Pólitísk umræða og deyjandi flokkar

Fram undir 1990 gáfu stjórnmálaflokkar út dagblöð, allir nema Sjálfstæðisflokkur sem bjó að Morgunblaðinu. Umræða um sameiningu stjórnmálaflokka, einkum Alþýðuflokk og Alþýðubandalag, hverfðist oft um sameiningu málgagnanna.

Tíminn túlkaði heimsmynd framsóknarmanna, Þjóðviljinn Alþýðubandalagsins og kratatilveran átti heima í Alþýðublaðinu. Hægrikratísk sjónarmið voru kynnt í ,,frjálsu og óháðu" síðdegisblaði, DV. Allar útgáfurnar fluttu fréttir og pólitík, vitanlega söng þar hver með sínu nefi.

Flokksblöðin voru alltaf rekin með tapi en þóttu nauðsynleg fyrir pólitíska umræðu. Pólitísku umbrotin um aldamót, þegar vinstrimenn hagræddu flokkakerfinu, voru gerð samhliða uppstokkun á blaðaútgáfu, samanber Dag-Tímann sem síðar rann inn í Fréttablaðið.

Í dag er hræódýrt að stunda útgáfu á netinu. Og skyldi ætla að stjórnmálaflokkar myndu standa þar vaktina og gefa út sína greiningu á pólitík. En eins og Styrmir Gunnarsson bendir á er lesmál stjórnmálaflokka ekki til.

Hvað veldur málleysi stjórnmálaflokka? Er það svo að flokkarnir þurfa enga umræðu á sínum vettvangi? Og hvert skyldi samhengið vera á milli færri málgagna stjórnmálaflokka og fjölgunar flokka?

Drög að svari gæti verið þetta: stjórnmálaflokkar eru ekki lengur verkfæri til að breyta samfélaginu í anda þeirra gilda sem þeir standa fyrir. Stjórnmálaflokkar eru laustengt bandalag einstaklinga sem hafa áhuga að komast á þing og/eða eignast aðild að þeim gæðum stjórnmálaflokkar veita. Flokkarnir fá peninga frá hinu opinbera og útdeila bitlingum í nefndum og ráðum. Svo er alltaf möguleiki á ríkisstjórnaraðild sem opnar á fleiri tækifæri.

Pólitísk umræða er aukaariði í stjórnmálaflokkum. Þingmenn hengja sig í umræðu utan flokka og skilgreina sig út frá dægurflugum en ekki flokksmenningu. Líftími heilla stjórnmálaflokka er líka orðinn giska stuttur. Spyrjið bara þessar fáeinu hræður sem enn kenna sig við Samfylkinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Samfylkingin mun ekki koma til greina þar sem að hún stefnir á esb.

Jón Þórhallsson, 26.3.2017 kl. 10:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gegnai fjórflokksins frá 1942 til 2010 stafaði af einokun á blaðamarkaðnum. 

Samt komu fram litlir flokkar sem náðu mönnum á þing. 

Bændaflokkurinn bauð fram á fjórða áratugnum. 

Tveir nýir flokkar buðu fram 1953 og annar þeirra náði tveimur mönnum á þing.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna kom nokkrum mönnum á þing 1971 og hjarði fram eftir áratugnum. 

Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn og Borgaraflokkurinn spruttu upp á níunda áratugnum, Þjóðvaki 1995 og Frjálslyndi flokkurinn fékk menn 1999, 2003 og 2007. 

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut aðeins 27% fylgi í kosningunum 1987.

En náðarhöggið hlaut veldi fjórflokksins i raun í byggðakosningunum 2010 þegar Besti flokkurinn og hliðstæð framboð riðluðu hinu gamla mynstri. 

Þá hrundi fylgi Sjálfstæðisflokksins endanlega og hefur ekki komist upp í sitt gamla far síðan. 

Ómar Ragnarsson, 26.3.2017 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband