Litháen 1991 - Úkraína 2015

Ísland á að stunda sjálfstæða utanríkisstefnu, sem hvorttveggja í senn byggir á siðferðislegum og pólitískum gildum okkar annars vegar og hins vegar hagsmunum. Þrátt fyrir andstöðu Nató ríkja og hótanir Sovétríkjanna vðurkenndi Ísland fyrst ríkja sjálfstæði Litháa árið 1991.

Viðurkenning Íslnads ruddi brautina fyrir sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja, sem við finnum til samstöðu með og eru frá víkingaöld á menningarsvæði norrænna þjóða. Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra þegar 20 ára afmælis viðurkenningar Íslands var minnst. ,,Ákvörðun Íslendinga árið 1991 gagnvart Eystrasaltsríkjunum, og Litháen sérstaklega, var efalítið einn af hátindum íslenskrar utanríkisstefnu," segir Össur við það tækifæri.

Í Úkraínudeilunni, sem nú stendur yfir milli stórveldanna, þar sem Bandaríkin og ESB takast á við Rússa um forræði yfir ríki sem er kallað ,,failed state" - ónýtt ríki, þá leggja Íslendingar ekki sjálfstætt mat á deiluna heldur erum við taglhnýtingar Nató-ríkjanna.

Nató er verkfæri vesturveldanna til að auka áhrif sín í austurátt eftir að Sovetríkin féllu og Varsjárbandlagið liðaðist í sundur. Nató er hernaðarbandalag, stofnað í kalda stríðinu sem varnarbandalag gegn árásarhneigð kommúnista. Í dag eru kommúnistar ekki til sem pólitískt afl og Nató er þar með ekki lengur varnarbandalag gegn einu eða neinu heldur verkfæri til útþenslu.

Yfirvegaðir greinendur á stöðu mála í Austur-Evrópu, t.d. bandaríski fræðimaðurinn John J. Mearsheimer, segja Nató-ríkin alfarið bera ábyrgð á Úkraínudeilunni, sem er afleiðing af sívaxandi útþenslu vesturveldanna.

Árásargirni skín í gegn hjá þeim fræðimönnum og álitsgjöfum sem styðja útþenslustefnu Nató-ríkjanna. Einn þeirra er Robert D. Kaplan sem skrifar í Wall Street Journal. Hann segir ESB-ríkin huglaus og að Bandaríkin verði að senda hernaðarráðgjafa til Úkraínu að hjálpa stjórninni í Kiev að ráðast á rússneskumælandi uppreisnarmenn í austurhéruðum landsins. Kaplan talar um að Pútín sé með ,,stóra áætlun" um yfirráð yfir Austur-Evrópu. Reynslan segir annað. Pútín og Rússar voru til friðs þegar Nató innbyrti velflest gömlu Varsjárbandalagsríkin: Pólland, Búlgarínu, Ungverjaland og Rúmeníu Þá hreyfðu Rússar sig ekki þegar Eystrasaltsríkin urðu Nató-ríki. Það var ekki fyrr en Nató-ríkin tóku þátt í að steypa löglega kjörnum forseta Úkraínu af stóli veturinn 2014 að Rússar sögðust ekki búa við að óvinveitt hernaðarbandalag gerði Úkraínu að stökkpalli inn í Rússland.

Bandaríski fræðimaðurinn og dálkahöfundurinn Stephen F. Cohen minnir á að Bandaríkin þvældust inn í Víetnam-stríðið með því að senda þangað fyrst hernaðarráðgjafa. Samkvæmt Cohen er raunveruleg hætta á upphafi stórstyrjaldar í Austur-Evrópu.

Ísland á ekki að láta teyma sig út í leiðangra Nató-ríkjanna til landvinninga í Úkraínu eða öðru langt-í-burtu-landi sem okkur er algerlega óviðkomandi. Við eigum að afturkalla stuðning okkar við viðskiptaþvinganir Nató-ríkjanna gagnvart Rússlandi.

Ef Lithánen var árið 1991 ,,hátindur íslenskrar utanríkisstefnu" þá er Úkraína 2015 dæmi um hundslegan undirlægjuhátt gagnvart Nató-ríkjunum. Breytum þeirri stöðu mála hið snarasta.


mbl.is Viðskiptaþvinganir eru einsdæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1991 höfnuðum við rétti Rússa til að ráða yfir nágrannalöndum sínum og eigum því að viðurkenna hann núna?

Mér þykir þessi skrif einkennast af 19. aldar hugmyndum um áhrifasvæði og stórveldishagsmuni. Þú fellur í þá gryfju að líta á NATO sem útþensluverkfæri frekar en sameiginlet öryggiskerfi og lítur á Vesturlönd og Rússland sem siðferðilega jafngild, sem er eins og að setja samasemmerki á milli kvennabósa og raðnauðgara.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 14:02

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Rússar fara ekki fram á að ráða yfir nágrönnum sínum. Þeir fara fram á að nágrannar sínir í Úkraínu láti það vera að ganga í hernaðarbandag sem stefnt er gegn Rússlandi. Á þessu tvennu er mikill munur.

Greining mín byggir á sígildum stórveldafræðum sem eru jafn gild í dag og þau voru á dögum Pelópsskagastríðsins.

Páll Vilhjálmsson, 16.8.2015 kl. 14:20

3 identicon

Það hefur margt breyst í samskiptum ríkja á síðustu 100 árum (svo ekki sé talað um á síðustu 2400 árum!). Hafi það farið fram hjá þér hafa engir breskir og hollenskir fallbyssubátar komið til að innheimta Icesave-kröfurnar, Bretar létu það alveg vera að sökkva varðskipunum okkar í Þorskastríðunum og mesta herveldi sögunnar bað kurteisilega um leyfi þegar það vildi hafa hér aðstöðu.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 14:47

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Á síðustu 100 árum, Hans, voru tvær heimsstyrjaldir, helför, Hiroshima og Nagasaki, My Lai, Srebrenica og ótal fleiri og færri stríð og hryðjuverk í nafni trúar, hugsjóna og hagsmuna.

Bretar sökktu ekki íslenskum varðskipum á sínum tíma en þeir settu Ísland á lista yfir hryðjuverkaríki vegna Icesave. Var það framför?

Páll Vilhjálmsson, 16.8.2015 kl. 15:07

5 identicon

Markalínan fyrir það sem er tækt í samskiptum ríkja hefur verið á stöðugri hreyfingu, í rétta átt, síðustu 100 ár, sérstaklega eftir seinna stríð.

Efnahanslegar þvingunaraðgerðir Breta voru framför miðað við það sem Bretar eru færir um að gera og það sem þeir hefðu talið sig mega gera fyrir 100 árum.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 15:28

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég er sammála þér að mestu í síðustu athugasemd þinni, Hans. Framfarir hafa orðið í viðmiðum hvað má og hvað ekki í samskiptum ríkja. Tilraunir Bandaríkjanna til að setja saman ný ríki eftir sínu höfði, til dæmis fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu, teljast þó ekki til framfara heldur eru hluti af stórveldabrölti fyrri alda.

Páll Vilhjálmsson, 16.8.2015 kl. 16:32

7 identicon

Þetta væru allt saman gildir punktar ef þeir féllu að staðreyndum.

Í Mið-Austurlöndum hafa Bandaríkjamenn verið mjög tregir til að fallast á, hvað þá styðja, nokkrar breytingar á viðurkenndum landamærum frá nýlendutímanum, jafnvel í þeim tilvikum þar sem þær eru í raun löngu orðinn hlutur, sbr. sjálfstæði Kúrda í N-Írak og innlimun Gólan-hæða í Ísrael.

Í A-Evrópu hafa Bandaríkjamenn ekki reynt að breyta landamærum. Hinsvegar hafa flestar þjóðir A-Evrópu reynt að tryggja frelsi sitt með því að fjarlægjast Rússa og nálgast vesturlönd. Rússar eru ekki að tapa áhrifasvæði sínu vegna aðgerða vesturlanda heldur vegna þess að þeir hafa ekkert að bjóða annað en fantaskap.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 17:22

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Bandaríkin reyna bæði í Afganistan og Írak búa til ríki að eigin höfðu, sömuleiðis í Sýrlandi. Allt klúður. Í Úkraínu eru bandarísk stjórnvöld við sama heygarðshornið.

Það ber ekki að gera lítið úr þjóðavilja, hvorki Úkraínumanna eða annarra. En tilfellið er að Bandaríkin/ESB með Nató sem verkfæri eru ekki hlutlausir aðilar að byggja okkur öruggari Austur-Evrópu. Ef það væri stefnan þá væri ekki borgarastyrjöld í Úkraínu.

Páll Vilhjálmsson, 16.8.2015 kl. 20:15

9 identicon

Ég veit nú um nokkrar borgarastryjaldir sem voru háðar löngu áður en Bandaríkin urðu til.

Sýrland hrundi mest undan sjálfu sér en í Afganistan og Írak reyndu Bandaríkin  vissulega skipta um stjórnvöld. Það reyndu þau þó að rökstyðja með tilvísun í alþjóðalög (í tilfelli Afganistans voru rökin raunar ágæt) og það hefur augljóslega aldrei komið til greina að innlima hluta úr löndunum og þeir hafa staðið harðir gegn því að hluta í sundur Írak (þótt önnur útkoma sé útilokuð til lengdar).

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband