Þjóðhyggju berst liðsauki frá vinstrimönnum

Alþjóðavætt heimsþorp veit ekki á huggulegt heimilislíf, segir íslenskt lista- og menningarfólk í vaxandi mæli. Nokkuð kvað við annan tón árin eftir hrun þegar menningarelítan og vinstrimenn, með heiðarlegum undantekningum, vildu alþjóðavæða Ísland með ESB-aðild.

María Sólrún leikstjóri og handritshöfundur ber áhyggjur yfir ,,alþjóð­lega póli­tíska vanda­máli sem yfir­taka streym­isveitna hefur und­an­farið haft með í för með sér um allan heim." Síðar í sömu Kjarnagrein ræðir María Sólrún Listaháskóla Íslands og segir: ,,Varla getur mein­ingin verið sú að rándýr mennt­un, sem skól­inn býður uppá, þjóni fyrst og fremst þeim til­gangi að skapa ódýrt vinnu­afl fyrir erlend gróða­fyr­ir­tæki?"

Að breyttu breytanda eru áhyggjur Maríu Sólrúnar þær sömu og Egill Helgason sjónvarpsmaður og fleiri viðruðu fyrir þremur árum um að ríkið keypti auglýsingar hjá alþjóðlegum samfélagsmiðlum fremur en íslenskum fjölmiðlum.

Íslenskum menningarfrömuðum finnst lítt spennandi framtíðarsýn að verða lítil skrúfa í gangverki alþjóðamenningarinnar. Við viljum fást við íslenskan veruleika á okkar forsendum, segja andans verkamenn á Fróni. Til skamms tíma fannst andans vinstrimönnum ákjósanlegt að Ísland allt yrði lítið tannhjól í ógnarstóru úrverki Evrópusambandsins.

Þriðja atriðið sem vekur andúð vinstrimanna á alþjóðavæðingunni snýst ekki menningarmál eða fjölmiðlum. Þór Saari fyrrum þingmaður skrifar ádrepu um ferðaþjónustuna og segir:

Þessi iðnaðarferðamennska hefur svo gert miðborg Reykjavíkur að menningarlegri eyðimörk fyrir Íslendinga, hvort sem um er að ræða góðviðrisdaga á sumrin eða jóla- og áramótastemningu. Miðborg Reykjavíkur er bara ekki lengur sá menningarlegi og félagslegi samkomustaður sem miðborg höfuðborgar ríkis á að vera, heldur risastór matarsjoppuhöll með endalausum röðum af lundabúðum, gistihúsum og skyndibitastöðum, mönnuðum með erlendu starfsfólki sem fær lúsarlaun. Að heyra íslensku er undantekning. „Klúr sjoppuvædd Selfie/Instagram menning“ eins og einn sagði.

Þjóðhyggja er að búa að sinu, áskilja sér rétt til að iðka menningu og stjórnmál á eigin forsendum. Að þessu leyti er þjóðhyggja pólitískt framhald einstaklingshyggju og íhaldssömu fremur en frjálslynd. Andstaða við alþjóðahyggju, tekur vara á fjölmenningu.

Vinstra frjálslyndið gerist íhaldssamt. Kristrún, vonarstjarnan í Samfylkingunni, var líka sjálfstæðiskona þartil fyrir skemmstu. Bjarni formaður þakkaði henni störf í skólanefnd Garðabæjar í formannsræðu á landsfundi í haust.

Seint fatta sumir en fatta þó. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það væri óskandi að þetta þjóðhyggjusmit legðist líka á þá sem stýra þessu samfélagi. En því miður virðist ESBveiran (alþjóðaveiran) hafa tekið sér bólfestu í ríkisstjórn þessa lands og yfir höfuð í allri stjórnmálastéttinni. Annað verður ekki lesið úr öllum þeim lögum og reglugerðum sem hellast yfir okkur hvern dag.

Ragnhildur Kolka, 7.1.2023 kl. 11:03

2 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Varamaður í skólanefnd..

Guðmundur Böðvarsson, 7.1.2023 kl. 12:05

3 Smámynd: rhansen

Sorglegt að segja ekki eins og satt er ...verkstjori Globalista ræður her  og þar af leiðandi er nu komið sem komið er ..Unnið hörðum höndum að útmá litla fallega landið okkar Og verður ekki aftur snuið nema fólk vakni við vondan draum þó seint se að verða og taki völdin !!     Og sammála Guðmundi Erni Ragnarsyni 

rhansen, 8.1.2023 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband