Færsluflokkur: Dægurmál

221 til höfuðs þjóðarvilja

Tíu samningahópar með 221 einstaklinga innanborðs til að undirbúa inngöngu Íslands í Evrópusambandið þvert gegn vilja þjóðarinnar. Það á að henda einum milljarði króna í ferð án fyrirheits.  Ráðherra sem lætur sér detta annað eins í hug hlýtur að vera Samfylkingarfélagi.

Pólitísk útrás utanríkisráðherra er sama marki brennd og fjármálaútrás fermingardrengjanna. Hvorttveggja er vanhugsað og mun enda með ósköpum.

Össur verður óhamingju Íslands að vopni.

 


mbl.is Samningahópar skipaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskipti sem skemmdarverk

Réttarkerfið áttar sig loks á að viðskipti eru ekki alltaf viðskipti heldur stundum skemmdarverk. Það þurfti hrun til að dómstólar kveiktu. Fræg eru ummæli Arngríms Ísbergs dómara í Baugsmálinu að ,,þetta væru bara viðskipti" þegar ákæruvaldið reyndi að sýna fram á ólöglegt athæfi.

Þangað til að hrunið varð tókst útrásarauðmönnum að láta svo líta út að allt sem þeir gerðu væru bara viðskipti.

Byssukúla er líka saklaust málmhylki þangað til tekið er í gikkinn. Auðmennirnir og hlaupatíkur þeirra gældu títt við gikkinn og héldu að þeir væru sjálfir ónæmir fyrir afleiðingunum.


mbl.is Dæmdir fyrir markaðsmisnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrivaldaklíkan lemur á Ögmundi

Vinstrivaldaklíkan er Samfylkingin plús tækifærissinnar í Vinstri grænum. Klíkan fékk Icesave-frumvarpið afgreitt úr annarri umræðu í dag. Ögmundur Jónasson var á móti sem og Lilja Mósesdóttir. Ásmundur Einar Daðason var með fyrirvara, Atli Gísla er í bókhaldsorlofi og Guðfríður Lilja fæðingarfríi.

Ögmundur Jónasson hefur staðið vaktina fyrir hugsjónavinstrið undanfarið. Vinstrivaldaklíkan lemur á honum við hvert tækifæri. Nú síðast vegna þess að hann skrifaði ritdóm í tímarit sem klíkunni er ekki að skapi.

Vinstrivaldaklíkan ætlar að múlbinda mann og annan sem hafa í frammi sjálfstæðar skoðanir.


Icesave fellur við 3ju umræðu

Icesave-frumvarpið verður ekki óbreytt samþykkt við þriðju umræðu á Alþingi. Þegar búið verður að fara yfir efnisatriðin sextán og ensk lögfræðistofa gefur álit sitt mun valið standa á milli ríkisstjórnarinnar eða drápsklyfjar á komandi kynslóðir. Alþingi mun hafna frumvarpinu.
mbl.is Meirihluti samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran er kynslóðir í burtu, segir Rögnvaldur H.

Rögnvaldur Hannesson prófessor við Norska viðskiptaháskólann, NHH, segir í viðtali við E24 að líklega sé það fremur mælt í kynslóðum en árum að Íslandi taki upp evru. Í fyrsta lagi væri skammsýnt af okkur að taka upp evru þegar krónan er jafn lágt skráð og raun ber vitni. Í öðru lagi myndi Evrópusambandið ekki samþykkja að Ísland yrði evruland með þá skuldabyrði sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir.

Hér er viðtalið við Rögnvald.


Byr er bastarður

Sparisjóðir voru stofnaðir til að veita almenningi fjármálaþjónustu. Sjóðirnir voru skipulagðir samkvæmt landfræðilegri afmörkun, í undantekningatilfellum sem starfstéttastofnanir. Eigendur sparisjóða lögðu fram stofnfé og afgangur af rekstri var lagður í eigin sjóði en ekki greiddur út sem arður.

Stofnfjáreigendur græðgisvæddu sparisjóðina. Þrátt fyrir skýrar aðvaranir og tilraunir, m.a. með lagasetningu, til að koma í veg fyrir að sjóðirnir færu sömu leið og bankarnir linntu eigendur ekki látunum fyrr en þeir eyðulögðu grundvöll sparisjóðanna.

Byr er bastarður, getinn í græðgi og alinn af fordild. Hann á ekki að fá krónu úr sjóðum almennings.

 


mbl.is Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu á áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lekinn, lygin og frestun umræðu

Icesave-málið er stöðug uppspretta fróðleiks um klúður ríkisstjórnarinnar, hálfsannleik og helbera lygi. Vitanlega kemur ekki til greina að taka málið úr annarri umræðu. Ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir horn og um leið og málið er komið úr annarri umræðu finnur ríkisstjórnin leið til að keyra málið í gegn líkt og tveir ráðherrar, Steingrímur J. og Gylfi Magnússon, hafa sagt opinberlega.

Andrés Magnússon blaðamaður tekur saman Icesave-málið í tilefni af nýjum upplýsingum um samningaviðræður á bakið tjöldin og handrukkun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þjóðin treystir ekki ríkisstjórninni til að verja réttmæta hagsmuni í Icesave-málinu. Áskoranir á forseta Íslands, að hann synji frumvarpinu staðfestingar, komi það til hans á annað borð, sýnir svo ekki verður um villst að þjóðin vill hafna frumvarpinu.


mbl.is Óvissa um samkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS viðurkennir handrukkun gagnvart Íslandi

Í töluvpósti viðurkennir Flanagan fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) að endurskoðun á málefnum Íslands og lánafyrirgreiðsla er háð lausn Icesave-málsins gagnvart Bretum og Hollendingum. Fyrsta málsgreinin í tölvupósti Flanagans hljómar svona

First, let me say that I know that these negotiations are a very sensitive issue in Iceland, and that bringing them to a conclusion will take some time. This does remain a crucial issue for the review, however, and it will be very difficult to have it forward until there is some agreement between the Icelandic authorities and the U.K. and Dutch.

Flanagan segir nánast útilokað að endurskoðun fari fram nema að fyrir liggi samkomulag milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og Breta og Holledinga hins vegar. Og án endurskoðunar verða engin lán veitt.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur borið í bætifláka fyrir AGS, Evrópusambandið og Breta og Hollendinga sem freista þess enn að þvinga Íslendinga til að skrifa upp á nauðungarsamninga. Þegar það liggur fyrir svart á hvítu að AGS er handrukkari gömlu nýlenduveldanna ætti að vera kominn tími til að Jóhanna talaði máli Íslands í deilunni.

 

 

 


mbl.is Icesave-póstar á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið bjargaði Íslandi

Hrunið í október 2008 kom ekki degi of seint. Í allra-bestu-veröld hefði hrunið átt að koma sumarið 2006, - en þá tókst íslensku fjármálasnillingunum að ljúga til um að þeir væru vaxnir upp úr krosseignatengslum og hlutabréfablóðskömm. Bankadrengirnir og fylgifé þeirra fékk stuðning stjórnvalda til að blekkja alþjóð.

Útrásin gróf undan dyggðum eins og ábyrgð, ráðdeild og fyrirhyggju. Hugmyndafræði útrásarinnar gegnsýrði samfélagið og sæmilega vænt fólk græðgisvæddist með kúlulánum og öðru peningafyllerí. Þorri almennings var samt sem áður allsgáður.

Ef útrásin hefði gengið í tíu ár í viðbót byggi hér siðvillt óþjóð. Hrunið kom í tæka tíð til að við getum bent á viðrinin sem bera höfuðsök sem víti til varnaðar.

Aldrei aftur græðgisknúin útrás, hvorki fjármálaleg né pólitísk.


mbl.is Boyes: Of mikil áhersla á ál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórn án vinstristefnu

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er sögð fyrsta hreina vinstristjórnin með því að flokkarnir tveir sem hana mynda eru til vinstri við miðju, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Þegar litið er á pólitík og málsmeðferð stjórnarinnar fer fjarska lítið fyrir vinstristjórnmálum.

Andstæðingar stjórnarinnar segja sjálfsagt að skattlagning til andskotans sé ekta vinstristefna og þar sverji Jóhönnustjórnin sig í ættina. En sé sanngirni gætt er ekki hægt að neita að skattahækkanir voru óhjákvæmilegar eftir hrun.

Það er í afstöðunni til eignarhalds fyrirtækja sem stefnuleysi stjórnarinnar er algjört. Í gamla daga var ríkisvæðing á dagskrá vinstriflokka. Blandaður búskapur einkarekstrar og ríkis kom þarnæst. Eftir það hættu vinstriflokkar að tala um rekstur, hvort heldur einkarekstur eða opinberan. Tækifærissinnar í Samfylkingu tóku upp inngöngu í Evrópusambandið sem mál málanna og Vg náttúruvernd. Hvorki ESB né náttúruvernd er sérstaklega vinstri eða hægri.

Hrunið leiddi til fjöldagjaldþrota einkafyrirtækja sem beint eða óbeint hafna hjá nýríkisvæddum bankastofnunum. Ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd hvað hún ætlar að gera í málinu. Skortur á stefnu í málaflokknum verður til þess að spilling grefur um sig hratt og örugglega.

Stjórnvöld með lágmarksmeðvitund fyrir atvinnulífi myndu leggja niður almenn viðmið fyrir þrotarekstur einkageirans. Við hvaða aðstæður eigi að halda lífi í rekstri og hvaða þjóðfélagsmarkmið skuli hafa í huga, s.s. er varðar samkeppni.

Vinstristjórnin er þögnin ein um atvinnulífið. Enda er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ekki vinstristjórn nema að nafninu til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband