Hvítir í minnihlutapólitík

Minnihlutahópar skilgreindir út frá hörundslit, trú og kynhneigð móta pólitíska umræðu á vesturlöndum síðustu áratugi. Hóparnir tóku hugmyndir hvítra miðaldra karla frá 18. og 19. öld um frjálslynt einstaklingsfrelsi og splæstu við valkvæða túlkun á ofbeldi hvíta feðraveldisins. Útkoman er alþjóðleg ,,woke" útilokunarmenning sem tröllríður húsum, fáum til skemmtunar en flestum til ama.

Í viðtengdri frétt, skrifuð af blaðamanni sem þekkir frönsk stjórnmál, segir að háborg alþjóðahyggjunnar í Evrópu, sjálft ESB, liggi undir stórskotahríð forsetaframbjóðenda í Frakklandi. Frambjóðendurnir eru hvítir síðmiðaldra og tónninn er að minnihlutahóparnir hafi stolið af Frökkum sjálfri þjóðmenningunni.

Þjóðmenningu rekja Frakkar til Kloðvíks á fimmtu öld eftir Krist. Hún er öllu eldri en hugmyndir síðustu 200 ára um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þjóðmenningin er meginland, lýðræði rekís.

Á meðan nýlendustefna var fullframinn glæpur á 19. öld og entist fram yfir miðja síðustu öld er stuldurinn á þjóðmenningunni í beinni útsendingu. Hér og nú er brýnna en skömm á því liðna.   

Hvítir tileinka sér í óða önn pólitík minnihlutahópanna að verði ekki hart brugðist við með róttækum aðgerðum fari þjóðmenningin í hundana og með henni samfélagið.

Herskáir hvítir telja sér ógnað af bandalagi minnihlutahópa og eru til alls vísir. Þeir leita tæplega lýðræðislegra lausna á fjölmenningunni. Lýðræðið er málamiðlunin sem mistókst. 

Í frumbernsku vestræns lýðræðis kölluðu Forn-Grikkir sérstaka menn til verka þegar í óefni var komið með samlífið í borgríkinu. Þeir kölluðu þá týranna. Sniðmát samtímans byrjar á sama bókstaf - T.

 


mbl.is Sameinast um að tala bara um sundrung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkynhneigður með Kóraninn að vopni

Einhver íslenskur mannréttindalögfræðingur fékk dvalarleyfi fyrir múslímskan fjölskylduföður á forsendum samkynhneigðar.

Sá múslímski lætur dætur sínar þylja vers úr bók spámannsins á milli þess sem hann leggur hendur á þær. Kóraninn lofsyngur ekki beinlínis samkynhneigða. Í Íran eru menn hengdir fyrir hneigðina.

Fyrir ofbeldið er trúaði samkynhneigði múslíminn dæmdur í fangelsisvist. Ónafngreindi íslenski mannréttindalögfræðingurinn fær á hinn bóginn kaupið sitt, heldur áfram mannbætandi innflutningi og gistir ekki Litla-Hraun þótt skjólstæðingarnir fari þangað.


mbl.is Refsaði dætrum sínum með ofbeldi og Kóraninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vald skrásetjara, sögur og þumall

,,Skrá­setjar­arn­ir höfðu mikið vald...," segir Marín Árnadóttir sem safnar sögum um sérvitringa og sérkennilegt fólk liðins tíma. Fólkið var söguefnið en þeir sem skráðu réðu eftirmælum.

Skrásetjarar samtímans eru fjölmiðlar og samfélagsmiðlar. Í fréttum og færslum fáum við sögur af samferðamönnum og málsefnum er tíðindum sæta. Skoðanir á mönnum og málefnum verða til með sögum. Fæstir komast yfir allt magnið og af gæðum frásagna fer tvennum sögum (tvíræðni meint).

Í gamla daga fékk saga vængi ef hún þótti snjöll eða sérlega illkvittin. Hvörf urðu í lífi manna við mergjaða sögu. Guðmundur dýri brenndi inni tengdason sinni, og hefði brennt dóttur sína, ef því var að skipta, vegna söguburðar er líkti Guðmundi við hjárænulega gamalá.

Sögur í dag fá vængi með stafrænum þumli, sem kallast læk. Áfram er skrásetjari í aðalhlutverki. Þumall kemur á eftir sögu.

Ósagðri sögu fylgir ekkert vald. Eftirsóknin eftir valdi knýr áfram sagnaflóð þar sem ægir saman aðskiljanlegustu hlutum, hóflegum og ýktum, sönnum og ósönnum, með lítið eða mikið upplýsinga- og skemmtigildi.

Þá kemur þumallinn til bjargar. Þegar annað þrýtur má alltaf færa í letur frásögn um þumla. Barn í reifum sýgur þumalinn áður en það skilur heiminn.

   


mbl.is Tíðarandi gaf skotleyfi á þetta fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV og Fréttin: umdeildir fjölmiðlar

RÚV birtir frétt um að annar fjölmiðill, Fréttin.is, sé umdeildur og ætti ekki að fá leyfi til að mæta á blaðamannafundi.

Í frétt RÚV er Fréttin.is bendluð við falsfréttir og upplýsingaóreiðu.

RÚV lætur falsfrétt standa um að þrír Íslendingar sæti ákæru í Namibíu og nafngreinir þá. En það eru engir Íslendingar sem sæta ákæru í Namibíu. Sú vitneskja hefur legið fyrir frá í október. En áfram stendur falsfrétt RÚV óuppfærð og óleiðrétt.

Lögreglurannsókn stendur yfir á aðild RÚV að eitrun og gagnastuldi. Ekki er vitað til þess að Fréttin.is sé undir lögreglurannsókn.

Spurning hvor fjölmiðillinn sé umdeildari, RÚV eða Fréttin.is


Fréttir og kranablaðamennska

Frétt í fjölmiðli er unnið efni af ritstjórn og telst þar með gæðavottað af viðkomandi fjölmiðli. 

Kranablaðamennska er þegar fjölmiðill leyfir einhverjum að buna út úr sér frásögn og birtir sem gæðavottaða frétt. 

Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri Fréttablaðsins skrifar leiðara til að verja ,,fréttir" blaðsins um ásökun sagnfræðings að seðlabankastjóri sé ritþjófur.

Sigmundur Ernir segir Fréttablaðið hafa skrifað fréttir en í reynd stundaði blaðið kranablaðamennsku. Sagnfræðingurinn fékk að skrúfa frá krananum. Sameiginlegur skilningur beggja, sagnfræðingsins og Fréttablaðsins, var að ef meintur ritstuldur yrði ekki hengdur á seðlabankastjóra yrði tæplega frétt og alls ekki forsíðufrétt.

Með kranablaðamennsku framselur fjölmiðill trúverðugleika sinn. Enginn munur verður á frétt og Facebookfærslu.


Grátbroslegur skortur á hlýnun

Jörðin hefur ekki hlýnað í 9 ár og þrem mánuðum betur, samkvæmt nákvæmustu mælingum. Þrátt fyrir enga hlýnun ætlar ríkisstjórn Íslands að eyða 60 milljörðum króna í varnir gegn því sem ekkert er, segir okkur Sigríður Andersen.

Viðreisn vill lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar sem hvergi sést á mælum en þess meira í orðagjálfri stjórnmálamanna.

Grátbroslegum skorti á hlýnun fylgir harmleikur heilbrigðrar skynsemi.


Sakbending með samlíkingu er rógur

Tvær samlíkingar eru rökstuðningur fyrir ásökun Fréttablaðsins um að Ásgeir seðlabankastjóri hafi stolið texta Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings. Árni er sjálfur höfundur að báðum samlíkingunum. 

Í Fréttablaðinu er beint haft eftir Árna:

Það sem fékk mig núna til þess að rakna úr rotinu með þetta mál er svívirðileg framkoma gagnvart Bergsveini Birgissyni og að Ásgeir skuli segja að hann hafi aldrei verið þjófkenndur fyrr.

Bergsveinn Birgisson hefur sakað Ásgeir um að nýta sér hugmyndir sínar um efnahagslegar forsendur landnáms. Það mál er í farvegi og algjörlega ótengt ásökun Árna. Seðlabankastjóri stendur einfaldlega vel til höggs. Árni og Fréttablaðið nýta sér það. 

Seinni samlíkingin er enn langsóttari. Hún er sú að þar sem Ásgeir hafi verið einn af 53 höfundum rannsóknaskýrslu um fall sparisjóðanna hljóti hann að vera ábyrgur fyrir meintum ritstuldi. Ásgeir segir í viðtengdri frétt: „Ég var einn þess­ara 53. Ekk­ert efni er þó höf­und­ar­merkt mér sér­stak­lega." Seðlabankastjóri er eftirsóknarvert skotmark. 52 ekki-seðlabankastjórar verða aldrei forsíðuefni.     

Það má vel vera að Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur hafi ekki notið höfundarréttar síns og orðið fyrir ritstuldi. En það er ósmekklegt af honum að ásaka seðlabankastjóra með ekkert í höndunum annað en samlíkingar. 

Sakbending með samlíkingu er háttur óvandaðra að finna sér sökudólg þegar fátt er um fína drætti í málsatvikum. Sakbending með samlíkingu er rógur.

Fréttablaðið gerir róginn að forsíðufrétt. Þeir sem klæða róg í búning fréttar ætla sér ekki að upplýsa heldur ásaka á fölskum forsendum. Ef nógu margir taka undir verður aldrei spurt um forsendur og rök.    


mbl.is Fréttaflutningur Fréttablaðsins óboðlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglurannsóknin á RÚV - flóttinn hafinn

Stutt er í að niðurstöðu lögreglurannsóknar á aðild RÚV að eitrun Páls skipstjóra gagnastuldi. Starfsmenn Efstaleitis sem mega ekki vamm sitt vita, t.d. Einar Þorsteinsson, Sigrún Davíðsdóttir og Broddi Broddason ýmist hætta eða tilkynna brottför áður en ósköpin dynja yfir. Reisnin sem einu sinni var yfir þjóðarmiðlinum fjarar út í orðspori og mannskap.

Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri hætti um áramót, eftir samráð við Stefán útvarpsstjóra og fyrrum lögreglustjóra. Enn hefur Stefán ekki auglýst stöðu fréttastjóra. Flaggskipið Kveikur, sem strandaði í Namibíu, er ekki á dagskrá út janúar hið minnsta.

Starfsmenn RÚV með stöðu grunaðra sitja á vitneskju um stöðu lögreglurannsóknarinnar, þótt ekki sé nema um yfirheyrslur yfir þeim sjálfum. Fjölmiðillinn er þögull sem gröfin en á göngum og í kaffipásum er margt hvíslað. Til dæmis um að flýja sökkvandi skip. 

Þeir sem ganga frá borði eftir að lögreglurannsóknin verður heyrinkunn gera það vísast ekki með reisn. Margt mannorðsmorðið var plottað á Glæpaleiti. Nú styttist í skuldadaga.


mbl.is Einar hættir á Rúv og leitar á ný mið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB deyjandi hugmynd, líka í Frakklandi

Frambjóðendur til forseta Frakklands keppast við að afneita Evrópusambandinu. Ekki aðeins þeir frambjóðendur sem koma frá meintu ,,öfgahægri." Fyrrum trúfastir ESB-sinnar hlaupast undan merkjum.

Michel Barnier, sem til skamms tíma sat í framkvæmdastjórn ESB, er orðinn hávær gagnrýnandi miðstjórnarvaldsins í Brussel og vill endurheimta dómsvaldið. Barnier er að svara eftirspurn eftir gagnrýni á ESB.

Þannig deyja hugmyndir, með eftirspurn eftir gagnrýni á kjarna þeirra. Samrunaþróun Evrópu átti sitt blómaskeið í alþjóðavæðingu eftirstríðsáranna. Hátindinum var náð um aldamót með sameiginlegum gjaldmiðli. Eftir það hefur hallað undan fæti.

Hugsjónin er kulnuð. Eftir stendur innantómt kerfið. Það hjarir um sinn. Kommúnisminn treindi líftóruna í tuttugu ár eftir vorið í Prag.  


mbl.is Fáni Evrópusambandsins veldur deilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2021: Framsókn til gamla Íslands

Framsóknarflokkurinn vann kosningasigur sl. haust, jók fylgið um 6,6 prósent. Aðeins tveir aðrir flokkar á alþingi bætti við sig, Flokkur fólksins og Viðreisn, báðir með innan við tvö prósent fylgisaukningu. Aðrir töpuðu.

Sigur Framsóknar breytti pólitískri orðræðu á Fróni, án þess að eftir því væri tekið. Um langan aldur var Framsókn tákn íhaldssemi, að ekki sé sagt afturhalds. 

Vinstriflokkar sáu í Framsókn kyrrstöðu, dreifbýlishyggju og tortryggni gagnvart því sem  kallast efnahagslegt og félagslegt frjálslyndi. Efnahagslegt frjálslyndi er frjálshyggja og félagslegt wokeismi. Tvenndin fer saman í alþjóðahyggju sem er í algerri andstöðu við þjóðhyggju Framsóknar.

Frjálslynda vinstrið er með böggum hildar eftir sigur Framsóknar. Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingar segir í grein í Morgunblaðinu stærstu ,,heilsu­far­svá sam­tím­ans" vera geðheilbrigði. Yfirvarp Helgu Völu er alþjóðakófið frá Kína en það er íslenska framsóknarkófið sem hún óttast.

Draumur Helgu Völu um samstjórn Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar undir merkjum alþjóðlegs frjálslyndis varð að engu í haust. Varaáætlunin um alþjóðavædda vinstristjórn með Vinstri grænum, sósíalistum og Pírötum er rjúkandi rúst. Maður þarf ríkisstyrkta sálfræðihjálp af minna tilefni.

Sigur Framsóknar var sigur gamla Íslands sem er orðið þreytt á opnum landamærum frjáls innflutnings útlendrar vitleysu, svo sem woke, veiru og menguðu kjöti.

Gamla Ísland sótti í sig veðrið á nýliðnu ári. Það er vanmetnasta frétt ársins 2021.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband