Kristrún, tómlætið og baráttan um lýðveldið

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, fyrrum aðstoðarmaður samfylkingarráðherra og nýhætt sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins skrifar pólitíska greiningu undir heitinu Ísland á leik. Meginboðskapur Kristrúnar er tvíþættur. Í fyrsta lagi gagnrýnir hún samlanda sína fyrir tómlæti; það geti leitt til nýs hruns og í öðru lagi brýnir Kristrún fyrir lesendum að næst gæti Ísland tapast - ef ekki verður gripið í taumana.

Kristrún skrifar eins og tapari. Hún gleðst ekki yfir því að Ísland rétti fyrr og betur út kútnum eftir kreppu en til dæmis frændur okkar Írar, sem urðu fyrir sambærilegu bankahruni og Ísland. Írar búa enn við fjöldaatvinnuleysi og hafa ekki náð sambærilegum árangri og Ísland í ríkisfjármálum.

Kristrún sér ekki stóru lexíuna sem má læra af hruninu: innviðir lýðveldisins stóðust hrunið. Daginn eftir guð-blessi-Ísland ávarp forsætisráðherra var hægt að nota íslensk kreditkort bæði heima og erlendis; atvinnulífið stöðvaðist ekki og hér varð ekkert atvinnuleysi sem heitið getur.

Kristrún skrifar eins og tapari vegna þess að hún og félagar hennar í vinstriflokkunum ætluðu að nota hrunið til að stokka upp lýðveldið, færa fullveldið til Brussel og segja þjóðina til sveitar hjá ESB.

Baráttan eftir hrun var á milli þeirra sem sögðu lýðveldið ónýtt og að Íslendingar gætu ekki rekið mannsæmandi þjóðfélag annars vegar og hins vegar þeirra sem trúa því að fullvalda Ísland geti búið þegnum lífskjör sem jafnast á við það sem best gerist í heiminum.

Kristrún tilheyri hópnum sem segir Ísland ónýtt. Sá hópur komst til valda vorið 2009 og ætlaði sér að kollsteypa stjórnskipun landsins með nýrri stjórnarskrá og framselja fullveldið til Evrópusambandsins.

Varnarbarátta þeirra sem telja lýðveldið besta kostinn skilaði þeim árangri að aðför Jóhönnustjórnarinnar að stjórnarskránni var hrundið og ESB-umsókninni var stútað. Í kosningunum 2013 fengu vinstriflokkarnir hroðalega útreið; Samfylkingin féll úr 30 prósenta fylgi niður í 12,9 og VG úr 22% í 10,9. Þjóðin hafnaði áróðrinum um ónýta Ísland.

Þegar Kristrún spáir því að hrun sé handan við hornið þá lýsir það ekki öðru en örvæntingu fólksins sem reyndi að nota hrunið til að ganga af lýðveldinu dauðu.

Baráttunni um lýðveldið er hvergi nærri lokið. Kristrún og þeir sem samsinna sjónarmiðum hennar munu reyna fyrir sér undir nýjum merkjum. Tómlæti er þess vegna ekki í boði; við verðum að halda vöku okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Hrunið á Íslandi var eins og risastór púðurkerling, mikill hvellur og læti en engar varanlegar skemmdir á burðarvirkinu.

Eggert Sigurbergsson, 7.9.2014 kl. 18:04

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kristrún ætti vita að tómlætisbrynja Íslendinga er hugarástand sem fær viðkomandi til að gleyma aurum sem þeir glötuðu í hruninu. Miklu mikilvægara er að uppgötva ástand vinstri manna sem kjósendur treystu, á því herrans ári 2009.í raun miklvægasta uppgötvun allra sannra íslendinga,sem hafa lært að þekkja þá og greina viðbrögðin. Þeir sýnast um þessar mundir vera að teikna upp næsta leik,en titill Kristrúnar er; "Ísland á leik” Svo heppilega vill til að við stjórnvölinn er ríkisstjórn sem var kosinn vegna ákveðnar andstöðu við inngöngu í ESB.Það stendur upp á Gunnar Braga að sækja “umsóknina” og eyða henni með öllu.

Helga Kristjánsdóttir, 8.9.2014 kl. 03:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband