Frelsi, forseti og óreiða

Frelsi er lykilhugmynd í menningunni. Við viljum, í nafni einstaklingsfrelsis, lifa lífi okkar á þann hátt sem við kjósum án óviðkomandi afskipta.

Að því sögðu búum við í samfélagi og beygjum okkur undir sameiginlegar reglur til að samskipti séu friðsamleg og mannlífið gangi sæmilega greiðlega fyrir sig. Án umferðareglna, svo dæmi sé tekið, er hætt við að samgöngur yrði ógreiðari, að ekki sé sagt hættulegri. Við greiðum skatta til löggæslu, heilbrigðisþjónustu, menntunar og annarra samfélagslegra þarfa. Stjórnvöld, lýðræðislega kjörin, gæta sameignarinnar.

Frelsinu eru settar samfélagslegar skorður. Erfitt að sjá hvernig öðruvísi gæti verið. Jú, reyndar, það er hægt. Án laga og reglna, skráðra og óskráðra, yrði óreiða.

Allir Íslendingar 35 ára og eldri geta orðið forseti, segir stjórnarskráin. Umorðað: allir eldri en 35 ára eiga stjórnarskrárvarið frelsi að bjóða sig fram til forseta. Eitt lítið viðbótarskilyrði er að meðmælendur þurfi að vera 1500, rafræn undirskrift nægir.

Eitthvað um 60 manns hafa lýst yfir áhuga að bjóða sig fram til forseta, nýta frelsi sitt. Freista þess að fá kjör sem æðsta stjórnvald.

60 einstaklingar eru örlítið prósent þjóðarinnar. En nú gengur maður undir manns hönd og segir að þetta sé alltof mikill fjöldi frambjóðenda. Við blasi óreiða, gjaldfall embættis þjóðhöfðingja.

Viðbúið sé, er sagt, að næsti forseti hafi aðeins um 20 prósent fylgi á bak við sig. Á samfélagsmiðlum er hrollurinn áþreifanlegar. Yfir því einu að fáeinir tugir nýta frelsið, bjóða sig fram til forseta í lýðræðislegum kosningum. Svona eins og aðrir kaupa sér happadrættismiða. Aldrei að vita nema heppnin færi manni gull og græna skóga - eða Bessastaði til ábúðar í fjögur ár.

Hvaða almennu ályktanir má draga af forsetahappadrættinu, frelsi og óreiðu? Einkum tvær.

Í fyrsta lagi að skyldleiki er á milli frelsis og óreiðu.

Í öðru lagi að aðeins þarf fámennan hóp, örlítinn minnihluta, til að skapa samfélagslega óreiðu.

Niðurstaðan er að frelsi og samfélag án óreiðu eru gæði í hlutföllum. Við ættum að láta okkur annt um samfélagið, ekki líta á það sem happadrætti. 

 

 


Bloggfærslur 5. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband