Krónan miðlar auði og mildar kreppu

Ef íslenska krónan væri einstaklingur yrði hún réttnefnd jafnaðarmaður Íslands. Á uppgangstímum, hvort heldur í sjávarútvegi eða fjármálabraski, miðlar krónan auði til landsmanna með hárri skráningu gagnvart erlendri mynt. Þegar kreppir að mildar hún áföllin og dreifir byrðinni. Hún styttir samdráttartímabil í atvinnulífinu með því að lækkun hennar hækkar útflutningsverð vöru og þjónustu.

Krónan miðlar málum milli samfélagshópa, landsbyggðar og þéttbýlis, efnafólks og þeirra tekjulægri. Án krónunnar væri á Íslandi harðneskjulegra samfélag vegna þess að höggin sem hún tekur myndu lenda ójafnt á fólki, sumir slyppu á meðan aðrir stæðu ekki upp aftur.

Þeir sem gagnrýna krónuna og finna henni allt til foráttu eru að biðja um annars konar samfélag. Þeir komast upp með að útskýra ekki hvernig það samfélag yrði.

Hjákátlegast af öllu hjákátlegu er að heyra vinstrimenn sem kenna sig við félagshyggju gagnrýna réttnefndan jafnaðarmann Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er rétt. Ef gjaldmiðill hér á landi síðasta haust hefði verið evra væri nú miklu meira atvinnuleysi vegna þess að fleiri útflutningsfyrirtæki hefðu farið á hausinn. Þeir sem enn hefðu vinnu hefðu haldið sínum kjörum betur en hærra hlutfall atvinnulausra hefði mjög lítið milli handa. Þetta hefði þýtt meiri misskiptingu en krónan hefur eins og þú segir meiri jöfnunaráhrif, hún dreifir högginu á fleiri einstaklinga.

Eftirfarandi setning í færslunni var að mínu mati besti hlutinn:

"Þeir sem gagnrýna krónuna og finna henni allt til foráttu eru að biðja um annars konar samfélag. Þeir komast upp með að útskýra ekki hvernig það samfélag yrði."

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 12:02

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Þegar hamrað er á því oft á dag að krónan sé dauð þá hefur það áhrif. Það er svo gott fyrir þá sem klúðra að geta búið sér til sögudólg að benda á.

Pólitíkusar sem gerast sekir um lélega efnahagsstjórn kenna krónunni um.  Útrásardólgar sem setja samfélagið á hliðina kenna krónunni um.

Og krónunni er hiklaust kennt um þegar verðtrygging lemur almenning. Bankadólgar blésu lofti í bæði gjaldmiðilinn og fasteignaverðið. Þegar þetta tvennt hjaðnar og eigur fólks rýrna, hvað er þá betra en að geta bent á krónuna og frýjað sig ábyrgð.

Haraldur Hansson, 12.8.2009 kl. 12:09

3 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Nú er ég ykkur hjartanlega sammála.

Ragnar Gunnlaugsson, 13.8.2009 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband