Guðsþöggun

Guð er, ef hann er, burtséð frá trú manna eða vantrú. Enginn, sem á annað borð trúir, efast um guð. Aðrir, kannski flestir, láta sér fátt um finnast, lifa og hrærast án íhugunar um annað er hönd á festir. Fáeinir, á hinn bóginn, gera fár yfir guðstrú annarra og ólmast út í viðtekna siði.

Á hverjum tíma eru meðal okkar bæði viðrini og snillingar sem hafna viðteknum sannindum. Við sjáum ekki fyrr en frá líður hvaða spámenn voru í hvorum hópi. Íhald er þar betra viðmið en róttækni. Helför tveggja isma síðustu aldar, með forskeytin nas og kommún, er áminning um óhjákvæmilega endastöð róttækni.  

Í þúsund ár og 22 betur er kristni viðtekin hér á landi. Nokkuð fjörugt var í trúarlífinu á köflum, t.d. við siðaskiptin um miðja 16. öld. Eftir það varð lúterska ríkistrú og er enn í dag, þó útvötnuð.

Biskup segir ekki vinsælt að nefna Jesú í opinberri umræðu. Ástæðan er að Jesú á ekki heima í opinberri umræðu. Trú er fyrir löngu orðin einkamál. Mönnum er frjálst að eiga hana eða ekki. Við segjum guð hjálpi þér, þegar einhver hnerrar, af kurteisi en ekki trúarsannfæringu. Þeir sem halda annað eru illa siðaðir.

Kristni er margfalt meira en trú. Kristni er siðir, venjur og lífsviðhorf genginna kynslóða. Fræðsla í kristni er nauðsynleg siglingafræði um mannlífið. Menn geta staðið innan eða utan trúfélaga en þurfa engu að siður að kunna skil á siðum og venjum. Annars verða þeir óalandi og óferjandi.

Kirkjan ber sjálf nokkra ábyrgð hvernig er komið fyrir kristni. Í stað kjarngóðrar gamaldags kristni eltir kirkjan tísku sem er ein í dag og önnur á morgun. Kirkjan á öllum tímum reynir að virka á samfélagið sem hún þjónar, það er köllun hennar. Hún hlýtur þó alltaf að vera síðust að taka upp nýbreytni í samfélagsviðhorfum. Eilíf sannindi eru sérgrein kirkjunnar, ekki hégómi hversdagsins.

Sjálfsupphafning mannsins er leiðarstef veraldarhyggju samtímans. Maðurinn er í senn almáttugur, ræður kyni sínu og loftslagi jarðar, burtséð frá líffræði og sögulegum staðreyndum, en jafnframt tortímandi lífs á jörðu. Róttæku viðrinin, sem telja sig snillinga, eyðileggja menningarverðmæti undir formerkjum góðmennsku. Það er eins og að skjóta sig í hausinn til að öðlast betra líf. Slíkur félagsskapur hlýtur að vera kirkjunni framandi.

Kirkjan á að bjóða upp á samveru við sannindi sem maðurinn getur aðeins haft hugboð um, treyst á að er og verði yfirskilvitleg. Námundun í eilífðarmálum er betri kostur en fullvissa. Hryðjuverk eru framin í nafni fullvissu. Óvissa er aftur móðir hennar íhygli.  

Guð sem léti þagga niður í sér stæði ekki undir nafni. Þöggunin er öll kirkjunnar þar sem froðan hylur kjarnann.

  


mbl.is Ekki vinsælt að nefna nafn guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Trúin er ekki einkamál, eða á a.m.k. ekki að vera það. Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, sagði Jesús. Það er ekki hægt nema að tala um trúna á Jesú Krist. Sá sem er einungis kristinn í stofunni heima hjá sér, er ekki kristinn.

Theódór Norðkvist, 26.12.2022 kl. 11:03

2 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Halelúja og gleðileg jól.

Guðmundur Böðvarsson, 26.12.2022 kl. 11:19

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Eins og allir vita að þá getur verið bara 1 HEIMAREITUR fyrir hvíta-kónginn

á venjulegum skákborðum.

Hvar myndi Páll Vilhjálmsson líta svo á að þessi HEIMAREITUR

á skákborði raunveruleikan ef þessi heimareitur mætti bara vera 1 fermeter?

Jón Þórhallsson, 26.12.2022 kl. 11:58

4 Smámynd: Birgir Loftsson

Guðmundur Örn Ragnarsson, svar þitt er frábært og þú hittir naglann á höfuðið. Trú er nefniega enginn námundarreikningur, annað hvort trúir maður eða ekki. Ef ekki, þá er enginn trú, bara efahyggja.

Birgir Loftsson, 26.12.2022 kl. 14:06

5 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Mér finnst áhugavert að draga ályktun bæði af þessum pistli og hluta af innskotsskilaboðum Theódórs: "Sá sem er einungis kristinn í stofunni heima hjá sér, er ekki kristinn", og ályktun Birgis "Ef ekki, þá er engin trú, bara efahyggja".

Hvað er þá okkar íslenzka þjóð núna? Ekki er hún múslimsk? Er hún heiðin? Er hún trúlaus? Er hún vísindatrúar? Ekki kristin samkvæmt þessu, nema opinberlega? 

Ætli hún sé ekki trúlaus (í heildina litið þegar allt kemur til alls), fyrst efahyggjan er allsráðandi og það sem vísindi og menning ganga út frá, og Þjóðkirkjan með í því, þótt formin haldi sér?

Eða eigum við að trúa því sem Guðjón Hreinberg hefur skrifað um, að hreinn stalínismi sé ríkjandi? Ekki fráleit ályktun, miðað við kröfuna um trúleysið í kommúnismanum á sínum tíma. Við erum að minnsta kosti skuggalega nálægt því að vera kommúnísk þjóð, með risastórt ríkisbákn og samræmdar reglur frá ESB í gegnum EES. Það sama má segja um Vesturlönd.

Ingólfur Sigurðsson, 26.12.2022 kl. 15:45

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

"Sá sem er einungis kristinn í stofunni heima hjá sér, er ekki kristinn". Segir Ingólfur.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ég er ekki sammála þessari fullyrðingu.

-----------------------------------------------------------------------------------------------

Fólk getur vel verið KRISTINNAR TRÚAR

þó svo að fólk hlusti bara á útvarpsmessur og horfi á þær í sjónvarpinu

Ég er t.d. búinn að horfa  á  4 KRISTNAR messur síðustu daga heima í stofu

þar sem að þær fjölluðu allar um sama barna-afmælið

þar sem að afmælis-barnið Jesú eldist adrei.

Jón Þórhallsson, 26.12.2022 kl. 17:05

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll og gleðilega hátíð.

Segi þetta svona því pistill þinn er góður og snertir margar spurningar sem fara um höfuð okkar sem horfa til himins og sjáum aðeins stjörnur, það er þegar það er ekki norð-austan bræla og þoka.

"Guð sem léti þagga niður í sér stæði ekki undir nafni. Þöggunin er öll kirkjunnar þar sem froðan hylur kjarnann.".

Það er þetta með naglann og höfuðið Páll, í þessum pistli finnst mér þú eiginlega vera spýtan.

Sem er þinn styrkur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.12.2022 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband