Kata, Karl Th. og vinstripólitík

Karl Th. fyrrum framkvæmdastjóri Samfylkingar gerir upp við hrun Samfylkingar og kallar leiðandi flokksmenn, sem hann nafngreinir að vísu ekki, ,,Reykjavíkurpakk."

Katrín Jakobsdóttir stendur frammi fyrir annars konar uppgjöri - við ímyndina af vonda hægrimanninum. Katrín, sem er orðvör og háttvís, myndi seint uppnefna nokkurn mann. En margir í kringum hana eru þjakaðir af sama hugarfarinu og Karl Th.: ,,þeir sem ekki eru sammála mér eru vitleysingjar."

Vinstrimönnum á Íslandi á því herrans ári 2016 til afsökunar er þess að geta að guðfaðir þeirra, þýski blaðamaðurinn Karl Marx, sló tóninn í umtalsillsku þegar á 19du öld. Höfundur ævisögu Marx, Frank E. Manuel, tileinkar heilan kafla þeirri hneigð Marx að útmála flokksfélaga sína er fylgdu ekki línunni sem óbermi. Skeggjaði gyðingurinn átti það til að kalla félaga sína júða ef þeir villtust af réttri leið. Manuel tekur uppnefnið til marks um sjálfshatur, en látum það liggja milli hluta.

Vinstrimenn gefa sig út fyrir að vera fólk hugmynda en er tamt að líta á manneskjuna sem verkfæri í þágu háleits málstaðar. Og upp á íslenska vísu kennir árinni illur ræðari.

Tímabært er að láta af pólitískri sálgreiningu og snúa sér að málefnum, einkum nú um stundir þegar hugmyndafræði Trierstráksins er löngu komin á öskuhaugana.

Verkefni Katrínar sem formanns Vinstri grænna er að gera flokkinn að ábyrgu stjórnmálaafli sem skorast ekki undan lýðræðislegum áskorunum. Vinstri grænir eru næst stærsti flokkurinn eftir kosningar. Sú staðreynd ein ætti að vekja til umhugsunar þá sem halda í fyrnsku um að flokkurinn fái þrifist sem mótmælahreyfing. Lög landsins og úrlausnarefni ríkisstjórnar eru inni á alþingi en ekki á flötinni í kringum styttu Jóns Sigurðssonar.

Vinstri grænir standa frammi fyrir tveim kostum. Í einn stað veiku fjölflokkabandalagi þar sem Saga class útgáfa Sjálfstæðisflokksins, Viðreisn, ræður ferðinni. Þessi flokkur vel stæðra og enn betur tengdra er óþjálfað lið með óskýra ásýnd líkt og nýríkur spjátrungur. Fjölflokkabandalagið er sjálfu sér sundurþykkt frá fyrsta degi.

Í annan stað eiga Vinstri grænir þess kost að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og einum smáflokkanna. Slík ríkisstjórn væri byggð á málamiðlunum sem gæti verið forsenda samfélagssátta og aukis trausts á stjórnmálamenningunni. Sem ekki veitir af.

Ef Vinstri grænir kjósa að viðhalda gamaldags óvinaímynd úr kalda stríðinu og hafna ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum er alls óvíst að flokkurinn beri sitt barr. Kjósendur Vinstri grænna nenna trauðla að styðja á ný flokk sem kastar frá sér ábyrgð þegar ábyrgðar er vænst. Það fer öðrum betur en Vinstri grænum að slá í tunnur undir styttu þjóðhetjunnar.

 


mbl.is Enginn meirihluti án Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband