Rannsóknablaðamennska og meðvirkni með glæpum

,,Aðstandendur Stundarinnar og Kjarnans hafa náð samstöðu um að sameina fjölmiðlana tvo. Nýr miðill með áherslu á rannsóknarblaðamennsku verður reistur á grunni Stundarinnar og Kjarnans í byrjun ársins 2023."

Tilvitnunin er úr yfirlýsingu Stundarinnar sem einn íslenskra fjölmiðla er með sérstakan ,,rannsóknarritstjóra", Helga Seljan, og verður áfram á nýjum fjölmiðli.

Hvað er rannsóknablaðamennska?

Í engilsaxneskum, þýskum og norrænum fjölmiðlaheimi vísar hugtakið til rannsóknar á þjóðfélagslegri slæmsku og spillingu. Blaðamennska af þessu tagi sló í gegn á áttunda áratug síðustu aldar með Bernstein og Woodward í Bandaríkjunum, Watergate-málið; Jan Guillou í Svíþjóð er afhjúpaði ólöglega njósnastarfsemi sænska ríkisins, IB-málið; Gunter Wallraff tók m.a. til athugunar þýska götublaðamennsku og aðstæður tyrkneskra farandverkamanna.

Rannsóknablaðamennska krefst heimildavinnu þar sem bornar eru saman ólíkar heimildir, aðalatriði eru vinsuð úr. Stuðst er við fjölbreyttar heimildir, sumar iðulega nafnlausar. Áfram gildir meginregla blaðamennsku að engin frétt er betri en heimildin fyrir henni. Ekki er nóg að ein heimild gefi upplýsingar um hlutum sé á þennan veg farið eða annan; tvær eða fleiri sjálfstæðar heimildir þarf til að fara með staðhæfingu - ef rannsóknablaðamennskan á að standa undir nafni. Annars heitir það slúður og sögusagnir. 

(Innan sviga er þess að geta að stundum eru blaðamenn sjálfir heimildin. Wallraff dulbjó sig t.d. sem tyrkneskan farandverkamann til að reyna á eigin skinni viðmót þýskra atvinnurekenda. En þetta er undantekning. Án traustra heimilda er rannsóknablaðamennska annað tveggja huglæg upplifun eða skáldskapur, mörkin þar á milli eru óljós.)

Rannsóknablaðamennska RSK-miðla

Á síðustu árum er óformlegt bandalag þriggja miðla RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla um að afhjúpa meinta slæmsku og spillingu í íslensku samfélagi. Náin persónuleg og fagleg tengsl eru á milli aðila á miðlunum. Þóra Arnórs yfirmaður Kveiks á RÚV og Helgi Seljan eru nánir vinir, Helgi var áður á Kveik en er nú á Stundinni. Aðalstein Kjartansson var áður á Kveik/RÚV en flutti í skyndingu vorið 2021 á Stundina sem systir hans Ingibjörg Dögg ritstýrir. Meira um það síðar.

Rannsóknablaðamennska RSK-miðla gerir heimildir að aukaatriði en samspil við stjórnmálaöfl og samfélagsmiðla um að skapa reiðibylgju í samfélaginu að aðalatriði.

Aðförin að Sigmundi Davíð þáverandi forsætisráðherra var þessu marki brennd. RÚV þóttist hafa heimildir undir höndum en viðurkenndi að hafa þær ekki þegar eftir heimildum var gengið. RÚV hafði í takmarkaðan tíma aðgang að Panama-skjölunum svokölluðu, sem staðfestu ekki ásakanir RÚV. Í stað heimilda var búinn til nógu mikill hávaði í samfélaginu til að fólk tryði að heimildir væru á bakvið meinta afhjúpun. En það var bara reykur, enginn eldur.

Í desember 2016 efndu Þóra og Helgi til atlögu að hæstarétti með eina heimild að vopni, klippt og snyrt viðtal við dómara. Undirbúin var bein útsending af mótmælum á Austurvelli sem skipulögð voru samhliða fréttaskýringu. Atlagan rann út í sandinn. Ári seinna sagði formaður Dómarafélagsins, Skúli Magnússon, núverandi umboðsmaður alþingis, að um ,,þaulskipulagða aðgerð" hefði verið að ræða. Engar rannsóknir heldur pólitískur aktívismi.

Samsæri gegn Samherja 2012-2019

Þann 27. mars 2012 var gerð húsleit hjá Samherja á Akureyri að morgni dags. Um nóttina var fréttalið RÚV í sumarbústað í Kjarnaskógi reiðubúið að mæta í morgunsárið við skrifstofur Samherja að mynda húsleitina. Skrifstofur fyrirtækisins í Reykjavík fengu einnig heimsókn í fylgd tökuliðs frá Efstaleiti.

Aðgerðin var skipulögð af Helga og RÚV annars vegar og hins vegar Seðlabanka Íslands. Sama dag og húsleitin var gerð er ítarlegur fréttaskýringarþáttur, Kastljós, sýndur á RÚV. Slíkir þættir taka nokkra daga í vinnslu. En þar sem þátturinn var unninn í samráði við gjaldeyriseftirlit Seðlabanka var hann tilbúinn til sýningar á degi húsleitar sem átti að finna gögn er staðfestu grun RÚV um afbrot.   

Helgi skáldaði skýrslu sem ekki var til og ,,böggaði" gjaldeyriseftirlit Seðlabankans að hefja rannsókn. Aftur eru hér á ferðinni sömu vinnubrögðin, villandi eða alls engar heimildir en þess meiri spuni. Málið fór fyrir öll dómstig og alltaf töpuðu RÚV og Seðlabanki. Skiljanlega þar sem byggt var á skáldskap og spuna en ekki rannsókn. 

Samsæri tveggja ríkisstofnana gegn einkafyrirtæki fékk engar afleiðingar. Stjórnmálamenn og stjórnkerfið almennt þorir ekki fyrir sitt litla líf að fá RÚV upp á móti sér. Efstaleiti er ríki í ríkinu, ræður að stórum hluta dagskrá opinberrar umræðu hér á landi.

Enda hélt RÚV áfram að búa til sakir á hendur Samherja. Í nóvember 2019 kynntu Þóra og Helgi til sögunnar uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson sem kvað Samherja hafa stundað stórfelldar mútugjafir í Namibíu. Sakamálayfirvöld á Íslandi og í Namibíu hafa fínkembt framburð Jóhannesar og tölvupósta hans en ekkert fundið er gefur til kynna saknæmt athæfi Samherja. Fyrirtækið er brotaþoli í eina dómsmálinu sem rekið er vegna ásakana RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla.

Samherji er þægilegt skotmark. Vinstriflokkarnir eru sjálfkrafa bandamenn enda hægt að tengja útgerðina við kvótakerfið sem mörgum er í nöp við. Bæði í Seðlabankamálinu og Jóhannesarmáli og Namibíu nutu RSK-miðlar málafylgju á þingi og samfélagsmiðlum.

Glæpir kallaðir rannsóknablaðamennska

Rannsóknablaðamennska er orð sem RSK-miðlar skreyta sig með án þess að vita hvað það þýðir. Blaðamennskan á þessum bæjum er spuni og pólitískur aktívismi. Óvíst er hvort það voru hrakfarir í gagnvart Samherja eða óhjákvæmileg þróun siðlausra blaðamanna er leiddu RSK-miðla á glæpabraut. En sú varð raunin.

Aðalsteinn Kjartansson hætti fyrirvaralaust á RÚV 30. apríl 2021 og hóf samdægurs störf á Stundinni þótt annað væri látið í veðri vaka morguninn sem hann lét fréttast starfslokin á Efstaleiti.

RSK-miðlar voru komnir í samstarf við andlega veika konu sem tók að sér að byrla og stela farsíma frá Páli Steingrímssyni skipstjóra hjá Samherja. Páll hafði verið óvæginn í gagnrýni sinni á málflutning RSK-miðla, bæði í Seðlabankamálinu og Namibíuspunanum. Blaðamennirnir töldu sig vita að Páll væri potturinn og pannan í andsvörum Samherja við áburði fjölmiðlanna. Gögnin í síma skipstjórans mætti nota til að breyta vígstöðunni, RSK-miðlum í vil.

Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021, þrem dögum eftir að Aðalsteinn skipti af RÚV á Stundina. Páll var meðvitundarlaus til 6. maí. Á þeim tíma var síma skipstjórans stolið og komið til RSK-miðla sem afrituðu hann. Símanum var aftur komið fyrir á sjúkrabeð Páls á meðan hann var meðvitundarlaus.

Aðförin að skipstjóranum var þaulskipulögð. RÚV var miðstöðin en Stundin og Kjarninn sáu um að koma þýfinu í umferð. Samræmd birting var 21. maí. Blaðamenn RSK-miðla töldu þá víst að staðsetningarforrit í síma skipstjórans væru uppfærð þannig að ekki væri hægt að rekja ferðalag símans í þjófahöndum. En Páll hafði kært símastuld þegar 14. maí. Lögreglan var komin á sporið án þess að blaðamenn vissu. Skipulagið var svo ítarlegt að blaðamenn Kjarnans og Stundarinnar hringdu í Pál með tíu mínútna millibili daginn fyrir birtingu.

Blaðamannastéttin meðvirk RSK-miðlum

Aðalsteinn fékk blaðamannaverðlaun ársins fyrir að koma þýfi í umferð. Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum hlutu verðlaun fyrir rannsóknablaðamennsku á sömu forsendum. Glæpir og rannsókn eru samheiti hjá Blaðamannafélagi Íslands.

Glæpir eru ekki og verða aldrei rannsóknablaðamennska. Íslenska fjölmiðla setur niður þegar fagfélag blaðamanna verðlaunar lögbrot. Enginn starfandi blaðamaður, svo vitað sé, hefur opinberlega mótmælt siðleysi Blaðamannafélags Íslands. Stéttin í heild er meðvirk blaðamönnum sem greina ekki á milli afbrota og heilinda. 

Stundin og Kjarninn sameinast í byrjun árs 2023. Ekki þarf neina rannsókn til að álykta hvers vegna Stundin og Kjarninn þurfa nýja kennitölu. Á nýju ári verður blaðamönnum RSK-miðla birt ákæra fyrir aðild að byrlun, stuldi og broti á friðhelgi einkalífs. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband