Hildarleikur og Katrínarklúður

,,Bjóði Katrín sig fram tekur hún páskana í nauðsynlega handavinnu," skrifaði tilfallandi 17. mars. Páskahelgin virðist hafa verið starfssöm hjá Katrínu forsætis. Af öllum sólarmerkjum að dæma kynnir hún framboð til forseta í vikunni. Nema að handavinnan hafi klúðrast. 

Að ríkisstjórnin sæti áfram var gefið. Fréttir í gær um að sjálfstæðismenn leituðu hófanna hjá Viðreisn eru annað tveggja úr lausu lofti gripnar eða pólitískur glæfraleikur. Fóðrið í fréttirnar, að Viðreisn kæmi í stað Vinstri grænna, kom frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem boðaður var á fund til að ræða stjórnarsamstarfið.

Stjórnarslit yrðu áfellisdómur allra þriggja ríkisstjórnarflokkanna. Björt framtíð hélt næturfund til að fella ríkisstjórn og þurrkaðist út í næstu kosningum. Fundarboð sjálfstæðismanna í gær er ekki jafn óábyrgt en hallar sér í áttina. Taugaveiklunin í kjölfar fundarboðunar sjálfstæðismanna gerði allar tölur nema eina rauðar í Kauphöllinni. Sumar tölurnar urðu verulega rauðar. Flokkur sem vill þeim vel er ávaxta sitt pund sendir ekki skilaboð um að líf ríkisstjórnar hangi á bláþræði nema verulega hrikti í.

Eitthvað hlýtur að búa að baki.

Það stendur upp á Katrínu að ganga friðsamlega frá borði ríkisstjórnarfleytunnar, stefni hún á Bessastaði. Gerði hún órímlegar kröfur, t.d. að vinstri grænir héldu forsætisráðuneytinu? Er það ástæða frétta í gær Svandís, vinkona Katrínar, eigi yfir höfði sér vantraust vegna hvalræðis síðasta vetrar? Svandís er skæruliðapólitíkus, íslensk útgáfa Úlriku Meinhof. Djúpheimskur orðavaðall helst í hendur við óstjórnlega löngun að sprengja allt í tætlur, þó í óeiginlegri merkingu hjá Svanhof.

Orðspor Svandísar gefur pólitískum blaðamanni Morgunblaðsins, Andrési Magnússyni, tilefni til að skrifa eftirfarandi í morgunútgáfu blaðs allra landsmanna: 

Margir spyrja hins vegar hvort hún [Svandís] hafi áhuga á því að framlengja ríkisstjórnarsamstarfið; henni og flokki hennar kunni að koma vel að vera í stjórnarandstöðu fram að næstu kosningum, sem fram fara ekki síðar en haustið 2025.

Hér yrði um að ræða skringilegustu pólitísku loftfimleika lýðveldissögunnar. Stjórnarflokkur, sem fer með forsætisráðuneytið í þokkabót, tæki sér frí síðasta ár kjörtímabilsins til að bera ekki ábyrgð á landsstjórninni í kosningabaráttunni. Vinstri grænir út og Viðreisn inn. Stjórnin springur en hvellurinn er kallaður innáskipting.

Hildar leikur Sverrisdóttur þingflokksformanns sjálfstæðismanna, að boða fund, fylgir hún úr hlaði með þeim orðum í viðtengdri frétt að ,,það liggi ekki fyrir" hvað verði um ríkisstjórnarsamstarfið, gangi Katrín frá borði.

Döh. Jú, það verður að liggja fyrir, annars fer Katrín ekki í framboð. Ef ríkisstjórnin springur stórskaðast möguleikar Katrínar að ná kjöri í sumar. Makaskipti á Bessastöðum og ráðherradómi viðreisnarþingmanna er ekki leikflétta sem gengur upp.  

Í sömu frétt segir að Þórdís Kolbrún hafi ,, um liðna helgi rætt við þing­menn flokks­ins um hvað væri til ráða ef ske kynni að Katrín færi í fram­boð..." Hvar var Bjarni formaður? Það er Bjarni sem semur við Katrínu og Sigurð Inga um framhald mála, hverfi Katrín á braut. Annað: Hildur myndi ekki boða fund þingflokksins nema ráðfæra sig við Bjarna.

Tilfallandi ráðlegging til áhafnar þjóðarskútunnar er að taka sig saman í andlitinu og koma skikki á útgerðina hið fyrsta. Þjóðin sér í gegnum fingur sér með hversdagslega sísvengd stjórnmálamanna eftir metorðum. Metnaðurinn er orðinn blindur þegar þýfgað er um tvö æðstu embætti lýðveldisins, forsætisráðherra og forseta. Þjóðarhagsmunir eru gerðir að afgangsstærð. Tímabært er að spyrja hvort ekki eigi að vísa allri áhöfninni á landganginn. Óreiðufólk á ekkert erindi í stjórnarráðið. 

  

 

 

 

    


mbl.is Funda vegna mögulegs forsetaframboðs Katrínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband