Færsluflokkur: Dægurmál

Hryglustjórnmál

Hryglustjórnmál heitir það þegar dauðvona ríkisstjórn hrúgar upp stórum tillögum um fyrirætlanir sínar. Tillögurnar eiga engan möguleika að ná fram að ganga. Stjórnarráðið er byggt þannig upp að ráðherra er með ráðuneyti að léni og getur bremsað allar tillögur um breytingar án þess að þess sjáist nokkur merki. Nóg er að ráðherra setji upp skeifu og þá gera undirmenn hans ekkert og fyrirætlanir forsætisráðuneytis fara út um þúfur.

Til að gera róttækar breytingar á stjórnkerfinu þarf í senn sterka sannfæringu, öfluga leiðtoga og meðbyr þjóðarinnar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekkert af þessu.

Ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar eru þegar farnir að huga að pólitískum leikfléttum eftir formlegt andlát stjórnarinnar.


mbl.is Viðamiklar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afdráttarlaus miðjupólitík

Ár er liðið frá hruni og útlínur nýja Íslands eru enn  í móðu. Líklega er botninum náð í efnahagskreppunni en þjóðarvitundin finnur ekki útleið úr völundarhúsi hrunsins. Á vinstri kanti stjórnmálanna ræður lífsspeki uppgjafar, Evrópusambandið á að bjarga landinu frá þjóðinni sem byggir það. Hægrimenn virðast ætla að ná vopnum sínum sem frjálshyggjumenn gærdagsins. Samhengi óheftrar markaðshyggju og hrunsins ætti að vera hverjum manni augljós.

Ef hægrið og vinstrið, að svo miklu leyti sem vit er í þeim merkimiðum, ætla ekki að láta segjast og leggja af ófremdarfræði sín skapast kjöraðstæður fyrir afdráttarlausa miðjupólitík sem byggir á traustum gildum ráðdeildar í efnahagsmálum, íhaldssemi í þjóðfélagsmálum og síðast en ekki síst sannfæringar að Íslendingum sé best borgið með forræði eigin mála.

Í einni setningu: Framsóknarflokkurinn gæti orðið flokkurinn okkar.

 


Minnihlutastjórn, ekki þjóðstjórn

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur rann sitt skeið þegar Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvörum Alþingis við ríkisábyrgð á Icesave-samningunum. Ófrávíkjanlegt pólitískt gjald til að fá viðsemjendur okkar að samningaborði er að ríkisstjórnin axli ábyrgð og fari frá. Þangað til verður allt frosið.

Mótbáran við að ríkisstjórnin segi af sér er iðulega að ekkert betra sé í stöðunni. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, mótmælti því ekki í Silfri Egils að flokkurinn treysti sér ekki í ríkisstjórn vegna óuppgerðra hrunmála. Af þeirri staðreynd má ekki draga þá ályktun að ekki sé hægt að mynda nýja stjórn.

Þjóðstjórn hefur verið nefnd sem möguleik en það er afleitt fyrirkomulag. Það þýðir að engin stjórnarandstaða er á þingi og býður heim hverskyns hættu á undirmálum, undirferli og ósvinnu.

Minnihlutastjórn Vinstri grænna er á hinn bóginn raunhæfur kostur. Vg eru ekki aðilar að hruninu, eins og allir hinir flokkarnir. Með Vg í stjórn í skjóli samkomulags á þingi er ekki hætta á að framkvæmdavaldið gleypi þingið, eins og í tilviki þjóðstjórnar, en jafnframt myndi nást breið samstaða um helstu mál.

Minnihlutastjórnin yrði mynduð til skamms tíma 12-18 mánaða og yrði þá gengið til kosninga að nýju.

Aðstæður eru sérstakar nú um stundir og þær kalla á óhefðbundnar lausnir.


Fjöldagjaldþrot gæti orðið þjóðargjaldþrot

Ef ríkisvaldið hefur fundið aðferð til að lagfæra ásigkomulag heimilisbókhalds þeirra sem höllustum fæti standa og gera það málefnalega og sanngjarnt þá er ástæða til að taka ofan fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir.

Ef, aftur á móti, þessar boðuðu aðgerðir séu annað tveggja leiktjöld sem fáum gagnast eða óheyrilegt bruðl á almannafé gæti sértækt vandamál fimmtungs þjóðarinnar orðið að þjóðargjaldþroti.

Líklegast er að aðgerðapakkinn sé sitt lítið af hverju, smáplástrar og pínu klúður í bland við yfirborðsmennsku.  Það er í stíl sitjandi stjórnar. Vonandi rata þó plástrarnir á réttu meinin.

 

 


mbl.is Greiðslubyrði lána færð aftur til maí 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össuarþáttur hrunsins

Utandagskrárumræða á Alþingi í janúar 2002 var um efnahagsmál og málshefjandi var Össur Skarphéðinsson þáverandi formaður Samfylkingarinnar. ,,Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur," sagði Össur og bætti við, ,,.það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda."

Í fyrsta svari sínu til Össurar fór Davíð Oddsson forsætisráðherra almennum orðum um efnahagsástandið og taldi það horfa til betri vegar þrátt fyrir verðbólguskot. Össur fór öðru sinni í ræðustól og brýndi forsætisráðherra. Davíð svaraði með þeim orðum að ,,[a]uðvitað á að fylgja því eftir að stórir aðilar séu ekki að misnota aðstöðu sína. Auðvitað er 60% eignaraðild í matvælafyrirtækjum, verslunarfyrirtækjum í matvælaiðnaði, allt of há hlutdeild. Auðvitað er það uggvænlegt og sérstaklega þegar menn hafa á tilfinningunni að menn beiti ekki því mikla valdi sem þeir hafa þar af skynsemi. Auðvitað hlýtur að koma til greina af hálfu ríkisins og Alþingis að skipta upp slíkum eignum ef þær eru misnotaðar."

Jón Ásgeir Jóhannesson Baugsstjóri tók gagnrýninni illa og gremja hans beindist að forsætisráðherra en ekki málshefjanda, formanni Samfylkingarinnar. Hreinn Loftsson stjórnarformaður var sendur á fund Davíðs. Þeir hittust í London, eins og síðar varð frægt.

Í framhaldi lagði Jón Ásgeir undir sig hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum, m.a. til að stjórna umræðunni með því að berja á þeim sem voru honum andsnúnir og hampa viðhlæjendum. Eftir því sem Jón Ásgeir efldist minnkaði gagnrýnistónn Össurar. Tveim árum eftir utandagskrárumræðuna lagðist Össur hart gegn því að böndum yrði komið á yfirburðastöðu Jóns Ásgeirs í fjölmiðlum.

Össur og Samfylkingin gerðust útrásarsinnuð Baugsfylking.

 


mbl.is Össur ávarpaði allsherjarþing SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisbankar í kennitöluflakki

Ríkisbankar virðast stunda hagsmunavörslu sem grefur undan almennu siðferði. Bankarnir stuðla að kennitöluflakki þar sem eigendum fyrirtækja er beinlínis ráðlagt að skipta um kennitölu á rekstri til að skilja eftir skuldir - nema lán sem bankinn á og færist yfir á nýja kennitölu. Ríkisbanki lætur þar með samfélagið taka á sig tapið en reddar sjálfum sér og hleður undir óskilvísa og subburekstur.

Stór mál eins og kennitöluþjónusta sem bankar veita Jóni Ásgeiri Jóhannessyni föllnum Baugsstjóra komast í fréttirnar en smærri málin síður.

Prentsmiðjueigandi skrifar hrollvekju um kennitöluflakk sem vekur áleitnar spurningar um hvort sóðaskapur útrásaráranna blómstri í ríkisvæddum bönkum. Er ekki komið nóg?

 


Össur rífst við ráðherra um dauðan samning

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sendi frá sér frétt í dag um að hann hefði þjarkað við starfsbræður sína frá Bretlandi og Hollandi um Icesave-málið. Í Sjónvarpsfréttum lét hann koma fram að viðsemjendur okkar væru harðir á því að virða að vettugi fyrirvara Alþingis á ríkisábyrgðinni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og samflokksmaður Össurar sagði í dag að innan nokkurra daga yrði að vænta tíðinda af málinu.

Í raun hefur ríkisstjórnin vitað  um afstöðu Breta og Hollendinga frá byrjun mánaðarins þegar Indriði Þorláksson hægri hönd fjármálaráðherra fór í frægt ferðalag og skrifaði minnispunkta á leiðinni heim sem samferðarmenn hans lásu.

Össur og Jóhanna eru að setja upp sýningu til að fela raunverulega stöðu málsins. Icesave-samningurinn er dauður.


Sitjandi stjórn leysir ekki Icesave

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stendur í vegi fyrir farsælli lausn Icesave-deilunnar við Breta og Hollendinga. Stjórnin gerði handónýtan samning upphaflega sem Alþingi breytti með fyrirvörum við ríkisábyrgðina á greiðslum til Breta og Hollendinga.

Þegar liggur fyrir að viðsemjendur okkar sætta sig ekki við fyrirvara Alþingis verður ríkisstjórnin að horfast í augu við veruleikann og segja af sér. Það er alþjóðlega viðurkennt pólitískt gjald þegar ríkisstjórn gerir stórfelld axarsköft. Alþjóðasamfélagið mun sýna Íslandi skilning þegar við förum að haga okkur af ábyrgð.

Ný minnihlutastjórn Vinstri grænna myndi byrja á því að skipa samninganefnd þar sem allri flokkar eiga aðkomu og samið yrði upp á nýtt.

En ekkert mun hreyfast fyrr en ríkisstjórnin segir af sér. Elsku Jóhanna mín, kveiktu nú á perunni áður en það er virkilega orðið alltof seint.


mbl.is Ekki séð fyrir enda Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtækjum þarf að fækka

Fyrirtæki sem ekki borga laun umfram atvinnuleysisbætur eiga að loka. Á tímum útrásar bólgnaði atvinnulífið út á fölskum forsendum. Flugvélafarmar af útlendingum voru fluttir hingað til að vinna á láglaunataxta sem þeir gerðu vegna þess að krónan var sterk og hægt var að kaupa mörg zloty til að senda heim. Í dag er vitleysunni lokið og atvinnurekendur sem ekki geta borgað meira en 150 þús. kr. í mánaðarlaun eiga að loka sjoppunni.

Við getum þakkað Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnurekenda að lengt var í hengingaról ruglfyrirtækja með því að vextir voru lækkaðir alltof snemma úr 18 prósent niður í 12. Það þarf að grisja í fyrirtækjarekstri og það er best gert hratt og ákveðið. Þegar búið er að svíða óræktina spretta nýgræðlingar upp. Ekki fyrr.


mbl.is Betra að vera á bótum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnihlutastjórn Vinstri grænna

Bretar og Hollendingar hafna fyrirvörum Alþingis við ríkisábyrgð á Icesave-samningnum. Þar með er ríkisstjórnin fallin. Aðeins á eftir að tímasetja afsögn ríkisstjórnarinnar. Minnihlutastjórn Vinstri grænna ætti að taka við og sitja fram á næsta vor, þegar kosið yrði á ný.

Minnihlutastjórn myndi starfa í skjóli breiðrar samstöðu á Alþingi um brýnustu mál. Vg er með hreinar hendur af hruni og er treystandi fyrir framkvæmdavaldinu. Stjórnmálaflokkarnir þurfa tíma til að móta stefnu sína til að bjóða kjósendum valkosti við næstu kosningar. Eftir hrun hefur reddingarpólitík verið ráðandi og verður um sinn.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga að lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að verja minnihlutastjórn Vg falli. Samfylkingin mun emja enda ekki skipuð fólki yfirvegunar. 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er búin að vera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband