Krónan, evran og atvinnuleysi

Með krónu og fullveldi tókst Íslendingum að vinna sig hraðar úr hruninu en þeir hefðu annars gert. Hér varð ekki langtímaatvinnuleysi og hagvöxtur tók hratt við sér.

Samanburður við Írland er nærtækur. Írar voru með evru og í Evrópusambandinu. Í fimm ár eftir bankahrun, sem varð á svipuðum tíma og á Íslandi. bjuggu Írar við atvinnuleysi upp á 13 til 15 prósent. Í haust er því sérstaklega fagnað að atvinnuleysi á Írlandi er komið niður fyrir evru-meðaltalið og liggur nú við rúm 11 prósent.

Íslensk samfélagsgerð væri ekki söm og jöfn ef við yrðum að þola yfir tíu prósent atvinnuleysi yfir lengri tíma. Þeir sem biðja um evru eru jafnframt að kalla yfir okkur langtímaatvinnuleysi þúsunda landsmanna.

 


mbl.is Evran hefði ekki gagnast Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétttrúnaður og moska hlið við hlið

Vinstrimeirihlutinn í Reykjavík getur úthlutað lóð undir mosku á horni Seljavegar og Mýrargötu. Þar með yrðu trúarsöfnuðir rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og múslímar í kallfæri.

Slík lóðaúthlutun myndi vera í sátt við nærliggjandi umhverfi enda vitað að kjósendur vinstriflokkanna hreiðra helst um sig í vesturbænum.

Hér er tækifæri til að leggja fram trúarpólitískt manifestó vinstrimanna í höfuðborginni. Þeir láta varla tækifærið úr greipum sér ganga. 


mbl.is Tillaga um óbreytt skipulag á Nýlendureitnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaframtakið lagði Ísland í rúst

Áður en einkaaðilum er afhent landið og miðin er rétt minna á að einkaframtakið svokallaða ber stærsta ábyrgð á hruninu. Einkaframtakið græðgisvæddi Ísland í útrás sem fékk rökrétta niðurstöðu í október 2008 með orðum Geirs H. Haarde forsætisráðherra ,,guð blessi Ísland."

Einkaframtakinu er ekki treystandi fyrir innviðum landsins, t.d. rekstri flugvalla, hafna og vega. Sjálfsagt er að leyfa einkaaðilum að reka úrelta flugvelli og vegaspotta hingað og þangað en ekki að hleypa þeim að mikilvægum og viðkvæmum samgönguæðum.

Einkaframtaksmenn eyddu á tíu árum eða svo öllu trausti.  Það tekur um það bil 100 til 200 ár að sýna fram á að einkaframtakinu sér treystandi fyrir mikilvægri samfélagsstarfsemi. 


mbl.is Fjárfestar reki hafnir og flugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungir Vg-liðar: ekki orð um ESB

Í ítarlegum landsfundarsamþykktum Ungra vinstri grænna um stórt og smátt úr stjórnmálaumræðu síðustu missera er ekki minnst einu orði á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá 16. júlí 2009 sem meirihluti þingflokks Vg studdi.

Þessi hrópandi þögn um mál sem klýfur Vg niður í rætur og er beinlínis ástæðan fyrir því að þingmenn hrökkluðust úr flokknum, að ekki sé talað um fjölda stuðningsmanna, er illskiljanleg.

Er það ofviða Ungum vinstri grænum að hafa skoðun á því hvort Ísland eigi heima í Evrópusambandinu eða ekki?


Gunnar K. fyllti salinn - landnámið staðfest

Húsfyllir var á fyrirlestri Gunnars Karlssonar sagnfræðings þar sem hann tók saman stöðu þekkingar um landnámssögu Íslands.

Meginniðurstaða Gunnars er að fornleifarannsóknir og geislakolsmælingar staðfesta ritheimildir, Íslendingasögu og Landnámu, sem tímasetja landnámið á seinni hluta níundu aldar.

Að auki rakti Gunnar helstu kenningar um landnám fyrir landnám. Það er hundrað ára gömul aukabúgrein í íslenskum alþýðufræðum að setja saman slíkar tilgátur. Þar finnst margt skemmtilegt en fátt trúlegt.


Konur mennta sig: nám gjaldfellt á vinnumarkaði

Aðalfréttin úr könnun VR er ekki að karlar fái frekar síma hjá vinnuveitanda sínum en konur heldur hitt að menntun er komin í kerfisbundna gjaldfellingu. Í frétt í pappírsútgáfu Morgunblaðsins segir

Hins vegar benda niðurstöður launakannana VR undanfarin ár til þess að nám skili minni hækkun í launaumslagið í dag en það gerði fyrir fimm árum, að teknu tilliti til annarra þátta sem hafa áhrif á launin.

Konur eru fleiri en karlar í háskólanámi, í nær öllum deildum. og hafa verið í nokkur ár. Afleiðingin er gjaldfelling á menntun.

Þegar konur komust í meirihluta kennara í grunn- og framhaldsskólum, fyrir nokkrum áratugum, fór kennarastarfið í kerfisbundna gjaldfellingu. Núna er komið að háskólamenntun almennt; konur verða meirihluti háskólamanna og þar með lækkar gildi menntunar í launaumslaginu. 


mbl.is Karlar með meiri hlunnindi en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugtak skapar lífshættu

,,Túristagos" er heiti sem gosið í Holuhrauni fékk fljótlega eftir að ljóst varð að það myndi hvorki ógna mannabyggð né flugumferð.

Þegar saklaust heiti var komið á fyrirbærið töldu ferðaþjónustuaðilar óhætt að nálgast gosstöðvarnar.

Og lögðu sjálfa sig og aðra í lífshættu.

Orð eru máttug.


mbl.is Vísindamenn yfirgáfu svæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðir RÚV málskostnað fréttamanns gegn bloggara?

Fréttamaður RÚV, Anna Kristín Pálsdóttir, stefndi síðuhaldara vegna gagnrýni á frétt um ESB og krafðist ómerkingar og skaðabóta. Síðuhaldari var sýknaður í héraðsdómi og gagnrýnin stóð óhreyfð.

Síðuhaldari sá sjálfur um sína málsvörn. Liður í undirbúningi málsvarnarinnar var að fá upplýsingar frá RÚV um það hvort stofnunin stæði að baki stefnu Önnu Kristínar. Síðuhaldari skrifaði Magnúsi Geir útvarpsstjóra tölvupóst þann 27. mars sl. til að fá upplýsingar um hvort RÚV veitt fréttamanni atbeina til að stefna þeim sem gagnrýna fréttir stofnunarinnar.

Magnús Geir hefur enn ekki svarað. 

 

Sæll Magnús Geir og til hamingju með stöðu útvarpsstjóra,

í haust stefndi fréttamaður RÚV, Anna Kristín Pálsdóttir, mér fyrir blogg sl. sumar þar sem ég gagnrýndi frétt sem Anna Kristín flutti 16. júlí sl. um ESB-mál.

Lögmaður Önnu Kristínar er Kristján Þorbergsson, sem lengi hefur starfað fyrir RÚV. Bæði sú staðreynd og ummæli sem Anna Kristín lét falla benda til þess að stefna hennar sé studd beint eða óbeint af RÚV, þ.e. að fyrrverandi útvarpsstjóri og/eða framkvæmdastjóri fréttadeildar hafi haft milligöngum um stefnuna.

Af því tilefni langar mig að spyrja þig að tvennu:

a) veist þú til þess að yfirmenn RÚV hafi með einhverjum hætti skuldbundið stofnunina til að styðja við málssókn fréttamanns RÚV, Önnu Kristínar Pálsdóttur, gegn undirrituðum?

b) telur þú eðlilegt að fréttamenn RÚV stefni einstaklingum út í bæ sem gagnrýna fréttaflutning RÚV?

Frávísunarkröfu minni var hafnað og málflutningur fer fram í næsta mánuði. Mér þætti vænt um að fá svar frá þér innan ekki of langs tíma.

Í viðhengi sendi ég þér greinargerðina sem ég sendi héraðsdómi og hér að neðan er hlekkur á blogg þar sem helstu efnisatriði koma fram.

bestu kveðjur
páll

 


mbl.is Greiða ekki málskostnað Más
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur í skotlínunni

Mjólkursamsalan gerir bændum grikk þegar þeir mega síst við því. Viðskiptahættir MS eru ættaðir frá tíma Ráðstjórnarríkjanna og ættu ekki að sjást á 21stu öld.

Einokunarverslun, Hagar og Krónan, er með bændur í skotlínunni og MS framleiðir skotfærin með því að haga sér eins og einokunarrisi er lætur sér fátt finnast um almannahag. Og þegir í ofanálag líkt og ómálga óknyttastrákur er veit upp á sig skömmina.

Bændur verða að gyrða sig í brók en láta ekki fyrirtæki eins og MS um að vera útvörð hagsmuna sinna. Meðal bænda eru öflugir talsmenn, t.d. þingmaðurinn Haraldur Benediktsson.


mbl.is Stjórnvöld ekki sinnt ábendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búsetuhættir manna og veðurfar

Ísland og Grænland byggðust norrænum mönnum á hlýnunarskeiði jarðarinnar. Norrænir menn gáfust upp á að búa Grænland þegar kólnaði og byggð á Íslandi stóð tæpt. Í frumskógum Kambódíu voru borgir yfirgefnar á miðöldum vegna veðurfars.

Maðurinn var ekki áhrifaþáttur á veðurfar fyrr á öldum en þó voru öfgarnar nógu miklar til að flæma fólk frá áður byggðu bóli.

Núna virðist samstaða í vísindasamfélaginu að lífshættir mannsins valdi stórfelldum breytingum á veðurfari. Þessari samstöðu verður að taka með þeim fyrirvara að öfgar í veðurfari þekktust löngu áður en maðurinn skipti máli í því samhengi. 


mbl.is Fundu forna borg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband