Hjólað gegn Pútín - vesturlönd ein á báti

Ekki nota bílinn heldur hjólið, þá tapar Pútín, er boðskapur þýskra stjórnvalda til almennings. Þjóðverjar eru háðir rússneskri orku, gasi og olíu, og geta illa haldið efnahagsvélinni gangandi án hennar.

Evrópa er á leið í kreppu, Bandaríkin sömuleiðis, vegna efnahagsþvingana sem vesturlönd beita Rússland í Úkraínustríðinu. 

Vestræna röksemdin fyrir að refsa Rússum er að með innrásinni hafi alþjóðalög verið brotin. Ef Rússar komast upp með athæfið riðar alþjóðakerfið til falls. 

En nú ber svo við að mörg ríki á suðurhveli jarðar, t.d. í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu, Indland þar stærst, kaupa ekki röksemd vesturlanda.

Tvær meginástæður eru fyrir því að lönd suðurhvelsins eru treg til að fórna samskiptum við Rússland, segir bandarískur stjórnmálafræðingur, Trita Parsi. Í fyrsta lagi vegna þess að Bandaríkin og vesturlönd hafa lítt virt alþjóðalög þegar þeim hentar, s.s. með innrás í Írak og stjórnarskiptum í Líbýu og tilraun til þess í Sýrlandi. Í öðru lagi finnst suðurhvelinu ekki heppilegt að búa í einpóla heimi þar sem Bandaríkin ráða ein ferðinni. Suðurhvelinu líður betur ef ríki eins og Rússland og Kína standi upp í hárinu á einveldi Bandaríkjanna.

Bandaríkin steyptu af stóli Hussein í Írak og Gadaffi í Líbýu. Assad í Sýrlandi átti að fara sömu leið en Pútín bjargaði honum. Ríki á suðurhveli jarðar horfðu upp á þessar aðfarir og drógu þann lærdóm af að óhollt sé að Bandaríkin séu einráð. Mótvægi er æskilegt og það heitir Pútín. Af þessu leiðir fá Bandaríkin og vesturlönd lítinn stuðning sunnan miðbaugs við refsiaðgerðir gegn Rússland. Þetta enn eitt Evrópustríðið, segja menn þar syðra.

Illu heilli eru ekki líkur að Úkraínustríðinu ljúki í bráð. John Mearsheimer, sem greinir deiluna af mestri skynsemi, er ekki bjartsýnn á að menn finni pólitíska lausn á næstunni.

Á meðan ekki finnst diplómatísk lausn heldur hryllingurinn í Evrópu áfram. Manntjónið hleypur á tugum þúsunda. Rússar segja Úkraínumenn hafa misst yfir 20 þúsund hermenn. Stjórnvöld í Kænugarði telja sig hafa vegið álíka marga Rússa. Þá er ótalinn dauði óbreyttra borgara. Flóttamenn eru taldir í milljónum og eignatjón er gífurlegt.

Sorglegt.

 

 


mbl.is Þjóðverjar hvattir til að spara orkugjafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Musk, Twitter og endurkoma Trump

Twitter-miðillinn er, með réttu eða röngu, talinn mikilvægasti samskiptamiðill nútímans. Yfirlýst markmið Elon Musk er að kaupa Twitter og hætta ritskoðun sem yfirstjórn miðilsins stundar.

Tucker Carlson ræðir viðbrögð við yfirtökutilboði Musk og kemst að þeirri niðurstöðu að vinstrimenn og frjálslyndir eru helstu andstæðingarnir. Skoðanafrelsi verður að víkja fyrir lýðræðinu, er viðkvæðið. Nokkuð undarleg skoðun á lýðræðinu, óneitanlega. En þetta er borið á borð þar vestra sem gild röksemd.

Frægasta ritskoðun Twitter er frá 8. janúar 2021. Þá var forseti Bandaríkjanna 2016-2020 Donald Trump bannaður á Twitter. Of hættulegur lýðræðinu.

Ef Musk kaupir Twitter og hættir ritskoðun er Trump kominn með verkfærið sem nýttist honum best til að ná forsetakjöri.

En, sem sagt, lýðræðinu verður að bjarga með ritskoðun. Aftur fer pólitískur rétttrúnaður svo fjarska vel saman lýðræðinu. Eins og dæmin sanna.

 


mbl.is Stjórn Twitter grípur til varna gegn Musk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er kona, sagði karlinn

Breski þingmaðurinn Jamie Wallis sagðist fyrir tveim vikum vera kona en hafði fram að því verið talinn karl. Margir atburðir gerast á skömmum tíma hjá Wallis. Samkvæmt BBC keyrði hann á ljósastaur og stakk af, honum var nauðgað (af karli) og beittur fjárkúgun. Ekki ein báran stök á þeim bænum.

Kathaleen Stock er femínisti sem óar við þeim fjölda karla sem gerast konur nú til dags. Stock kenndi heimspeki í breskum háskóla þegar henni varð það á að segja kyn ákvarðast af liffræði en ekki persónulegu vali. Í framhaldi var hún hrakin úr starfi. Sumt má ekki segja upphátt þótt það séu almenn sannindi. 

Stock nefnir Jamie Wallis sem dæmi um það sem ekki er hægt, að skipta um kyn með yfirlýsingu. Í grein í Daily Mail fer Stock yfir vandkvæði kvenna af fjölgun karla sem þykjast konur.

Rými sem hingað til er ætlað konum s.s. kvennasalerni, búningsklefar kvenna og kvennaíþróttir eru ekki lengur þeirra heldur líka karla sem segjast konur. Tilefni greinar Stock er nýstofnuð kvennasamtök sem krefjast þess að stjórnmálamenn viðurkenni að líffræðilegur munur er á konum og körlum og að karlar geti ekki valsað inn í heim kvenna með því að segjast af gagnstæðu kyni.

Heilbrigðisráðherra Breta Sajid Javid gaf yfirlýsingu um að aðstaða kvenna á sjúkrahúsum væri ekki fyrir karla sem segðust konur heldur konur einar. Yfirmaður breskrar jafnréttis- og mannréttindanefndar vill líka verja rétt kvenna til kvennarýmis án karla sem halda sig konur.

Hávær minnihluti er sannfærður um að kyn sé persónulegt val en ekki líffræðileg staðreynd. Í Bretlandi hefur minnihlutanum orðið það ágengt að konur stofna samtök til að verjast körlum sem telja sig kvenpersónur án þess að hafa nokkuð til síns máls annað en persónulega afstöðu.

Í grunninn hefur sérhver rétt að skilgreina sjálfan sig á hvaða veg sem er. Vandi skapast þegar sérsinnaður einstaklingur krefst að aðrir breyti lífi sínu til samræmis. Frelsi eins verður ófrelsi annars. Þar liggur hundurinn grafinn.   

 


Sólveig Anna: Efling er óþarfi

Verkalýðsfélagið Efling er óþarfi, segir Sólveig Anna nýkjörinn formaður, og rekur alla starfsmenn á einu bretti. Launþegar greiða félagsgjöld til Eflingar og fá þjónustu. Þeir sem veita þjónustuna eru starfsmenn Eflingar. Engir starfsmenn, engin þjónusta.

Þegar starfsmenn verkalýðsfélagsins eru á bak og burt situr Sólveig Anna ein á digrum sjóðum sem eru félagsgjöldin. Hún getur látið Andra í Jæja fá aðrar 30 milljónir, Gunnar Smári þarf líka skotsilfur og Viðar vinnu. Tilgangur stéttafélags er aftur annar en að hlaða undir hina fáu á kostnað hinna mörgu.

Félagsmenn Eflingar fá enga þjónustu en Sólveig Anna og vinir hennar maka krókinn. Almennir félagsmenn eru aukaatriði, afkoma sósíalísku yfirstéttarinnar er aðalatriði. Efling er mjólkurkú til að örfáir sósíalistar fái þægilega innivinnu.

Ef hægt er að leggja niður verkalýðsfélag si svona vaknar spurningin hvort stéttafélög séu ekki óþarfi. Þegar stjórn verkalýðsfélags er harður kapítalískur húsbóndi og stundar hópuppsagnir eftir hentugleikum - og verkalýðshreyfingin lætur það yfir sig ganga - tja, þá er verkalýðshreyfingin í heild sinni óþarfi.

 


Clinton: Pútín boðin Nató-aðild

Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna skrifar tímaritsgrein og staðhæfir að Rússum hafi verið boðin aðild að Nató um aldamótin en þeir hafnað. Úkraínustríðið snýst um hvort Úkraína fari í Nató og ógni þar með öryggi Rússlands.

Clinton var forseti Bandaríkjanna 1993-2001, á meðan Rússland var í sárum eftir fall Sovétríkjanna. Forsetinn fyrrverandi skrifar tímaritsgrein í Atlantic fyrir fimm dögum og ræðir ástæður stríðsins í Úkraínu. Þar segir um tilboðið til Rússa:

Throughout it all, we left the door open for Russia’s eventual membership in NATO, something I made clear to Yeltsin and later confirmed to his successor, Vladimir Putin.

Tíminn sem Clinton er að ræða er aldamótin, þegar Jeltsin færði Pútín völdin. Þetta eru stórmerkilegar fréttir. En Rússar segja að tilboðið hafi aldrei verið á borðinu.

Dmitry Peskov talsmaður Pútín þvertekur fyrir það að Rússum hafi verið boðin Nató-aðild.

Annar tveggja, Bill Clinton eða talsmaður Pútín, fer ekki rétt með.

Hægt að fletta upp á umræðunni um og fyrir aldamótin. Bandarísk skjöl sýna að frá 1995 hefur Jeltsín forseti Rússland stöðugar áhyggjur af útþenslu Nató. Ef það var raunverulegur vilji í Washington og Brussel að taka Rússland inn í Nató hefði það verið gert. Ólíklegt er að Rússar hefðu neitað, samanber ummæli Pútín í gegnum tíðina.

Bandaríkin vildu einpóla heim. Innrásir í Írak og Afganistan í kringum aldamót er stefnuskráin í framkvæmd. Pútín andmælti einpóla heimi í frægri ræðu í Munchen 2007. Árið eftir bauð Nató Úkraínu og Georgíu aðild að hernaðarbandalaginu með Búkarest-yfirlýsingunni. Rússlandi var ekki boðin Nató-aðild.

Evrópusambandið lét sér vel líka pólitísk og hernaðarleg einangrun Rússlands. Vestræn útþensla í Austur-Evrópu var tveggja þátta, Nató og ESB. Allt gekk þetta greiðlega fyrir sig þangað til Rússar voru nógu öflugir til að segja hingað og ekki lengra. Innrás þeirra í Georgíu 2008 hefði átt að hringja einhverjum bjöllum. Svona eftir á að hyggja.

Dauði og tortíming í Úkraínu hófst ekki með innrásinni í febrúar. Fræjum stríðsátaka var sáð fyrir aldarfjórðungi.  


mbl.is 186 börn verið drepin í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórður Snær í yfirheyrslu lögreglunnar

Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, er á leið í lögregluyfirheyrslu sem sakborningur í rannsókn á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma. Ekki er hægt að skilja orð ritstjórans á annan veg þegar hann skrifar í gær ,,Nú þegar við blasir að blaða­menn verði kall­aðir til yfir­heyrslu..."

Síðast skrifaði Þórður Snær um málið í heild sinni 18. nóvember sl. með krassandi fyrirsögn Glæpir í höfði Páls Vilhjálmssonar.

Glæpir í tilfallandi höfði eru staðfestir með lögreglurannsókn. Páli skipstjóra var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV í byrjun maí á síðasta ári. Fyrir glæpinn var Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður RÚV fluttur á Stundina. Þetta var gert 30. apríl. RÚV, Stundin og Kjarninn (RSK-miðlar) höfðu náið samstarf i skipulagi og framkvæmd afbrotsins.

Aðalsteinn á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum birtu efni úr einkasíma Páls skipstjóra með samræmdum fréttaflutningi 21. maí, sjá hér og hér. RÚV samræmdi fréttaflutning Kjarnans og Stundarinnar en birti ekkert á vettvangi þjóðarfjölmiðilsins. Þóra Arnórsdóttir á RÚV, fyrrum yfirmaður Aðalsteins, er einnig sakborningur. 

Viku áður, eða 14. maí, hafði Páll skipstjóri kært til lögreglu að átt hafi verið við síma hans á meðan hann lá á gjörgæslu vegna byrlunar. Skipstjórinn vissi ekki hverjir áttu aðild að málinu. En það rann upp fyrir honum 20. maí þegar Aðalsteinn og Þórður Snær hringdu í Pál með tíu mínútna millibili.

Núna í febrúar upplýsti lögreglan í greinargerð að X, einstaklingur nákominn Páli, stal símanum og fór með hann á Efstaleiti. Þórður Snær viðurkenndi í fréttinni 21. maí að ,,lögbrot" var ,,framið" en bara ekki af ritstjórn Kjarnans. Aðrir sáu um glæpinn en Kjarninn naut góðs af - er þjófsnautur.

Eftir að glæpurinn var framinn og afraksturinn birtur í fjölmiðlum héldu blaðamenn RSK-miðla áfram sambandinu við X, verktakann sem sá um byrlun og stuld. En þá var lögreglan komin á sporið og fylgdist með atburðarásinni. Stundum er það yfirhylmingin kemur glæpamönnum í koll.

Þórður Snær og félagar hans á RSK-miðlum vilja friðhelgi blaðamanna til að stunda afbrot, ef í húfi er fréttaefni. Í siðuðu samfélagi gengur það ekki. Allra síst þegar glæpamenn er að finna innan raða blaðamanna.


Þýskir rjúfa einangrun Pútín

Kanslari Austurríkis er þýskur fulltrúi Evrópu sem heimsækir Pútín i Moskvu, fyrstur leiðtoga ESB-ríkja eftir að Úkraínustríðið hófst í lok febrúar. Karl Nehammer ráðfærði sig við Berlín áður en hann ákvað heimsóknina.

Þjóðverjar eru líklegastir Evrópuríkja að finna samnefnara er gæti orðið að pólitískri lausn og friði. Merkel fyrrum kanslari Þýskalands rauf þögn sina um Úkraínustríðið og varði ákvörðun sína frá 2008 að hleypa Úkraínu ekki inn i Nató. Fundurinn var haldinn í Búkarest í Rúmeníu. Bandaríkin vildu ólm fá Úkraínu og Georgíu inn í Nató en Þjóðverjar sögðu nein. Í staðinn var gefin út yfirlýsing að Úkraínu og Georgíu yrði í brátt boðin aðild. Rússar réðust inn í Georgíu þá um sumarið og núna í febrúar inn í Úkraínu. 

Í þýskum fjölmiðlum má lesa að allt frá 1991, þegar Sovétríkin liðuðust í sundur, er gert ráð fyrir að hluti af Úkraínu fari til Rússlands. Austurhluti landsins er að stærstum hluta byggður rússneskumælandi fólki. Þýskir álitsgjafar eru fljótir að benda á að skriðdrekar eru árásarvopn, en ekki varnarvopn, og ættu ekki að vera sendir til Úkraínu. Svona, ef menn skyldu hafa áhyggjur af þriðju heimsstyrjöldinni. Þjóðverjum líður betur með að veita læknishjálp en hergögn.

Bandaríkjamenn og Bretar eru herskárri og vilja senda Úkraínu öll þau vopn sem tiltæk eru, einnig skriðdreka. Enda það eru hvorki Joe Biden né Boris Johnson, sem eru á leið til Moskvu heldur þýskumælandi kanslari Austurríkis.

Skilningur er á milli Þjóðverja og Rússa frá gamalli tíð. Eftir fyrri heimsstyrjöld, og rússnesku byltinguna, voru bæði Þýskaland og Rússland/Sovétríkin í skammarkróknum hjá vesturlöndum. Úthýstu ríkin gerðu með sér samkomulag 1922, fyrir sléttum hundrað árum, í ítalska bænum Rapallo.

Rapallo-samningur Þjóðverja og Rússa gekk út á efnahagssamvinnu. En fljótlega þróaðist einnig hernaðarsamstarf milli ríkjanna. Sögulega meðvitaðir greinendur segja fátt meira ógnvekjandi fyrir Breta og Bandaríkjamenn en endurvakinn Rapallo-andi. 

Ein þjóð önnur er líkleg til að hatast meira við þýsk-rússneska samstöðu en engilsaxar. Það eru Pólverjar. Samkomulag Hitlers og Stalín, kennt við Molotov-Ribbentrop, frá 1939 skipti Póllandi milli Þýskalands og Sovétríkjanna.

Úkraínustríðið endar með friðarsamningum. Þeir friðarsamningar munu breyta landamærum Úkraínu til hagsbóta fyrir Rússa. Hinn kosturinn, að Rússland tapi stríðinu, er ekki mögulegur án þriðju heimsstyrjaldarinnar. Þjóðverjar vita það manna best. Þeir verða enn og aftur minntir á það 9. maí með hersýningu í Moskvu, 77 árum eftir uppgjöf Þjóðverja í seinna stríði. 

Þjóðir sem tapa smástríðum, líkt og Bandaríkin í Víetnam, Írak og Afganistan, læra fátt. Þjóðir sem tapa stórstríðum þar sem tilvist ríkisins hangir á bláþræði, samanber Þjóðverja eftir fyrra og seinna stríð, draga af lærdóm sem endist í áratugi ef ekki aldir. Þjóðverjar eru lykillinn að friði í Úkraínu. 


mbl.is Kanslari Austurríkis til fundar með Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar og Viðreisn systurflokkar - í felum

Viðreisn og Píratar eru systurflokkar á Seltjarnarnesi. Það má bara ekki segja það upphátt. Sameiginlegur listi þessara tveggja flokka á Nesinu heitir Framtíðin.

Á heimasíðu Pírata segir á hinn bóginn:

Björn Gunnlaugsson verður oddviti Pírata á Seltjarnarnesi en Píratar bjóða þar fram í samstarfi við Viðreisn og óháða.

Hvers vegna koma Píratar og Viðreisn ekki hreint fram og kenna framboðslistann við flokkana sem standa að framboðinu?

Atkvæðaveiðar undir fölsku flaggi eru hvorki til marks um gagnsæi né virðingu fyrir kjósendum. 

 


mbl.is Karl leiðir lista Framtíðar á Seltjarnarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Transjörð

Íhaldsmaðurinn: Jörðin er hnöttur.

Transi: En mér finnst jörðin flöt.

Íhaldið: Já, þér má finnast það, en hún er hnöttótt.

Transi: Mér líður illa.

Íhaldið: Er það mitt vandamál að þér líði illa?

Transi: Já, þú ert með skoðanir sem valda vanlíðan.

Íhaldið: Sannindi valda sem sagt vanlíðan?

Transi: Já.

Íhaldið: Hvað eigum við að gera í því?

Transi: Banna sannleikann, auðvitað.

 


Nató-væðing Úkraínu

,,Þýska leyniþjónustan áætlar að Úkraínuher telji 30 þús. manns, þar af 15 þús. í bardagasveitum. Herinn er illa þjálfaður, liðhlaup eru tíð og búnaður lélegur. Frankfurter Allgemeine segir þessar fréttir og bætir við: þegar núverandi forseti Úkraínu tók við í júlí 2014 sagðist hann engan her eiga."

Efnisgreinin hér að ofan var skrifuð fyrir sjö árum, í febrúar 2015. Á þessum sjö árum hefur Úkraínuher tekið stakkaskiptum. Í 40 daga og rúmlega það stendur hann upp í hárinu á rússnesku innrásarliði sem telur um 200 þúsund hermenn.

Hvernig getur lélegur lítill her orðið svo sterkur að hann heldur sínu gegn einu helsta herveldi heimsins? Jú, með utanaðkomandi hjálp. Nató hefur þjálfað og vopnað úkraínska herinn á liðnum árum.

Fyrir heimsfriðinn er best að Úkraína sé hlutlaust land til langframa. Hvers vegna fjárfestir Nató yfir langan tíma gríðarlega fjármuni í her ríkis sem á að heita hlutlaust?  

Nú, auðvitað, Úkraína er verkfæri Nató til að berja á Rússum. Úkraína er leiksoppur vestrænna ríkja og hefur lengi verið.

Hvers vegna eru Rússar óvinir Nató?

Jú, til að hernaðarbandalag þrífist þarf það óvini. Döh.


mbl.is Óskar eftir fleiri vopnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband