Miðvikudagur, 23. nóvember 2022
Kæra Aðalsteins til Evrópu, RSK-málið
Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni sagðist ætla að kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu að hann væri sakborningur í RSK-málinu, þar sem byrlun Páls skipstjóra og stuldur á síma hans eru kjarni málsins.
Auk Aðalsteins eru sakborningar Þóra Arnórs á RÚV, Þórður Snær og Arnar Þór, báðir á Kjarnanum.
Aðalsteinn tilkynnti um kæruna fyrir tveim mánuðum í grein á Stundinni. Út á þá tilkynningu fékk Aðalsteinn viðtal við sig í Kastljósi og ítarlega frétt á RÚV.
Nú eru liðnir tveir mánuðir og engar fréttir eru um að Aðalsteinn hafi sent kæru til Evrópu.
Tilfallandi spurningar vakna. Var þetta allt í plati hjá Aðalsteini og RSK-miðlum? Tilraun til að gera fórnarlamb úr blaðamanninum?
Treysta Aðalsteinn og RSK-miðlar á að fólk sé fífl sem man ekki Stundinni lengur hver málsvörn sakborningana var í gær?
Hvers vegna spyrja aðrir blaðamenn ekki Aðalstein um kæruna? Er það ekki hlutverk fjölmiðla að veita aðhald, jafnvel þótt fjórða valdið eigi í hlut? Eða er það hlutverk blaðamanna að draga fjöður yfir sakamál þar sem starfsfélagar eru sakborningar?
Það er frétt ef Aðalsteinn hefur sent kæru til mannréttindadómstóls Evrópu. Það er líka frétt hafi ekki sent kæru eftir að staðhæft að hann ætlaði gera svo.
Fá blaðamenn og fjölmiðlar ríkisstuðning til að velja og hafna fréttum í þágu einkahagsmuna? Ef svo er þá eru blaðamenn ríkisstyrkt forréttindastétt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 22. nóvember 2022
Píratar fagna ofbeldi
Píratar vilja setja peninga til hælisleitenda en ekki til ellilífeyrisþega, öryrkja og í velferðarþjónustuna. Það lá fyrir. Nýtt er að Píratar eru jákvæðir gagnvart ofbeldi.
Afstöðu Pírata má finna í orðum Halldóru Mogensen þingmanns. Hún harmar ekki vaxandi ofbeldi hér á landi en er með böggum hildar að dómsmálaráðherra axli ábyrgð og fái fjármuni til að bregðast við ótíðindunum.
Halldóra lætur sér fátt um finnast að skipulögðum glæpasamtökum vaxi fiskur um hrygg og herji á samfélag sem hingað til hefur þótt friðsamlegt.
Píratar telja forgangsmál að setja peninga í útlendinga sem hingað koma í leit að öðru en vinnu; húsnæði og uppihaldi í hrekklausu samfélagi.
Píratar sýna samstöðu með skipulagðri glæpastarfsemi og eru jákvæðir gagnvart ofbeldi. Fyrir nokkrum árum stillti flokkssystir Halldóru, Þórhildur Sunna, sér upp fyrir framan myndavélar alþingis með svarta húfu þar sem á voru tveir hástafir, FO. Þórhildur Sunna er svo ánægð með boðskapinn að hún gerir höfuðfatið með torræðu áletruninni að einkennisbúningi sínum.
Nú er upplýst hvað stafirnir standa fyrir: Fögnum Ofbeldi.
![]() |
Nóg fjármagn til þess að fara í stríð gegn fólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 21. nóvember 2022
Úkraína fær vestrænt afsvar
Nató og vestrið bitu ekki á agn Selenskí Úkraínuforseta, um að rússneskri eldflaug hefði verið skotið á Pólland. Selenskí vildi að 5. grein Nató-sáttmálans yrði virkjuð og að hernaðarbandalagið lýsti yfir stríði við Rússland.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Nató var tiltölulega fljótur að afþakka tilboð um stigmögnun átaka. Vesturveldin hefðu ekki þurft að hryggbrjóta Selenskí með afgerandi hætti. Þeim hefði verið í lófa lagið að taka sér tíma að skoða málið og velta fyrir sér mögulegu andsvari.
Vesturveldin telja stórkostlega hagsmuni í húfi í Úkraínu, í bráð og lengd. Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna segir í ræðu fyrir þrem dögum að úrslitin í Úkraínu ráði varnar- og öryggismálum það sem eftir lifir aldarinnar. Hvorki meira né minna.
Hvers vegna gripu vesturveldin ekki tækifærið, sem Selenski rétti þeim í hendur, til stigmögnunar?
Líklegasta svarið er að vesturveldin trúa ekki á úkraínskan sigur annars vegar og hins vegar að þau vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum hætta sér lengra út í stríðsfenið.
Sunak forsætisráðherra Bretlands heimsótti Selenskí í Kænugarði fyrir tveim dögum. Fjölmiðlaumfjöllun var lítil og fátt segir af samtölum leiðtoganna. BBC segir að Sunak hafi komið með loforð um 50 milljón punda hernaðaraðstoð. Það eru smápeningar.
Rússland er að ljúka herkvaðningu 300-350 þúsund hermanna. Á vígvellinum eru þeir komnir með yfirtölu. Búist er við rússneskri sókn á næstunni. Til að Úkraína eigi minnstu möguleika að halda aftur af auknum herstyrk Rússa þurfa þeir á stóraukinni hernaðaraðstoð að halda. Sú aðstoð er ekki á leiðinni.
Rússland er þegar orðið stórveldi, þótt það fari heldur hljótt. Fyrir átta árum sagði þáverandi Bandaríkjaforseti, Obama, að Rússland væri miðlungsríki er reyndi að gera sig digurt. Í dag viðurkennir varnarmálaráðherra Bandaríkjanna að Rússar séu afgerandi afl í mótun varnar- og öryggismála á þessari öld.
Vesturveldin reyna á bakvið tjöldin að minnka skaðann af tapi Úkraínu í stríðinu við Rússa. Herfræði Nató var að skaffa Úkraínu vopn og fjármagn til að sigra Rússa. Vestrið skyldi halda herliði sínu fjarri vettvangi en knýja Rússa til uppgjafar með efnahagsþvingunum.
Herfræðin ætlar ekki að lukkast. Varaáætlunin gengur út á að vestrið þvoi hendur sínar af Úkraínu. Ekki er það stórmannlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 20. nóvember 2022
Þóra við byrlara Páls: skrifaðu sem mest
,,Við getum líka hist á Yndisaukakaffihúsinu hér í Efstaleiti 25b," skrifar Þóra Arnórsdóttir ritstjóri á RÚV i fésbókarspjalli við byrlara Páls skipstjóra Steingrímsson 25. ágúst í fyrra. Fimm dögum seinna er Þóra aftur í samskiptum við byrlarann og biður að viðkomandi skrifi ,,sem mest" til sín. Byrlarinn segir að um sé að ræða upplýsingar ,,sem ekki mega fara í fjölmiðla að svo stöddu." Meðal upplýsinga sem fara þeim á milli er skjáskot af bankareikningi Páls skipstjóra.
Byrlarinn er andlega veik kona, nátengd Páli skipstjóra. Tæpum fjórum mánuðum áður en ofangreind samskipti fóru fram var skipstjóranum byrlað og síma hans stolið og hann afritaður af blaðamönnum. Eftir stuld og afritun var símanum skilað á sjúkrabeð Páls þar sem hann var meðvitundarlaus.
Byrlarinn var starfssamur þessa ágústdaga í fyrra. Hann heimsótti m.a. ættingja æðstu manna Samherja og gaf Þóru til kynna að hafa í fórum sínum áhugaverðar upplýsingar. ,,Skrifaðu sem mest," svaraði Þóra. Regluleg símtöl fóru á milli Þóru og byrlara samhliða spjalli þeirra á fésbók. Þá liggur einnig fyrir að tvímenningarnir hittust á kaffihúsi í grennd við starfsstöð Þóru á Efstaleiti.
Samskipti Þóru og byrlara eru tekin úr gögnum lögreglu. Þau eru athyglisverð fyrir þær sakir að þau sýna veruleg tengsl yfir langan tíma á milli Þóru og byrlara. Páli var byrlað 4. maí í fyrra. Tilvitnað spjall fór fram í ágúst. Í gögnum lögreglu kemur einnig fram að daginn sem byrlarinn fór í sína fyrstu yfirheyrslu, 5. október í fyrra, var skráð rúmlega 6 mín. símtal milli þeirra tveggja.
Þegar Þóra mætti til yfirheyrslu í ágúst í ár, rúmlega ári eftir byrlun og þjófnað, var hún spurð um samskipti sín við byrlarann. ,,Aðspurð sagðist Þóra kjósa að tjá sig ekki um það hvort" byrlarinn hafi gagngert verið gerður út af örkinni til að sækja heim ættingja yfirmanna Samherja og fá frá þeim upplýsingar. Nær öll svör Þóru eru á þennan veg: ég kýs að tjá mig ekki.
Þóra og RÚV birtu aldrei neinar fréttir upp úr síma Páls skipstjóra eða öðrum gögnum sem byrlarinn skaffaði. Stundin og Kjarninn sáu um að birta fréttirnar. Engin dæmi eru um að fréttamenn á þrem fjölmiðlum, sem eiga að heita sjálfstæðir, vinni fréttaefni á þennan hátt. RÚV, sem er ríkisfjölmiðill, þverbrýtur allar skráðar og óskráðar siða- og vinnureglur um starfshætti fjölmiðla með aðild að lögbrotum og baktjaldamakki.
Í lögreglurannsókninni er Þóra sakborningur ásamt Þórði Snæ og Arnari Þór á Kjarnanum og Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Aðalsteinn var undirmaður Þóru á RÚV en söðlaði skyndilega um vinnustað - fjórum dögum áður en Páli skipstjóra var byrlað.
Byrlarinn kunni lítið fyrir sér að opna forritin í síma Páls sem geymdu gögn og upplýsingar. Blaðamenn RSK-miðla tóku að sér að sækja þessi gögn úr afritaða símanum. Þeir sendu byrlaranum gögnin í tölvupósti. Þar á meðal er myndskeið af skipstjóranum á ástarfundi með jafnöldru sinni.
Gögnin sem lögregla hefur látið í hendur lögmanna málsaðila eru ekki tæmandi. Elstu gögnin eru frá ágúst 2021. Gögn sem varpa ljósi á atburðarásina í lok apríl og byrjun maí í fyrra, þegar Páli skipstjóra var byrlað, hafa ekki verið lögð fram.
Spurningar lögreglu til sakborninga gefa vísbendingu um hvers sé að vænta. Þannig er Þórður Snær spurður hvort hann hafi fengið í hendur síma Páls skipstjóra. ,,Þórður segist aldrei hafa séð símtæki í eigu Páls Steingrímssonar," er haft eftir ritstjóra Kjarnans í lögregluskýrslu.
Sími skipstjórans geymdi bæði staðsetningarforrit og smitrakningarforrit. Hafi Þórður Snær verið nærri síma Páls þann rúma sólarhring, sem síminn var í þjófahöndum, er sú nærvera skráð í gagnagrunn. En, auðvitað, ekki hvort ritstjórinn hafi verið með augun opin eða lokuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 19. nóvember 2022
Ímyndin um einn heim vestrænan
Úkraínustríðið gerir margan meintan hernaðarandstæðing herskáan. Andrés Ingi Jónsson, fyrrum vinstri grænn og nú pírati, fullyrðir:
Afstaða að mér sýnist allrar Evrópu er mjög skýr; að þetta stríð Rússa gegn Úkraínu eigi ekki að líðast. Ég hef ekki heyrt einn einasta halda öðru fram, til dæmis inni á Alþingi.
Vinstrimaður í eldri kantinum, þjóðháttafræðingurinn Árni Björnsson skrifar margtuggu um stríð og kemst að þessari niðurstöðu: ,,Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra sem ágirnast meðal annars auðlindir Úkraínu."
Einu sinni, þegar Árni var ungur og Andrés ekki fæddur, héldu vinstrimenn á lofti valkostum við vestrænan kapítalisma. Valkostirnir áttu það sameiginlega stef að boða frið á jörðu, ásamt réttlæti og öðru fögru. Núna er stríðslystin öðrum kenndum yfirsterkari hjá vinstrimönnum.
Evrópskir vinstrimenn eru í dag í sambærilegri stöðu og þeir voru fyrir fyrra stríð. Í orði kveðnu hlynntir friði og fögrum heimi en láta auðveldlega sannfærast um að vopnuð átök séu betri en samningar.
Vestræni meginstraumurinn, bæði hægri- og vinstrimenn, er þjakaður af ímynd sem byggir á óskhyggju. Ímyndin er um einn heim vestrænan. Í grunninn er þetta 19. aldar hugmynd, sem nýlenduveldin þróuðu með sér.
Járntjaldið sem skipti Evrópu í kalda stríðinu féll 1989-1991. Í vissum skilningi var álfunni kippt aftur um hundrað ár, fyrir fyrri heimsstyrjöld og rússnesku byltinguna.
Í aðdraganda fyrra stríðs var Evrópa margpóla. Frakkland, Bretland, Þýskaland og Rússland gerðu öll stórveldistilkall, Austurríki-Ungverjaland og Ítalía einnig en af veikari mætti. Á þessum tíma voru Bandaríkin sofandi risi, skiptu sér ekki af utanríkispólitík gamla heimsins, nema að Evrópuríkjum var bannað að seilast til áhrifa í vesturheimi skv. Monroe-yfirlýsingunni 1823.
Drögin að Úkraínustríðinu voru lögð með einhliða útþenslu sigurvegara kalda stríðsins, Bandaríkjanna, ESB og Nató, inn í Austur-Evrópu sem hafði verið viðurkennt áhrifasvæði Sovétríkjanna/Rússlands eftir seinna stríð. Engin knýjandi nauðsyn var á vestrænni sókn í austur. En Rússland stóð vel til höggs.
Lengi vel létu Rússar breytt valdahlutföll yfir sig ganga. Eftir fall Sovétríkjanna var Rússland veikt og ekki í neinum færum að halda forræði Austur-Evrópu. Rússland var á hinn bóginn ekki það veikt og lítið að Bandaríkin/Nató/ESB gætu með góðu móti innbyrt landið með Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og öðru sovésku erfðagóssi. Rússland var í senn of lítið og of stórt til að falla að vestrænni heimsmynd eftir kalda stríðið. En sigurvegararnir vildu sitt herfang, það er gömul saga og ný.
Annað tveggja hlaut að gerast í samskiptum vesturs og austurs. Í fyrsta lagi samningar milli aðila um gagnkvæma öryggishagsmuni. Vandinn við slíka samninga var, séð frá vestrænum sjónarhóli, að þeir lyftu Rússlandi upp í stöðu stórveldis er stæði jafnfætis Bandaríkjunum/Nató/ESB. Það væri ekki í samræmi við vestrænan sigur í kalda stríðinu.
Rússland er á hlutlægan mælikvarða stórt á evrópska vísu í þrennum skilningi: í landflæmi, íbúafjölda og fjölda kjarnorkuvopna. Þegar Norður-Ameríka og ESB eru lögð saman er tómt mál að tala um jafnræði. Rússlandi er stórt andspænis Evrópu en smátt í samburði við bandalagið yfir Atlantsála.
Í öðru lagi óvináttu með yfirgnæfandi líkum á stríði. Sú leið varð ofan á. Tímasetningin liggur fyrir. Á leiðtogafundi Nató-ríkjanna í Búkarest í Rúmeníu 3. apríl 2008 var gefin út sameiginleg yfirlýsing. Í 23. lið yfirlýsingarinnar segir:
Nató fagnar vilja Úkraínu og Georgíu til samstarfs þvert á Atlantshafið og aðildar að Nató. Við samþykkjum í dag að þessi ríki verði til framtíðar aðilar að Nató.
Rússar sögðu ítrekað að Nató-aðild Úkraínu og Georgíu ógnaði öryggishagsmunum Rússlands. Á landakorti er Úkraína eins og skammbyssa beint að Moskvu. Í beinu framhaldi af Búkarestfundinum, gera Rússar innrás í Georgíu, í ágúst 2008, sem er lítið land og auðunnið rússneskum herjum.
Úkraína er landmesta land Evrópu, utan Rússlands, og enginn hægðarleikur að sigra það, eins og raun hefur orðið á. Úkraína er t.d. 70% stærra en Þýskaland að landflæmi.
Ófriðurinn var aðeins glæður sumarið 2008 en blossaði upp í febrúar í ár. Í 14 ár var hægt að koma í veg fyrir stríð. Forsendan var að endurskoða Búkarest-yfirlýsinguna. Sigurvegarar kalda stríðsins töldu sig hafa öll ráð Rússa í hendi sér og gáfu ekki þumlung eftir. Vestrænu afarkostirnir voru tveir, stríð eða rússnesk uppgjöf.
Ímyndin um einn heim vestrænan eftir kalda stríðið var of sterk til að Bandaríkin/Nató/ESB stæðust mátið. Rússar hlutu, var viðkvæðið, að gefa eftir og selja bæði Úkraínu og í framhaldi eigið fullveldi undir vestrænt forræði. Ef ekki skyldu þeir komast að því fullkeyptu.
Tvenn mistök eru í þessum útreikningi. Seigla Rússa er meiri en búist var við. Þá var reiknað með að Kína yrði hlutlaus áhorfandi. Ráðamenn í Kína eru hvorki bernskir né elliærir. Þeir kunna sína sagnfræði. Eftir Rússland yrði Kína á vestræna matseðlinum. Með Kína sem bakhjarl tókst Rússum að fá stuðning frá stórríkjum utan vesturlanda s.s. Brasilíu og Indlandi og áttu vinum að fagna í Afríku.
Vestrinu mistókst að selja Úkraínustríðið heimsbyggðinni sem baráttu milli góðs og ills í anda kalda stríðsins. Það er stærsta ósagða fréttin sem mun líklega verða afdrifaríkari en stríðið sjálft.
Vígvöllurinn á sléttum Garðaríkis iðar af sprengjuregni og blóðsúthellingum. Eina sem (nánast) hægt er að slá föstu er að ekki verði um snöggan sigur að ræða, hvorki rússneskan né úkraínskan. Hægfara hernaður veitir svigrúm viðræðna, sem kannski leiða til friðarsamninga innan tíðar. Stórt kannski það.
Hvort sem stríðið fær niðurstöðu með afgerandi orustum eða með málamiðlun er ein ímynd sem ekki kemst ósködduð frá hildarleiknum; sú um einn heim vestrænan. Við búum í margpóla heimi, líkt og um aldamótin 1900. Stríðið í Garðaríki hefur þegar leitt fram þau sannindi, hvort sem Washington, Brussel, London, París og Berlín líkar það betur eða verr.
Sovétríkin, ólíkt flestum heimsveldum, voru friðsamlega bútuð í sundur fyrir 30 árum. Með þeim fyrirvara að yfirstandandi Úkraínustríð er bein afleiðing af sundurlimun heimskommúnismans. Í þessu ljósi má gera sér vonir að vestræn ríki horfist í augu við þann fyrirsjáanleika að heimurinn verður ekki vestrænn í bráð og temji sér meira hóf og minni hroka.
Vestræna verkefnið steytti á skeri á 21. öld í Afganistan, Írak, Líbýu, Sýrlandi og nú Úkraínu. Menn hljóta að sjá að það er fullreynt. 19du aldar hugmyndina um vestræna yfirburði þarf að endurskoða.
![]() |
Skýr afstaða til stríðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 17. nóvember 2022
Konur sækja í karlmennskuna
Árið er 1703, yfirvöldin illa dönsk. Aðeins örfáir íslenskir karlar hafa einhver mannaforráð utan heimilisins. Alþýðan er ofurseld dönskum einokunarkaupmönnum, sem var karlkyns.
Í manntali þetta árið, 1703, eru konur fimmtungi fleiri en karlar. Karlar urðu úti á heiðum og fórust í verum, í sjóslysum, á meðan konur voru yfirleitt heima og lifðu lengur. Gjald karlmennskunnar.
Árið er 2022, yfirvöldin kvenleg í meira lagi. Forsætisráðherra er kona, biskupinn líka sem og lögreglustjóri ríkisins að ekki sé talað um yfirráðin í fjármálakerfinu; mest í höndum kvenna. Sérfæðingastétt landsins er að meirihluta konur.
Konur taka karlhormón í stórum stíl, einkum konur með mannaforráð, segir í viðtengdri frétt. Gjald femínisma.
![]() |
Mikið sótt í testósterón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 18.11.2022 kl. 06:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. nóvember 2022
Saksóknari skrifar Namibíu-bréf, bróðirinn er RSK-blaðamaður
RÚV birti frétt í gærkvöldi, sem unnin var upp úr sérblaði Stundarinnar um Namibíumálið. Þriggja ára rannsókn er að ljúka, sagði fréttin. Lesendum var látið eftir að álykta: með ákærum.
Aðeins eitt smáatriði er eftir, sagði í frétt RÚV/Stundarinnar, en það er að fá gögn frá Namibíu.
Hér er ekki allt sem sýnist. Raunar fjarri því.
Smáatriðið er býsna stórt. Bréf héraðssaksóknara fór frá Íslandi 17. október, fyrir einum mánuði, til namibískra yfirvalda. Bréfið er ítarlegt, 12 blaðsíður. Sá sem skrifar undir bréfið er enginn annar en Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari og bróðir Inga Freys blaðamanns Stundarinnar. Gagnkvæmir hagsmunir bræðranna í Namibíumálinu voru gerðir að umtalsefni í tilfallandi athugasemd sl. sunnudag.
Finni Þór er umhugað að hann einn sé til svara gagnvart Namibíumönnum. Í bréfinu er aðeins heimilisfang og tölvupóstur Finns Þórs gefinn upp. Í niðurlagi segir hann að ef namibísk yfirvöld vilja ná sambandi við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknari, skuli þau samskipti fara í gegnum Finn Þór.
Bróðirinn heldur þétt utan um Samherjamálið. Meintur yfirmaður hans, Ólafur Þór, er aftur sendur í viðtal á RÚV til að vera andlitið út á við. Af bréfinu að dæma eru allir þræðir málsins í höndum Finns Þórs.
Um hvað er þá bréfið?
Jú, Finnur Þór óskar eftir upplýsingum um rannsókn og málarekstur yfir tíu namibískum einstaklingum sem gáfu ekki upp tekjur sem þeir höfðu af viðskiptum við Samherja og dótturfélög. Bróðir saksóknara, Ingi Freyr, og félagar á RSK-miðlum, halda því fram að í Namibíu séu réttarhöld vegna mútugjafa. En réttarhöldin snúast um skattskil, ekki mútur.
Saksóknarinn íslenski biður ekki um upplýsingar um skattskil namibískra sakborninga heldur hvort þeir hafi þegið mútur, eins og RSK-miðlar halda fram.
Finnur Þór óskar eftir upplýsingum, sem stórundarlegt er að hann viti ekki nú þegar, t.d. um verðið á hrossamakríl á namibískum fiskmarkaði frá árinu 2012.
Íslenski saksóknarinn er í veiðiferð að fiska í gruggugu vatni. Hann spyr opinna spurninga um hvort namibísk yfirvöld hafi fundið eitthvað sem gæti hjálpað til við rannsóknina hér heima. Það skýtur skökku við þar sem fram kemur í bréfinu að Finnur Þór hafi fundað með Namibíumönnum í tvo heila daga í Haag í Hollandi síðast liðinn maí auk fjarfunda. Ekkert bitastætt hefur komið fram á þeim fundum, en áfram skal dorgað í von um að eitthvað komi á krókinn.
Í bréfinu kemur fram að saksóknari hefur sent töluvert af gögnum frá Íslandi til Namibíu. Þá var fundur í Reykjavík í júní í sumar þar sem upplýsingar voru veittar. Í því ljósi er kúnstugt að yfirstandandi réttarhöld í Namibíu snúast eingöngu um skattskil en ekki mútur. Ályktunin sem má draga er að samanlögð gögn í Namibíu og á Íslandi sýna ekki fram á neinar mútugjafir. Mútur eru alvarlegri glæpur en vantaldir skattar.
Þrjú ár eru síðan Finnur Þór hóf rannsókn á Namibíumálinu. Bréfið vitnar um að rannsóknin kemst hvorki lönd né strönd. Óskað er eftir upplýsingum sem langan tíma tekur fyrir namibísk yfirvöld að vinna s.s. um fjölskyldu, ættmenni og vini namibískra sakborninga og fjárreiður stjórnarflokksins, SWAPO. Ólíklegt er að namibísk yfirvöld flýti sér að svara. Kannski kemur svar að ári, en líklega aldrei nema þá í skötulíki.
Í viðtali RÚV, sem vitnað var til hér að ofan, segir að það hilli undir lok þriggja ára rannsóknar á Íslandi. Bréfið ber með sér að rannsóknin sé vart komin af frumstigi. Eftir 3 ár þarf saksóknari að spyrja hvað tonnið af hrossamakríl kostaði á namibískum fiskmarkaði fyrir áratug. Hljómar ekki eins og málið sé á síðustu metrunum.
Finnur Þór er þó ekki hættur að rannsaka, öðru nær. Embætti héraðssaksóknara fékk 200 milljónir til að rannsaka Namibíumálið og þeim peningum þarf að koma í lóg. Í bréfinu biður hann namibísk yfirvöld að leyfa sér að heimsækja landið og hlusta og taka þátt í yfirheyrslu 11, já ellefu, nafngreindra vitna auk sakborninga. Vitni og sakborningar í Namibíu eru á þriðja tug. Saksóknarinn gæti dundað sér í vikur eða mánuði í sólinni þar syðra á kostnað íslenskra skattgreiðenda. Alltaf að rannsaka, auðvitað. Ábyggilega fer það vel ofan í Namibíumenn að hvítt yfirvald úr norðri sæki þá heim í leit að glæpum.
Finnur Þór tekur fram að hann muni hafa með sér föruneyti ef til kæmi. Kannski að hann bjóði bróður sínum, Inga Frey á Stundinni, að skella sér með? Það væri í takt við annað í Namibíumáli héraðssaksóknara, RSK-miðla og vinstrimanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 16. nóvember 2022
Selenskí vill kjarnorkustríð, Þorgerður Katrín tekur undir
Forseti Úkraínu var fljótur til, eftir fréttir að rússneskar eldflaugar hafi lent á Póllandi, og krefst viðbragða Nató. Pólland er Nató-ríki en ekki Úkraína.
Hvað gengur Selenskí til? Jú, að Nató-herir ráðist á Rússland. Málið dautt, drjúgur hluti heimsbyggðarinnar í leiðinni.
Forseti Úkraínu telur að ríki hans verði aðeins bjargað með kjarnorkustyrjöld. Sennilega er það rétt mat. Utan landamæra Úkraínu er hvergi nærri sjálfsagt að efna skuli til kjarnorkustyrjaldar til bjargar Garðaríki.
Hér á Fróni vekur athygli að formaður Viðreisnar stekkur á vagn forseta Úkraínu. Þorgerður Katrín ræður að vísu ekki yfir kjarnorkuvopnum, góðu heilli, en hún vill leggja sitt af mörkum í stríðsæsingnum með því að reka rússneska sendiherrann úr landi.
Selenski notar nefið í annað en inn- og útöndun en það má gera kröfu að íslenskir stjórnmálamenn andi með snoppunni áður en gefnar eru út stríðsyfirlýsingar.
Ekki er með nokkru móti hægt að segja að um rússneskar eldflaugar hafi verið að ræða. Þær gætu allt eins verið úkraínskar. Fréttir þýskra fjölmiðla í morgunsárið herma að úkraínsk lofvarnarflaug hafi lent á Póllandi en ekki rússnesk eldflaug.
Hafi eldflaugarnar verið rússneskar er verulega ofmælt að segja Pólland hafi orðið fyrir hernaðaraðgerð. Skotmarkið var ekki hernaðarlegt.
Sumum bráðliggur á að kveikja kjarnorkubál. Formaður Viðreisnar er í klappliðinu.
![]() |
Við verðum að bregðast við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 15. nóvember 2022
Bjarni hryggbraut Glæpaleiti, Kristrún refsaði
Aktívistar RÚV líta á sig sem æðstupresta opinberrar umræðu á Íslandi. Þeir velja sér skjólstæðinga úr röðum þingmanna til að tryggja óheftan aðgang að almannafé. Í staðinn fá þingmenn kastljósinu beint að sér.
Dagskrárvald RÚV er notað til að halda á lofti málefnum sem aktívistum er kær s.s. manngerðu veðurfari og hælisleitendum en þagga niður óþægileg mál, t.d. aðild starfsmanna að sakamálum.
Æðstuprestarnir boðuðu Bjarna formann í skýrslutöku á Glæpaleiti. Formaður Sjálfstæðisflokksins afþakkaði uppleggið.
Kristrún formaður Samfylkingar, skjólstæðingur aktívistanna, var fengin til að úthluta formanni Sjálfstæðisflokks refsingu.
![]() |
Segir Bjarna ekki þora að mæta sér í Kastljósi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 14. nóvember 2022
Þórður Snær og ólöglega heimildin
Þórður Snær ritstjóri Kjarnans skrifar leiðara á laugardag og segir m.a. þetta:
Vernd heimildarmanna hefur ekki verið styrkt meira en svo að lögreglu þykir tilhlýðilegt að kalla blaðamenn til yfirheyrslu til að reyna að komast að því hverjir heimildarmenn þeirra séu, þrátt fyrir að það sé ólöglegt fyrir blaðamenn að gefa það upp.
Ritstjórinn vísar til lögreglurannsóknar á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Þórður Snær er sakborningur, ásamt þremur öðrum blaðamönnum RSK-miðla.
,,Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er," segir í greinargerð lögreglu, sem lögð var fyrir héraðsdóm í febrúar vegna kæru blaðamanns sem þverskallaðist við að mæta í yfirheyrslu, taldi sig hafinn yfir lög og rétt.
Allir sem fylgst hafa með byrlunarmálinu vita hver heimildarmaðurinn er. Andlega veik kona byrlaði Páli skipstjóra, stal síma hans og lét í hendur blaðamanna RSK-miðla. Þetta eru vel þekktar staðreyndir. Óupplýst er hvert var hlutverk einstakra blaðamanna og hvernig háttar til með aðdraganda og eftirmál. Það kemur væntanlega í ljós í ákæruskjali og réttarhöldum.
Ritstjórinn reynir að bregða leyndarhjúp yfir almælt tíðindi. Í níu mánuði, frá febrúar, er vitað hver sé heimildarmaður RSK-miðla en nú reynir reynir Þórður Snær að búa til leyndarmál, sem ,,ólöglegt" er að upplýsa. Sjálfsupphafningin er neyðarleg. Ritstjórinn þykist handhafi æðri sanninda og megi ekki með nokkru móti upplýsa efnisatriði sem þó eru alkunn.
Ritstjórinn þykist ekki vita að ólöglegt er að byrla, stela, stunda stafrænt kynferðisofbeldi, brjóta á friðhelgi einkalífs og misnota andlega veika einstaklinga. Það eru einmitt sakarefnin í lögreglurannsókninni. En það er aftur kristalstært í huga Þórðar Snæs að ólöglegt sé að gefa upp nafn heimildarmanns.
Ritstjóri sem gengur jafn langt í blekkingum og kann ekki skil á grunnatriðum sakamáls, þar sem hann sjálfur er sakborningur, auglýsir sjálfan sig sem liðónýtan blaðamann. Blaðamaður sem lifir í heimi ímyndunar er ekki í stakk búinn að segja frá atburðum í raunheimi.
Veruleikafirring verðlaunablaðamannsins er upplýsandi fyrir þá sem klóra sér í kollinum yfir vegferð RSK-miðla síðustu ár. Nærtæk skýring er að blaðamennirnir eru illa haldnir sjálfsblekkingu annars vegar og hins vegar með Messíasarkomplexa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)