Sunnudagur, 8. janúar 2023
3 meint Samherjamál eru öll RÚV-mál
Þrjú stór fréttamál frá 2012 eru í umræðunni tengd norðlensku útgerðinni Samherja. Með röngu. Málin þrjú eru öll með upphaf í ríkisfjölmiðlinum, RÚV. Þau eru réttnefnd RÚV-málin og segja söguna um það hvernig fréttir verða pólitík og enda í glæp.
Hér er vitanlega átt við Seðlabankamálið, Namibíumálið og byrlunarmál Páls skipstjóra. Málin þrjú eiga sér öll afmælisdag.
1. Seðlabankamálið hófst 27. mars 2012 með húsrannsókn hjá Samherja að morgni og Kastljósþætti á RÚV að kveldi sama dags. Tilefnið var ásökun RÚV, byggð á skýrslu sem var skáldskapur. Samherja var sýknaður fyrir dómi. Ásakanir RÚV kostuðu samfélagið tugi milljóna króna. Saklaust fólk mátti sitja undir ásökunum að stunda afbrot. En RÚV fitnaði eins og púkinn á fjósabitanum.
2. Namibíumálið byrjar með Kveiksþætti á RÚV þann 12. nóvember 2019 þar sem uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson stígur fram á opinberan vettvang í boði RÚV. Helstu ásakanir á hendur Samherja voru mútugjafir til namibískra embættismanna. Málið fór til rannsóknar sakamálayfirvalda á Íslandi og í Namibíu. Í Namibíu stendur yfir dómsmál þar sem Samherji er ekki nefndur a nafn - nema sem brotaþoli. Rannsóknin hér á landi er svo gott sem runnin út í sandinn. Það á aðeins eftir að gefa út dánartilkynningu.
Kostnaður við Namibíumálið hleypur á milljörðum. Héraðssaksóknari fékk 200 milljónir til að rannsaka og það er aðeins dropi i hafið. Saklausir menn eru sagðir ákærðir í fréttum RÚV. Það er bláköld lygi.
3. Byrlunarmálið verður til 3. maí 2021 þegar Páli Steingrímssyni skipstjóra hjá Samherja er byrlað, síma hans stolið og gögn tekin ófrjálsri hendi að undirlagi RÚV með tilstyrk Stundarinnar og Kjarnans, sem saman mynda RSK-miðla. Fjórir blaðamenn bíða ákæru vegna aðildar að málinu. Brotaþolar eru tveir, Páll skipstjóri og Arna McClure lögfræðingur hjá Samherja.
RÚV-málin þrjú sýna þróun. Gögn eru fyrst fölsuð, síðan er ónýt heimild gerð trúverðug og loks taka starfsmenn RÚV lögin í sínar hendur og eiga aðild að alvarlegum glæp, byrlun og stuldi. Ferlið er það sama og hjá þjófi sem byrjar að stela smápeningum en endar sem stórglæpmaður. Hver ber ábyrgð?
Ef RÚV lyti faglegri stjórnun og sinnti lágmarkseftirliti með ritstjórnarefni væru RÚV-málin gegn Samherja aðeins eitt, Seðlabankamálið, en ekki þrjú. Aðalmaðurinn í fyrstu vegferðinni er Helgi Seljan. Þegar ljóst varð að fréttamennska Helga þverbraut allar skráðar og óskráðar siða- og starfsreglur blaðamanna átti yfirstjórn RÚV að grípa í taumana. Farið hefði verið í saumana á vinnubrögðunum og spurt hvernig í veröldinni það gerðist að fölsuð heimild varð undirstaðan að samsæri tveggja ríkisstofnana, Seðlabankans og RÚV, í aðför að einkafyrirtæki. En ekkert var aðhafst.
Helgi og samverkamenn hans drifu sig þegar í næsta leiðangur, Namibíumálið. Áfram sömu vinnubrögðin. Skáldskapur og órar manns, sem er vímuefnasjúklingur og stórfelldur vændiskaupandi; en allt er tekið trúanlegt og alþjóð selt sem sannindi.
Það þurfti engan Einstein að sjá við frumsýningu Namibíu-þáttar RÚV að hér var ekki á ferðinni fréttamennska. ,,RÚV safnar liði til að trúa tilbúningnum," segir í tilfallandi færslu daginn eftir frumsýningu. Þar er vitnað í frétt RÚV, sem unnin var sama kvöld og Kveiksþátturinn var frumsýndur. Tveir fundir höfðu verið skipulagðir af fréttamönnum RÚV, annar var þingflokksfundur Pírata en hinn hópfundur stúdenta. Í fréttinni segir um þingflokksfund Pírata: ,,Þau sátu límd við skjáinn þegar kvikmyndatökumaður fréttastofu heimsótti þau og báðu vinsamlegast um að vera ekki trufluð." Skilaboðin út í samfélagið voru að nú ætti að láta hendur standa fram úr ermum, mæta á götur og torg að öskra um spillingu á Íslandi, sem væri orðin útflutningsvara.
Morgunljóst var til hvers refarnir voru skornir. Það átti að taka Samherja í nefið, sem hafði ekki tekist í Seðlabankamálinu. Í leiðinni að vekja reiðibylgju í samfélaginu til að styrkja dagskrárvald RÚV í opinberri umræðu. Þetta er ekki fréttamennska heldur pólitískur aktívismi.
Ef heil brú væri í yfirstjórn RÚV og dómgreindin óbrjáluð væri tekið á óverjandi vinnubrögðum fréttamanna áður en skaðinn yrði enn meiri. En viðbrögðin voru þau að hefja aðgerðafréttamennsku til skýjanna og hvetja fréttamenn til að halda áfram á sömu braut. Gæði frétta voru ekki metin eftir sannleiksgildi heldur hvort þær sköpuðu úlfúð og óeirð i samfélaginu.
Það leiddi til þriðja RÚV-málsins, tilræði að lífi og heilsu Páls skipstjóra og stuldi á eigum hans. Óvönduð vinnubrögð sem líðast um langa hríð eru hvatning til æ yfirgengilegri háttsemi. Engar hömlur, engin varnaðarorð. Þvert á móti, lestir eru lofaðir, fréttamennska er aukaatriði en samfélagsleg reiðibylgja aðalatriði. Afleiðingin verður skipulagður glæpur.
Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum, sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri er Helgi fór á hjáleiguna, Stundina, eftir samfellda hörmungarsögu á Efstaleiti í áratug. Þegar æðsti yfirmaðurinn er þeirrar sannfæringar að staðfestur og úrskurðaður brotamaður sé sérstök fyrirmynd verður skiljanleg umbreytingin á Efstaleiti í Glæpaleiti.
RÚV er spilltasta stofnunin í sögu íslenska ríkisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 7. janúar 2023
Þjóðhyggju berst liðsauki frá vinstrimönnum
Alþjóðavætt heimsþorp veit ekki á huggulegt heimilislíf, segir íslenskt lista- og menningarfólk í vaxandi mæli. Nokkuð kvað við annan tón árin eftir hrun þegar menningarelítan og vinstrimenn, með heiðarlegum undantekningum, vildu alþjóðavæða Ísland með ESB-aðild.
María Sólrún leikstjóri og handritshöfundur ber áhyggjur yfir ,,alþjóðlega pólitíska vandamáli sem yfirtaka streymisveitna hefur undanfarið haft með í för með sér um allan heim." Síðar í sömu Kjarnagrein ræðir María Sólrún Listaháskóla Íslands og segir: ,,Varla getur meiningin verið sú að rándýr menntun, sem skólinn býður uppá, þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa ódýrt vinnuafl fyrir erlend gróðafyrirtæki?"
Að breyttu breytanda eru áhyggjur Maríu Sólrúnar þær sömu og Egill Helgason sjónvarpsmaður og fleiri viðruðu fyrir þremur árum um að ríkið keypti auglýsingar hjá alþjóðlegum samfélagsmiðlum fremur en íslenskum fjölmiðlum.
Íslenskum menningarfrömuðum finnst lítt spennandi framtíðarsýn að verða lítil skrúfa í gangverki alþjóðamenningarinnar. Við viljum fást við íslenskan veruleika á okkar forsendum, segja andans verkamenn á Fróni. Til skamms tíma fannst andans vinstrimönnum ákjósanlegt að Ísland allt yrði lítið tannhjól í ógnarstóru úrverki Evrópusambandsins.
Þriðja atriðið sem vekur andúð vinstrimanna á alþjóðavæðingunni snýst ekki menningarmál eða fjölmiðlum. Þór Saari fyrrum þingmaður skrifar ádrepu um ferðaþjónustuna og segir:
Þessi iðnaðarferðamennska hefur svo gert miðborg Reykjavíkur að menningarlegri eyðimörk fyrir Íslendinga, hvort sem um er að ræða góðviðrisdaga á sumrin eða jóla- og áramótastemningu. Miðborg Reykjavíkur er bara ekki lengur sá menningarlegi og félagslegi samkomustaður sem miðborg höfuðborgar ríkis á að vera, heldur risastór matarsjoppuhöll með endalausum röðum af lundabúðum, gistihúsum og skyndibitastöðum, mönnuðum með erlendu starfsfólki sem fær lúsarlaun. Að heyra íslensku er undantekning. Klúr sjoppuvædd Selfie/Instagram menning eins og einn sagði.
Þjóðhyggja er að búa að sinu, áskilja sér rétt til að iðka menningu og stjórnmál á eigin forsendum. Að þessu leyti er þjóðhyggja pólitískt framhald einstaklingshyggju og íhaldssömu fremur en frjálslynd. Andstaða við alþjóðahyggju, tekur vara á fjölmenningu.
Vinstra frjálslyndið gerist íhaldssamt. Kristrún, vonarstjarnan í Samfylkingunni, var líka sjálfstæðiskona þartil fyrir skemmstu. Bjarni formaður þakkaði henni störf í skólanefnd Garðabæjar í formannsræðu á landsfundi í haust.
Seint fatta sumir en fatta þó.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 6. janúar 2023
Arna brotaþoli í RSK-sakamálinu
Ásamt Páli skipstjóra Steingrímssyni er Arna McClure yfirlögfræðingur Samherja brotaþoli í RSK-sakamálinu. Fjórir blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru sakborningar og verða ákærðir fyrir misgjörðir gegn Páli og Örnu.
Páli var byrlað 3. maí 2021. Á meðan hann lá á gjörgæslu var síma hans stolið og innihaldið afritað af blaðamönnum. Til að komast yfir símann voru RSK-miðlar í samstarf við andlega veika konu tengda Páli. Efni úr símanum birtist í Stundinni og Kjarnanum. Fréttirnar fjölluðu um samskipti starfsmanna Samherja og byggðu á tölvupóstum sem fóru þeim á milli og voru í síma Páls.
Auk skipstjórans koma nokkrir starfsmann Samherja og ráðgjafar þeirra við sögu í fréttum Stundarinnar og Kjarnans. En fyrir utan skipstjórann er Arna eini brotaþolinn.
Það eru því ekki fréttirnar sjálfar sem eru ástæða þess að Arna er brotaþoli í sakamálinu. Líkur eru á að blaðamennirnir hafi sín á milli, e.t.v. í samstarfi við andlega veiku konuna, lagt á ráðin að gera Örnu mein með einum eða öðrum hætti.
Lögreglan er með nægar sannanir um afbrot blaðamannanna gegn Örnu til að hún sé brotaþoli ásamt Páli skipstjóra. Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar sl. segir að rannsóknin beinist að gagnastuldi, líkamsárás með byrlun, friðhelgisbroti og stafrænu kynferðisofbeldi.
Blaðamennirnir fjórir, sem hafa stöðu sakbornings, eru Þóra Arnórsdóttir á RÚV, Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, áður RÚV.
Arna er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara vegna meintra brota Samherja í Namibíu. Hún leitaði til dómstóla að fá þeirri stöðu breytt enda engin gögn sem tengja hana við starfsemi Samherja í Namibíu. Málin tvö mynda samfellu. Byrlunar- og gagnastuldsmálið er framhald af áralangri herför RSK-miðla gegn Samherja.
Rannsókn héraðssaksóknara hófst í nóvember 2019, eftir að RSK-miðlar í samstarfi við Jóhannes Stefánsson uppljóstrara báru fram ásakanir um mútugreiðslur norðlensku útgerðarinnar i Namibíu. Blaðamaður Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson, vann að Namibíuumfjöllun RSK-miðla. Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari, sem fer með rannsóknina hjá héraðssaksóknara, er bróðir Inga Freys blaðamanns.
Til að gera málið enn reyfarakenndra sýna málsgögn í byrlunar- og gagnastuldsmálinu, þar sem Páll skipstjóri og Arna eru brotaþolar, að Ingi Freyr var í samskiptum við veiku konuna sem játað hefur að byrla Páli og stela síma hans í þágu RSK-miðla.
Ef RSK-sakamálið væri handrit að glæpasögu yrði útgáfu vafalaust hafnað af útgefendum með þeim rökum að söguþráðurinn væri of fjarstæðukenndur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 5. janúar 2023
RSK-spillingin: bróðir blaðamanns er saksóknari
RSK-miðlar eru með embætti héraðssaksóknara í vasanum. Aðalsaksóknari í Samherjamálinu, Finnur Vilhjálmsson, er bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar blaðamanns á Stundinni. Ingi Freyr skrifar fréttir til að bendla Samherja við lögbrot í Namibíu og bróðirinn heldur Örnu McClure yfirlögfræðingi Samherja í gíslingu sem sakborningi.
Arna kom hvergi nálægt útgerð Samherja í Namibíu. Ekki einu sinni stjörnuvitni RSK-miðla, Jóhannes Stefánsson, heldur fram aðild Örnu. Er Jóhannes þó enginn fermingardrengur þegar kemur að því að bera sakir á mann og annan. Í ofanálag stendur engin ákæra upp á Samherja eða starfsmenn fyrirtækisins í Namibíu. Í dómsmáli þar syðra er Samherji brotaþoli.
Tilfallandi athugasemd fjallaði um tengsl embættis héraðssaksóknara og RSK-miðla í nóvember á síðasta ári. Þar sagði m.a.
Arna McClure lögfræðingur Samherja fékk sumarið 2020 réttarstöðu sakbornings í Namibíurannsókn héraðssaksóknara. Framburður Jóhannesar uppljóstrara og gögn sem hann lagði fram styðja ekki að Arna sé með stöðu sakbornings. Jóhannes segir að Arna hafi ekki ,,verið í innsta hring" og engin málsgögn tengja hana við ákvarðanir um rekstur Samherja í Namibíu. Arna hóf ekki störf hjá Samherja fyrr en um mitt ár 2013 og fékkst einkum við lögfræðilega hlið Seðlabankamálsins. Jóhannes og Namibía voru ekki á hennar borði, eins og Jóhannes viðurkennir, fyrr enn allt var komið í hönk þar syðra.
Lögmaður Örnu sendi embætti héraðssaksóknara erindi í mars á þessu ári, aftur í júní og enn aftur í ágúst þar sem farið var fram á að staða Örnu sem sakbornings yrði felld niður. Rökin eru þau að hvorki framburður Jóhannesar né gögn máls gæfu til kynna að Arna ætti málsaðild.
Í öll þrjú skiptin svaraði Finnur Þór saksóknari fyrir hönd embættis saksóknara og sagði nei, Arna verður sakborningur þar sem rannsókn stendur enn yfir.
Finnur Þór saksóknari er ekki með nein gögn í höndunum sem réttlæta stöðu Örnu sem sakbornings. Í bréfi sem Finnur Þór skrifaði í október á síðasta ári kemur fram að rannsóknin á meintum glæpum Samherja þar syðra sé á frumstigi, sjá tilfallandi athugasemd.
RSK-spillingin leiðir til réttarmorðs þar sem fullkomlega saklausir einstaklingar fá stöðu sakborninga. Samspil fjölmiðla og héraðssaksóknara að halda fram glæpum þar sem engir eru hlýtur að leiða til opinberrar rannsóknar á starfsháttum ákæruvaldsins.
![]() |
Leitar til dómstóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. janúar 2023
Bakland RÚV skreppur saman
Fréttablaðið dregur saman seglin, Stundin og Kjarninn sameinast. Allir þrír eru vinstrimiðlar, útgáfur til að halda á lofti pólitík Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar. Á fjölmiðlamarkaði eru miðlarnir þrír bakverðir RÚV sem er miðstöð útbreiðslu vinstristjórnmála og fær marga milljarða á ári með nauðungaráskrift almennings. Þegar almenningur á val sniðgengur hann vinstrimiðla. Enginn kemst undan að greiða nauðungarframlagið.
Þetta er stutta sagan af hnignun vinstrimiðlanna. Lengri útgáfan er tvíþætt.
Í fyrsta lagi að hrunið bjó til gróðastíu hverskyns jaðarhópa, nær allir til vinstri, sem töldu sig handhafa einu sönnu uppskriftarinnar að velferð þjóðarinnar. Ónýta Ísland var óformlegt sameiginlegt slagorð þessara hópa með tilheyrandi fyrirlitningu á öllu íslensku.
Gjaldmiðlinum átti að farga, stjórnarskránni sömuleiðis og fullveldið skyldi fara á einu bretti til Brussel. Opingáttarstefna í útlendingamálum, fjölgun opinberra starfa í þágu vinstrimanna, sem áður voru margir á mála hjá auðmönnum, sem keyptu þögn og meðvirkni, voru önnur einkenni. Vexti ríkisvaldsins fylgdi skattpíning og stjórnlyndi; woke er í boði vinstrimanna.
Fyrir alla sérviskuna þurfti marga miðla, annars væri hætta á að kjósendur sæju í gegnum blekkingarvefinn. Með nokkrum miðlum var hægt að fela mótsagnirnar. Vinstrimönnum vegnar best í ófriði og óvissu. Fjölmiðlar í fleirtölu gera meiri hávaða en stakir miðlar.
Í öðru lagi þurfti að láta almenning borga fyrir nýmiðlun vinstrimanna. Þar var á brattann að sækja. Almenningur var ekki ginnkeyptur fyrir herlegheitunum. Miðlarnir þrír áttu sínar gleðistundir þegar íslensk stjórnmál léku á reiðiskjálfi árabilið 2009-2017.
Til mikils var að vinna í stöðugri kosningabaráttu að eiga reglulega útgáfu til sóknar og varnar. Auðmaður, stofnandi og helsti eigandi Viðreisnar, keypti Fréttablaðið; peningastrákar Samfylkingar fjárfestu í Kjarnanum og þingflokkur Pírata fjármagnaði Stundina. Almenningur lét sér fátt um finnast.
Er halla tók undan fæti óreiðuaflanna, með stöðugleika í stjórnmálum frá 2017, gerðu Stundin og Kjarninn óformlegt bandalag við RÚV um að deila með sér áhrifavaldi og létta á launakostnaði. Blaðamenn og stjórnendur jaðarmiðlanna fengu bitlinga frá RÚV með verktakagreiðslum s.s. fyrir þáttastjórnun og álitsgjöf. RÚV fékk Stundina og Kjarnann til að opna fréttamál, sem í eðli sínu voru áróður en ekki fréttir. Ríkisfjölmiðillinn fylgdi í humátt á eftir með umfjöllun um áróðursmál er Stundin og Kjarninn gerðu að fréttum.
Hápunktur samstarfs RSK-miðla kom vorið 2021 með byrlun og gagnastuldi. Fjórir blaðamenn hið minnsta bíða ákæru. Óþarfi er að fjölyrða um málið á tilfallandi vettvangi.
Eftir að samstarf RSK-miðla fékk tilfallandi afhjúpun bauðst Fréttablaðið til að hlaupa í skarðið. Í byrjun nýliðins árs birti Fréttablaðið sérkennilegustu frétt ársins. Stefán útvarpsstjóri og Helgi Seljan voru heimildirnar. Fréttin snerti ekki á kjarna málsins, aðild RÚV að broti á refsilöggjöfinni og flótti Helga yfir á Stundina. Í staðinn fyrir almannatengslaþjónustuna fékk blaðið auglýsingu frá RÚV um lausa stöðu fréttastjóra á Glæpaleiti og e.t.v. vilyrði um fleiri brauðmola.
Allt kom fyrir ekki. RÚV er ekki lengur í sömu færum og áður að deila með öðrum dagskrárvaldinu og taka þátt í launakostnaði annarra fjölmiðla. Ríkisfjölmiðillinn þarf á öllu sínu að halda vegna yfirvofandi stormviðris. Áður en nýhafið ár er úti mun RÚV berjast fyrir lífi sínu.
![]() |
Hætta útburði vegna taps Fréttablaðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 3. janúar 2023
Stór orð innihaldsrýr, mest hroki
Stríðið í Úkraínu snýst um frelsi og lýðræði, er algeng réttlæting fyrir vestrænum stuðningi við stjórnina í Kænugarði. Í kalda stríðinu höfðu hugmyndirnar sterk ítök, bæði á vesturlöndum og víða um heim, þar sem frelsi og lýðræði voru andstæður við kommúnískt alræði. Menningarleg mishröðun veldur því að elítur á vesturlöndum standa enn í þeirri trú að hugmyndirnar séu algildar á heimsvísu. Reyndin er allt önnur.
Frelsi og lýðræði voru prufukeyrð í Afganistan og Írak í byrjun aldar og aftur í Líbýu og Sýrland um miðjan síðasta áratug. Hugtökin seldu ekki, vestrið fór halloka. Miðausturlönd eru íslamskt menningarsvæði og nokkur tregða þar að tileinka sér kristnar hugmyndir vestrænar.
Úkraína, á hinn bóginn, er sæmilega kristið á vestrænan mælikvarða og ætti að vera móttækilegt fyrir lýðræði og frelsi. Sama gildir um Rússland enda þarlend menning sú hin sama og í Garðaríki.
Stórar hugmyndir selja sig sjálfar, standi þær undir sér. Að öðrum kosti bíður þeirra grýttur jarðvegur. ESB-hugsjónin, svo dæmi sé tekið, var léleg innflutningsvara á Ísland og gerði sig aldrei sem slík. Ekki einu sinni þegar þjóðin var í taugaáfalli eftir hrun.
Ef vestrið, hér erum við vitanlega að tala um ráðandi elítur á vesturlöndum, tryði í raun og sann á frelsi og lýðræði og algildi hugmyndanna a.m.k. á menningarsvæðinu frá Portúgal til Úral-fjalla, hefði aldrei orðið Úkraínustríð. Vestrið hefði einfaldlega látið tímann vinna að framgangi hugsjónanna. Á öldinni sem er að líða yxu bæði Úkraína og Rússland til ástar á lýðræði og frelsi og líkt og þekkist í Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Stöðug vestræn misþyrming á frelsi og lýðræði gerir hugmyndirnar aftur að gatslitnum flíkum.
Úkraínustríðið snýst ekki um frelsi og lýðræði, ekki frekar en að krossferðir á miðöldum snerust um vilja guðs. Í stað kaþólsku kirkjunnar sjá vestrænir fjölmiðlar um að blekkja lýðinn, telja honum trú um að kalda stríðið standi enn. Staðfest gjá er á milli hugmynda og veruleika.
Stríðið á gresjum Garðaríkis verður best skilið í samhengi við sígilda valdapólitík heimsvelda og bandalaga þeirra. Í einn stað Bandaríkin og Vestur-Evrópa (ESB) en í annan stað Rússland, sem eftir að stríðsátök brutust út er orðinn náinn bandamaður Kína. Úkraína er þannig í sveit sett að færi landið undir Nató-vestrið væru taldir dagar Rússlands sem heimsveldis. Nægir að líta á landakort til að sannfærast um það.
Á Rússland rétt á því að vera heimsveldi, jafnvel þótt það sé staðbundið? Þannig mætti spyrja. Eiga Bandaríkin heimsvaldarétt? ESB? Nei, ekkert ríki á tilkall til heimsveldis og hefur aldrei átt. Ekki ef við skiljum orðin ,,réttur" og ,,tilkall" siðferðislegum skilningi. En heimsveldi hafa alltaf verið til, a.m.k. frá Forn-Grikkjum að telja. Ein af staðreyndum alþjóðastjórnmála sem þarf að lifa með. Það er hægt að gera þá kröfu að þau hagi sér skikkanlega, sýni skynsemi að ekki sé sagt mannúð. Einkum þau heimsveldi sem kenna sig við frelsi og lýðræði.
Stríð eru miskunnarleysið uppmálað, gjaldþrot mennskunnar. Til að réttlæta stríð þarf stórar hugmyndir. Vestrið notar hugmyndagóss frá kalda stríðinu. Pútín er Stalín endurfæddur, heimurinn skiptist í austur og vestur, gott og illt, vestrænt lýðræði og kommúnisma. Nema, auðvitað, það er enginn kommúnismi austur í Rússíá. Hefur ekki verið í 30 ár. Orðræðan er úr sér gengin, passar ekki við veruleikann.
Pútín hugsar um öryggi rússneska ríkisins en vestrið um að stækka áhrifasvæði. Áður en til stríðsátaka kom í febrúar á liðnu ári var friður í boði: hlutlaus Úkraína utan hernaðarbandalaga. Er það mátti ekki, orðræða kalda stríðsins var ráðandi.
Almenningur á vesturlöndum lítur stríðsbrölt Nató-ríkjanna hornauga. Engin löngun er til að senda vestræna hermenn þangað austur til að deyja fyrir málstað sem engum er hugþekkur. Stórveldabrölt er áhugamál elítunnar, ekki Jóns og Gunnu.
Heimsveldum er hugmyndafræði nauðsynleg til að réttlæta tilvist sína. Forn-Grikkir kölluðu þá barbara sem ekki tilheyrðu grískri menningu. Barbarinn Alexander mikli og lagði undir sig grísku borgríkin. Rómverjar státuðu af latínu og Pax Romana, Rómverjafriði, sem aðskildi menningu og villimennsku. Alráður vísigoti settist um Róm í byrjun fimmtu aldar sem bar ekki sitt barr eftir það.
Pútín er hvorki Alexander mikli né Alráður vísigoti, ekki frekar en hann sé endurfæddur Stalín. Rússland er staðbundið heimsveldi, ekki með hugmyndafræði til útflutnings. Rússagrýlan er skáldskapur.
Vestrinu stafar meiri hætta af eigin elítum en Pútín. Vestrænn hroki er upphafið að stríðinu í Garðaríki. Þegar stríðinu lýkur, fyrirsjáanlega með rússneskum sigri, verður skipt um ráðandi öfl á vesturlöndum. Elítan sem sigraði kalda stríðið er komin fram yfir síðasta söludag. Dramb, eins og Forn-Grikkir vissu, er falli næst.
![]() |
Stríð til að drepa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 2. janúar 2023
Sakborningur segist ekki bloggari
,,Við erum ekki bloggarar" er fyrirsögnin á leiðara félagstíðinda Blaðamannafélags Íslands, sem kom út rétt fyrir nýliðin áramót. Höfundurinn er varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson.
Aðalsteinn er sem blaðamaður Stundarinnar einn fjögurra sakborninga í lögreglurannsókn á byrlun- og gagnastuldi, máli kennt við Pál skipstjóra Steingrímsson. Skipstjórinn varð fyrir samræmdri atlögu RSK-miðla (RÚV, Stundarinnar og Kjarnans) á heilsu sína, eigur og einkalíf. Málið bíður ákæru.
Þakka ber Aðalsteini játninguna, að hann sé blaðamaður en ekki bloggari. Enginn bloggari myndi ljá máls á aðild að afbroti vegna umfjöllunarefnis. Blaðamenn, á hinn bóginn, víla ekki fyrir sér stunda glæpi við öflun fréttaefnis, eins og dæmin sanna.
Íslenskt samfélag yrði betra með fleiri bloggurum en færri blaðamönnum. Kannski skrifar varaformaður BÍ í næsta tölublað Blaðamannsins um æskilega fækkun afbrotamanna í stéttinni. Vitað er að afbrotafjölmiðlum fækkar um einn í næstu viku - þegar Stundin og Kjarninn sameinast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. janúar 2023
Hamingjan er hörð, ekki málamiðlun
Ríkisvald sem hyggst gera þegna sína hamingjusama mun valda eymd og volæði alls þorra manna. Hamingja einstaklinga er aðeins möguleg ef þeir sjálfir fá tækifæri að leita hennar. Forskrift ríkisvalds að hamingju leiðir óhjákvæmilega til óhamingju.
Katrín forsætis flokkar hamingjuna til mjúku málanna í áramótaávarpi og fylgir þar hefð. Á sama hátt eru efnahagsmál talin til hörðu málanna; mælanleg og afgerandi - á meðan hamingjan er hugarástand.
Einstaklingur, þegn ríkisvalds, er eftir atvikum hamingjusamur eða ekki. Hann getur með hugarfari dimmu í dagsljós breytt, eins og skáldið sagði, eða alið með sér óánægju og fundið lífinu flest til foráttu. Í þeim skilningi er hamingjan hörð, krefst sjálfsaga.
Ríkisvald á hinn bóginn getur ekki dimmu í dagsljós breytt. Aftur er mýgrútur sögulegra dæma um að ríkisvaldið leiði yfir þegnana myrkur um miðjan dag.
Í venjulegu árferði er meginhlutverk ríkisvaldsins, fyrir utan að gæta laga og reglna, að standa fyrir málamiðlun milli hagsmunahópa þjóðfélagsins. Við erum skipulögð í ógrynni hópa; íþróttafélög, sveitarfélög, stjórnmálaflokka, trúfélög, verkalýðsfélög og svo má áfram telja. Endalaus málamiðlun er á milli þessara hópa. Það er, eða á að vera, hlutverk ríkisvaldsins að sjá um að miðla málum á opinberum vettvangi en láta einkalíf fólks að mestu í friði.
Málamiðlunin er vandasöm. Það sést best á undantekningartilfellum, þegar nýrra málamiðlana er þörf. Heimsfaraldurinn var slíkt tilfelli. Þar reyndi verulega á getu ríkisvaldsins til að feta einstigi milli lok, lok og læs hagsmunahópsins annars vegar og hins vegar hópsins látum skeika að sköpuðu. Um tíma var æðsta stjórn ríkisins svo vanmáttug að hún útvistaði valdinu til embættismannastjórnar, þríeykisins.
Hvað varð um hamingjuna í kófinu? Tilfallandi höfundur er framhaldsskólakennari og getur borið vitni um það að sumir nemendur voru sáttir að læra heima, í fjarnámi, á meðan aðrir vanþrifust að hitta ekki skólafélaga. Einstaklingar eru ólíkir, bregðast mismunandi við breyttum aðstæðum. Vel að merkja: allur þorri nemenda, sem ég kenndi, sýndi merki um sjálfstæðari vinnubrögð eftir kóf. Mér fannst það staðfesta orðtakið að neyðin kenni naktri konu að spinna.
Meginlexía faraldursins er að ein stærð hentar ekki öllum. Það er mannlífið í hnotskurn. Við eigum að gjalda varhug við pólitískri hugmyndfræði sem þykist vita það sem aldrei verður vitað; hvernig hver og einn skal haga lífi sínu.
Í upphafi árs er vert að minnast þess að enginn veit framtíðina. Lífið er þannig að verkefnin koma til okkar, bæði þau sem við verðum að leysa sem einstaklingar og verkefni samfélagsins.
Hamingjan er að stærstum hluta hvers og eins en alls ekki ríkisvaldsins að höndla með.
Gleðilegt nýtt ár.
![]() |
Átti að gæta þess að ræða ekki mjúku málin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 31. desember 2022
Hrun fjölmiðla 2023
Á nýju ári verða íslenskir fjölmiðlar fyrir álíka höggi og bankarnir urðu fyrir 2008. Hrun bankanna var fjárhagslegt en siðferðislegt og faglegt hrun blasir við fjölmiðlum. Ríkisfjölmiðillinn RÚV verður afhjúpaður sem loddaramiðill annars vegar og hins vegar miðstöð alvarlegra afbrota á refsilöggjöfinni. RSK-miðlar fá sama orðspor og Kaupþing. Blaðamaður verður álíka skammaryrði 2023 og bankamaður 2008.
Stærsta fréttamál RÚV síðustu fjögurra ára, Namibíumálið, mun renna út í sandinn. Það verður ekki ákært fyrir eitt eða neitt sem snýr að Samherja í Namibíumálinu, hvorki hér á landi né í Namibíu.
Um miðjan nóvember bjó RÚV til frétt um að það hillti undir lok rannsóknar á Samherja. Í fréttinni var lævíslega látið að því liggja að rannsókninni lyki með ákæru. En sé Namibíubréf saksóknara frá október lesið kemur á daginn að ekkert saknæmt hafi fundist í íslensku rannsókninni.
Loddaramiðillinn RÚV mun þurfa að éta ofan í sig mörg hundruð fréttir síðustu ára sem fullyrtu að Samherja hefði stundað stórfelld afbrot í Namibíu með mútugreiðslum til þarlendra embættismanna. Fyrir tæpum 3 árum fullyrti RÚV að Íslendingar yrðu ákærðir. En það verður enginn Samherjamaður ákærður, hvorki á Íslandi né í Namibíu.
Eitt og sér ættu endalok Namibíumálsins að valda siðferðislegu og faglegu hruni RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla. En það verður verra.
Yfirmaður á RÚV sem og fyrrverandi starfsmaður, nú blaðamaður á Stundinni, eru sakborningar vegna aðildar að máli er varðar byrlun, gagnastuld og brot á friðhelgi einkalífs. Tveir blaðamenn Kjarnans eru sakborningar í sama máli. Í byrlunar- og gagnastuldsmálinu verður ákært á nýju ári. Í leiðinni verður upplýst um misnotkun RSK-miðla á andlega veikri konu.
Blaðamennirnir fjórir eru margverðlaunaðir af Blaðamannafélagi Íslands fyrir einmitt Namibíumálið og að höndla með stolin gögn frá Páli skipstjóra Steingrímssyni, sem var byrlað til að RSK-miðlar gætu bætt vígstöðuna í Namibíumálinu.
Blaðamenn vita sjálfir hvað bíður þeirra og gerðu ýmsar ráðstafanir til að mæta yfirvofandi hruni. Félag fréttamanna á RÚV sameinaðist Blaðamannafélagi Íslands í vor. Það var gert til að færa siðferðilega og faglega ábyrgð frá Efstaleiti yfir á alla blaðamannastéttina. Félagaskrá Blaðamannafélagsins telur rúmlega 600 manns. Hér er um að ræða stærsta sameiginlega skipbrot fagstéttar í sögunni.
Í haust ákváðu Stundin og Kjarninn að sameinast. Stundin og Kjarninn þurfa nýja kennitölu. Stundin og Kjarninn sáu fram á fjárhagslegt gjaldþrot vegna málareksturs á árinu. Ekki aðeins þarf að verjast opinberu refsimáli heldur einkamáli þar sem brotaþolar sækja miskabætur. Ríkið ber ábyrgð á kennitölu RÚV, sem mun herja grimmt á sjóði almennings til að standa af sér storminn.
Blaðamenn, bæði á RSK-miðlum og öðrum, gættu þess vandlega að almenningur yrði þess ekki áskynja að raðfalsfréttir og glæpir í kaupbæti væru orðin sérgrein ráðandi hluta íslenskra fjölmiðla.
Enginn starfandi blaðamaður gerði athugasemdir við að þrír sakborningar í byrlunar- og gagnastuldsmálinu voru verðlaunaðir 1. apríl (fyndin dagsetning), hálfum öðrum mánuði eftir að heyrinkunnugt varð um stöðu blaðamannanna í lögreglurannsókn. Hvorki voru fréttir sagðar um samhengið né siðfræðingar inntir álits á fáheyrðum tíðindum að sakborningar í refsimáli fengju verðlaun fyrir heiðarleika. Hvað yrði sagt ef sakborningur í kynferðisbrotamáli yrði kjörinn leikskólakennari ársins?
Hrun og hreingerningar verða meginviðfangsefni íslenskra fjölmiðla á komandi ári og árum. Almenningur mun á hinn bóginn ekki verða upplýstur um það sem RSK-mafían tekur sér fyrir hendur á bakvið luktar dyr. Engin vestræn þjóð býr að jafn meðvirkum blaðamönnum og sú íslenska. RSK-mafían leggur línurnar og 600 blaðamannasálir jarma með.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 30. desember 2022
Kuldaleg hamfarahlýnun
Í hitabylgjum er talað um hamfarahlýnun af mannavöldum. Í kuldakasti er veðrið allt í einu orðið náttúrulegt, maðurinn kemur hvergi nærri.
Á jörðinni er ekki eitt veðurkerfi heldur mörg, skrifar loftslagsvísindamaðurinn Richard Lindzen í nýrri skýrslu. Þess vegna sé markleysa að tala um meðalhita á jörðinni, sem er viðmið hamfarasinna.
Í viðtengdri frétt er talað um kuldakastið í Reykjavík en ekki á Íslandi. Almennt er aldrei talað um meðalhita á Íslandi heldur í einstökum landshlutun. Hitafar breytist sáralítið frá ári til árs og því minna sem stærra svæði er undir. Litlar breytingar staðbundnar hafa aftur merkingu. Kalt vor á Suðurlandi skiptir máli fyrir sunnlenska bændur en hefur enga merkingu fyrir vestfirska sjómenn.
Á hinn bóginn eru litlar breytingar yfir langan tíma merkingarbærar. Tíminn sem er undir hleypur þá á hundruðum og þúsundum ára. Það er kaldara núna en það var á miðaldahlýskeiðinu fyrir þúsund árum. Fyrir 6000 árum voru jöklar á norðurslóðum ekki svipur hjá sjón og hlýrra eftir því.
Hamfarasinnar rugla vísvitandi þessu tvennu saman, óverulegum breytingum á staðbundnu veðurfari annars vegar og hins vegar langtímaþróun. Til að bíta höfuðið af skömminni fullyrða hamfarasinnar að ein breyta, manngerður koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti, ráði hitastigi jarðar. Það er fullkominn bábilja.
Fyrir það fyrsta hefur koltvísýringur risið og hnigið frá ómunatíð, löngu áður en maðurinn kom til sögunnar. Koltvísýringur er nú um stundir 400 ppm eða 0,04% af andrúmsloftinu. Þetta hlutfall hefur farið upp í 7000 ppm áður en maðurinn varð til sem tegund. Náttúruferlar ráða ferðinni, ekki mannlegar athafnir.
Í öðru lagi er koltvísýringur aðalfæða plantna. Sveltimörk plantna eru við 200 ppm. Þegar magn koltvísýrings eykst örvast vöxtur plantna, jörðin verður grænni. Kjörvöxtur plantna er við 1200 til 1600 ppm.
Í þriðja lagi fylgja breytingar á koltvísýringi í andrúmsloftinu breyttum lofthita, sem aftur fylgir yfirborðshita sjávar," skrifar loftslagsvísindamaðurinn Ole Humlum. Það er ekki aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sem veldur hækkandi hita heldur er hærra magn koltvísýrings afleiðing hækkandi lofthita.
Í fjórða lagi myndu verulegar breytingar á koltvísýringi, t.d. tvöföldun úr 400 í 800 ppm, aðeins valda óverulegri hækkun hitastigs eða 0,75 gráður á C.
Samspil sólarvirkni og skýjafars eru til muna öflugri breyta en CO2 hvað varðar lofthita.
Vatnsgufa H2O er þrisvar sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Vatnsgufa myndar ský. Blaðamaður Die Zeit, með doktorsgráðu í eðlisfræði, ræddi við einn fremsta loftslagsvísindamann Þjóðverja og forstöðumann veðurfræðistofnunar Max Planck, Bjorn Stevens, og spurði hvort jörðin yrði brátt óbyggileg vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda.
Það er bull sem hefur ekkert með vísindalegan veruleika að gera, svaraði Björn Stevens. (Sjá hér enska útgáfu).
,,Næstu 30 árin verður hnattræn hlýnun ekki lengur í umræðunni," segir Valentína Zharkova sem veit sitthvað um áhrif sólar á veðurfar jarðar og spáir köldu.
Kuldakastið í henni Reykjavík í desember 2022 skyldi þó aldrei vera vísbending um það sem koma skal?
![]() |
Verður 71 árs kuldamet slegið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)