Trú drepur fólk, núna araba en áður Evrópumenn

Súnnar og sjítar eru tvær megingreinar múslíma, súnnar er 85% en minnihluti sjíta telur 15%. Hernaðarátök í löndum araba þessi misserin eru trúarlega innblásin en snúast um veraldlegt vald og hagsmuni andstæðra þjóðfélagshópa.

Tvö öflugustu ríkin í Miðausturlöndum, Íran, þar sem sjítar fara með völd, og Saudí-Arabía, en þar ráða súnnar, styðja við bakið á trúbræðrum sínum í drepa hvern annan í Sýrlandi, Írak, Barein og víðar. Álengdar standa stórveldin Bandaríkin og Rússland og freista þess að bæta stöðu sína í heimshlutanum.

Ítarlegar fréttaskýringar í New York Times og Econmist gefa ekki tilefni til bjartsýni um að arabaheimurinn nái friði næstu áratugi.

Stríð innblásin trú reynast oft langvinn. Evrópa fór í gegnum tímabil trúarhernaðar frá lokum miðalda þegar mótmælendatrú skoraði kaþólsku á hólm. Hávaðinn af því tímabili entist fram yfir frönsku byltinguna, og sums staðar, t.d. á Írlandi, nærri til loka 20. aldar.

Ásborgarfriðurinn 1555 var tilraun til að sætta trúarhópana en frestaði aðeins vandanum um rúma hálfa öld. Þrjátíu ára stríðið 1618 til 1648, sem einkum var háð á þýska málsvæðinu, skildi eftir sig slóða eyðileggingar og dauða.

Vestfalíufriðurinn batt endi á þrjátíu ára stríðið og var jafnframt hornsteinn þjóðríkjamyndunar í Evrópu. Í þrjátíu ára stríðinu komu einmitt fram ríkisrök, raison d-etat, þar sem ríkishagsmunir eru settir ofar trúmálum.

Franska byltingin 1789 var enn annar áfangi á þeirri vegferð Evrópumanna að aðskilja trú og ríkisvald.

Arabar búa ekki að reynslu Evrópumanna af uppgjöri milli trúarhópa annars vegar og hins vegar aðskilnaðar milli veraldlegs valds og kennivalds trúarinnar. Hugmyndin um aðskilnað stjórnsýslu og trúmála er flestum arabasamfélögum framandi.

Arabar fallast ekki á vestræn mannréttindi heldur styðjast þeir við Kaíró-yfirlýsinguna um múslímsk mannréttindi þar sem kennivald trúarinnar er í hávegum, líkt og í Evrópu á miðöldum.

Reynsla Evrópu er að það tekur nokkur hundruð ár að aftrúvæða samfélög. Arabar verða kannski komin með sín mál í þokkalegt jafnvægi árið 2500 - sirkabát.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég man kaldranalegar athugasemdir fólks í árdaga,um “grisjunaraðferð náttúrunnar” ,en kannski átti það við hverskonar hamfarir,af völdum veðurs og ætlað að sefa mann.-Þurfa menn í Arabaheiminum endilega að opinbera trú sína?? Við kristnir getum haft hana fyrir okkur og engin sér vísbendingu um trú eða trúleysi. Það virðist því vera hin ytri tákn,hvernig menn klæðast í Irak,Iran,sem upplýsi hverrar trúar þeir eru og eru þá ofsóttir af þeim sem hafa völdin. Er ekki komin í gegnum fræðandi fréttaskýringarnar.

Helga Kristjánsdóttir, 6.7.2014 kl. 15:05

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Fólk drepur fólk, en oft í skjóli skoðana sinna sem oft eru þeim rétttrúnaður.

Trú hefur gert meira af líkn og umönnun ef grannt er rýnt.

Guðjón E. Hreinberg, 6.7.2014 kl. 15:29

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir skeleggan pistil, Páll.

Tvö dagatöl eru notuð í íslömskum löndum. Samkvæmt öðru er nú árið 1393. Samkvæmt hinu er nú árið 1435. Það má færa fyrir því góð rök að sögulega séð sé Íslam ennþá á miðaldastigi, eins og ártölin gefa til kynna. Og eins og Páll bendir á þurfti Evrópa að ganga í gegnum langa og blóðuga sögu til að aðskilja ríki og kirkju, sem er ein af forsendunum fyrir friði og sæmilega siðmenntuðum samfélögum. En eins og allir vita geisuðu líka stríð í Evrópu á tuttugustu öld.

Sumir telja að heimurinn yrði betri ef við losuðum okkur við trú. Það er ólílegt að það gerist á næstunni. Meirihluti fólks þarf á trú að halda og getur einfaldlega ekki sætt sig við guðlausa heimsmynd þess sem líffræðingurinn Edward O. Wilson kallar „visindalegan húmanisma" ("scientific humanism"). Við sem gerum það erum í minnihluta, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Þar að auki er trúleysi engin trygging fyrir réttlátu og skynsamlegu samfélagi. Morðæðið sem greip um sig í frönsku byltingunni er dæmi um það og í Sovétríkjunum var stefnan að útrýma trú í nafni draumalands kommúnismans, draumalands sem varð svo til um leið að martröð, líkt og mörg draumalönd.

Lýðræði, þar sem ríki og kirkja eru aðskilin og trú- og skoðanafrelsi er tryggt, er farsælast. En það gerist ekki einn, tveir og þrír að koma á sliku stjórnskipulagi. Líkt og Winston Churchill sagði: „Lýðræði er versta stjórnarfyrirkomulagið, fyrir utan öll hin."

Wilhelm Emilsson, 6.7.2014 kl. 21:40

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Trú drepur ekki fólk. Fólk drepur fólk. Röng trú getur hinsvegar innblásið fólk til að drepa fólk. Ábyrgðin er samt alltaf manneskjunnar.

Ef arabar/múslimar eru enn staddir á 15. öld, er það ekki ábyrgðarhlutur að láta þá flæða stjórnlaust inn í lönd þar sem stefnan er að vera staddur á 21. öld?

Theódór Norðkvist, 7.7.2014 kl. 00:33

5 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Trúin er á ábyrgð menneskjunnar, því manneskjur búa til trú og bera ábyrgð á því hverju þær trúa. Guð skapaði ekki manninn. Maðurinn skapaði Guð, Theódór.

Wilhelm Emilsson, 7.7.2014 kl. 00:44

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þannig að þú tekur undir að á endanum sé ábyrgðin alltaf viðkomandi manneskju. Verum sammála um að vera ósammála um hitt atriðið.

Theódór Norðkvist, 7.7.2014 kl. 02:37

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Já, Theódór, við erum sammála um það að einstaklingurinn sé endanlega ábyrgur gjörða sinna.

Trú/hugmyndafræði, góð eða slæm, hefur augljóslega áhrif á fólk, en fólk kýs að trúa og innan trúar/hugmyndafræði eru margir kostir--fólk í sama trúarsöfnuði hegðar sér yfirleitt ekki allt eins--og fólk ber ábyrgð á því sem það velur. Jafnvel þótt ég trúi því að Guð almáttugur segi mér að gera eitthvað get ég valið að framkvæma það eða ekki.

Wilhelm Emilsson, 7.7.2014 kl. 05:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband