RÚV undirbjó mótmæli - og Píratastjórn

Kastljós RÚV á mánudagskvöld átti að kveikja reiðiöldu í samfélaginu sem myndi leiða til mótmæla á Austurvelli daginn eftir gegn spilltu kerfi og hvetja til kerfisbreytingar á Íslandi undir forystu Pírata. Bein útsending RÚV frá þingsetningu og mótmælafundi skyldi sýna óánægju landsmanna með ríkjandi stjórnarfar og kalla eftir uppstokkun á stjórnskipun landsins.

Síðdegis á mánudag kynntu ritstjórar Kastljóss, Þóra Arnórsdóttir og Helgi Seljan, skandal kvöldsins, um spillingu í hæstarétti, hornsteini réttarkerfisins. Spilað var á tilfinningar öfundar og tortryggni í fréttinni:

Markús Sigurbjörnsson, hæstaréttardómari og forseti Hæstaréttar, átti hlutabréf fyrir tugi milljóna í Glitni banka á árunum fyrir hrun. Bréfin seldi hann með miklum hagnaði árið 2007. Dómarar við Hæstarétt eru æviráðnir og laun þeirra með því hæsta sem gerist hjá hinu opinbera til að tryggja sjálfstæði þeirra.
 
Eins og til var ætlast tóku aðrir fjölmiðlar undir, sérstaklega 365-miðlar Jóns Ásgeirs Jóhannesson, sem er fastakúnni hjá dómskerfinu, bæði fyrir og eftir hrun. Gamalkunnugt stef frá tímum síðustu ríkisstjórnar vinstrimanna, um ónýta Ísland, var komið með nýtt viðlag: hæstiréttur er líka gerspilltur.
 
Stjörnuvitni RÚV-Kastljóss, Hjördís Hákonardóttir dómari, var klippt til í viðtali Kastljóss til að þjóna meginboðskapnum um spillta Ísland. Dramatískur inngangur Helga Seljan um spillingu á æðstu stöðum byggði á leka úr þrotabúi Glitnis og frjálslegri túlkun á lögum um vanhæfi dómara.
 
Allt var til reiðu á þriðjudag fyrir fjöldamótmæli á Austurvelli til að knýja fram nýja ríkisstjórn undir forystu Pírata sem lofa að ,,tækla spillinguna". Forsíða Fréttablaðsins þriðjudagsmorgun féll eins og flís við rass við RÚV-þemað um ónýtt stjórnkerfi sem yrði að bylta.
 
En þótt RÚV gerði sitt ítrasta boðaði enginn á samfélagsmiðlum til mótmæla. Stjörnuvitni Kastljóss, Hjördís Hákonardóttir, reyndist hikandi og ósannfærandi. Almenningur sá í gegnum RÚV-fléttuna og líkaði ekki bandalagið við auðmennina sem myndu græða á falli hæstaréttar.
 
Beina útsending RÚV frá Austurvelli í gærdag var flöt og óspennandi. Og í þinghúsinu sátu Píratar hnípnir án stuðnings frá öskrandi mótmælendum. Um kvöldið, þegar allt var afstaðið, birti RÚV frétt um að forseti hæstaréttar hefði í einu og öllu farið eftir reglum um hlutabréfaviðskipti: það var enginn skandall.
 
Í fréttinni er því velt upp hvaðan upplýsingarnar um verðbréfaviðskipi Markúsar komu. En fréttastofu RÚV datt ekki í hug að spyrja Kastljósfólkið Þóru Arnórsdóttur og Helga Seljan hvaðan þau fengu upplýsingarnar. Maður nefnir ekki snöru í hengds manns húsi.

mbl.is „Fleira hrundi en bankar haustið 2008“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Páll, athyglisverðan pistilinn.

En nú vantar það helzt að Ómar mæti hér enn á ný til að kvarta yfir því að þú skrifir of mikið um Rúvið hans.

Jón Valur Jensson, 7.12.2016 kl. 08:23

2 Smámynd: Valur Arnarson

Góð samantekt Páll.

Það er í rauninni alveg með ólíkindum að fylgjast með atburðarás síðustu daga í kringum þetta mál sem reyndist svo vera stormur í vatnsglasi.

Annað sem er athyglisvert, og smá útúrdúr, er þegar Þóra Arnórs óskaði nokkrum þingmönnum til hamingju með "kauphækkunina" þegar þeir voru í viðtali hjá henni stuttu eftir úrskurð kjararáðs, en hún er auðvitað á mikið hærra kaupi - sem er jú borgað úr okkar vasa líka ! Engin amast yfir því.

Valur Arnarson, 7.12.2016 kl. 08:50

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fróðlegar upplýsingar hjá þér, Valur, um laun fréttamanna, sjálfsagt að einhver "amist við" þeim og hafðu þökk fyrir það. Hér þarf greinilega að taka til hendi og lækka það "miklu hærra kaup" sem fréttamenn hafa. 

Eina vísendingin um upphæð þeirra, sem ég sé mánaðarlega, eru eftirlaun mín sem fréttamans að lokinni starfsævi og ættu þau að spegla "miklu hærra kaup" fréttamanna en Alþingismanna. 

Þessi "auðvitað miklu hærri laun" nema 300 þúsund krónum á mánuði og maður á víst að skammast sín fyrir slík ofurlaun, sem svona mikil ástæða þykir að einhver amist við. 

Ef þau verða nú hækkuð þykir ljóst, að ég og aðrir í mínum sporum verði að fara að dæmi forsetans og afsala mér þeirri hneykslanlegu hækkun. 

Ómar Ragnarsson, 7.12.2016 kl. 09:24

4 Smámynd: Valur Arnarson

Ekki var ég að amast yfir neinu, en fannst þetta athyglisvert í ljósi umræðunnar.

En bíddu nú hægur, er ekki Þóra Arnórs ritstjóri Kastljósins ? Hún er ekki "bara" fréttamaður er það ?

Upplýst var um það árið 2007 að ritstjóri Kastljósins væri með 1,4 milljón á mánuði, varla hefur það lækkað síðan þá, ég skal ekki segja. En þá var óbreyttur Kastljósari með 700 þús. á mánuði, svo eitthvað hefur þú nú verið hlunfarinn Ómar.

Óbreytti Kastljósarinn var mest í því að fá vini sína í þáttinn svo þeir gætu hermt eftir Andrési Önd, það er auðvitað alveg nauðsynlegt !

Valur Arnarson, 7.12.2016 kl. 14:14

5 Smámynd: Steinarr Kr.

Ómar, varst þú ekki fréttamaður á Ríkisútvarpinu, áður en það varð ohf?

Steinarr Kr. , 7.12.2016 kl. 16:01

6 Smámynd: Valur Arnarson

Við þetta má svo bæta að ef RÚV-ið ætlar að halda áfram að stunda grimma hlutdrægni í hinum ýmsu málum þá er auðvitað hreinlegast að batteríið verði selt. Einkaaðilar geta þá haldið áfram að stunda þann áróður sem stundaður hefur verið þar á kostnað þeirra sem líkar það vel !

Valur Arnarson, 7.12.2016 kl. 17:07

7 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Og nú er RÚV meira að segja búið að virkja Jón Steinar Gunnlaugsson með sér í áróðurinn.

Finnur Hrafn Jónsson, 8.12.2016 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband