Fávísisfeldur fjölmiðla

Sauðsháttur íslenskra fjölmiðla verður ekki ýktur. Í allan dag hafa fjölmiðlar spunnið fréttir um að líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði. Halló, það verða kosningar í vor. Ríkisstjórnin er dauð þótt líkið sé volgt. Á föstudag var ákveðið að binda endi á líf stjórnarinnar. Enginn fjölmiðill hefur haft fyrir því að útskýra fyrir almenningi að sitjandi ríkisstjórn er ígildi starfsstjórnar.

Samfylkingin hefur áhuga að losna við Seðlabankastjóra áður en yfir lýkur og hótar pólitísku sjálfsmorði ef forsætisráðherra verður ekki við kröfu um að Davíð víki.

Hvað myndi gerast ef Samfylkingin sliti stjórnarsamstarfinu? Ekkert fyrr en nýr meirihluti yrði myndaður. Vinstri grænir vilja þjóðstjórn allra flokka. Framsóknarflokkurinn vill ekki koma nálægt stjórnarráðinu til að óhreinka sig ekki fyrir kosningar.

Alþingismenn hafa lítinn áhuga á að endurtaka leikinn frá ráðhúsruglinu í Reykjavík þegar borgarfulltrúar mynduðu nýjan meirihluta á nokkurra vikna fresti. Lái þeim hver sem vill.

Samfylkingin er sundurtætt og vill skiljanlega blása ryki í augu almennings, þykjast hlusta á raddir fólksins og krefjast afsagnar embættismanna. Fjölmiðlar eiga aftur að sjá í gegnum moðreykinn og skilja hismið frá kjarnanum.

Skammist ykkar, blaða- og fréttamenn.

 


mbl.is Útilokum ekki breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikill munur er það fyrir alla þessa hjörð fávísra blaða- og fréttamanna sem og þjóðina alla að þú skulir þrátt fyrir allt einna manna á landinu hafa til að bera þá skarpskyggni og þær gáfur sem þarf til að sjá í gegnum alla blekkingavefi, spuna og klæki. Sérstaklega eru fróðlegar allar þær illu hvatir og slægindi sem þú sérð liggja að baki öllum ákvörðunum.

Arnar (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 20:38

2 Smámynd: Guðríður Arnardóttir

Sæll og blessaður

ég tek nú ekki undir afstöðu þína til Samfylkingarinnar - en tek undir þá skoðun þína að hún sé furðuleg krafan að nú sé brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.  Bendi þér svo á hugleiðingar mínar varðandi framhaldið í vor á síðunni minni. 

Guðríður Arnardóttir, 25.1.2009 kl. 21:40

3 identicon

Hvar væri maður án þessara sjálfskipuðu "fréttaskýrenda" sem iðulega komast að kjarna málsins, vita allt miklu betur en fjölmiðlarnir og boða hinn heilaga sannleik.

Þessi kjarnyrti fróðleikur stendur upp úr í þessari mögnuðu fréttaskýringu:

"Samfylkingin er sundurtætt og vill skiljanlega blása ryki í augu almennings, þykjast hlusta á raddir fólksins og krefjast afsagnar embættismanna."

Glæsileg og djúphugsuð niðurstaða.

Baldur (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 00:29

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem fjölmiðlafólk einblínir á aukaatriðin og missir þannig af stóru myndinni. Það er alveg rétt hjá þér, eftir útspil Geirs á föstudag er ríkisstjórnin aðeins starfsstjórn og allar uppstokkanir því gerðar í krafti atkvæða á kjördag.

Samfylkingin sem gekk til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn gerði það á grundvelli þess auðs sem hún hélt að myndi um eilífð flæða um ríkiskassann. Þegar sú uppspretta þvarr, þvarr kjarkur Samfylkingarinnar.

Tuttugu prósent hækkun ríkisútgjalda á fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar var verðið sem Sjálfstæðisflokkurinn greiddi fyrir blíðuna. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn staur og fraukan flogin.

Ragnhildur Kolka, 26.1.2009 kl. 08:21

5 identicon

Það var athyglisvert að varaformaður Samfylkingarinnar var hvergi sjáanlegur á fundarhöldunum um helgina. ISG tók Össur með sér, ekki Ágúst Ólaf.

Skyldi ISG vera að senda ÁÓ skilaboð eftir hallarbyltingartilraunina í Þjóðleikhúskjallaranum? Er búið að frysta Björgvin, Ágúst og Lúðvík af hálfu ISG?

Er Samfylkingin klofin. Af hverju tók ISG við af Björgvin á blaðamannafundunum?

Það eru margar spurningarnar en færra um svör.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 10:59

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Á eftir góðum pistli hæfir að segja: Amen.

Merkilegt nýyrði hér að ofan í athugasemd Arnars: Slægindi. Er það sama og slægð? Eða slægð og hyggindi saman í einu orði?

Sigurður Hreiðar, 26.1.2009 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband