Samfylkingin og nýauðvaldið

Samfylkingin rótaði í pólitísku sorpi þegar hún tók upp á sína arma Kaupþingsstjórana Sigurð og Hreiðar Má, Jón Ólafsson í Skífunni og Baugssamsteypuna. Sjálfstæðisflokkurinn hafði þvegið hendur sínar af nýauðvaldinu þar sem ófyrirleitni leiddi græðgi hönd í hönd. Í Borgarnesræðu sinni í febrúar 2003 tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýauðvaldið í faðm sér. Þegar Baugur veturinn eftir átti undir högg að sækja vegna fjölmiðlafrumvarpsins, sem átti að tryggja fjölræði á fjölmiðlamarkaði, innsiglaði Samfylkingin bandalagið við nýauðvaldið.

Ásamt forseta Íslands kom Samfylkingin í veg fyrir að frumvarpið yrði að lögum. Slagurinn um fjölmiðlafrumvarpið gerði útslagið. Eftir það hélt nýauðvaldinu engin bönd.

Forkólfar Samfylkingarinnar ætluðu að stæla Blair og breska Verkamannaflokkinn sem hafði náð vopnum sínum með því að herma eftir Íhaldsflokknum þar í landi, sérstaklega Margréti Thatcher. Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson auglýstu félagsaðild sína að breska Verkamannaflokknum og hér heima var unnið í samræmi við fyrirmyndina. Samfylkingin taldi sig vera að plokka fjaðrir af Sjálfstæðisflokknum með skrauti nýrra viðskiptavelda, svo sem Kaupþings og Baugs.

Aðstæður í Bretlandi eru nokkuð aðrar en á Íslandi. Viðskiptalífið á sér lengri sögu og venjur og hefðir sem auk lagaramma setja viðskiptum skorður. Nýauðvaldið á Íslandi var ekki venjuleg viðskipti heldur samansúrruð spilling sem þurfti á pólitísku lögmæti að halda til að vaxa og dafna. Samfylkingin veitti útrásarliðinu pólitískt lögmæti.

Það heyrast fréttir af uppgjöf félagsmanna á Samfylkingunni. Vonum seinna er að renna upp fyrir fólki hvað Samfylkingin hefur gert íslensku samfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Nú hittir þú naglann aftur beint á höfuðið. Samsullið er þjóðarómynd.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.12.2008 kl. 20:55

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Eitthvað er nú farið að slá útí fyrir fólki og meðvirknin orðin slík að undrum sætir. Málefnaleg umræða er komin út í veður og vind, en í staðin komin samsæriskenning sem tekur fram svæsnustu glæpasögum samtímans. 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.12.2008 kl. 02:51

3 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Það væri gaman ef Páll myndi benda okkur á hvaða partur af þessari ræðu:

http://www.samfylking.is/Forsida/Umraedan/Raedur/LesRaedu/12

felur það í sér að "samfylkingin hafi tekið nýauðvaldið í faðm sér".

Það vekur einnig furðu hve sú herdeild Sjálfstæðismanna sem var í fararbroddi útrásarinnar, t.d. Björgólfarnir, sleppa vel á bloggsíðu Páls. Það voru þó viðskiptaævintýri Björgólfs (Icesave) sem munu valda íslensku þjóðinni hvað mestum erfiðleikum.

Það væri nú gaman ef menn myndu aðeins minnast á þessa aðila, svona ef það er einhver vilji til þess að láta taka sig alvarlega.

Þórir Hrafn Gunnarsson, 11.12.2008 kl. 09:42

4 identicon

Bíddu nú hægur, ég man ekki til þess að Samfylkingin hafi verið við stjórn þessa lands þegar einkavæðingarferlið fór í gegn, né í LANGmestan þann tíma sem þessi spilling nýauðvaldsins var látin viðgangast. Hvers vegna var lagarammi um betri viðskiptahætti ekki bættur í tíð Sjálfstæðis og Framsóknar? Ég er ekkert sérlega hrifinn af Samfylkingunni en mér finnst þessi skrif nú eingöngu ætluð til þess eins að firra Sjálfstæðisflokkinn ábyrgð á þeirri óráðsíu sem látin var viðgangast á þeirra eigin vakt.

Ólafur Magnússon (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 10:05

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Almennt hafði þjóðin á tilfinningunni að Davíð Oddsson væri að missa vitið á þessum tíma. Einveldistilburðir hans voru slíkir. Fjölmiðlafrumvarp, Íraksmál og eftirlaunafrumvarp eru öll minnisvarðar um þessa bilun og algjöran skort á virðingu fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum. 

Komið hefur fram í skrifum Framsóknarmanna sem störfuðu með íhaldinu að frumtexti að lagasetningu Davíðs beindist eingöngu að Baugi. Hann var drifinn áfram af andúð á einu fyrirtæki í verkum sínum. Út á það gekk Borgarnesræðan.

Íhaldið hampaði síðan á sama tíma Björgólfsfeðgum, sem að þú hlífir líka hér, sem góðu kapítalistunum. Þegar talið var upp úr kössunum þá voru það kjölturakkar íhaldsins sem mest og verst svínuðu á þjóðinni og skuldsettu hana til langrar framtíðar með IceSave.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson komu síðan áfram í veg fyrir aukinn þroska lýðræðislegra vinnubragða með því að vanvirða ákvörðun forseta (með beitingu 26. greinar) og koma í veg fyrir að fjölmiðlafrumvarpið færi í dóm þjóðarinnar.

Þeir vissu af óhreina mjölinu í pokanum og þorðu ekki að halda lengra. Skoðanakannanir, viðræður við stjórnarandstöðu og fleira sýndi að almennt vildi fólk fá lög um fjölmiðla. Ekki samsuðu eins manns sem byggði á hatri út í eitt fyrirtæki.

Ef þarna glataðist tækifæri, þá sýnist mér að þú gætir endurskoðað hver ber sökina.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2008 kl. 10:18

6 identicon

Vá hvað þetta var fyndið :)

Björn (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 11:29

7 identicon

Nokkuð sammála.

Held nú samt að sjónarhornið sé óþarflega þröngt.

Það virðast bara allir hafa tekið þátt í þessum hildarleik, jafnt "Bugsmenn" sem innvígðir heildsalastrákar úr bestu ættum Reykjavíkur.

Setti inn smá færslu eða vangaveltur um þann lagaramma sem menn fara eftir hér á landi, hugsanlega áhugaverð lesning fyrir duglega rannsóknarblaðamenn, sjá 

http://issi.blog.is/blog/issi/entry/741339/ 

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 12:29

8 identicon

Skemmtileg þessi árátta að túlka þessa blessuðu ræðu Ingibjargar á allt annan hátt í dag (þegar sannleikurinn er ljós) en þegar hún var flutt.

Sömu aðilar voru örugglega á þeirri skoðun að Davíð hafi grýmulaust lagt þessi fyrirtæki í óverðskuldað einelti, eins og kom skýrt fram að þeir sem tjáðu sig um innihald ræðunnar lásu úr orðum hennar. Fyrirtækin sjálf notuðu sér ræðuna sem sönnun þess að Davíð vildi þeim allt illt og sér í lagi Baugsmiðlarnir. Baugsmálið var meira og minna varið sem að um pólitísk aðför væri að ræða eins og Ingibjörg Sólrún benti á, og enn halda þeir áfram eins og alþjóð veit. Allt helvítinu Davíð að kenna.

En auðvitað hentar ekki sumum að muna og skýra rétt frá. Gömul saga og ný. Ingibjörg á örugglega eftir að sýna fram á með svipuðum rökum og hér má sjá að hún hafi varað alverlega við þessum fyrirtækjum í ræðunni góðu.

Úr Borganesræðunni:

_____________________

“Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir. Ef ketti er ætlað að veiða mýs þá má einu gilda hvort hann er svartur eða hvítur – svo lengi sem hann gegnir sínu hlutverki. Í atvinnu- og efnahagslífinu eru það umferðarreglurnar sem gilda og þær eiga að vera skynsamlegar og í þágu alls almennings. Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á leikreglunum en leikendur bera ábyrgð á því að fara eftir þeim. Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki – þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við. Þetta er verkefni Samfylkingarinnar. Samfylkingin á að vera óháð öllum helstu eignahópunum í samfélaginu, hún á að gæta almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.

Í fjármálum, fyrirtækjarekstri, fjölmiðlum og sveitarstjórnarmálum á Íslandi er ennþá spurt: Í hvaða liði ertu? Ertu í náðinni hjá stjórnarráðinu eða ekki? Þessu verður að linna, við verðum að losna við hina sjálfmiðuðu, stjórnlyndu valdsmenn. Við verðum að endurvekja traust almennings á stofnanir samfélagsins með nýjum leikreglum, nýju inntaki, nýrri ímynd. Þetta er hlutverk Samfylkingarinnar.“

joð (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 13:45

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Helvíti er þetta góð ræða! Það var nú alveg sérstakt glópalán að Íslensk erfðagreining nýtti sér ekki 200 milljarðana sem Davíð ætlaði að tryggja þeim með ríkisábyrgð. Gagnrýni Borgarnesræðunnar var bæði réttmæt og sönn.

Bill Clinton var mun vinsælli meðal atvinnulífsins en George Bush. Ástæðan var sú að hann skapaði almenn og heilbrigð skilyrði fyrir rekstur á meðan Bush horfir fyrst á hvort þau eru honum þóknanleg.

Þannig fékk fyrirtæki Dick Cheney varaforseta gríðarlega stór verkefni við enduruppbygginguna í Írak. Aumingja Davíð hélt að hann væri innvígður og innmúraður og herstöðin yrði áfram vegna "vinatengsla" hans við Bush.

Þarna liggur meinsemdin. Íhaldið spyr fyrst um flokkssskírteini og hverjir hafi borgað í flokkssjóðina. Jafnaðarmenn búa til almennar leikreglur og tryggja að þjóðfélagið sé ekki rekið á grundvelli flokks og vinatengsla.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2008 kl. 15:09

10 identicon

Já það þykir víst er helvíti gott í Samfylkingunni að vera "guðmóðir" og vendari dæmdra glæpamanna og þeirra sem hafað lagt þjóðfélagið í rúst.

Ræðan er mun lengri ef menn vilja njóta og finnst með að Gúgla "Borgarnesræðan".

joð (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 15:43

11 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Björgólfur Guðmundsson er nú með dóm á sér úr Hafskipsmáli. En það er auðvitað óþarfi að halda því til haga í svona fínu partýi.

 
Björgólfur Guðmundsson og Geir H. Haarde óska Davíð til hamingju.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2008 kl. 17:13

12 identicon

Gunnlaugur. Sem sagt varnarrök Samfylkingunnar: " SVO SKAL BÖL BÆTA OG BENDA Á ANNAÐ! "

Afturámóti er ég hjartanlega sammála þér með að gagnrýna öll afbrot og allra helst áður en þau eru framin, eins og Davíð "LEYFÐI" sér að gera.

Hefuru eitthvað bitastærra fram að leggja en að benda á að Davíð var líka blekktur, og ekki benti neinn forsvarsmaður Samfylkingarinnar á að þar færu sennilega glæpamenn á svipuðu kaliberi og Jón Ásgeir og Baugsnáhirðin.

En var einhver að verja þann þátt Davíðs?

joð (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 19:03

13 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Umræðan var um hverjir sáu um að mynda grundvöll fyrir græðgisvæðingu og spillingu í landinu. Þrír þeirra eru á myndinni. En þar á Framsókn stóran hlut því upphafið má rekja til gjafakvótans. Þannig að ef til vill má bæta Hannesi Hólmsteini og Halldóri Ásgrimssyni inn á myndina.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2008 kl. 23:07

14 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Aðdragandinn að bankahruninu er margþátta, um það hljótum við að vera sammála. Græðgisvæðing samfélagsins var býsna víðtæk, án þess vel að merkja, að allir séu samábyrgir.

Frjálshyggjan, sem Davíð Oddsson var talsmaður fyrir og vitanlega margir aðrir, var fjarlægur undanfari - byrjaði á áttunda áratug síðustu aldar.

Græðgisvæðingartímabilið náði hámarki frá ca. 2003/4 til hrunsins í september 2008.

Upp úr aldamótum, og þetta er sirka sem þarf að tímasetja betur, sýndi Davíð Oddsson vanþóknun á tilburðum græðgismanna, sbr. þegar hann tók út sparnað sem hann átti hjá Kaupþingi þegar þeir Siggi Einars og Hreiðar Már skömmtuðu sér ríflega.

Varnaðarorð og fyrirvari Davíðs gagnvart Baugsveldinu eru öllum kunn og hófst ca. 2002.

Með Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar 2003 verður Samfylkingin formlega talsmaður og verjandi græðisvæðingarinnar. Fram að bankahruni gætti sjaldan eða aldrei tortryggni hjá Samfylkingunni gagnvart græðgisvæðingunni.

Stóri punkturinn er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn er sögulega talsmaður efnafólks á Íslandi. Vinstriflokkar eiga að vera talsmenn launþega.

Sjálfstæðisflokkurinn sýndi um og upp úr aldamótum fyrirvara á græðgisvæðingu Íslands, þrátt fyrir að vera sögulega séð talsmaður efnafólks. Samfylkingin, aftur á móti, gerðist talsmaður græðgisvæðingar.

Niðurstaða: Sjálfstæðisflokkur sýndi heilbrigðiseinkenni en Samfylkingin sjúkdómseinkenni.

Páll Vilhjálmsson, 11.12.2008 kl. 23:32

15 identicon

Gunnlaugur. Sýnist þú hafa eitthvað misskilið upphafsinnleggið. Það fjallar um hverin Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin vernduðu og báru á höndum sér nýauðvaldið. Það sama og lagði þjóðarbúið í rúst. Ég myndi líka hafað bætti þætti Ólafs Ragnars Grímssyni sem var ekki síður ábyrgur fyrir hversu langt þessir bófar náðu að hreins sjóði almennings hér sem erlendis. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst honum og Samfylkingunni að ljá þessu liði einhvern trúverðuleika svo að plottið af ráni allra tíma hepnaðist fullkomlega.

En auðvitað sérðu sektina hjá þeim sem treystu því að þeir færu að lögum og virtu siðferði manna og ekki síst viðskiptasiðferði yfirleitt. Og auðvitað ertu eins og Samfylkingin með það á hreinu að þessir aðilar eru saklausir af öllum lögbrotum eins og Jón Ásgeir var svo "saklaus" í Baugsmálinu. - Ekki satt?

joð (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband