Bjarnaskattur á íbúa Seltjarnarness

Ein leið til að skrá nafn sitt í annála Seltirninga er að hækka skattana á útsvarsgreiðendur. Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og í orði kveðnu sjálfstæðismaður, fór þessa leið.

Bjarnaskattur er eins og bjarnargreiði. Til óþurftar.


mbl.is Hækkaði útsvar í óþökk félaga sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótti, veira og vísindi

Samfélög grípa til sóttvarna af ótta við Kínaveiru og afbrigði hennar. Óttinn er við afleiðingarnar af óheftri útbreiðslu. Helstu afleiðingar eru ótímabær dauði, einkum aldraðra og langveikra, veikindi til lengri eða skemmri tíma og í þriðja lagi álag á heilbrigðiskerfi.

Útbreiðsla, dánartíðni og sjúkrahúsinnlagnir eru mældar með tölum og þannig séð ,,vísindalegar" staðreyndir. Vísindalegar staðreyndir eru aftur margar, sumum er hampað á meðan aðrar liggja í láginni.

En hvernig er ótti mældur? Það er ekki til neitt sem heitir vísindalega skynsamlegur ótti. Vitanlega eigum við í forðabúri menningarinnar hugmyndir um varkárni;  að betri sé krókur en kelda og að allur sé varinn góður. Þá búum við, sem betur fer, að ríkri samhygð. Að við sem erum sæmileg til heilsunnar leggjum okkar af mörkum til að aldraðir og langveikir geti um frjálst höfuð strokið í samfélaginu. 

Burtséð frá veiru og vísindum verða einhverjir fyrir ótímabærum dauða, áfram veikist fólk og leggst inn á sjúkrahús. Ótti getur verið eðlilegt viðbragð við aðsteðjandi ógn. En ótti getur líka verið sjúklegur.


mbl.is Ómíkron miklu vægara en Delta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarninn og Stundin þjófsnautar í glæpnum gegn Páli skipstjóra

Útgáfurnar Stundin og Kjarninn birtu í morgunsárið 21. maí fréttaskýringar úr gögnum stolnum úr snjallsíma Páls skipstjóra Steingrímssonar þrem vikum áður. Birtingartími var skipulagður af þriðja aðila. Páll var meðvitundarlaus á gjörgæslu þegar síma hans var stolið.

Í rammagrein í Kjarnanum, sem fylgir fréttaskýringunni, segir:

Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis í gær kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggir á hafi fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja. Páll hafi kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu fyrir fáeinum dögum þar sem málið bíði lögreglurannsóknar.

Í framhaldi skrifar ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson: ,,Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið..." 

Böndin berast að RÚV.

Stundin gerir ekki sambærilega grein fyrir hvernig útgáfan komst yfir stolin gögn. Í Stundinni segir ,,Samskipti sem Stundin hefur séð sýna hvernig..." og ennfremur ,,Í skráningarupplýsingum skjala sem Stundin hefur skoðað kemur fram að Arna – eða í það minnsta tölvan hennar – sé höfundur þeirra." (Arna er lögfræðingur Samherja, innsk. pv) 

Þriðji aðilinn sem úthlutaði Stundinni og Kjarnanum gögnin getur ekki verið annar en RÚV. Engir aðrir en starfsmenn RÚV hafa í senn yfirsýn yfir málið og fagkunnáttu til að brjótast inn í síma Páls, sækja gögnin og lesa úr kóða sem upplýsir frumútgáfur skjalanna. RÚV var svo umhugað að fá ,,rétta" fréttaskýringu að Aðalsteinn Kjartansson var sendur á Stundina 4 dögum áður en síma Páls var stolið, gagngert til að vinna úr stolnu gögnunum.

Töluverð vinna er lögð í að rekja einstök skjöl, sbr. það sem segir um skráarupplýsingar skjala í umfjöllun Stundarinnar. Á Glæpaleiti er það ekki einn starfsmaður sem hefur séð um úrvinnslu, líkt og útvarpsstjóri vill vera láta, heldur tveir eða þrír.

Fyrir liggur bein játning ritstjóra Kjarnans að útgáfan sé þjófsnautur. Kringumstæðurök hníga öll í þá átt að sama gildi um Stundina. Höfuðsökin liggur þó á Glæpaleiti. Þar voru aðgerðir skipulagðar, útfærðar og tímasettar.

Lögreglurannsókn á eitrun Páls skipstjóra og stuldi á snjallsíma hans er svo gott sem lokið. Ákærur verða gefnar út um eða eftir áramót. Og enn er ekki auglýst eftir fréttastjóra RÚV.


Kjöt þarf ekki geðlyf

Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala, ræðir óhóflega geðlyfjanotkun fermingarbarna.

Ef eitthvað ves er með skrokkinn þá fer maður á spítala, sagði lýðveldiskynslóðin. Hippakynslóðin reykti sig og drakk í gegnum líkamlega sem andlega óværu. Í hjáverkum dunduðu hipparnir sér við að uppfylla spásögn Nietzsche um dauðan guð.

2000-kynslóðin heimtar hugarlyf ef hún er eitthvað sorrí.

Tilfallandi umorðun á sjónarmiði Björn geðlæknis er að kjöt þarf ekki geðlyf. Kannski magnýl eða íbúfen en ekki kvíðastillandi. Kjöt kvíðir ekki.

Maðurinn, fermingarbörn meðtalin, er eitthvað meira en frumuklasi, þegar öllu er á botninn hvolft. 

Betur að hipparnir hefðu ekki komist í Nietzsche.


RÚV af auglýsingamarkaði

Bein framlög ríkisins til RÚV eru 5 milljarðar króna. Sú fjárhæð er meira en nóg til að ríkisfjölmiðillinn uppfylli ,,lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir í þjóðfélaginu með miðlun texta, hljóðs og mynda ásamt öryggisþjónustu á sviði útvarps." En það er hlutverk þessarar sameignar þjóðarinnar.

Á seinni árum hefur RÚV farið langt fram úr sínu hlutverki. Í krafti ofurvalds á fjölmiðlamarkaði ryður ríkisfjölmiðillinn brautina fyrir ómenningu þar sem skotmörk eru tekin fyrir, Samherji og KSÍ eru nýleg dæmi. Í skipulegri samvinnu við aðra fjölmiðla, Stundina og Kjarnann, er efnt til herferða gegn einstaklingum og aðilum í samfélaginu sem RÚV hefur vanþóknun á. En  það er ekki hlutverk RÚV að hafa vanþóknun á þessum eða hinum og efna til herferða að sýna fólk og fyrirtæki óalandi og óferjandi.

RÚV þarf að minnka til að lýðræðisleg og frjáls umræða fái þrifist í landinu. Einfaldasta leiðin til að minnka ríkisfjölmiðilinn er að taka hann af auglýsingamarkaði. Það er gert með lagasetningu. 


mbl.is Engin aðhaldskrafa gerð á Ríkisútvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistökin í Úkraínu, frjálslynda siðblindan

Úkraína er bakgarður Rússa. Rétt eins og Kanada og Mexíkó eru bakgarður Bandaríkjamanna. Washington myndi aldrei leyfa aðild Kanada eða Mexíkó að hernaðarbandalagi er ógnaði Bandaríkjunum.

Frjálslynd siðblindni leiddi Bandaríkin og Evrópusambandið til að færa Úkraínu undir Nató. Borgarastríðið 2014 var vestræn tilraun til að knésetja Rússland. Með Nató-sveitir í Póllandi, Eystrasaltsríkjum og Úkraínu yrði Moskva í sömu stöðu og Kaupmannahöfn gagnvart þýskum herjum á 20. öld. Mótspyrna er fyrirfram tilgangslaus.

Pútín lék tvo leiki á heimaslóðum og annan í útlöndum. Vopnaði uppreisnarmenn í Austur-Úkraínu og tók Krímskaga. Þriðji leikur Pútín var að beita sér í borgarastríðinu i Sýrlandi og tryggja Assad forseta þar sigur á aðskiljanlegum uppreisnarhópum studdum af vesturlöndum.

Pútín og Rússar, í fáum orðum, tóku vestrænu ríkin í nefið 2014-2016. Fimm árum síðar ógna Rússar Úkraínu og vesturveldin boða viðskiptaþvinganir. Brandari. Viðskipti eru hjóm eitt i samanburði við öryggishagsmuni ríkisins.

Mistakasaga frjálslyndu siðblindunnar hófst með endalokum kalda stríðsins og falli Sovétríkjanna 1989-1991. Ráðandi hugmyndafræði i Washington og Brussel, sem hýsir bæði ESB og Nató, var að umskapa heimsbyggðina í anda vestræns frjálslyndis. Nöfn rifja upp þá sögu: Afganistan, Líbýa, Írak, Sýrland og Úkraína. Tómt klúður. Múslímar vildu ekki vestræna menningu þótt hún bæri fallegt nafn, arabíska vorið. Rússar afþökkuðu handleiðsluna og létu sprengjum rigna á meint vor í Sýrlandi.

Rússum var lofað, þegar þeir samþykktu sameiningu Þýskalands, að Nató færði sig ekki lengra í austur en næmi Þýskalandi. Þau loforð voru svikin með inngöngu Austur-Evrópuríkja í Nató. Vesturveldin töldu að Úkraína yrði auðveld bráð 2014. Sjö árum síðar skilja þau ekki enn skriftina á veggnum. Vestrænt frjálslyndi er léleg útflutningsvara til annarra menningarheima.

Pútín mun ekki ráðast inn í Úkraínu i bráð. En hann skynjar veikleika vesturveldanna og hyggst nýta tækifærið og tryggja öryggishagsmuni Rússlands. Lái honum hver sem vill.  

 

 

 


mbl.is Rússar hætti á „stórfelldar afleiðingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bækur og höfundar hugsana

Bækur verða til úr bókum, sagði fræðimaður, mögulega Hermann Pálsson, þegar hann velti fyrir sér höfundum Íslendingasagna sem eru án nafns og kennitölu. Þegar frá líður ritunartíma gleymast höfundar en bækurnar lifa. Nema stærstu höfundarnir.

Við þekkjum Snorra og Sturlu bróðurson hans. En hvort Snorri hafi skrifað Eglu eða Sturla Njálu er alls óvíst, þótt haft sé fyrir satt að höfundarverk Snorra sé Heimskringla og að frændi skrifaði Íslendingasögu og eina konungasögu.

Nú er um það deilt hvort Ásgeir Jónsson hafi nýtt sér hugmyndir Bergsveins Birgissonar um efnahagslegar ástæður landnáms. Hinn möguleikinn er að sú hugsun að Ísland hafi í öndverðu verið verstöð sé orðin svo almenn að enginn eigi þá hugmynd. Ónytjuð verstöð var almannagæði, rétt eins og frásögnin af landnáminu, sjálf Landnámabók, er almannagæði. Og án höfundar.

Nefnd á vegum Háskóla Íslands er komin í málið og fer án efa rækilega í saumana.

Bækur verða til af bókum, hugsanir af hugsun. En við viljum svo gjarnan vita höfundinn.


mbl.is „Hryggilegt“ að sjá svör Ásgeirs og Sverris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alli og Doddi tala við Pál skipstjóra

Síminn hringir hjá Páli skipstjóra Steingrímssyni 20. maí í vor kl. 14:56. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans er á línunni. Erindið er fá viðbrögð Páls skipstjóra við fréttaskýringu um svokallaða skæruliðadeild Samherja sem skyldi birtast daginn eftir.

Páll segir fátt við Þórð Snæ enda nýkominn af gjörgæslu eftir eitrun. Á meðan skipstjórinn var meðvitundarlaus var snjallsíma hans stolið. Hluti gagnanna var kominn í hendur Þórðar Snæs.

Varla var Páll skipstjóri búinn að slíta símtalinu þegar annar blaðamaður hringir. Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni er á hinum endanum. Símtalið hefst kl. 15:07, ellefu mínútum eftir að Þórður Snær hringdi.

Erindi Aðalsteins var það sama og ritstjóra Kjarnans. Á Stundinni er Aðalsteinn einnig með stolin gögn frá skipstjóranum, bara önnur en Þórður Snær, en um sama málefnið.

Hvorki Aðalsteinn né Þórður Snær vildu í raun fá álit Páls skipstjóra. Þeir vildu formsins vegna uppfylla frumskilyrði blaðamennsku, að bera ásakanir undir þann ásakaða. Fréttin í málinu er að eitrað var fyrir Páli og þjófur tók símann frá honum meðvitundarlausum. En faglegu síamstvíburarnir vildu ekki þá frétt. Þeir voru verktakar hjá ríkisstofnun. Verkefnið var að sýna fram á að norðlenski skipstjórinn hafði gengið svo hart fram í vörn fyrir Samherja að fréttahvolpur á Glæpaleiti var kominn á geðdeild.

Þriðji aðili stýrði bæði Aðalsteini og Þórði Snæ, sagði þeim hvenær ætti að hringja og hvenær skyldi birta. Kvenleg smásmygli er á skipulaginu. Nánast eins og forsetaframbjóðandi ætti í hlut.

Faglegu síamstvíburarnir láta vel að stjórn. Sennilega ákveður þriðji aðili háttatíma Alla og Dodda. Ef Knoll og Tott eru með Tinder-reikning má leiða líkum að hver ritstýrir.

 


Atlaga RÚV að Jóni og Brynjari misheppnaðist

Í fyrradag reyndi RÚV að vekja reiðiöldu á samfélagsmiðlum gegn Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra og aðstoðarmanni hans, Brynjari Níelssyni. Markmiðið var tvíþætt. í fyrsta lagi að knýja fram afsögn annars eða beggja og í öðru lagi sýna mátt fréttastofu RÚV í þjóðfélagsumræðunni.

Atlagan byrjaði í hádegisfréttum þegar fréttamaður stillti Bjarna Benediktssyni upp við vegg i skringilegu viðtali. Yfir daginn var málinu haldið vakandi á netútgáfu RÚV. Um kvöldið var Jón kallaður til yfirheyrslu í Kastljósi. Helmingur yfirheyrslunnar gekk út á að útmála Brynjar óalandi og óferjandi.

Líkt og í öðrum sambærilegum tilvikum er RÚV í samstarfi við aðgerðasinna. Í þessu tilfelli öfgafemínista sem sjá svart þegar minnst er á miðaldra hvíta karla. Hugmynd RÚV var að aðrir fjölmiðlar stykkju á vagninn og birtu eltifréttir og tækju þannig óbeint undir kröfuna um afsögn. En fjölmiðlar voru önnum kafnir í KSÍ-málinu og bitu ekki á agn Efstaleitis að þessu sinni.

Eftirtekjan á samfélagsmiðlum varð rýr, engin reiðibylgja. Öfgafemínistar eru fámennur hópur. Þeir gátu ekki bætt upp með gargi almennt áhugaleysi á aðför að ráðherra dómsmála og aðstoðarmanni hans. Vinstrimenn á alþingi komu heldur ekki til hjálpar. Að jafnaði er þar þó á vísan að róa. Kannski að þingheim gruni maðk í mysunni á Glæpaleiti.

Atlaga RÚV sýnir víðáttuna á milli hlutverks ríkisfjölmiðilsins, að segja fréttir, og starfshátta fréttastofunnar þar sem skipulega er leitast við að kynda undir vantrausti og valda óróa i samfélaginu. Misheppnaða reiðibylgjan gefur til kynna þverrandi áhrifamátt RÚV á þjóðfélagsumræðuna. Ísland batnar fyrir vikið.


Þriðji aðili ritstýrir Kjarnanum og Stundinni. Hver?

Að morgni dags 21. maí birtu Stundin og Kjarninn tvær ítarlegar fréttaskýringar. Stundin birti kl. 0600 og Kjarninn 7:52. Báðar fréttaskýringarnar byggðu alfarið á gögnum er stolið var frá Páli skipstjóra Steingrímssyni á meðan hann var meðvitundarlaus vegna eitrunar.

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri er höfundur pistilsins í Kjarnanum. Hann segir í rammagrein með fréttaskýringunni:

Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið...

Þessi þriðji aðili er utanaðkomandi. Hann stendur fyrir lögbrotinu, samkvæmt orðum ritstjórans. Þriðji aðilinn úthlutar Stundinni og Kjarnanum stolnum gögnum. Gögnin út síma skipstjórans eru flokkuð til að úr verði tvær fréttasýringar. Sama fréttin en efnisatriðin ekki þau sömu. Þriðji aðilinn kann til verka í fréttamennsku. Jafnframt ákveður þriðji aðili hvenær efnið skuli birt, að morgni dags 21. maí. Það skapar tækifæri fyrir reiðibylgju: netheimar loga. Þriðji aðilinn veit hvernig skal hámarka samfélagsleg áhrif fréttaflutnings.

Stundin og Kjarninn kynna sig sem sjálfstæða fjölmiðla er lúti eigin ritstjórn. Út á það fá miðlarnir ríkisstyrk. En samt er það þriðji aðili sem ritstýrir báðum útgáfum. Hér er um að ræða falskar forsendur og misnotkun á almannafé.

Hver getur þriðji aðilinn verið? Það kemur aðeins einn aðili til greina, RÚV. 

(Aths.ritstj: Tilfallandi athugasemdir þiggja ekki ríkisstuðning. Páll Vilhjálmsson ritstýrir einn, án aðkomu þriðja aðila.)

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband