Víkingar, Snorri og saga Evrópu

Upphaf víkingatímabilsins er gjarnan sagt árið 793 þegar norrænir gerðu strandhögg á Lindisfarne í Norðaustur-Englandi. Tímabilinu telst lokið um miðja elleftu öld, stundum er miðað við sigur Vilhjálms bastarðar á Hastings 1066.

Víkingar hröðuðu þróun lénsveldis í Evrópu. Leifturárásir víkinga á klaustur og bæi var aðeins hægt að mæta með staðbundnum landvörnum. Miðstýrðir herir stórra konungsríkja hentuðu ekki sem vörn gegn víkingum en staðbundinn aðalsmaður gat munstrað úr nærsveitum varnarliði með skömmum fyrirvara. Héraðshöfðingjarnir fengu nafnbætur eins og greifar og hertogar og komu upp stjórn- og efnahagskerfi þar sem aðalsmaðurinn réð lögum og lofum í sinni heimasveit. Ekki fyrr en með tilkomu þjóðríkja á nýöld breyttist lénskerfið og víða hélt það velli löngu eftir frönsku byltinguna.

Sagnfræðin býður ekki upp á haldgóðar upplýsingar um aðdraganda víkingatímabilsins. Hertækni víkinga byggið á langskipunum sem voru létt og meðfærileg en samt traust sjóskip. Kunnátta í skipasmíðum verður ekki til í einu vetfangi. Þar fyrir utan þarf að skýra hvers vegna bændur í löndum þar sem núna er Noregur, Danmörk og Svíþjóð tóku upp á því að herja í austurveg, á meginland Evrópu og leggja undir sig framandi eyjar langt í vestri; Færeyjar, Ísland og Grænland. 

Því liggur í augum uppi að einhver aðdragandi hlýtur að vera að víkingaferðum. Nýlegur fornleifafundur í Eistlandi bregður ljósi á atburði fyrir upphaf víkingatímabilsins. Sagt er frá rannsókninni í sumarútgáfu tímaritsins Archeology.

Um er að ræða leifar tveggja skipa sem fundust á eyjunni Sareemaa. Staðfest er að skip og munir eru frá norræna menningarsvæðinu. Í skipunum voru yfir þrjátíu lík, heygð með vopnum og verjum. Líkin eru af karlmönnum á aldrinum 18 til 45 ára og vopnbitin. Fornleifafræðingarnir telja mennina drepna á árabilinu 700 til 750, þ.e. hálfu til heilu árhundraði fyrir strandhöggið í Lindisfarne.

En hvað voru víkingarnar að þvælst til eyju undan strönd Eistlands þar sem hvergi var að finna þau verðmæti sem víkingar sóttust eftir? Fornleifafræðingar kunna engin svör við þeirri spurningu.

Víkur þá sögunni til Snorra Sturlusonar mesta sagnfræðingi Íslandssögunnar og sérfræðingi í fornaldarsögu Norðurlanda. Í Ynglingasögu skrifar Snorri

Yngvar hét sonur Eysteins konungs er þá var konungur yfir Svíaveldi. Hann var hermaður mikill og var oft á herskipum því að þá var áður Svíaríki mjög herskátt, bæði af Dönum og Austurvegsmönnum. Yngvar konungur gerði frið við Dani, tók þá að herja um Austurvegu.

Á einu sumri hafði hann her úti og fór til Eistlands og herjaði þar um sumarið sem heitir að Steini. Þá komu Eistur ofan með mikinn her og áttu þeir orustu. Var þá landherinn svo drjúgur að Svíar fengu eigi mótstöðu. Féll þá Yngvar konungur en lið hans flýði. Hann er heygður þar við sjá sjálfan. Það er á Aðalsýslu. Fóru Svíar heim eftir ósigur þenna.

Fornleifafræðingunum staðfesta að umbúnaður heygðu víkinganna bendir til að stórmenni hafi verið á ferðinni er skildu eftir sig tvíeggjuð sverð skreytt dýrum steinum. Fornleifafræðingarnir þekkja til Ynglingasögu Snorra en vilja alls ekki fallast á haugur Yngva konungs sé fundinn.

Að hætti varkárra vísindamanna er fullur fyrirvari hafður á hverra manna víkingarnir á Sareemaa eru. ,,En fundurinn staðfestir að atburðirnir í sögunni gætu hafa gerst," segir einn forleifafræðingurinn í viðtengingarhætti þátíðar.

Víkingatímabilið breytti sögu Evrópu en menn vita ekki alveg hvernig það kom til. Snorri gefur þó vísbendingu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband