Blaðamenn ræða Þóru en þegja fréttirnar

Fimm blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símstuldsmálinu. Aðeins þrír þeirra birtu fréttir upp úr stolnum síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Þóra Arnórsdóttir á RÚV birti enga frétt og ekki heldur Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni.

Sakborningar, þeir sem tjá sig, segjast vera undir lögreglurannsókn fyrir að skrifa fréttir. En það stenst ekki. Hvorki Þóra né Ingi Freyr skrifuðu fréttir. Vísbending um aðild Inga Freys er í ársgamalli Morgunblaðsfrétt. Ingi Freyr er ,,til rann­sókn­ar vegna þess hvernig staðið var að af­rit­un sím­ans," segir þar. 

Stjórn Blaðamannafélags Íslands ræddi málið á fundi á meðan sakborningarnir voru enn fjórir, haustið 2022. Ingi Freyr var þá enn ekki kominn með réttarstöðu sakbornings. Tilefni dagskrárliðarins á fundi stjórnar BÍ var lögfræðileg álitsgerð sem BÍ hugðist senda til umboðsmanns alþingis. Tilgangurinn var að fá umboðsmann að beita sér í málinu í þágu blaðamanna. Það gekk ekki eftir en engar fréttir birtust um afgreiðslu málsins hjá umboðsmanni.

Í fundargerð stjórnar Blaðamannafélagsins 7. október 2022 er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttir formanni:

Að Þóra Arnórsdóttir, einn blaðamannanna fjögurra sem gefin var réttarstaða sakbornings, hefði ekki komið beint að fréttaflutningi, aðkoma hennar hefði verið önnur.

Þarna ræða blaðamenn sín á milli að undarlegt sé að Þóra fái stöðu sakbornings þar sem hún hafi enga frétt skrifað upp úr síma skipstjórans. Það sem er frábrugðið og sérstakt er iðulega fréttaefni. En það er engin frétt í íslenskum fjölmiðlum síðustu tvö ár, eða frá því að Þóra varð sakborningur, sem upplýsir hvað sé á ferðinni. Blaðamenn ræða fréttina sín á milli en hún er ósögð í fjölmiðlum sem þó fá framlög úr ríkissjóði með þeim rökum að fréttir séu nauðsynlegar lýðræðissamfélagi. Tilfallandi bloggari freistar þess að halda almenningi upplýstum á meðan fjölmiðlar hylma yfir.

Eiga blaðamenn ekki að segja merkileg tíðindi og setja þau í samhengi? Jú, það er kennt í blaðamannaskólum. En íslensk blaðamennska lýtur ekki lögmálum starfsgreinarinnar eins og hún er iðkuð í vestrænum ríkjum. Hér á landi taka blaðamenn lögin í sínar hendur ef svo ber undir. Þegar upp kemst stunda blaðamenn og fjölmiðlar ritskoðun og þöggun.

Hvaða aðkomu gæti Þóra hafa átt?

Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021 og var meðvitundarlaus í 3 daga. Á þeim tíma sem skipstjóranum var tæplega hugað líf var síma hans stolið. Síminn var afritaður í höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. Að lokinn afritun var síma skipstjórans skilað á sjúkrabeð hans. Þóra Arnórsdóttir keypti Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, í apríl 2021, áður en skipstjóranum var byrlað. Þóra fékk símanúmerið 680 2140 á sinn síma. Munar aðeins síðasta staf á númeri Páls, sem er 680 214X. Notkun Samsung-síma Þóru hófst í apríl og hélt áfram fram á haust, þegar fyrstu yfirheyrslur lögreglu hófust. Símanúmerið sem Þóra fékk á afritunarsímann er ekki skráð í símnúmeraskrá RÚV og á já.is. Samsung-síminn var keyptur í sérstakt verkefni og fékk leyninúmer.

Engar fréttir úr síma skipstjórans birtust hjá Þóru á RÚV. Tæpum þrem vikum eftir byrlun, stuld og afritun birtust aftur samræmdar fréttir úr síma skipstjórans í Stundinni undir höfundarnafni Aðalsteins Kjartanssonar og í Kjarnanum þar sem Þórður Snær og Arnar Þór eru skráðir höfundar. Fréttirnar birtust báðar snemma morgun 21. maí 2021. Sömu höfundareinkenni eru á báðum fréttum. Skæruliðadeild Samherja er í fyrirsögnum í báðum tilvikum.

Daginn sem fyrstu fréttir úr síma skipstjórans birtust í Stundinni og Kjarnanum lék Þóra sakleysingja. Hún deildi frétt Aðalsteins á Stundinni á Facebook með eftirfarandi athugasemd:

Mér er eiginlega þvert um geð að deila þessu. En stundum þarf að gera fleira en gott þykir.

Ef aðkoma Þóru að málinu væri sú ein að deila á Facebook frétt Aðalsteins hefði hún ekki stöðu sakbornings. Það er ekki saknæmt að deila fréttum á samfélagsmiðlum. Þóra vissi vitanlegan miklu meira um málið. Allt sumarið 2021 var Þóra í reglulegum samskiptum við andlega veika konu, þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra, sem hefur játað að byrla, stela síma og færa blaðamönnum til afritunar. Lögreglan getur kallað eftir upplýsingum um símnotkun og veit hver hringdi í hvern hvenær. Gögn sem sýna símtöl i apríl og maí eru ekki enn birt sakborningum og brotaþolum. Það gerist ekki seinna en þegar ákærur eru birtar. 

Aðdragandi, framkvæmd og útfærsla byrlunar, stuldar, afritunar og fréttaflutnings hefur öll einkenni skipulags. Einhver miðlægur sá um að hlutirnir gengu fram samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun.

Spurningin er hverjir höfðu hvaða hlutverk. Sumir birtu fréttir og komu fram undir nafni. Aðrir unnu á bakvið tjöldin, sáu um öflun fréttaefnis. Stærsta ósagða frétt seinni ára er hvernig sú öflun fór fram. Byrlun og þjófnaður var forsenda fréttaflutnings. En það er nánast ekkert fjallað um málið í fjölmiðlum. Ástæðan er að blaðamenn ákveða hvað skuli birtast sem fréttir í fjölmiðlum. Í byrlunar- og símastuldsmálinu standa blaðamenn saman í stéttvísri þögn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hvaða fjölmiðlar hafa gert þessu alvarlega máli skil?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.3.2024 kl. 08:25

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

RÚV er það stór vinnuveitandi að blaða og fréttamenn vilja ekki að tala illa um RÚV því það minnkar möguleika að fá vinnu þar. Þetta sem þú ert að fjalla um er sönnun þess og undirstrikar bananalýðveldi Ísland.

Sigurður I B Guðmundsson, 16.3.2024 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband