Dólgasaga Egils Helgasonar

Dólgasaga er fordómafull alhæfing um fortíðina. Dólgasaga Egils Helgasonar hljómar svona

Fátæk og kúguð íslensk alþýða, vinnufólk og kotfjölskyldur, flúði unnvörpum til Ameríku þegar það fékk loks möguleika á að komast burt.

Agli er svo mikið í mun að hafna annarri útgáfu af dólgasögu, um stéttleysi á Íslandi, að hann fabúlerar aðra, sem gengur út á að yfirstéttin hafi þrautpínt alþýðuna. 

Meginástæða vesturferða Íslendinga var kuldaskeiðið á síðasta fimmtungi 19. aldar. Í góðæriskafla þar á undan fjölgaði Íslendingum úr 50 þúsund, en það var sú íbúatala sem landið bar frá miðöldum, í um 70 þúsund. Á góðæristímanum var tekið í notkun jarðnæði sem ekki var hægt að búa þegar kólnaði. Öskjugosið 1875 gerði út af við mörg heiðarbýli á Norður-Austurlandi enda voru vesturfarar hvað flestir úr þeim landshluta. 

Það er skáldskapur að Íslendingar hafi flúið innlenda höfðingjastétt er hafi setið yfir hlut manna. 

Vesturfaraskeiðið stóð stutt yfir. Með batnandi árferði og framförum í atvinnuháttum, sem, vel að merkja, fóru saman við aukið fullveldi s.s. heimastjórn 1904, hætti fólk að flytja vestur.

Egill furðar sig á því að Vestur-Íslendingar hafi sýnt ættlandi sínu það örlæti að safna peningum til háskóla og skipafélags. Vestur-Íslendingar söfnuðu fyrir Háskóla Íslands og óskabarni þjóðarinnar, Eimskip, vegna væntumþykju fyrir landi og þjóð.

Dólgasaga Egils Helgasonar er fjarska lítið skyld Íslandssögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Hárrétt hjá þér, Páll. Alls kyns ástæður lágu fyrir því að fólk fór vestur. T.d. olli kúgun ekki því að afi og amma urðu Vestur- Íslendingar á þessum tíma. Þau skiluðu sér svo heim þegar kreppan svarf að fyrir vestan. Hreyfanleiki Íslendinga er verulegur. Svíþjóð tók við okkur fyrir nokkrum áratugum, núna Noregur. Svo skilum við okkur mörg heim á milli kreppa.

Ívar Pálsson, 31.7.2013 kl. 11:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fólksflóttinn til Vesturheims var miklu meiri en svo að kreppa á íslandi ylli honum eingöngu. Ræturnar lágu í því að íslenski aðallinn, stórbændur og embættismenn, höfðu síðustu aldirnar í krafti vistarbands, valda og auðs, komið í veg fyrir að þéttbýli myndaðist við sjóinn í kjölfar betri skipakosts, hafna og samgöngubóta.

Aðeins 5% íslenskra bænda áttu jarðirnar, sem þeir bjuggu á.

Á Íslandi ríkti lénsskipulag í raun.

Umbætur landsnefndar Kristjáns 7. 1770 voru allar kæfðar af valdastétt Íslands. Hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur eins litlu og á Íslandi og hvergi fékk innlenda yfirstéttin, hinn íslenski aðall, hlunnindi á borð við hlunnindi aðals í Evrópu en slapp við ýmsar skyldur eins og þær að senda syni sína í herþjónustu.

Afi minn gekk ungur maður átta vetur í janúar um vegleysur og yfir óbrúaðar ár frá Síðu í Skaftafellssýslu suður í Garð til að þræla þar á vertíð fram í maí, ganga til baka og afhenda húsbónda sínum mestallan arðinn. Þetta var afi minn, það er ekki lengra síðan.

Ríkur bóndi, sem gisti hjá langömmu minni og langafa að Hólmi í Landbroti, rann til rifja fátæktin, ómegðin og sulturinn á heimilinu og gerði þeim tilboð, sem þau gátu ekki hafnað: Þau létu bóndanum ömmu mína 7 ára í té sem verðandi vinnukraft austur í Öræfum en bóndinn leiddi kú í staðinn vestur yfir Skeiðarársand í næstu ferð sinni vesturum.

Ég er að tala um ömmu mína. Það er ekki lengra síðan.

Fjórar konur, stórvel gefnar, voru niðursetningar fyrir norðan á bænum þar sem ég var í sveit. Í æsku áttu þær enga kosti aðra en fátækt, vinnuþrælkun, undirokun og ófrelsi.

Þrjár þeirra voru mæðgur sem höfðu búið að Rugludal á Auðkúlúheiði í meira en 400 metra hæð inni á hálendinu. Það var eina jarðnæðið, sem var að fá fyrir þær.

Þær tvær elstu voru fæddar um 1870 en voru svo óheppnar að vesturferðunum var að mestu lokið þegar þær komust á legg.

Ég var í sveit á sama bæ og þessar konur og skrifaði um þær bókina "Manga með svartan vanga". Það er ekki lengra síðan.

Svo koma menn og tala um að hér hafi verið jöfnuður og stéttleysi alla tíð.

Ómar Ragnarsson, 31.7.2013 kl. 20:43

3 Smámynd: Hrafn Arnarson

Meginástæða vesturferðanna liggur þó í því að þjóðinni fjölgaði mjög á 19. öld án þess að atvinnulífið efldist að sama skapi. Framleiðsluhættir landbúnaðarins gátu ekki brauðfætt það fólk sem fyllti sveitirnar og því voru aðeins þrír kostir í boði: efling atvinnulífsins, brottflutningur úr landi eða hungur og mannfellir. Sjávarþorp tóku að myndast um sunnan- og vestanvert landið þar sem fiskimið voru best. Aðstæður til sjávarútvegs voru lakari við norðan- og austanvert landið og því varð þéttbýlismyndun hægari þar. Þeir bændur sem bregða þurftu búi á þeim slóðum áttu þess síður kost að komast í róður og því var um fátt annað að ræða en flytjast á brott. Þéttbýlisvæðingin og vesturferðirnar komu í veg fyrir að mannfellir yrði í landinu eins og svo oft hafði gerst á öldum áður.

Hrafn Arnarson, 31.7.2013 kl. 21:56

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vesturferðirnar stóðu a.m.k. til 1911 og mjög margir fóru 1907.

Það er því rangt hjá Ómari að vesturferðunum hafi að mestu verið lokið ca. 1890. Kreppa, kuldar, fjárfellir og óáran, m.a. vegan eldgosa var aðal ástæða fólksflóttans. Auk þess voru agentar sem lokkuðu fólk vestur með gylliboðum. Fólkið var síðan dregið norður fyrir Winnipeg (Gimli, Heklu) á versta landsvæði sem fyrir fannst til ábúðar. Þeir aðilar sem könnuðu landið fyrir komandi landnema, leist ekki á sviðna jörð vegan engisprettuplágu, frá Dakota og norður úr. Plágan náði ekki til Gimli og ákváðu að þar væri gott land.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2013 kl. 22:32

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ísland var harðbýlt land, eins og Ómar rekur. En hér var ekki fyrirkomulag lögstétta eins og tíðkaðist frá miðöldum í Evrópu. Stéttskiptingin hér skilaði sér ekki í ólíkri menningu hástéttar og lágstéttar, eins og algengt var á meginlandi Evrópu.

Efnabændur og fátækir töluðu sama tungumálið, sóttu sömu kirkjuna og skemmtu sér á líkan hátt.

Félagslegur hreyfanleiki var meiri hér en víða annars staðar; börn kotbónda giftust inn í fjölskyldu meðalbónda og úr slíkum fjölskyldum voru mægðir í stórbændafjölskyldur - og úr röðum stórbænda komu helstu innlendu valdsmennirnir, þ.e. sýslumenn og prestar.

Vinnuhjú bænda bjuggu undir sama þaki og húsbændurnir og deildu með þeim kjörum.

Þegar ákveðið var að allir skyldu læsir, á seinni hluta 18. aldar, var það gert gert með því að skylda húsbændur, háa sem lága, að annast kennslu barna eða sjá til þess að þau fengju kennslu. Hægt var að hafa þennan háttinn á vegna þess að bændur voru ein heild, þótt sumir væru fátækir en aðrir efnaðir.

Víst var munur á lífskjörum þeirra efnaminni og þeirra efnameiri. En það er út í bláinn að tala um stéttskiptingu hér á landi þar sem einhver höfðingjastétt í stíl við aðalstéttir Evrópu ráðskaðist með leiguliða. Ísland var einfaldlega of fátækt til að bera uppi stétt aðalsmanna.

Páll Vilhjálmsson, 31.7.2013 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband