Stéttlausa Ísland, dólgasaga Egils og Ómarsfræði

Frá lokum Sturlungaaldar og fram á 19. öld var ein stétt á Íslandi, bændur. Höfðingjaveldið frá landnámi, sem kennt er við goða og hefði getað orðið stétt aðalsmanna, beið lægri hlut fyrir norska konungsvaldinu annars vegar og hins vegar kaþólsku kirkjunni sem hirti af höfðingjunum kirkjustaðina.

Í Evrópu var til á miðöldum fyrirkomulag lögstétta: aðall, klerkar og 3ja stéttin (bændur, borgarar, handverksmenn os.frv.) Lögstéttirnar héldu velli fram frönsku byltingunni í lok 18. aldar og sums staðar lengur. Á 19. öld breyttist stéttahugtakið í Vestur-Evrópu þegar meginstéttir samfélagsins urðu verkalýðsstétt og borgarastétt. 

Í manntalinu árið 1703 töldust Íslendingar 50 þúsund. Hlutfallsleg skipting þeirra var eftirfarandi: húsbændur og húsmæður 28%, börn í foreldrahúsum 31%, ættingjar og fósturbörn húsbænda 8%, vinnufólk 19%, flakkarar og niðursetningar 14%. (Tekið úr Fornir tímar eftir Gunnar Karlsson ofl  bls. 237)

Sem sagt, þeir sem ekki voru bændur eða börn bænda eða venslaðir bændum, og bjuggu á þeirra heimilum, voru aðeins þriðjungur þjóðarinnar og skiptist í vinnufólk og flakkara/niðursetninga.

Þegar aðeins er um að ræða eina stétt á Íslandi þá er rétt að tala um stéttlaust land. Egill Helgason rembist eins og rjúpan við staurinn að búa til dólgasögu um stéttskipt Ísland. Fyrsta tilraun Egils hét Að gefa kúgurum sínum stórgjafir. Þar hélt Egill því fram að ástæða vesturferða Íslendinga á seinni hluta 19. aldar hafi verið flótti alþýðunnar frá kúgurum sínum. Ég andæfði Agli og sakaði hann um dólgasögu, vesturfarirnar hafi fyrst og fremst stafað af verri náttúrulegum lífskjörum, s.s. kuldaskeiði og Öskjugosinu 1875.

Egill bar fyrir sig Láru Hönnu Einarsdóttur í svari til mín, sem í fésbókarfærslu sagði mig skrítna skrúfu. Í athugasemd við færslu Láru Hönnu áréttaði Egill afstöðu sína með þessum orðum:

Það var ekki bara á Íslandi að alþýðan flýði kúgara sína, heldur gerðist það um alla Evrópu. Meginástæða Vesturferðanna er einfaldlega að loks höfðu skapast skilyrði til að fara, þ.e. samgöngur og staður til að fara á. Þá kaus fólk unnvörpum með fótunum.

Þessi tilraun Egils til að evrópuvæða Íslandssöguna stenst enga skoðun. Vesturferðir Íslendinga svo gott sem lögðust af í byrjun 20. aldar. Alla síðustu öld héldu samgöngur áfram að batna en Íslendingar fóru hvergi. Íslendingar voru utan gátta í pólitískri þróun Evrópu enda stéttlaus þjóð með eina trú. Viðtökurnar sem Jörundur hundadagakonungur fékk í byrjun 19. aldar taka af öll tvímæli um að Íslendingar létu sér fátt um finnast pólitíska tískustrauma í Evrópu.

Ómar Ragnarsson skrifaði sig inn í þessa umræðu með ítarlegri athugasemd við bloggið mitt. Hann tók þátt í umræðunni um fésabókarfærslu Láru Hönnu. Þær pælingar tók Ómar saman í sjálfstætt blogg, Það er ekki lengra síðan, sem Egill grípur fegins hendi enda kominn út í horn með sína dólgasögu.

Kjarninn í athugasemdum Ómars er þessi:

Rannsóknir sagnfræðinga undanfarna áratugi sýna, að megin orsökin var sú, að íslensk valda- og auðstétt hélt þjóðfélaginu í heljargreipum, kom í hátt á aðra öld í veg hafnarbætur og bættan skipakost og þar með í veg fyrir myndun þéttbýlis við sjóinn.

Myndun þéttbýlis með auknum fiskafla, vinnslu, iðnaði, siglingum, samgöngum og verslun var eina leiðin til að uppfylla þarfir þjóðar, sem fjölgað hafði úr 50 þúsund í 70 þúsund.

Þetta er rangt hjá Ómari í öllum meginatriðum.

Það skorti ekki hafnir á Íslandi. Frá miðöldum voru náttúrulegar hafnir í Vestmannaeyjum, Grindavík, Hafnarfirði, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og í Eyjafirði og víðar. Jafnvel á hafnlausu svæði eins og á Eyrarbakka var stunduð útgerð og verslun. Þessar hafnir duguðu vel þeirra tíma sjósókn.

Ómar segir valda- og auðstétt landsins hafa komið í veg fyrir myndun þéttbýlis í hátt á aðra öld. Það er rangt. Landnámsmenn sóttust eftir jörðum inn til landsins og þar voru helstu höfuðbólin framan af. Vísir að þéttbýli myndaðist í Skálholti og Hólum - langt inn til lands. Haldgóðar skýringar eru ekki á því hvers vegna landnámsmenn leituðu í uppsveitirnar. Ein tilgáta er að þeir hafi sóst eftir villifé. Í öllu falli er það frá upphafi byggðar á Íslandi sem menn snúa baki við sjávarbyggðum.

Seint á miðöldum og byrjun nýaldar sækjast útlendingar eftir íslenskum fiski og töluverð verslun var stunduð úr sjávarbyggðum við Þjóðverja, Englendinga, Frakka og Hollendinga. Og ekki truflaði hafnleysið. En þá var kominn til sögunnar einvaldur konungur danskur sem vildi hafa þær tekjur af Íslandi sem hægt var. Útlendingum, öðrum en Dönum, var úthýst frá Íslandi með einokuninni sem stóð yfir frá um 1600 til miðrar 19. aldar.

Til að brjóta á bak aftur einokunina voru það einmitt íslenskri menn, úr ,,valda- og auðsstéttinni," sem Ómar kallar svo, sem stofnuðu fyrsta íslenska hlutafélagið um miðja 18. öld. Félagið fékk nafnið Innréttingarnar, var undir stjórn Skúla Magnússonar fógeta og átti að nútímavæða íslenskt atvinnulíf. Á annan tug íslenskra embættismanna lagið peninga í félagið. Fluttar voru inn útlenskar bændafjölskyldur, stofnað til iðnaðar og skútur til úthafssiglinga keyptar.

Til að gera langa sögu stutta þá misheppnaðist nær allt framtak Skúla og félaga. Nema þó eitt. Vegna Innréttinganna varð Reykjavík að miðstöð stjórnsýslu og mennta - fékk að vísu hjálp frá móðuharðindunum 1783-1785 sem þvinguðu Skálholtsstól og latínuskólann til Reykjavíkur.

Ómar gerir glögga grein fyrir lífsbaráttunni í harðbýlu landi. En það er einn allsherjarmisskilningur hjá honum að hörð lífsbarátta hafi stafað af miskunnarleysi ,,valda og auðsstéttar" gagnvart almúganum. Íslendingar voru bændur og þótt mikill munur hafi verið á efnalegri stöðu þeirra innbyrðis var ekki til á Íslandi yfirstétt sem bjó í annarri og betri veröld en þorri fólks. Innlendir embættismenn reyndu að hnika málum í rétta átt, samanber Innréttingarnar.

Íslendingar tóku að rétta úr kútnum á árunum í kringum 1900. Þéttbýlið í Reykjavík, sem Skúli og félagar hans í embættismannastétt lögðu grunninn að, varð bakhjarl nývæðingar landsins. Almennt læsi, sem embættismenn (prestar sem voru líka bændur) sáu um að viðhalda var önnur forsenda. Þriðja forsendan var pólitísk barátta íslenskra bændasona sem hófst í Kaupmannahöfn á seinni hluta 19. aldar og lauk á Þingvöllum 1944. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Vilhjálmur, það er rétt hjá þér að á Íslandi var aldrei nein stétt aðalsmanna. Ef menn skilgreina stéttir eins og þú gerir þá er rétt að tala um eina stétt, bændastéttina.

Undir niðri er þó verulegur munur á, það má allt eins tala um stéttir sjálfseignarbænda, leiguliða og vinnuhjúa. Slík stéttaskipting þekkist í umræðu um stéttir í Danmörku.

Mér þykir sýn þín á söguna vera heldur einfeldningslega, ekki síður en hjá þeim Ómari og Agli. Þú hefðir gaman (og gott) af að lesa hinn mjög svo vandaða bókaflokk, Saga Íslands, sem ætti að vera til á öllum heimilum.

Fólksflutningar vestur um höf á síðari hluta 19. aldar áttu sér margar orsakir, á Íslandi m.a. Öskjuelda, en almennt talið snerist þetta um atvinnutækifæri ásamt fjárhagslegum hvata. Eftir því sem atvinnulífið þróaðist í Evrópu (og á Íslandi) minnkaði löngun manna til Vesturferða.

Sjávarútvegur hefur alltaf leikið mjög stóran hlut í íslensku atvinnulífi. Innlendir eignamenn áttu báta, aðrir réru á bátum útlendinga (það var ekki fyrr en með tilkomu togara að hægt var að veiða beint frá seglskipum). Íslandsagan er full af dæmum um togstreitu milli sjósóknar og landbúnaðar, oftast snérist það um vinnuaflsskort sem var viðvarandi vandamál hér á landi.

Með atvinnufrelsi og losun vistarbanda hófst uppbygging þeirra sjávarplássa sem við þekkjum í dag - og samhliða hófu menn að stofna grunnskóla í sjávarplássum. Fjöldi skóla var þegar starfræktur af útgerðarmönnum þegar fyrstu skólalögin voru sett stuttu eftir aldamótin 1900. Ástæðan var einföld: Börn vinnufólks fékk ekki menntun meðal bænda, útvegsmenn drógu fólkið til sín m.a. með skólunum.

Prestar sáu aldrei um uppfræðslu barna, þeir voru hins vegar settir í þá stöðu með fermingarlögum frá 18. öld að hafa auga með heimilsfræðslu. Það hefur alltaf verið ljóst að sú uppfræðsla var mjög mistæk, og að börn sjálfseignarbænda voru miklu mun líklegri til að hljóta menntun en börn leiguliða og vinnuhjúa.

Einveldi konungs sáu margir sem mikið framfaraspor og þótt einokunarverslunin hafi leikið marga grátt þá var hún eins og nýfrjálshyggjan í dag - menn töldu sig vera að gera rétt.

Goðsagan um hinn danska kúgara er lífsseig, en Íslendingar voru ekkert meira eða minna kúgaðir af eignastéttum en Danir. En að halda því fram að einhver "íslenskur aðall" hafi verið svo illa innrættur að hann kúgaði eigin þjóð er líka goðsaga. Það er einkenni eignamanna að hugsa um eigin hag á undan þjóðarhag. Í lýðfrjálsu landi, þar sem allir geta haft áhrif á þjóðarhag, skiptir sérhagsmunahyggja eignamanna litlu máli og getur jafnvel verið til góðs innan ákveðins ramma.

Að lokum varðandi stéttaskiptingu á Íslandi: Náttúrufræðingurinn William Hooker var samferða Jörundi hundadagakonungi og skrifaði skemmtilega bók um byltinguna, ásamt lýsingu á Íslandi. Hann nefnir m.a. laxveiðiferð í Elliðaárnar þar sem allir íbúar þorpsins flykkjast í fyrstu laxagönguna, danskir embættismenn jafnt sem biskup, landsdómari, prestar og alþýða. Willam lýsir því hvernig dönsku embættismennirnir héldu sig frá öðrum og létu þjóna sína stjana um sig. Íslensku embættismennirnir blönduðu hins vegar geði við almúgann eins og jafningjar. William furðaði sig mjög á þessari stéttleysu!

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.8.2013 kl. 12:25

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Brynjólfur, ég heiti Páll. Byrjaðu aftur.

Páll Vilhjálmsson, 2.8.2013 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband