Frelsi til að vera róni

Við veljum líf okkar, hvort við tökum upp sambúð, eignumst börn, kjósum Samfylkinguna, skiptum um trú eða verðum rónar. 

Þótt við vitum að sumir ættu ekki að vera í sambúð, ekki eignast börn; að Samfylkingin sé eintóm leiðindi og að trúarskipti séu alltaf að fara úr öskunni í eldinn og að sumir eigi ekki að drekka þá viljum við ekki setja lög sem banna sjálfstæðum einstaklingum að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Frelsi fylgir áhætta; maður tekur rangar ákvarðanir og situr uppi með þær. Stundum bæði vill maður og getur bætt eigið klúður en stundum ekki. Þannig er lífið.  Hinn kosturinn, að láta aðra taka ákvarðanir um líf manns, siði og háttu er margfalt verri.

Í frétt RÚV segir af ljósmyndara sem gaf út bók um róna. Tilvitnun:

Í ljósmyndabók Gísla eru dregin fram ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem segir að öllum skuli tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika og að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs.

Fyrir utan það smáatriði að ljósmyndabók um persónulega hagi róna sýnir ekki mikla virðingu fyrir einkalífi þeirra þá felur tilvitnunin í sér grundvallarmisskilning. Réttur einstaklingsins til drekka sig í ræsið stendur hærra en réttur hinna afskiptasömu að taka flöskuna frá þeim ógæfusama.

 


Trúarríki vígt blóði án landamæra

Kalífaríki múslíma er án landamæra, segja bandarískir fræðimenn úr Princeton um tilraunir til að endurvekja trúarríki afkomenda Múhameðs spámanns.

Herskáir múslímar eru í sókn í Miðausturlöndum og höfða til ungra manna í samfélögum sem hefur mistekist að aðlaga sig nútímalegri veraldarhyggju með aðskilnaði trúar og ríkisvalds.

Verulegar blóðsúthellingar verða áður en múslímar ná áttum og láta af þeirri fyrnsku að láta vangáttaða trúarstrumpa segja sér fyrir verkum.


mbl.is Írak gæti klofnað í þrennt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna er Framsóknarflokkurinn skotmark

Hrunið markaði upprisu Framsóknarflokksins. Vinstrimenn, sem ætluðu sér langtímavöld á Íslandi eftir fall Sjálfstæðisflokksins, urðu æfir út í endurreistan Framsóknarflokk enda stendur hann í vegi fyrir valdasetu vinstrimanna. 

Fram að hruni var Framsóknarflokkurinn í sárum. Í síðustu kosningunum fyrir hrun náði formaður flokksins, Jón Sigurðsson, sem var erfðaprins Halldórs Ásgrímssonar, ekki kjöri til alþingis og varð að segja af sér með skömm.

Við hrun var Framsóknarflokkurinn pólitísk ruslahrúga; rúinn trausti og fylgi á landsbyggðinni en ekki með neina fótfestu í þéttbýli. Virðingarverð tilraun Guðna Ágústssonar til að endurreisa flokkinn fór út um þúfur vegna innbyrðis ágreinings.

Með formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hófst nýr kafli í sögu Framsóknarflokksins þar hann staðsetti sig sem miðhægriflokk með áherslu á fullveldi og jöfnuð þjóðfélagshópa, bæði m.t.t. búsetu og efnahags.

Sterkur Framsóknarflokkur kemur í veg fyrir frjálshyggjuöfgar eins og að selja Landsvirkjun annars vegar og hins vegar dómsdagsrugl vinstrimanna að flytja fullveldið til Brussel.

Víglína íslenskra stjórnmála liggur um Framsóknarflokkinn og þess vegna er flokkurinn helsta skotmarkið.


mbl.is Umræðan um Framsókn nýr lágpunktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seld viðtöl á lista 100 áhrifamestu

Frjáls verslun selur viðtöl í tölublað um 100 áhrifamestu konur landsins. Samkvæmt viðtengdri frétt kostar viðtalið 127 þúsund krónur plús  vask. Með auglýsingakaupum fylgir viðskiptavild.

Kona sem leggur upp úr að ná góðu áhrifaskori gæti jafnvel boðist til að greiða hærra verð fyrir auglýsinguna.

En vitanlega væri það fyrir neðan virðingu Frjálsrar verslunar að stunda þannig viðskipti.

 


mbl.is Geta keypt sér viðtöl í „100 áhrifamestu konurnar 2014“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðhjöðnun herðir hengingarólina

Verðhjöðnun er andhverfa verðbólgu. Í verðhjöðnun lækka seljendur, þ.e. verslanir og fyrirtæki, verð vöru og þjónustu sökum dræmrar eftirspurnar. Við það falla laun og hagnaður. Kaupendur, þ.e. almenningur, halda að sér höndum í von um meiri verðlækkun sem aftur knýr verðlag niður á við og veldur samdrætti í efnahagskerfinu. Vítahringur verðhjöðnunar er sýnu erfiðari viðfangs en vítahringur verðbólgu.

Eitt sem ekki lækkar í verðhjöðnun er skuldir og það er einmitt skuldavandi sem jaðarríki evru-svæðisins glíma við. Í verðhjöðnun hækka skuldir hlutfallslega vegna þess að getan til að standa undir afborgunum minnkar.

Verðbólga á Spáni er núll. Í sumum löndum evru-svæðisins, t.d. Grikklandi, er verðhjöðnunarferli hafið. Viðbrögð seðlabanka Evrópu eru m.a. að leggja mínusvexti á innistæður banka - til að fá þá að lána peninga til atvinnulífsins. Árangurinn lætur bíða eftir sér. Í örvæntingu biður Mario Draghi, seðlabankastjóri evrunnar, um víðtæka uppstokkun í ríkisfjármálum evru-ríkjanna 18. Slík uppstokkun er aðeins gerleg með stórauknu framsali fullveldis til stofnana Evrópusambandsins.

 


mbl.is Verðbólgan 1% í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draghi játar: evran er gölluð

Seðlabankastjóri Evrópu, Mario Draghi, viðurkenndi í ræðu í fyrradag að evran er gölluð og stenst ekki án þess að aðilarríki evru-samstarfsins framselji aukið fullveldi til Brussel. Ræðan var flutt í minningu samlanda Draghi, Tommaso Padoa-Schioppa.

Lykilsetning Draghi er eftirfarandi: 

With the benefit of hindsight, it would have been useful to establish, alongside the existing convergence criteria, a set of structural criteria that had to be met to enter the euro area, and then respected once inside. But we have to start from where we are. 
(Eftir á að hyggja hefði verið betra að hafa, auk reglna um samleitni, reglur um skipulag sem yrði að mæta við inngöngu í evru-samstarfið og að skipulagið yrði virt eftir inngöngu. En við verðum að byrja á þeim stað sem við erum núna).

Seðlabankastjórinn vísar þarna í skort á samræmdum reglum um ríkisfjármál, s.s. um skattlagninu og ráðstöfun á skattfé. En þetta eru einmitt verkefni fullvalda þjóða, að ákveða skattaprósentu og hvernig skattfé skuli varið.

Skilaboð Draghi til ríkisstjórna evru-landanna 18 er að nýtt miðstýrt yfirvald yfir ríkisfjármálum evru-ríkjanna er nauðsynlegt til að tryggja samheldni evru-samstarfsins. Dæmi um ójafnvægið innan evru-samstarfsins, segir Draghi, er að Finnland er í 3. sæti á alþjóðlegum mælikvarða um samkeppnishæfi en Grikkland er í 91. sæti. Þá er Írland í 15. sæti á alþjóðlegum lista yfir vinsamlegt viðskiptaumhverfi en Malta er í 103 sæti.

Til að vinna bug á kerfislægu ójafnvægi innan evru-samstarfsins þarf sam-evrópskt yfirvald til að samræma lög og reglur evru-ríkja.

Fullvelda ríki geta ekki þjónað því hlutverki að skapa hagvöxt og atvinnu og verða því að framselja fullveldi sitt til yfirþjóðlegra stofnana. (Draghi hefur sennilega aldrei heyrt um Ísland).

Jafnvel einlægustu ESB-sinnum ofbýður frekjan í seðlabankastjóranum Mario Draghi. Viðskiptaritstjóri þýska stórblaðsins FAZ skrifar stutt álit um ræðu Draghi og bendir á að ekki í eitt einasta skipti hafi seðlabankastjórinn vikið að því sem öllu skiptir í umræðunni um fullveldi: lýðræði. 

,,Framtíðarsýn Draghi er falskur draumur tæknikratans," skrifar sá þýski. 


mbl.is Evrópskir fjárfestar óttaslegnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitík þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

Talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og Styrmir Gunnarsson, gleyma því iðulega að þingkosningar eru þjóðaratkvæðagreiðsla um helstu mál samfélagsins hverju sinni.

Í aðdraganda þingkosninga bjóða framboð upp á stefnumál og fram fer allsherjarumræða um hvaðeina sem fólk telur skipta máli. Í þingkosningum er einatt góð kjörsókn, sem staðfestir stjórnmálaáhuga almennings.

Til að þingkosningar missi ekki gildi sitt verður niðurstaða þeirra að vera marktæk. Það er til dæmis óboðlegt að meirihluti sem kosinn er 2013 á þeim forsendum að Ísland afturkalli ESB-umsóknina láti fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Þau framboð, sem fengu meirihlutafylgi í síðustu þingkosningum, eiga vitanlega að framfylgja umboðinu sem þjóðin gaf þeim - að afturkalla umsóknina, sem raunar var löngu strönduð í Brussel.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. efndi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina. Þingmenn VG, sem studdu umsóknina, sögðu í þingsal að þeir væru á móti ESB-aðild. Umsóknin átti aldrei að fara frá Íslandi.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök mál kemur ekki í stað niðurstöðu þingkosninga - jafnvel þótt dæmi séu um að svikulir þingmenn selji sannfæringu sína og gangi bak orða sinna gagnvart kjósendum.


mbl.is Spáir ríkisstjórninni fylgishruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marx, múslímar og pólitík

,,Kjarninn í veraldlegri rýni á trúarbrögð", skrifaði Karl Marx um miðja 19. öld, ,,er að maðurinn býr til trú en trúarbrögð ekki manninn." Setningin er úr kaflanum þar sem Marx talar um trúarbrögð sem ópíum fólksins, sjá enska þýðingu hér.

Marx er meginhöfundur þeirrar hugmyndafræði sem var á 20.öld valkostur við vestræn stjórnmál - kommúnisma - sem var trúlaus í þeirri merkingu að vísa ekki í það yfirskilvitlega sem réttlætingu fyrir veraldlegri pólitík.

Á líftíma Marx var trúin tekin út fyrir sviga í vestrænum stjórnmálum. Í pólitík eimdi af trú en hún var ekki miðlæg líkt og á miðöldum og fyrir frönsku byltinguna.

Vestrænn aðskilnaður milli trúar og stjórnmála er múslímum framandi. Í vestrænum stjórnmálum eru mannréttindi hafin yfir trú og styðjast við veraldleg lög, saman mannréttindayfirlýsingu SÞ. Múslímar telja vestræn mannréttindi víkja of langt frá kenningum spámannsins og bjuggu til mannréttindaskrá, kölluð Kaíro-yfirlýsingin, þar sem konur eru settar skör lægra en karlar. Trú múslíma er pólitísk með því að samtök múslímaríkja hræra saman trúarboðskap og lögum sem væri óhugsandi á Vesturlöndum, en þótti góð latína fram að frönsku byltingunni.

Hryðjuverk al-Kaída séu ekki unnin með velvilja og stuðningi meirihluta múslíma. Á hinn bóginn eiga samtök trúarhryðjuverka mjög upp á pallborðið meðal múslíma. Miðaldafyrirbæri eins og ,,heilagt stríð" er hluti af trúarpólitískri orðræðu múslíma. Spiegel segir frá því að múslímar í Tyrklandi skrái sig í hrönnum í heilagt stríð til að setja saman kalífadæmi þar sem nú er Sýrland og Írak.

Múslímatrú og vestræn stjórnmál eiga ekki samleið. Af því leiðir á ekki undir nokkrum kringumstæðum að veita múslímum nokkra fyrirgreiðslu í nafni trúarsannfæringar þeirra. Múslímar eru ekki hluti af vestrænni menningu og geta því ekki gert tilkall til sambærilegrar fyrirgreiðslu og kristni, sem er hluti af menningu okkar og sögu.

 


mbl.is Hugðist ráðast á ferðamannastaði í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran er gölluð vara

Án sameiginlegs ríkisvalds, nokkurs konar Stór-Evrópu, verður evrunni ekki bjargað, segir At­hanasi­os Orp­hani­des, fyrr­ver­andi banka­stjóri Seðlabanka Kýp­ur, og endurómar ríkjandi viðhorf um hvað þurfi til að lagfæra hönnunargalla evrunnar.

Á hinn bóginn er engin samstaða um það meðal evru-ríkjanna 18 og enn síður meðal ESB-ríkjanna 28 hvernig eigi að bæta úr göllum evrunnar. Aukið fullveldisframsal er bannorð í Bretlandi, sem líklega er á leiðinni út úr ESB, og í Frakklandi vex þeim fiskur um hrygg sem neita að framselja vald til Brussel.

Á meðan fullkomin óvissa er um framtíð evrunnar er fullkomlega óábyrgt að tala fyrir aðild Íslands að evru-svæðinu.


mbl.is Yrðu mistök að taka upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflutt hrátt kjöt, vistkerfið og sjúkdómar

Áður en starfsmenn danskra svínabúa fá inni í á sjúkrahúsum þar í landi eru þeir prófaðir fyrir MRSA-veirunni sem er fjölónæm og veldur lokunum á sjúkrahúsdeildum þar sem hún finnst.

Iðnvædd svínakjötsframleiðsla danskra búa reynir á þanmörk vistkerfisins, segir Steinar Westin prófessor í lýðheilsufræðum í grein sem hann skrifar undir heitinu Ökologisk svineri eða Vistfræðileg svínastía.

Westin er Norðmaður og hann varar landa sína að snæða dansk svínakjöt vegna dýrasjúkdóma sem eru landlægir í dönskum svínabúum - en ekki norskum.

Kjöt er ekki vara eins og tannkrem eða þvottavélar. Vistkerfi kjötframleiðslu leyfir ekki nema takmarkaðar stærðir, t.d. fjölda svína í einu búi, ef ekki á illa að fara. Dönsk svínabú, sem eru stór jafnvel á evrópskan mælikvarða, nota ógrynni af sóttvarnarlyfjum til að stemma stigum við sjúkdómum. En eykur aftur líkurnar á að MRSA-veiran, sem er fjölónæm, nái sér á strik.

Kjötframleiðsla á Íslandi er bæði hóflegri og heilbrigðari en víðast hvar á byggðu bóli. Fórnum ekki slíkum gæðum af vangá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband