Atgervisflótti skýrir ekki lélega fjölmiðla

Íslenskir fjölmiðlar eru samfélagsmiðlar með launaðri ritstjórn. Blaðamennska samfélagsfjölmiðla mun ekki batna þótt laun ritstjórna hækki, eins og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, vill vera láta.

Á dögum flokksblaðanna var blaðamennska sögð ,,yndislegt hundalíf" og atgervisflótti var viðvarandi. Tvennskonar fólk varð blaðamenn, sumt gafst upp á námi en annað naut pólitískra eða persónulegra sambanda. Sumir ílentust á meðan aðrir leituðu úrræða eins og að komast á alþingi eða auglýsingastofu.

Samt var blaðamennskan betri á gömlu flokksblöðunum en hún almennt er í dag. Ástæðan er sú að flokksblöðin stóðu fyrir samfélagsleg gildi. Þjóðviljinn talaði fyrir verkalýðsbaráttu og þjóðfrelsi, Morgunblaðið fyrir vörnum landsins og borgaralegri menningu; bændur og dreifbýli á hauk í horni þar sem Tíminn var. Alþýðublaðið komst fyrir í eldspýtustokki.

Samfélagsfjölmiðlar standa ekki fyrir nein pólitísk, siðferðileg eða menningarleg gildi. Þeir hengja sig á hvikul umræðustef á fésbók og bloggi í von um að taka þátt í æsilegri atburðarás þar sem staðreyndir víkja fyrir skoðunum.

Tilgangslaust er að fleygja opinberum peningum í samfélagsfjölmiðla. Nýir miðlar munu spretta upp eins og gorkúlur á haug en innihaldið ekkert batna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Jón Sveinbjörnsson

Með undantekningum eru blaðamenn í dag algjör brandari, það virðist mjög áfátt með lesskilning skriftir og talað mál svo eru efnistökin að mestu copy og paste, hvað er virkilega verið að kenna þarna í þessum háskólum eða fjölmiðlasviði?
Svo snýst allt um það núna að selja, selja fréttir og smelli og áhorf með æsifréttum með vafasömum uppruna.

Kristján Jón Sveinbjörnsson, 28.12.2017 kl. 17:35

2 Smámynd: Haukur Árnason

Því miður er þessi pistill sannur og á rétt á sér.

Verst þykir mér þó þerar fyrirsögn fréttar er svo borin til baka í fréttinni sjálfri.

Haukur Árnason, 28.12.2017 kl. 21:07

3 Smámynd: Örn Einar Hansen

Ég myndi nú segja að þetta hafi minna með "fésbók" að gera, en þá staðreynd að margir skribendur í Íslenskum fjölmiðlum eru erlendir aðilar, sem kunna littla Íslensku og almennt álíta Íslendinga asna.

Örn Einar Hansen, 28.12.2017 kl. 22:09

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er mikið til í þessu hjá þér. Það mátti skynja tvö tímabil, sem fóru illa með fjölmiðlana. Fyrra tímabilið var í uppgangi fjármálakerfisins fyrir Hrun þar sem öflug fyrirtæki með fjármálafyrirtækin í fararbroddi gerðu bestu fjölmiðlunum "tilboð sem ekki var hægt að hafna." Við þetta soguðust allt of margir þeirra bestu í burtu. 

Næsta áfall var Hrunið sjálft þegar of margir af bestu fjölmiðlamönnunum voru látnir taka pokann sinn til þess að geta ráðið miklu lægra launað fjölmiðlamenn í staðinn. 

Ég minnist eina blaðamannsins af þeim sem tóku viðtöl við mig, sem aðeins hlustaði vel án þess að taka neitt, og skilaði síðan viðtali, þar sem saman fór fullkomin úrvinnsla án þess að þyrfti að gera eina einustu leiðréttingu. 

Hann var látinn fara og á endanum þurfti að ráða tvo eða þrjá í staðinn fyrir hann. 

Ómar Ragnarsson, 28.12.2017 kl. 23:20

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting: "gerðu bestu fjölmiðlamönnunum "tilboð sem ekki var hægt að hafna"... í stað   "...bestu fjölmiðlunum...."  

Ómar Ragnarsson, 28.12.2017 kl. 23:23

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Nákvæmlega sama mun ske með fjölmiðlana ef fleygt er í þá ríkisfé og skeð hefur á Alþingi eftir að farið varf að skvetta ríkisfé í smáflokkana sem Ómari eru svo hugstæðir. Allt fyllist af einskisnýtu skoðanalausu, peningahungruðu drasli sem sér sér leik á borði að fá dúsur út á ekki neitt.

Halldór Jónsson, 28.12.2017 kl. 23:40

7 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Halldór er með þetta alveg á hreinu.

Sigurður Kristján Hjaltested, 29.12.2017 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband