Úkraína fær vestrænt afsvar

Nató og vestrið bitu ekki á agn Selenskí Úkraínuforseta, um að rússneskri eldflaug hefði verið skotið á Pólland. Selenskí vildi að 5. grein Nató-sáttmálans yrði virkjuð og að hernaðarbandalagið lýsti yfir stríði við Rússland.

Jens Stolten­berg fram­kvæmda­stjóri Nató var tiltölulega fljótur að afþakka tilboð um stigmögnun átaka. Vesturveldin hefðu ekki þurft að hryggbrjóta Selenskí með afgerandi hætti. Þeim hefði verið í lófa lagið að taka sér tíma að skoða málið og velta fyrir sér mögulegu andsvari.

Vesturveldin telja stórkostlega hagsmuni í húfi í Úkraínu, í bráð og lengd. Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna segir í ræðu fyrir þrem dögum að úrslitin í Úkraínu ráði varnar- og öryggismálum það sem eftir lifir aldarinnar. Hvorki meira né minna.

Hvers vegna gripu vesturveldin ekki tækifærið, sem Selenski rétti þeim í hendur, til stigmögnunar?

Líklegasta svarið er að vesturveldin trúa ekki á úkraínskan sigur annars vegar og hins vegar að þau vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum hætta sér lengra út í stríðsfenið.

Sunak forsætisráðherra Bretlands heimsótti Selenskí í Kænugarði fyrir tveim dögum. Fjölmiðlaumfjöllun var lítil og fátt segir af samtölum leiðtoganna. BBC segir að Sunak hafi komið með loforð um 50 milljón punda hernaðaraðstoð. Það eru smápeningar.

Rússland er að ljúka herkvaðningu 300-350 þúsund hermanna. Á vígvellinum eru þeir komnir með yfirtölu. Búist er við rússneskri sókn á næstunni. Til að Úkraína eigi minnstu möguleika að halda aftur af auknum herstyrk Rússa þurfa þeir á stóraukinni hernaðaraðstoð að halda. Sú aðstoð er ekki á leiðinni.

Rússland er þegar orðið stórveldi, þótt það fari heldur hljótt. Fyrir átta árum sagði þáverandi Bandaríkjaforseti, Obama, að Rússland væri miðlungsríki er reyndi að gera sig digurt. Í dag viðurkennir varnarmálaráðherra Bandaríkjanna að Rússar séu afgerandi afl í mótun varnar- og öryggismála á þessari öld.

Vesturveldin reyna á bakvið tjöldin að minnka skaðann af tapi Úkraínu í stríðinu við Rússa. Herfræði Nató var að skaffa Úkraínu vopn og fjármagn til að sigra Rússa. Vestrið skyldi halda herliði sínu fjarri vettvangi en knýja Rússa til uppgjafar með efnahagsþvingunum.

Herfræðin ætlar ekki að lukkast. Varaáætlunin gengur út á að vestrið þvoi hendur sínar af Úkraínu. Ekki er það stórmannlegt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Enn eitt landið skilið eftir í rúst.

Ragnhildur Kolka, 21.11.2022 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband