Friðrof er ekki endurreisn

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir í Viðskiptablaðinu í dag að kjarninn í endurreisn íslensks athafnalífs sé umsókn um inngöngu í Evrópusambandið á næsta ári. Friðrof samfélagsins getur ekki leitt til endurreisnar athafnalífs né yfir höfuð nokkurrar endurreisnar. Samfylkingin hefur ekki umboð til aðildarumsóknar. Flokkurinn dró tilbaka Evrópuáherslur sínar fyrir síðustu kosningar. Samfylkingin hefur hvorki umboð frá kjósendum almennt né sértækt umboð frá flokksmönnum sínum til Evrópuleiðangurs.

Á landsfundi Samfylkingar í nóvember 2003 var samþykkt að skipa nefnd um Evrópumál. Verkefni nefndarinnar var í fjórum liðum. Annar liður er eftirfarandi: „Skilgreina ítarlega hver helstu samningsmarkmið Íslendinga ættu að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið með hliðsjón af stækkuðu Evrópusambandi."

Evrópuhópur Samfylkingarinnar hefur enn ekki skilað skýrslu. Samningsmarkmið okkar hafa heldur ekki verið skilgreind.

Umræðan um það hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu er veigameiri en öll þjóðmálaumræða lýðveldistímabilsins, bankahrunið meðtalið. Forysta Samfylkingarinnar ætti að skammast sín hvernig hún jafnt og stöðugt reynir að koma sér undan málefnalegri umræðu um Evrópusambandið. Oddvitar Samfylkingarinnar fara þá leið að nota dægurmál eins og samanburð á stýrivöxtum, könnun á matvælaverði og núna bankahrunið sem röksemd fyrir inngöngu.

Til lengri tíma er bankahrunið smámál. Innganga í Evrópusambandið er stórmál í bráð og lengd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Auðvitað eigum við að forðast friðrof. Reynslan frá 1949 er víti þar til varnaðar það vita þeir best sem til þess stofnuðu og framkvæmdu..

En nú sitja Sjálfstæðismenn á rökstólum varðandi ESB ... bíðum niðurstöðu.

Sævar Helgason, 11.12.2008 kl. 18:33

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Í hvaða Evrópuríki sem er, jafnvel í Hvíta-Rússlandi, myndi ráðherra eins og Björgvin G. hafa þurft að segja af sér. Hefur hann enga skömm í skrokknum þessi piltur?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.12.2008 kl. 19:05

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Nú ætlar íhaldið að hysja upp um sig brækurnar í Evrópumálum. Í stað þess að hindra að málið fengi eðlilega umfjöllun og lýðræðislega afgreiðslu undangenginna landsfunda, þá verður nú svissað um gír á nokkrum mánuðum.

Hvað eiga þeir að gera Hólmsteinskan gjaldþrota og ónýtur gjaldmiðill? Viðskiptalíf og iðnaður vill ekki einangrast. Margt bendir til að við hefðum ekki tekið slíkar kollsteypur ef við hefðum gengið mun fyrr í ESB.

Nú þarf að vinna hratt og vel í þessum málum. Ef þig vantar fleiri rök fyrir inngöngu heldur en peningaleg s.s. vexti, verðtryggingu og evru þá setti ég nýlega  færslu og Helgi Jóhann er oft með góða vinkla.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2008 kl. 23:26

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Auðvitað er innganga Íslands í ESB stærsta og brýnasta  málið í endurreisn íslenska þjóðfélagsins. Þar er ég hjartanlega sammála Björgvin G Sigurðssyni viðskiptaráðherra. "Gallinn" við Björgvin er sá að hann talar skýrt og aðgreinir vel aðalatriði frá auka atriðum. Það er ekki hans stíll að fara í kring um hlutina og það er heldur ekki stíll Samfylkingarinnar að taka sérhagsmuni fram yfir heildar hagsmuni þjóðarinnar. Það eru bara ekki allir sem þola svoleiðis vinnubrögð. Þeir sem þannig opinbera sig, eru að segja meira um eigin hugsanagang, en þá grunar.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.12.2008 kl. 03:48

5 Smámynd: Kristján B. Jónasson

Ákaflega sérkennilegt mat á aðstæðum að tala um "friðarrof" mitt í samfélagi sem ólgar af reiði og óánægju.

Kristján B. Jónasson, 12.12.2008 kl. 10:24

6 identicon

Ertu sem sagt Páll, talsmaður pragmatískra gengislækkana?

Gestur (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband