Miðvikudagur, 18. maí 2022
Uppgjöf kynnt sem björgun
Uppgjöf úkraínska hersins á Asovstal við Maríupól er sálrænt fremur en hernaðarlegt áfall. Borgin var þegar komin í hendur Rússa, stálverksmiðjan í útjaðrinum skipti litlu hernaðarlega en hafði þeim mun meira áróðursgildi.
Skilaboð stjórnarinnar í Kænugarði þartil fyrir skemmstu voru að herinn í Asovstal ætti að berjast til síðasta manns. Goðsagan um 300 Spartverja var heimfærð upp á úkraínsku stálin stinn í hafnarborginni.
Baráttuandi er ómælanlegur þáttur í stríðsrekstri en skiptir höfuðmáli, einkum þegar á bjátar. Og það hallar á úkraínska herinn í Donbass.
Til að bjarga andlitinu er uppgjöfin í Maríupól kynnt sem björgun. Úkraínsku hermennirnir eru fangar Rússa og halda lífi. Það er nokkurs konar björgun. Tvennum sögum fer af ástæðum ,,björgunarinnar." Ein er að úkraínsku hermennirnir hafi ákveðið að forða eigin skinni, þvert á beinar skipanir að berjast til síðasta manns. Í framhaldi kúventi stjórnin í Kænugarði og gaf skipun um að leggja niður vopn.
Uppgjöf blæs ekki baráttuanda í brjóst. Þvert á móti. Er hetjurnar í Asovstal gefast upp gæti einhverjum undir linnulausri stórskotahríð Rússa í Donbass dottið eitthvað svipað í hug.
Donbass er, þrátt fyrir allt, að mestu byggð Rússum. Ýmsum í vesturhluta Úkraínu kann að þykja óþarft að fórna lífi og limum fyrir landssvæði sem aðeins að forminu til er úkraínskt.
Pólitíska atburðarásin tekur mið af síversnandi stöðu á vígvellinum. Bandaríkin og Nató ætla að taka við Svíþjóð og Finnlandi og kalla það sinn sigur og ósigur Rússa. Eftir uppgjöf í Úkraínu þurfa Washington og Brussel líka að bjarga andlitinu.
![]() |
Koma síðustu hermönnunum frá Asovstal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. maí 2022
Hatrið á hvítri móður
Guðríður Þorbjarnardóttir átti sveininn Snorra í vesturheimi á 11. öld, samkvæmt arfsögn sem rataði í bækur. Guðríður varð stytta í höndum Ásmundar Sveinssonar og fékk heitið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku.
Nýverið var styttunni stolið undir þeim formerkjum að hún væri rasísk og komið fyrir í öðru verki. Gjörningurinn er í takt við samtímakenningu, fræðilega kynþáttahyggju (critical race theory), er kennir að allir hvítir á hörund séu rasistar.
Í gær fór styttan af Guðríði til síns heima. Sama dag sagði í fréttum að frá 2014 hefur 14 sinnum verið ákært fyrir hatursorðræðu. Ekki er hermt hvort ákært hafi verið fyrir hatur á hvítum mæðrum. Sennilega ekki, þær eru jú allar rasistar samkvæmt kenningunni og njóta sem slíkar ekki verndar gegn ,,háðung, rógburði, smánun eða ógnun."
![]() |
Fyrsta hvíta móðirin ekki lengur í eldflauginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 16. maí 2022
Stríð er hvorki svart né hvítt
Í stríði er frásögnin ýmist hvít eða svört. Í viðtengdri frétt segir yfirmaður leyniþjónustu Úkraínuhers sigur vinnast fyrir árslok. Rússar segjast á áætlun með markmið sín í Úkraínu.
Fyrir þá sem ekki líta á átökin í Garðaríki sem fótboltaleik, heldur dauðans alvöru og þyngri en tárum taki, líkt og tilfallandi höfundi, er verulega snúið að átta sig framvindu stríðsins.
Tilfallandi höfundur gefur sér að Rússar sigri Þeir eru þrisvar fleiri en Úkraínumenn og sitja á stafla af kjarnorkuvopnum á meðan stjórnin í Kænugarði á engin. Áður en Rússar tapa nota þeir kjarnorkuvopnin. Sá sem ekki skilur það veit ekki að stríð, eins og það sem háð er í Úkraínu, snýst um tilvist ríkja. Engin dæmi eru um að ríki hafi tapað stríði án þess að neyta ítrustu úrræða til að bjarga sér. Kjarnorkuvopnum yrði beitt stæðu Rússar frammi fyrir ósigri.
Hvor sigrar, og hvað telst sigur, er ein spurning. Önnur spurning varðar réttmæti stríðsins.
Til að mynda sér skoðun er hægt að horfa yfir sviðið í sögulegu ljósi. Báðir aðilar eiga þar sök og vesturlönd bera verulega ábyrgð. Önnur leið er að meta aðstæður á vettvangi, eftir tiltækum heimildum.
Hér á eftir fara tvær andstæðar frásagnir af borginni Maríupól við Azov-haf sem Rússar tóku fyrir nokkru. Báðar frásagnirnar eru frá enskumælandi mönnum, sem þekkja borgina eftir heimsóknir þangað.
Í Telegraph lýsir Jack Losh Maríupupól sem rússneskri borg er vill verða vestræn. Hann rekur kynni sín af borginni síðustu ár, segir frá ,,frjálslyndu" fólki sem tekur kannabisefni fram yfir áfengi og óskar sér vestrænnar framtíðar undan rússnesku oki. Nú er borgin rústir einar, segir Losh, og rússnesk kúgun yfirþyrmandi.
Graham Phillips var í Maríupól þegar Rússar og Úkraínumenn börðust um hana 2014. Hann heimsækir borgina fyrir nokkrum dögum og talar um frelsun frá úkraínskum þjóðernissinnum og nasistum. Myndbönd sem Phillips sýnir, bæði frá 2014 og 2022, gefa til kynna úkraínskt ofbeldi gegn rússneskum borgurum.
Hvorri frásögninni skal trúa?
Ekkert einfalt svar er við spurningunni. Stríðsfrásagnir eru jafnan svartar eða hvítar. Litbrigði veruleikans eru fleiri.
Hvorki Úkraínumenn né Rússar eru villimenn. Á hinn bóginn eru stríð miskunnarlaus og krefjast fórna. Sannleikanum er fyrst fórnað. Þegar eitt ríki sigrar annað verða til ný sannindi. Sigurvegarinn ræður frásögninni er vopnin þagna.
![]() |
Úkraína vinni stríðið fyrir lok árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 15. maí 2022
Hægri-Framsókn eða vinstri?
Án þess að nokkur tók eftir er Framsóknarflokkurinn orðinn hinn turninn í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn fylgir eftir sigrum á alþingskosningum á landvísu og styrkir sig í sveitarstjórnarkosningum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins er spriklandi af ungu fólki.
Enn á eftir að greina hvaða þættir það eru í þjóðlífinu sem valda fylgisaukningu flokksins er til skamms tíma var nánast hreinn landsbyggðarflokkur. Framsókn hefur löngum verið hugmyndafræðilega hlutlaus og ekki eru á yfirborðinu nein merki um að það sé breytt.
Framsókn mun því með verkum sínum fremur en orðræðu skilgreina sig á pólitíska litrófinu. Fyrsta verkefnið eftir kosningar er myndun meirihluta.
Hvort mun Framsókn fremur kjósa að vinna til hægri eða vinstri?
Þar liggur efinn.
![]() |
Yngsti borgarfulltrúinn: Þetta er ákall um breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 14. maí 2022
Grunaður umræðustjóri á degi saklausra
Saklausir menn voru dæmdir af dómstól götunnar, með dyggri aðstoð RÚV.
Daginn sem saksóknari fellur frá fjölmiðlastýrðu máli tveggja ungra manna er umræðuþáttur í sjónvarpinu.
Hver er umræðustýra?
Jú, sakborningur í kynferðisbrotamáli.
Smekkvísi á Efstaleiti.
![]() |
Mál Arons og Eggerts fellt niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 13. maí 2022
Helgi og Rakel, fjölmiðlar í þágu blaðamanna
Fjórir blaðamenn á RSK-miðlum, RÚV, Stundinni og Kjarnanum, fengu tilkynningu frá lögreglunni 14. febrúar að þeir væru með stöðu sakbornings í rannsókn á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Síðan eru liðnir 3 mánuðir. Þeir eru enn á flótta undan réttvísinni.
Um áramótin hættu Helgi Seljan og Rakel Þorbergsdóttir störfum á RÚV án skýringa. Bæði hafa ríka hagsmuni að láta það berast að þau séu ekki með stöðu sakbornings. Ekki múkk hefur heyrst í 5 mánuði.
Þegar fjölmiðlar fjalla um sakamál og grunur beinist að tilteknum aðilum eru þeir vanalega aðgangsharðir og spyrja spurninga. Í tilfelli Helga og Rakelar eru engar spurningar á vörum blaðamanna.
Fjölmiðlar starfa í þessu máli í þágu blaðamanna. Gagnrýnar spurningar í þágu almennings eru óspurðar. Þögnin ein ríkir. Í þögninni þrífst spillingin.
Það varðar almenning miklu að vita hvort og þá hvaða blaðamenn eru sakborningar í sakamáli. Blaðamenn sem þannig háttar með eru skemmd epli. Sakamenn í refsimáli geta ekki þjónað almannahag. Hagsmunir almennings eru að lög séu virt og að sakamál verði upplýst. Blaðamenn sem tefja framgang réttvísinnar vinna gegn almannahagsmunum.
Fyrir en varir er öll eplatunnan ónýt, - haldi fjölmiðlar áfram að starfa í þágu blaðamanna en ekki almannhagsmuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. maí 2022
Umboðsmaður til varnar tjáningarfrelsi
Tilfallandi bloggari fékk ágjöf sl. haust fyrir að fletta ofan af tilraun RÚV að skilgreina Helga Seljan sem ofsótt fórnarlamb. Eftir tilfallandi afhjúpun var fátt um varnir á Efstaleiti. Helgi var sendur á hjáleiguna undir lúðrablæstri útvarpsstjóra.
Tilfallandi bloggari starfar sem framhaldsskólakennari. Þess var krafist að Kristinn Þorsteinsson skólameistari FG ræki bloggarann úr starfi fyrir rangar skoðanir. Skólameistari tók kröfurnar til athugunar og hafnaði þeim. Fyrir það þakkaði bloggari.
Tilfallandi borgara var ljóst að hart væri sótt að tjáningarfrelsinu þegar það væri tekið til athugunar að svipta mann atvinnu fyrir að tjá hug sinn. Enginn úrskurðaraðili túlkar meginreglur stjórnarskrár, nema auðvitað dómstólar. Dómsmáli var ekki til að dreifa og ekkert tilefni til að höfða mál.
Aftur fylgist umboðsmaður alþingis með meginreglum réttarríkisins og gefur álit þyki honum málefnið brýnt. Umboðsmaður tekur aðeins við kvörtunum, ekki hrósi um að vel sé að verki staðið eða athugasemdum. Til að fá álit umboðsmanns varð tilfallandi bloggari að senda kvörtun með rökstuðningi. Það var gert til að knýja fram álit á réttarstöðu opinberra starfsmanna með skoðanir.
Niðurstaða umboðsmanns liggur fyrir. Í bréfi dags. 26. apríl 2022 segir:
Opinberir starfsmenn njóta verndar tjáningarfrelsisákvæða 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Meginreglan er því sú að opinberir starfsmenn eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir, þ.m.t. þær er lúta að mati á atriðum er tengjast starfi þeirra, án afskipta stjórnvalda, og takmarkanir á þeim rétti má eingöngu gera að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. einnig 41. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Slíkar takmarkanir verða þannig að byggjast á lögum, stefna að lögmætum markmiðum og mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. (undirstrikun pv)
Þar með liggur það fyrir. Opinbera starfsmenn má hvorki reka né áminna fyrir skoðanir sem þeir láta í ljós. Hvort yfirmenn hafi aðrar skoðanir og kynni þær hverjum sem vill hafa er aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er að málfrelsið fær vörn sem heldur. Ástæða er til að þakka umboðsmanni.
Hér eftir geta opinberir starfsmenn með skoðanir sem og yfirmenn þeirra með önnur sjónarmið flett upp afstöðu umboðsmanns alþingis. Ódannaði skríllinn og virkir í athugasemdum munu vitanlega hvorki fletta upp á einu né neinu heldur heimta blóð sem fyrrum. En það þarf ekki einu sinni að athuga hvort reka megi opinbera starfsmenn fyrir að tjá hug sinn. Það er andstætt lögum.
Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja. Það sést best á því að blaðamenn, sem ættu að vera í fremstu víglínu að verja skoðanafrelsi, eru orðnir böðlar málfrelsis. Risið á sumum blaðamönnum er ekki hærra en á virkum í athugasemdum. Enda oft sama fólkið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 11. maí 2022
Sólveig Anna og launþegar í ótta
Launþegar á skammtímasamningi búa við minna atvinnuöryggi en þeir með ótímabundinn ráðningarsamning.
Efling hagnaðist um hálfan milljarð króna í fyrra. Hópuppsagnir fyrir skemmstu voru réttlættar með að launakostnað yrði að skera niður. Nýráðnir fá aðeins skammtímasamning, til að halda þeim í ótta um að missa vinnuna með skömmum fyrirvara.
Sólveig Anna formaður kallar sig sósíalista og Efling á að heita verkalýðsfélag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 10. maí 2022
Ritstjórinn og dagskrárvald RSK-miðla
Þórður Snær ritstjóri Kjarnans er vanur að stjórna umræðunni langt umfram jaðarmiðilinn sem hann er í forsvari fyrir. Hann er í bandalagi við RÚV og Stundina um beitingu dagskrárvalds fjölmiðla. RSK-miðlum hefur orðið nokkuð ágengt.
Í Namibíu-málinu svokallaða þorðu fáir ef nokkrir fjölmiðlar að andæfa þeirri kenningu RSK-miðla að Samherjamenn væru sekir eins og syndin og yrðu saksóttir þar syðra fyrir margvísleg afbrot. RÚV fullyrti í frétt að saksóknari í Namibíu gæfi út ákæru. En svo kom engin ákæra. Þá var Kjarninn látinn tilkynna uppgjöfina svo lítið bæri á. Í huga þorra almennings hér á landi framdi Samherji afbrot í Namibíu. RSK-miðlar mötuðu almenning á falsfréttum, byggðum á vafasömum heimildum, svo vægt sé til orða tekið.
Víkur nú sögunni að sakamálum á Íslandi. Þórður Snær og þrír aðrir blaðamenn eru sakborningar í lögreglurannsókn á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans.
Þórður Snær og RSK-miðlar beittu dagskrárvaldi sínu til að kæfa fréttaflutning af byrlun og gagnastuldi. Tilfallandi bloggari skrifaði nokkrar færslur um málið í haust og vetur. Nú er Þórði Snæ og RSK-miðlum nóg boðið. Það þarf að þagga niður í bloggaranum.
Það verða gerðar ,,ítrustu kröfur," á hendur bloggara segir reiður ritstjóri í Fréttablaðinu. Í viðtali við visir.is finnst Þórði Snæ ótækt að ,,meginstraumsfjölmiðlar" segi aðra frásögn en RSK-miðlar góðkenna.
Þar sem látið er eins og að samsæriskenningar hans [Páls] séu raunveruleiki. Það breytti þeirri skoðun minni. Þar fékk málflutningur hans yfirbragð eðlilegrar þjóðmálaumræðu. Þar vísa ég sérstaklega í Dagmál á mbl.is þann 15. nóvember 2021 þar sem Páll fékk að rekja kenningar sínar óáreittur í fjóra og hálfa mínútu, og viðtals í einum vinsælasta morgunþætti í íslensku útvarpi, Bítinu á Bylgjunni, þann 16. febrúar 2022, þar sem hann rakti kenningu sína í löngu máli. Viðtalið er rúmlega 16 mínútna langt.
Þórður Snær sagði sína útgáfu af aðkomu RSK-miðla að byrlun og gagnastuldi:
Enginn frá þeim fjölmiðlum [Stundin og Kjarninn] sem komu að umræddri umfjöllun hafa verið kallaðir til yfirheyrslu vegna þeirrar kæru, líkt og Páll heldur fram. Enginn fréttamaður eða yfirmaður hjá RÚV sem tók engan þátt í umfjölluninni hefur heldur verið yfirheyrður samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
[...]
Til að taka af allan vafa: það er enginn blaðamaður til rannsóknar fyrir að hafa reynt að drepa skipstjóra, né fyrir að stela símanum hans. Þetta er hugarburður og áróður...
Lögreglan er annarrar skoðunar eftir ítarlega rannsókn. Að minnsta kosti fjórir blaðamenn RSK-miðla eru með stöðu sakborninga, Þórður Snær þar á meðal. Blaðamennirnir fjórir vilja ekki undir neinum kringumstæðum mæta í skýrslutöku hjá lögreglu og tefja og þæfa málið með lagakrókum. Ef Þórður Snær og félagar eru jafn handvissir um eigið sakleysi og þeir vilja vera láta væru þeir fyrir löngu farnir í skýrslutöku lögreglu að útskýra vammleysi sitt.
Hernaðaráætlun RSK-miðla í máli Páls skipstjóra gekk út á að þegja málið í hel, fullyrða að það væri engin rannsókn. Tilfallandi bloggari sagði það sem ekki mátti segja, að RSK-miðlar skipulögðu atlöguna að skipstjóranum til að komast yfir fréttaefni sem mætti nota í stríðinu gegn Samherja.
Í húfi er dagskrárvald RSK-miðla annars vegar og hins vegar orðspor blaðamanna. Þegar almenningur áttar sig á að fjölmiðlar stunda byrlun, stuld og atlögu að einkalífi fólks glatast tiltrúin. Þar með dvínar dagskrárvaldið, viðhlæjendum RSK-miðla á vinstri vængnum til sárra vonbrigða. Orðspor viðkomandi blaðamanna er, frómt frá sagt, þegar í tætlum.
Málssókn Þórðar Snæs lýsir örvæntingu. Ritstjórinn er sakborningur í opinberu sakamáli en stefnir bloggara fyrir að segja þau almæltu tíðindi, það sé ,,ærumeiðandi aðdróttun." Í hugarheimi Þórðar Snæs er sannleikurinn aðeins sá sem birtist í RSK-miðlum. Annað er villutrú.
![]() |
Stefna Páli fyrir ærumeiðandi aðdróttanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 9. maí 2022
Blaðamenn hóta bloggara málssókn
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður sömu útgáfu hóta tilfallandi bloggara málssókn ef hann biðst ekki afsökunar og dregur til baka sem ósönn eftirfarandi ummæli:
Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, [...] eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.
Ummælin féllu í bloggfærslunni Blaðamenn verðlauna glæpi.
Lögfræðingurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sendir bréf fyrir hönd þeirra félaga og segir málsskókn næsta skref ef ekki verður orðið við kröfum um afsökun og afturköllun ummæla.
Vandast nú mál bloggara. Miðað við málssóknir af þessum toga er líklegur kostaður 1 til 1,5 m.kr. hvort sem málið vinnst eða tapast. Það eru þrenn eða fern útborguð mánaðarlaun kennara.
Ódýrast væri að biðjast afsökunar og segja ummælin röng.
En þá væri beðist afsökunar á sannindum og þau sögð ósönn. Illa er komið fyrir manni sem fargar sannindum og segir rétt rangt til að sleppa við málssókn.
Arnar Þór og Þórður Snær eiga aðild, beina eða óbeina, að málinu sem kennt er við Pál skipstjóra. Almælt tíðindi eru að Arnar Þór og Þórður Snær eru sakborningar í lögreglurannsókn. Það heitir að ,,eiga aðild". Að öðrum kosti væru þeir ekki grunaðir. Þótt þeir væru aðeins vitni ættu þeir aðild. Tvímenningarnir voru ekki afskiptalausir áhorfendur.
Þórður Snær og Arnar Þór skrifuðu alræmda grein byggða á gögnum sem afrituð voru úr síma Páls skipstjóra. Í greininni, sem birtist 21. maí á síðasta ár, viðurkenna félagarnir að ,,lögbrot" var framið, bara ekki af þeim sjálfum. Blaðamennirnir ,,eiga aðild" ef þeir hagnast á lögbrotinu. Það liggur í hlutarins eðli.
Páll skipstjóri kærði til lögreglu 14. maí, viku áður en Kjarninn (og Stundin) birtu gögn úr símanum. Lengi vel neitaði Þórður Snær að lögreglurannsókn stæði yfir á byrlun og stuldi. Í nóvember skrifaði ritstjórinn leiðara með yfirskriftinni Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Þar segir m.a.
Til að taka af allan vafa: það er enginn blaðamaður til rannsóknar fyrir að hafa reynt að drepa skipstjóra, né fyrir að stela símanum hans. Þetta er hugarburður og áróður...
Samt sem áður eru fjórir blaðamenn hið minnsta með stöðu grunaðra í yfirstandandi lögreglurannsókn. Glæpir voru framdir og blaðamenn eru sakborningar. Það er enginn hugarburður heldur grjótharðar staðreyndir.
Í skýrslu lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsett 23. febrúar 2022, segir að fjölmiðlar, RÚV, Kjarninn og Stundin, hafi nýtt sér ,,augljós brot", ,,bæði faglega og fjárhagslega." Þetta er að eiga aðild.
Af þessu leiðir getur tilfallandi bloggari ekki beðist afsöknunar og enn síður játað að rangt sé farið með. Gögn frá lögreglu sýna að Arnar Þór og Þórður Snær eiga aðild, beina eða óbeina, að refsiverðu athæfi. Í væntanlegu sakamáli verður ákært á grunni sakamálaannsóknar, verjendur blaðamannanna færa rök fyrir sýknu og dómari úrskurðar. Þeir sem eiga málsaðild eru ákærðu, vitni og tjónþoli - Páll skipstjóri.
Ef ríkisstyrktur Kjarninn, Arnar Þór og Þórður Snær, stefna bloggara fyrir að birta sannindi er svo komið að þöggun er vopn blaðamanna. Frjáls umræða var einu sinni aðalsmerki blaðamanna. Nú er hún Snorrabúð stekkur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)