Heimildin prentar fyrir Sorpu

Vikuútgáfa Heimildarinnar er prentuð í 36.400 eintökum, samkvæmt Gallup. Vefútgáfa Heimildarinnar er einnig mæld af Gallup. Vikulegir notendur eru 15 þúsund og hafa verið það frá upphafsdögum útgáfunnar í febrúar á síðasta ári. Stöðug mæling í rúmt ár verður ekki vefengd. Netnotendur eru aðeins 15 þúsund.

Heimildin er fyrst og fremst áskriftarútgáfa, hreyfist varla í lausasölu. Prentað upplag á að vísa í seld eintök í áskrift. Áskrifendur að fjölmiðlum nota á hinn bóginn rafrænu útgáfuna mun oftar en prentútgáfu, ef um hana er að ræða. Prentað upplag Morgunblaðsins er t.d. 52 þúsund eintök, en vefútgáfan er með 220 þúsund notendur vikulega. Notendur mbl.is eru ríflega fjórum sinnum fleiri en áskrifendur Morgunblaðsins.

Heimildin er ekki í sama flokki og Morgunblaðið. En báðar útgáfurnar eru á sama fjölmiðlamarkaði og hegðun fjölmiðlaneytenda hvors miðils um sig er áþekk. Dæmigerður lesandi Heimildarinnar er háskólamenntaður vinstrimaður. Sá þjóðfélagshópur lifir hálfu sínu lífi á netinu. Varlega áætlað ættu vefnotendur Heimildarinnar að vera tvisvar til þrisvar sinnum fleiri en áskriftarfjöldi. 

En tilfellið er að í stað þess að netútgáfa Heimildar hafi 70 til 100 þúsund vikulega notendur eru þeir aðeins 15 þúsund. 

Raunverulegir áskrifendur Heimildarinnar, þ.e. einstaklingar og lögaðilar sem kaupa eina áskrift hver, eru líklega vel undir fimm þúsund. Auðmenn kaupa þúsundir áskrifta. Það er eina skýringin á misræminu.

En hvers vegna er Heimildin prentuð í rúmlega 36 þúsund eintökum þegar fimm þúsund myndu nægja? Ástæðan er bókhaldið. Auðmenn, sem kaupa áskriftir í þúsundavís, eru í reynd að styrkja Heimildina með mánaðarlegu framlagi upp á margar milljónir króna. En styrktarframlagið er ekki skráð sem slíkt heldur áskrift. Heimildin vill ekki að þess sjáist merki í bókhaldinu að útgáfunni er haldið á lífi með styrkjum auðmanna. Sjálfsímyndin gengur út á að útgáfan eigi erindi til almennings en sé ekki ómagi á framfæri valinna auðmanna er njóta nafnleyndar.

Hvers vegna ættu auðmenn að greiða framlag til Heimildarinnar? Ástæðurnar eru tvíþættar, líkt og rakið var í laugardagsbloggi. Í fyrst lagi til að styðja við ritstjórnarstefnu Heimildarinnar, vera til dæmis á móti fiskeldi en fylgjandi sportveiði, og í öðru lagi að kaupa sig undan illu umtali. Í síðasta tölublaði Heimildarinnar var neikvæð umfjöllun um auðmanninn Róbert Wessmann. Fjandvinur Róberts og fyrrum yfirmaður er Björgólfur Thor Björgólfsson. Björgólfur fær ekki neikvæða umfjöllun í Heimildinni. Líklega kaupir Björgólfur Thor styrktaráskrift en Róbert ekki.

Heimildin taldi sig fyrir ári afhjúpa risastórt hneyksli, að drykkjarfernur færu ekki í endurvinnslu heldur voru brenndar. Þórður Snær ritstjóri skrifaði leiðara um málið.

Mun Þórður Snær gera grein fyrir stórum hluta af prentupplagi Heimildarinnar sem fer beint í Sorpu? Eða fer endurvinnslan fram á öðrum og leynilegri stað?  


Bloggfærslur 29. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband