Ofbeldi Viðreisnar og nýja ríkisstjórnin

Hægriflokkurinn Viðreisn reynir að selja sig sem miðjuflokk í stjórnarmyndunarviðræðum. Framlag eins þingmanns Viðreisnar, Pawel Bartosek, í þeirri sölumennsku er að skattar séu ofbeldi.

Ögmundi Jónassyni fráfarandi þingmanni Vinstri grænna finnst markassetning Viðreisnar minna á ýkjusöguna um Lísu í Undralandi.

Í orðræðu miðalda voru skattar játning um þegnskap. Í sögu Ólafs helga Noregskonungs leggur Snorri Sturluson þau orð í munn Einars Eyjólfssonar frá Þverá að skattar til konungs jafngildi ,,lýðskyldu". Í Gamla sáttmála, gerður þegar Íslendingar gáfust upp á innanlandsófriði, og játuðust Noregskonungi, voru skattar tjáning á þegnskap.

Þeir sem túlka skatta sem ofbeldi gefa lítið fyrir það megineinkenni velferðarríkisins að skattar standi undir sameiginlegum þörfum þegnanna. Viðreisn er stofnuð af fólki sem tilheyrir þeim best settu í samfélaginu, sem hvorki hefur skilning á né samstöðu með meginhugsun velferðarsamfélagsins.

Þegar þetta fólk kennir sig við miðjuna í íslenskum stjórnmálum er augljóst að miðjan er orðin að öfgum. Samkvæmt því yrði ríkisstjórn undir forystu Viðreisnar öfgastjórn. 


mbl.is Fá en stór lykilverkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt framtíð fyrsta fórnarlamb Benedikts

Viðreisn er innherjaflokkur Íslands. Þar á bekk situr hópur vellaunaðra og enn betur tengdra; fyrrverandi ráðherrar, ráðherrabörn, talsmenn Samtaka atvinnulífsins og loks innherjinn sjálfur í Nýherja - Benedikt formaður.

Metnaður Benedikts er óseðjandi, það sýndi hann strax eftir kosningar.

Benedikt er ekki heimskur maður, hann er meira grunaður um græsku. Björt framtíð er fyrsta fórnarlamb hans enda þingflokkurinn þar blautur á bakvið eyrun. Stöðutaka Benedikts á vinstri vængnum er gerð í þeim eina tilgangi að herja þaðan með kröfur á Sjálfstæðisflokkinn. 


mbl.is Vilja Benedikt sem forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit og dauðastríð ESB

Evrópusambandið getur ekki starfað áfram að óbreyttu. Annað tveggja verður sambandið að auka miðstýringuna og setja saman Stór-Evrópu eða breytast í samstarf fullvalda ríkja. Úrsögn Bretlands, Brexit, voru vatnaskil fyrir ESB.

Eftir úrsögn og samninga við Breta um hvernig framtíðarsamskiptum við ESB skyldi háttað stóðu vonir til þess að Evrópusambandið gæti unnið í sínum málum og lagt nýjan grunn að tilveru sinni. Tafir á úrsögn Breta setja framtíð ESB í enn meira uppnám.

Dómsúrskurður í Bretlandi um að bresk stjórnvöld geti ekki virkjað úrsagnarákvæði Lissabonsáttmálans nema með aðkomu þingsins gera ekki annað en að tefja framgang Brexit. Óhugsandi er að úrskurðurinn komi í veg fyrir að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar verði ekki fylgt eftir. Það þýddi einfaldlega endalok lýðræðis í Bretlandi.

En skiljanlega fagna ESB-sinnar á Íslandi úrskurðinum. Lýðræði er ekki besti vinur ESB-sinna, samanber útreiðina sem þeir fengu í kosningunum á laugardag.


mbl.is Er Brexit búið að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndir innherjar með stefnu Samfylkingar

Björt framtíð og Viðreisn eru tvær útgáfur af Samfylkingunni, sem þjóðin hafnaði í kosningunum 2013 (12,9%) og aftur um helgina (5,7%). Björn Bjarnason spyr hvort Björt Viðreisn ætli virkilega að taka upp föllnu samfylkingarstefnuna.

Samanlagt er Björt Viðreisn með 17,7% fylgi, rúmur hálfdrættingur á við Sjálfstæðisflokkinn.

Ekkert fyrirsjáanlegt stjórnarmynstur er til sem gerir Bjartri Viðreisn kleift að verða ráðandi afl í landsstjórninni. Valdaplott með Heiðu Kristínu Helgadóttur sem millilið er aðeins til að fresta myndun starfhæfrar ríkisstjórnar.


mbl.is „Betra að leggja í púkk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngjörn laun þingmanna

Laun þingmanna, eftir síðustu launahækkun, ná því ekki að vera tvöföld meðallaun í landinu. Við ættum að búa sæmilega að þingmönnum okkar, þeir eru fulltrúar þjóðarinnar og setja lög í landinu. 

Á síðustu öld starfaði ég fyrir Alþýðubandalagið, fór reglulega á fundi þingflokksins og kynntist starfi þingmanna bæði innan þings og utan. Í stuttu máli er vinna dæmigerðs þingmanns töluvert meiri en hægt er að komast yfir á dagvinnutíma. Þingmaður sem sinnir starfi sínu hlýtur að vinna að minnsta kosti tíu til tólf tíma á dag á meðan þingið starfar. Aðskiljanlegir fundir utan þingtíma eru reglulegur þáttur í starfi þingmanna.

Dæmigerður þingmaður er þess verðugur að fá tvöföld meðallaun. Við launaákvörðun þingmanna hljótum við að miða við dæmigerðan þingmann. Líkt og í öðrum starfsstéttum er misjafn sauður í mörgu fé; sumir vinna lítið og illa en aðrir mikið og vel. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að ákveða laun þingmanna út frá afköstum - stundum er best að setja engin lög fremur en ólög.


mbl.is Þingfararkaup á við 1,8 meðallaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið síast inn - byltingin mistókst

Eftir hrun var eftirspurn eftir byltingarkenndum hugmyndum um breytt Ísland. Róttækasta hugmyndin var að kollvarpa stjórnskipun landsins, taka upp annan gjaldmiðil og ganga í Evrópusambandið.

Samfylkingin var í þessum skilningi byltingarflokkurinn. Strax eftir hrun fékk flokkurinn 30 prósent fylgi til að stokka upp Ísland. Byltingarleiðangurinn til Brussel rann út í sandinn áramótin 2012/2013. Í kosningunum á laugardag galt Samfylkingin afhroð og er dauðvona.

Vægari útgáfur af Samfylkingunni, Viðreisn hægrimanna og Björt framtíð til vinstri, eru smáflokkar. Stjórnlausa afbrigði Samfylkingar, Píratar (sem Össur sagði að væri alveg eins og Samfylkingin), fékk 14,5 prósent fylgi.

Niðurstöður kosninganna á laugardag eru að sá flokkur sem lofaði engu öðru en að viðhalda stöðugleikanum sigraði í öllum kjördæmum landsins og er nær tvöfalt stærri en sá flokkur sem næstur kemur.

Sigur Sjálfstæðisflokksins markar tímamót í eftirhruninu. Lýðræðislegur vilji þjóðarinnar er að viðhalda og styrkja félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.

Ekkert stjórnarsamstarf er betur til þess fallið að endurspegla úrslit kosninganna en að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir myndi ríkisstjórn. Verkskiptin eru skýr, Sjálfstæðisflokkurinn á að sjá um að bókhaldið gangi upp en Vinstri grænir að félagsleg samheldni þjóðarinnar styrkist, sem er jafnvel mikilvægari en efnahagslegi þátturinn.

Þriðji flokkurinn undir ríkisstjórnarvagni Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti verið í þessari röð: Framsókn, Björt framtíð eða Viðreisn.


mbl.is Byrjar á fundi með Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti fólksins, skrílsins eða lýðveldisins

Fyrsta alvöru embættisverk nýkjörins forseta Íslands, að leiða fram vilja alþingis, gefur til kynna að Guðni Th. vilji vanda til verka. Hann talaði við alla formenn flokka sem eiga fulltrúa á alþingi. Að því loknum veitti hann sigurvegara kosninganna umboð til stjórnarmyndunar.

Guðni Th. reyndi að leggja gott til umræðunnar um launamál þingmanna og stjórnarráðsins þegar hann gaf færi á fjölmiðlaviðtölum vegna stjórnarmyndunar. Augljóst er að forsetinn meinti vel þótt orðalag hefði mátt vera varkárara.

Nýkjörinn forseti vill tileinka sér alþýðilega framkomu. En það er skammt á milli fólksins og skrílsins í umræðunni. Hæfileg og virðingarverð fjarlægð frá hitamálum samfélagsmiðlanna væri heppilegri nálgun en alþýðubragur. En á meðan Guðni Th. sýnir meginreglum lýðveldisins virðingu eru góðar líkur á farsælum ferli hans sem forseta þjóðarinnar.


mbl.is „Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og stundatafla ESB - engar viðræður

Evrópusambandið semur ekki við ný ríki um aðild að sambandinu. Fyrirkomulagið er þannig að ný ríki óska eftir inngöngu þegar þing- og þjóðarvilji stendur til þess. Ef ESB telur viðkomandi ríki hæft til að ganga í sambandið byrjar aðlögunarferli. Með orðum ESB:

ESB starf­ræk­ir víðtækt samþykkt­ar­ferli sem sér til þess að ný ríki eru aðeins samþykkt þegar þau geta sýnt fram á það að þau muni og geti sinnt hlut­verki sínu sem full­gild­ir aðilar, það er með því að upp­fylla all­ar regl­ur ESB og staðla, hafa samþykki stofn­ana sam­bands­ins og ríkja þess og með því að hafa samþykki eig­in borg­ara - annaðhvort í gegn­um samþykki þjóðþinga þeirra eða þjóðar­at­kvæði.

Evrópusambandið breytti inngönguferlinu inn í sambandið um síðustu aldamót. Fyrir þann tíma, t.d. í samningum við Noreg 1994, var hægt að tala um að samningar í venjulegum skilningi þess orðs færu fram. En þegar ESB sá fram á aðild Austur-Evrópuríkja var ferlinu breytt. Engir samningar fara núna fram, aðeins aðlögun. Eins og segir í svari ESB til Svavars Alfreðs:

Regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins sem slík­ar (einnig þekkt­ar sem acquis) eru óumsemj­an­leg­ar; þær verður að lög­leiða og inn­leiða af um­sókn­ar­rík­inu. Inn­göngu­viðræður snú­ast í raun um það að samþykkja hvenær og með hvaða hætti um­sókn­ar­ríkið tek­ur upp og inn­leiðir með ár­ang­urs­rík­um hætti allt reglu­verk ESB og stefn­ur. Inn­göngu­viðræður snú­ast um skil­yrði og tíma­setn­ingu upp­töku, inn­leiðing­ar og fram­kvæmd­ar gild­andi laga og reglna ESB.

Ísland fær engar samningaviðræður við Evrópusambandið um aðild, aðeins er spurning um að fylla út stundatöflu ESB þar sem Ísland lofar að taka upp lög og reglur sambandsins á tilteknum tíma. 


mbl.is Reglur ESB „óumsemjanlegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kata, Karl Th. og vinstripólitík

Karl Th. fyrrum framkvæmdastjóri Samfylkingar gerir upp við hrun Samfylkingar og kallar leiðandi flokksmenn, sem hann nafngreinir að vísu ekki, ,,Reykjavíkurpakk."

Katrín Jakobsdóttir stendur frammi fyrir annars konar uppgjöri - við ímyndina af vonda hægrimanninum. Katrín, sem er orðvör og háttvís, myndi seint uppnefna nokkurn mann. En margir í kringum hana eru þjakaðir af sama hugarfarinu og Karl Th.: ,,þeir sem ekki eru sammála mér eru vitleysingjar."

Vinstrimönnum á Íslandi á því herrans ári 2016 til afsökunar er þess að geta að guðfaðir þeirra, þýski blaðamaðurinn Karl Marx, sló tóninn í umtalsillsku þegar á 19du öld. Höfundur ævisögu Marx, Frank E. Manuel, tileinkar heilan kafla þeirri hneigð Marx að útmála flokksfélaga sína er fylgdu ekki línunni sem óbermi. Skeggjaði gyðingurinn átti það til að kalla félaga sína júða ef þeir villtust af réttri leið. Manuel tekur uppnefnið til marks um sjálfshatur, en látum það liggja milli hluta.

Vinstrimenn gefa sig út fyrir að vera fólk hugmynda en er tamt að líta á manneskjuna sem verkfæri í þágu háleits málstaðar. Og upp á íslenska vísu kennir árinni illur ræðari.

Tímabært er að láta af pólitískri sálgreiningu og snúa sér að málefnum, einkum nú um stundir þegar hugmyndafræði Trierstráksins er löngu komin á öskuhaugana.

Verkefni Katrínar sem formanns Vinstri grænna er að gera flokkinn að ábyrgu stjórnmálaafli sem skorast ekki undan lýðræðislegum áskorunum. Vinstri grænir eru næst stærsti flokkurinn eftir kosningar. Sú staðreynd ein ætti að vekja til umhugsunar þá sem halda í fyrnsku um að flokkurinn fái þrifist sem mótmælahreyfing. Lög landsins og úrlausnarefni ríkisstjórnar eru inni á alþingi en ekki á flötinni í kringum styttu Jóns Sigurðssonar.

Vinstri grænir standa frammi fyrir tveim kostum. Í einn stað veiku fjölflokkabandalagi þar sem Saga class útgáfa Sjálfstæðisflokksins, Viðreisn, ræður ferðinni. Þessi flokkur vel stæðra og enn betur tengdra er óþjálfað lið með óskýra ásýnd líkt og nýríkur spjátrungur. Fjölflokkabandalagið er sjálfu sér sundurþykkt frá fyrsta degi.

Í annan stað eiga Vinstri grænir þess kost að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og einum smáflokkanna. Slík ríkisstjórn væri byggð á málamiðlunum sem gæti verið forsenda samfélagssátta og aukis trausts á stjórnmálamenningunni. Sem ekki veitir af.

Ef Vinstri grænir kjósa að viðhalda gamaldags óvinaímynd úr kalda stríðinu og hafna ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum er alls óvíst að flokkurinn beri sitt barr. Kjósendur Vinstri grænna nenna trauðla að styðja á ný flokk sem kastar frá sér ábyrgð þegar ábyrgðar er vænst. Það fer öðrum betur en Vinstri grænum að slá í tunnur undir styttu þjóðhetjunnar.

 


mbl.is Enginn meirihluti án Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæta þingmenn Pírata að mótmæla launum sínum?

Tíu þingmenn Pírata hljóta að mæta á Austurvöll og heimta að fá að vinna fyrir lágmarkslaun en ekki þiggja meira en milljón á mánuði fyrir þægilega innivinnu.

Þrír þingmenn Samfylkingar geta ekki látið sig vanta. Þá er spurning með poppgoðið úr HAM sem þekkir vel til aðferða hljómlistarmanna að taka laun án þess að þau komi fram á opinberum skýrslum.

Krafan hlýtur að vera: lágmarkslaun fyrir lágmarksvinnu.


mbl.is Fyrsta próf nýrra alþingismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband