Síðasta stórafmæli Morgunblaðsins?

Morgunblaðið verður 95 ára sunnudaginn kemur. Blaðið sem Vilhjálmur Finsen stofnaði fór í gegnum erfiða miðaldrakrísu á kaldastríðsárunum en hefur síðustu áratugina verið tiltölulega traust og vandað blað. Blikur eru á lofti þegar saga Morgunblaðsins nálgast árhundraðið.

Morgunblaðið hefur haldið velli vegna þess að það býr að siðferðilegri kjölfestu sem eigendur og stjórnendur létu sér annt um. Á viðburðaríkri ævi var kjölfestan við það að losna á stundum. Þegar móðursýki kaldastríðsins var í hámarki reyndist ritstjórn blaðsins á tíðum erfitt að hafa í heiðri brýningu Vilhjálms Finsens í fyrsta tölublaði

„það sem menn fremur öðru heimta af dagblaðafyrirtækjum, hvar sem er í heiminum, eru áreiðanlegar fréttir".

Úr ólgu kaldastríðsins komst blaðið þó á réttan kjöl. Auk fréttaflutnings af íslensku þjóðlífi og af erlendum vettvangi var blaðið málsvari almennings gegn yfirgangsöflum í þjóðfélaginu: Sambandinu, Eimskipum kolkrabbans, LÍÚ-auðvaldinu og Baugi.

Á síðustu árum hefur útrásarliðið seilst til áhrifa í eigendahópi Árvakurs hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins. Björgólfur Guðmundsson er orðinn stærsti hluthafinn. Af ókunnum ástæðum sem trúlega eru þeim einum skiljanlegar er getur skoðað hugskot Björgólfs gerði hann samning við lygamarðarútgáfu Baugs, 365 miðla, um sameiningu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.

Sameining Morgunblaðsins og Fréttablaðsins ótæk af tveim ástæðum. Hún er hrein móðgun við þá sem láta sig blaðamennsku einhverju varða. Um það þarf ekki mörg orð: Fréttablaðið er lygamaskína Baugs og hefur verið frá 1. mars 2003. Þá er sameiningin tilræði við frjálsa fjölmiðlun í landinu. Útgáfufélag Morgunblaðsins og Fréttablaðsins útilokar að aðrir reyni sig við útgáfu dagblaðs eða vikublaðs hér á landi. Stærð og umsvif félagsins tekur íslenskan fjölmiðlamarkað kverktaki.

Eina von almennings er að Samkeppniseftirlitið banni ráðslagið. Sé tekið mið af frammistöðu eftirlitsins á liðnum árum er ekki mikils að vænta.

Morgunblaðið á betra skilið en samfélag við lygamarðarútgáfu. Verði af hjónabandinu er eins víst að siðferðileg kjölfesta gamla Mogga hverfi. Og þá verður hann ekki hundrað ára.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Páll.  Ég tek sem fyrr undir hvert orð í þessum pistli þínum. Hvet þig til frekari dáða á ritvellinum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 29.10.2008 kl. 23:00

2 identicon

Rétt hjá þér Páll. Samruni við Fréttablaðið var fáránleg ákvörðun sem kann að reynast dýr.

En við skulum vona að Mogginn losni undan eignarhaldi Björgólfs og pólititískum og hagsmunalegum klafa. Nú er kjörið að hreinsa borðið. Gerist það fagnar Mogginn 100 ára afmælinu sterkari en áður.

GK (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband