess meiri spuni. Málið fór fyrir öll dómstig og alltaf töpuðu RÚV og Seðlabanki. Skiljanlega þar sem byggt var á skáldskap og spuna en ekki rannsókn. 

Samsæri tveggja ríkisstofnana gegn einkafyrirtæki fékk engar afleiðingar. Stjórnmálamenn og stjórnkerfið almennt þorir ekki fyrir sitt litla líf að fá RÚV upp á móti sér. Efstaleiti er ríki í ríkinu, ræður að stórum hluta dagskrá opinberrar umræðu hér á landi.

Enda hélt RÚV áfram að búa til sakir á hendur Samherja. Í nóvember 2019 kynntu Þóra og Helgi til sögunnar uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson sem kvað Samherja hafa stundað stórfelldar mútugjafir í Namibíu. Sakamálayfirvöld á Íslandi og í Namibíu hafa fínkembt framburð Jóhannesar og tölvupósta hans en ekkert fundið er gefur til kynna saknæmt athæfi Samherja. Fyrirtækið er brotaþoli í eina dómsmálinu sem rekið er vegna ásakana RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla.

Samherji er þægilegt skotmark. Vinstriflokkarnir eru sjálfkrafa bandamenn enda hægt að tengja útgerðina við kvótakerfið sem mörgum er í nöp við. Bæði í Seðlabankamálinu og Jóhannesarmáli og Namibíu nutu RSK-miðlar málafylgju á þingi og samfélagsmiðlum.

Glæpir kallaðir rannsóknablaðamennska

Rannsóknablaðamennska er orð sem RSK-miðlar skreyta sig með án þess að vita hvað það þýðir. Blaðamennskan á þessum bæjum er spuni og pólitískur aktívismi. Óvíst er hvort það voru hrakfarir í gagnvart Samherja eða óhjákvæmileg þróun siðlausra blaðamanna er leiddu RSK-miðla á glæpabraut. En sú varð raunin.

Aðalsteinn Kjartansson hætti fyrirvaralaust á RÚV 30. apríl 2021 og hóf samdægurs störf á Stundinni þótt annað væri látið í veðri vaka morguninn sem hann lét fréttast starfslokin á Efstaleiti.

RSK-miðlar voru komnir í samstarf við andlega veika konu sem tók að sér að byrla og stela farsíma frá Páli Steingrímssyni skipstjóra hjá Samherja. Páll hafði verið óvæginn í gagnrýni sinni á málflutning RSK-miðla, bæði í Seðlabankamálinu og Namibíuspunanum. Blaðamennirnir töldu sig vita að Páll væri potturinn og pannan í andsvörum Samherja við áburði fjölmiðlanna. Gögnin í síma skipstjórans mætti nota til að breyta vígstöðunni, RSK-miðlum í vil.

Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021, þrem dögum eftir að Aðalsteinn skipti af RÚV á Stundina. Páll var meðvitundarlaus til 6. maí. Á þeim tíma var síma skipstjórans stolið og komið til RSK-miðla sem afrituðu hann. Símanum var aftur komið fyrir á sjúkrabeð Páls á meðan hann var meðvitundarlaus.

Aðförin að skipstjóranum var þaulskipulögð. RÚV var miðstöðin en Stundin og Kjarninn sáu um að koma þýfinu í umferð. Samræmd birting var 21. maí. Blaðamenn RSK-miðla töldu þá víst að staðsetningarforrit í síma skipstjórans væru uppfærð þannig að ekki væri hægt að rekja ferðalag símans í þjófahöndum. En Páll hafði kært símastuld þegar 14. maí. Lögreglan var komin á sporið án þess að blaðamenn vissu. Skipulagið var svo ítarlegt að blaðamenn Kjarnans og Stundarinnar hringdu í Pál með tíu mínútna millibili daginn fyrir birtingu.

Blaðamannastéttin meðvirk RSK-miðlum

Aðalsteinn fékk blaðamannaverðlaun ársins fyrir að koma þýfi í umferð. Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum hlutu verðlaun fyrir rannsóknablaðamennsku á sömu forsendum. Glæpir og rannsókn eru samheiti hjá Blaðamannafélagi Íslands.

Glæpir eru ekki og verða aldrei rannsóknablaðamennska. Íslenska fjölmiðla setur niður þegar fagfélag blaðamanna verðlaunar lögbrot. Enginn starfandi blaðamaður, svo vitað sé, hefur opinberlega mótmælt siðleysi Blaðamannafélags Íslands. Stéttin í heild er meðvirk blaðamönnum sem greina ekki á milli afbrota og heilinda. 

Stundin og Kjarninn sameinast í byrjun árs 2023. Ekki þarf neina rannsókn til að álykta hvers vegna Stundin og Kjarninn þurfa nýja kennitölu. Á nýju ári verður blaðamönnum RSK-miðla birt ákæra fyrir aðild að byrlun, stuldi og broti á friðhelgi einkalífs. 

 

 

 


Eins árs Úkraínustríð?

Úkraínsk yfirvöld boða friðarsamninga eftir tvo mánuði, á ársafmæli stríðsins. Orð eru til alls fyrst. Engin veit hver staðan verður á vígvellinum eftir átta vikur. Rússar bæta um 300 þús. hermönnum við lið sitt um þessar mundir. Úkraínumenn geta ekki svarað í sömu mynt. Þeir eru ekki nógu margir.

Síðasta stóra fréttin um betri vígstöðu Úkraínu er Patriot-eldflaugakerfin sem ekki verða tekin í þjónustu fyrr en í sumar. Kannski að úkraínsk herkænska sé meiri en rússnesk og það bæti upp liðsmun. Ekki hefur það hingað til raungerst á vígvellinum

Í sumar sagði Selenskí Úkraínuforseti að stríðinu yrði að ljúka fyrir veturinn. Köldustu mánuðirnir þar eystra eru janúar og febrúar. Í byrjun desember sagði forsetinn að þjóðin yrði að þrauka veturinn.

Stríðið í Garðaríki er það fyrsta frá lokum seinna stríðs þar sem nútímaríki sem a.m.k. er vestrænt að hluta berst fyrir tilveru sinni. Engar hliðstæður eru til að styðjast við er gefa vísbendingar um þanþol úkraínska samfélagsins. Hitt er vitað að án vestræns stuðnings, einkum Bandaríkjanna og ESB-ríkja, væru úrslit löngu ráðin, Rússum í vil. Í þeim skilningi er sléttustríðið átök tveggja heima. Vestrænn einpólaheimur stendur gegn austrænum margpóla heimi. Með öðrum orðum: Bandaríkin gegn Rússlandi studdu af Kína.  

Stjórnin í Kænugarði er milli tveggja elda. Í einn stað getur hún ekki samið á meðan rússneskur her situr stórt úkraínskt landssvæði. Eftirgjöf lands þýddi stjórnarbyltingu í Kænugarði. Í annan stað eru bæði innviðir Úkraínu og herinn á heljarþröm. Friðarsamningar eru þó hótinu skárri en uppgjöf.

Rússar ætluðu sér stutt stríð í fyrstu. Þegar það brást bjuggu þeir sig undir langt stríð, jafnvel mælt í árum. 

Ef gefið er að á vígvellinum gerist fátt stórvægilegt næstu vikurnar verða það heimavígstöðvarnar í Úkraínu annars vegar og hins vegar Rússlandi sem ráða úrslitum um hvort annar stríðsaðilinn sé tilbúinn að gefa nóg eftir til að friður verði saminn.

Þar stendur Úkraína verulega verr að vígi. Stríðið er háð á úkraínsku landi þar sem eldflaugaárásir á innviði, s.s. raforkudreifingu, leggur daglegt líf í rúst. Innviðir Rússlands eru að mestu utan skotfæris. 

Efnahagskerfi Rússlands er þó í skotlínu. Vestrænar þjóðir hafa allt frá innlimun Krímskaga 2014 beitt Rússa margvíslegum efnahagsþvingunum. Þýska útgáfan Die Welt, sem eins og þorri vestrænna fjölmiðla er andsnúin Rússum, fór yfir áhrif refsiaðgerðanna.

Samkvæmt þýsku útgáfunni hefur efnahagskerfi Rússlands staðið af sér refsiaðgerðir. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn spáði Rússlandi 8,5% samdrætti í apríl, 6% í júlí og 3,4% í október. Fyrir næsta ár hefur spá um samdrátt verið breytt úr 3,5% í 2,3%. Ekki beinlínis hamfarir. Staðan í Rússlandi er betri en víðast á vesturlöndum.

Þýska útgáfan telur meginástæðuna fyrir aðlögun Rússlands að verri efnahagsskilyrðum vera tvíþætta. Í fyrsta lagi hafi lítil og meðalstór fyrirtæki fundið nýja markaði og nýja birgja. Í öðru lagi að rússneska tækni- og sérfræðingaelítan, sem er vestræn í hugsun og háttum, féllst á réttmæti stríðsins.

Á vesturlöndum var búist við að Pútín myndi í stríðsrekstrinum einangrast og yrði jafnvel steypt af stóli. Engin teikn eru um annað en að forseti Rússlands búi að traustum stuðningi, bæði elítu og almennings. Rússar virðast líta svo á að sléttuátökin séu seinna ættjarðarstríðið. Það fyrra var gegn þýskum herjum fyrir miðbik síðustu aldar.

Stríðið í Úkraínu heldur áfram á meðan hvor um sig stríðsaðilinn telur sig geta bætt stöðu sína á orustum og heimavígstöðvarnar halda sjó. Á meðan er ungum karlmönnum fórnað í þúsundavís. Hryggilegt.  


mbl.is Vonast eftir friðarviðræðum í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðsþöggun

Guð er, ef hann er, burtséð frá trú manna eða vantrú. Enginn, sem á annað borð trúir, efast um guð. Aðrir, kannski flestir, láta sér fátt um finnast, lifa og hrærast án íhugunar um annað er hönd á festir. Fáeinir, á hinn bóginn, gera fár yfir guðstrú annarra og ólmast út í viðtekna siði.

Á hverjum tíma eru meðal okkar bæði viðrini og snillingar sem hafna viðteknum sannindum. Við sjáum ekki fyrr en frá líður hvaða spámenn voru í hvorum hópi. Íhald er þar betra viðmið en róttækni. Helför tveggja isma síðustu aldar, með forskeytin nas og kommún, er áminning um óhjákvæmilega endastöð róttækni.  

Í þúsund ár og 22 betur er kristni viðtekin hér á landi. Nokkuð fjörugt var í trúarlífinu á köflum, t.d. við siðaskiptin um miðja 16. öld. Eftir það varð lúterska ríkistrú og er enn í dag, þó útvötnuð.

Biskup segir ekki vinsælt að nefna Jesú í opinberri umræðu. Ástæðan er að Jesú á ekki heima í opinberri umræðu. Trú er fyrir löngu orðin einkamál. Mönnum er frjálst að eiga hana eða ekki. Við segjum guð hjálpi þér, þegar einhver hnerrar, af kurteisi en ekki trúarsannfæringu. Þeir sem halda annað eru illa siðaðir.

Kristni er margfalt meira en trú. Kristni er siðir, venjur og lífsviðhorf genginna kynslóða. Fræðsla í kristni er nauðsynleg siglingafræði um mannlífið. Menn geta staðið innan eða utan trúfélaga en þurfa engu að siður að kunna skil á siðum og venjum. Annars verða þeir óalandi og óferjandi.

Kirkjan ber sjálf nokkra ábyrgð hvernig er komið fyrir kristni. Í stað kjarngóðrar gamaldags kristni eltir kirkjan tísku sem er ein í dag og önnur á morgun. Kirkjan á öllum tímum reynir að virka á samfélagið sem hún þjónar, það er köllun hennar. Hún hlýtur þó alltaf að vera síðust að taka upp nýbreytni í samfélagsviðhorfum. Eilíf sannindi eru sérgrein kirkjunnar, ekki hégómi hversdagsins.

Sjálfsupphafning mannsins er leiðarstef veraldarhyggju samtímans. Maðurinn er í senn almáttugur, ræður kyni sínu og loftslagi jarðar, burtséð frá líffræði og sögulegum staðreyndum, en jafnframt tortímandi lífs á jörðu. Róttæku viðrinin, sem telja sig snillinga, eyðileggja menningarverðmæti undir formerkjum góðmennsku. Það er eins og að skjóta sig í hausinn til að öðlast betra líf. Slíkur félagsskapur hlýtur að vera kirkjunni framandi.

Kirkjan á að bjóða upp á samveru við sannindi sem maðurinn getur aðeins haft hugboð um, treyst á að er og verði yfirskilvitleg. Námundun í eilífðarmálum er betri kostur en fullvissa. Hryðjuverk eru framin í nafni fullvissu. Óvissa er aftur móðir hennar íhygli.  

Guð sem léti þagga niður í sér stæði ekki undir nafni. Þöggunin er öll kirkjunnar þar sem froðan hylur kjarnann.

  


mbl.is Ekki vinsælt að nefna nafn guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biður RÚV Samherja afsökunar?

Níu Namibíumenn eru ákærðir í dómsmálinu sem rekið er í Namibíu, og snýst um úthlutanir veiðiheimilda. Kjarni dómsmálsins breytingar eru sem gerðar voru á fiskveiðilöggjöf landsins árið 2015 og hvernig þeim var framfylgt.

Einn ákærðra, Bernhardt Esau, var sjávarútvegsráðherra Namibíu 2010 til 2019. Namibian Sun hefur eftir Esau að tilgangur lagabreytinganna 2015 hafi verið  ,,að opna iðnaðinn og afnema einokun Namsov og Erongo Marine Enterprises."

,,Mér var hótað fangelsi eftir að ég lækkaði kvóta Namsov og Erongo Marine Enterprises," segir Esau í frétt Namibian Sun.

Lagabreytingarnar 2015 fólu í sér að opinberri stofnun, Fishcor, var heimilt að selja kvóta í þágu samfélagslegra verkefna. Kvóti Fishcor var tekinn af heildarkvóta. Aðrir, t.d. Namsov og Erogo, fengu minna úthlutað

Tilfallandi athugasemd sagði frá einu aðkomu Samherja að dómsmálinu þar syðra. Samherji einfaldlega keypti kvóta af Fishcor og greiddi fyrir samkvæmt gildandi lögum og reglum. Samherji er brotaþoli, útgerðin var blekkt af namibískum embættismanni, undirmanni Esau.

Fyrir utan dómsmálið í Namibíu eru íslensk yfirvöld með til rannsóknar gögn sem uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson og RÚV afhentu í framhaldi af Kveiks-þætti haustið 2019.

Bréf sem héraðssaksóknari sendi til Namibíu síðast liðinn október og Tilfallandi athugasemd fjallaði um gefur til kynna að rannsóknin hér á landi sé enn á byrjunarreit. Auk héraðssaksóknara er skattrannsóknastjóri með gögn Jóhannesar og RÚV til skoðunar.

Þegar það rennur upp fyrir íslenskum sakamálayfirvöldum að þar syðra í Namibíu er rekið dómsmál sem lýtur eingöngu að spillingu í embættismannakerfinu eru meiri líkur en minni að Namibíumálið, sem RÚV og RSK-miðlar kalla alltaf Samherjamálið, verði fellt niður á Íslandi.

Mun RÚV biðja Samherja afsökunar?

Önnur spurning, öllu mikilvægari:

Verður RÚV lagt niður þar sem stofnunin er stórhættuleg réttarríkinu? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband